Hún ögrar viðteknum viðhorfum

Hver er vinsælasti kvenrithöfundur heims? Hver er um leið áhrifamesti kvenheimspekingur heims? Hún er rússnesk-bandaríski rithöfundurinn Ayn Rand, en bækur hennar hafa selst í 30 milljónum eintaka um allan heim.

Svo ritar Hannes Hólmsteinn Gissurarson á Pressunni í dag. Markmið Hannesar er að auglýsa útkomu íslenskrar þýðingar á skáldsögu Rand We the living, sem þýðandi ákvað að kalla Kira Argúnova eftir aðalpersónu bókarinnar, og benda á fyrirlestur um Rand og verk hennar í Öskju seinna í dag.

Ég hvet lesendur sem hafa tækifæri til þess að mæta á þann fund. Fyrir nokkrum árum las ég Atlas shrugged, best þekktu skáldsögu Rand. Ég er litlu sammála í kenningum Rand, enda varla í markhóp hennar, en við lesturinn fannst mér ég öðlast aðeins meiri innsýn en áður í hugarheim þess markhóps, sem er aldrei slæmur hlutur. Lesendur gætu upplifað eitthvað svipað á téðum fundi.

Þó ég skilji að Hannes sé hér í auglýsingaham á ég erfitt með að leyfa staðhæfingum hans í þessari fyrstu málsgrein að lifa óáreittum.

Eftir öllum hugsanlegum mælikvörðum er Ayn Rand því miður ekki vinsælasti kvenrithöfundur heims. Ef við hugsum aðeins um sölutölur rústar Agatha Christie allri samkeppni, en skáldsaga hennar And then there were none hefur selst í yfir 100 milljónum eintaka. Með öðrum orðum hefur ein skáldsaga Agöthu Christie hefur selst þrisvar sinnum meira en heildarverk Ayn Rand. Christie skrifaði svo fleiri bækur. Christie er líka betur þekkt og vinsælli en Rand, sem má sannreyna með að spyrja fólkið í lífi sínu hvort það hafi heyrt um þær tvær og telja svörin. Ef Christie þykir svo of gamaldags til að teljast með má íhuga J. K. Rowling í staðinn.

Það er heldur ekki erfitt að finna konur sem voru að minnsta kosti jafn áhrifamiklar og Rand þegar kemur að heimsspekilegum málum. Samtímakona hennar Simone de Beauvoir hafði til dæmis gríðarleg áhrif á feminískar kenningar og skrifaði auðskiljanlega bók um kenningar tilvistarstefnunnar. Fyrr í mannkynssögunni má svo nefna Hypatíu, sem var stærðfræðingur og heimsspekingur í Alexandríu. Hún var ekki lítilvægari en svo að sumir hafa dagsett fall klassískrar menningar í Grikklandi til forna með morði hennar af æstum múg.

Þetta á að heita rökvillublogg og hingað til hef ég ekki bent á neina rökvillu í texta Hannesar. Lítið er um þær, enda er textinn stutt auglýsingapot. Í hreinskilni sagt langaði mig bara að benda á að Ayn Rand er hvorki vinsælasta né áhrifamesta kona heims. En jæja, til að þessi færsla teljist lögleg skulum við skoða lokaorð Hannesar:

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir á bókarkápunni um Kíru Argúnovu: „Raunsönn lýsing á rússneskum örlögum.“ Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntaskýrandi segir: „Mesta bókmenntaverkið af sögum Rands.“ Ég vona, að þau Guðmundur og Kolbrún lendi ekki í neinum útistöðum við Egil Helgason sjónvarpsmann, Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor, Stefán Snævarr heimspekiprófessor og fleiri vinstri sinnaða menntamenn, sem hafa keppst við síðustu daga að fordæma verk Ayns Rands. Bandaríski rithöfundurinn H. L. Mencken sagði um þessa bók, að hún væri „frábær“.

Að vísa skoðunum fólks á bug því það er vinstri sinnað er dæmi um hina dásamlega nefndu brunnmígsvillu, þar sem reynt er að breiða yfir rök andmælanda með að kynna hann neikvæðan hátt (nú eða kynna hann bara á neikvæðan hátt og sleppa að minnast á rök hans, eins og Hannes gerir hér).

Að lokum er hægt að fetta fingur út í tilvitnanir Hannesar sem eiga að pumpa upp áhuga okkar á skáldsögu Rand, því engin þeirra gerir það í raun og veru:

(1) Raunsannar lýsingar bera ekki vitni um bókmenntaleg gæði eða áhugaverða heimsspeki; sjá raunsannar lýsingar jarðfræðibóka á grjóti.

(2) Að bókin sé mesta bókmenntaverkið af sögum Rands gæti vel verið bakhandarhrós af hálfu Kolbrúnar, sem er mögulega þeirrar skoðunar að Rand sé ekki merkilegur penni. Af orðunum "Jón er stærsti dvergur sem ég hef séð" leiðir ekki að Jón sé stór maður.

(3) Hér er ansi lítið vitnað í Mencken (ef ég dæmi bók með orðunum "Ég skemmti mér frábærlega yfir þessu rusli" má vitna í það sem "Ég skemmti mér frábærlega" á kápu hennar; sjá berjatínslu) en miðað við skrif hans er ég alveg tilbúinn að trúa að hann hafi fílað Rand. Að Mencken finnist bók "frábær" og ekkert annað er samt ófullnægjandi vísun í kennivald.

Sko Svía

Síðan ég byrjaði að lesa leiðara Morgunblaðsins hefur mig langað að skoða einhvern þeirra betur hér. Það er ekki vandkvæðalaust, því leiðararnir skiptast í tvo flokka. Í öðrum er talað af rósemi og skoðanir viðraðar með vísun í rök og ég hef ekkert út á þá leiðara að setja. Í hinum fara höfundar eins og kettir í kringum heitan graut, nefna fá ef einhver nöfn eða hugmyndir og skjóta ómerkilega á allt í færi. Þó mér þætti gaman að skoða þessa leiðara betur er það ekki oft hægt, því í þeim eiga höfundarnir til að segja ekki nokkurn skapaðan hlut. Mig er farið að gruna að ritstjórarnir skiptist á að skrifa leiðara blaðsins og að markmiðin með skrifum þeirra séu ansi ólík.

Í dag stíga höfundar seinni tegundar leiðaranna nógu nærri raunverulegum staðhæfingum til að hægt sé að meta orð þeirra af eigin verðleikum. Efni leiðarans eru áhyggjur Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, af fréttum ríkisútvarps Noregs um að sænsk yfirvöld hafi lagalega heimild til að hlera tölvupóstsamskipti Norðmanna því stór hluti þeirra fari gegnum Svíþjóð. Leiðarahöfundar stökkva á orð Ernu um að ef fullnægjandi útskýringar á málinu fáist ekki munu Norðmenn "fara með málið lengra":

Ekki var tekið fram hvert norski forsætisráðherrann ætlaði með málið. Varla í suðurátt, því þar ná menn ekki upp í nefið á sér vegna hlerana og treysta sér því varla til að vera með nefið niðri í annarra manna hlerunum, þótt þær séu jafnspennandi og hleranir Svía á Norðmönnum hljóta að vera.

Ekki geta þeir farið með málið lengra í austur, því þá lenda þeir í Svíþjóð og fari þeir enn austar, á sléttur Rússlands, er alls ekki víst að Pútín sé sömu megin og Norðmenn, það er að segja í hópi hinna hleruðu, en ekki í hinum hópnum með tól á eyrum.

Allir leiðarar af seinni tegundinni eru í þessum stíl, þar sem útúrsnúningar, einfeldningsháttur og uppnefningar liggja í einum graut. Halda leiðarahöfundar til dæmis í alvöru að ríkisstjórnir Frakklands og Þýskalands, sem eru væntanlega þeir sem ná ekki upp í nefið á sér, geti ekki veitt tveim hlutum athygli í einu? Aðeins lengra vísa höfundar afskiptum Evrópusambandsins af málinu á bug með að uppnefna starfsfólk þess "æðstustrumpana í Brussel", eins og er reglulega gert í þessum leiðurum. Á meðan mér finnist alveg jafn skemmtilegt að uppnefna fólk og leiðarahöfundum verð ég að benda á að fyndin uppnefni eru ekki rök fyrir einu né neinu.

Ég veit ekki alveg hvernig ég eigi að flokka þessar málsgreinar. Með góðum vilja og víðri skilgreiningu á rökum er hægt að segja að leiðarahöfundar færi hér rök fyrir að Norðmenn geti ekki vænt aðstoðar frá löndum í austri, suðri eða vestri (Bandaríkin eru afgreidd af sama háðstóni í annari málsgrein). Þá dettur mér helst í hug að frávísanir höfunda hér séu öll dæmi um að niðurstaða tengist staðhæfingum ekki beint. Áhugasamir lesendur geta rýnt betur í þennan rökvillulista og séð hvort þeir finni þessum staðhæfingum betra heimili.

Höfundar ráðleggja að lokum Norðmönnum að leita til okkar Íslendinga í norðri með vandræði sín (Ísland liggur reyndar til vesturs frá Noregi). Hér virðast þeir nálgast eitthvað sem þeir hafa áhuga á að tala um, sem tengist ásökunum um að sími Jóns Baldvins Hannibaldssonar hafi verið hleraður þegar hann var hann var utanríkisráðherra:

Árni Páll Árnason, sem verið hafði pólitískur lærlingur í utanríkisráðuneytinu á umræddum tíma, sá þarna færi og komst í viðtal á "RÚV", sem stofnunin virtist taka í fullri alvöru, um að lærlingssíminn hans hefði líka verið hleraður á sama tíma. Ekki var upplýst hvort lærlingshlerarinn hefði haft sérstakan koll fyrir sig.

En það breytti ekki því, að 15 mínútna frægðin sem Árni Páll Árnason fékk hjá "RÚV" út á hina meintu hlerun, sem hlýtur þá að hafa verið gerð af manni sem fór númeravillt, dugði honum í yfirstandandi prófkjörsbaráttu!

Reyndar kasta höfundar nokkrum steinum í mótmælendur framkvæmda í Gálgahrauni og Jón Baldvin áður en þeir komast að Árna Páli. Hér finnst mér athyglisverðust fullyrðing höfunda um að Árni hafi komið vel úr prófkjöri því hann hafi sagt að sími sinn hafi einnig verið hleraður. Ég veit ekkert um það, frekar en meintar hleranir á Jóni Baldvini, en finnst líklegt að ýmsir aðrir þættir (eins og kosningabarátta Árna Páls) hafi vegið þyngra til velgengni hans. Höfundar segja hér að vegna þess að atburður B hafi gerst á eftir atburði A þá sé A orsök B. Þetta er mjög vel upp alin rökvilla sem heitir post hoc ergo propter hoc á latínu. Hana má finna við hin ýmsu tilefni, allt frá léttvægum (ég fór í lukkuskóna mína svo það ringdi ekki) til háalvarlegra málefna (ég bólusetti barnið mitt svo það varð einhverft), en öll þeirra eiga sameiginlegt að vera ógildar rökfræðilegar hreyfingar.

Þessi fullyrðing höfunda um Árna Pál er þó eins og flest annað í þessari tegund leiðara Morgunblaðsins; máttlaust og illkvitnilegt skot sem breiðir yfir innihaldsleysi leiðarans sjálfs. Ef einhverja hugmynd má grafa úr rústum þessa orða er það helst að pistlahöfundum þyki léttvæglegt og lítt alvarlegt mál að samskipti fólks, hvort sem það er almennings eða stjórnmálamanna, séu hleruð og réttur þess til einkalífs því troðinn fótum. Þar sem sú tilfinning er í beinni mótsögn við annan nýlegan, öllu skynsamari, leiðara Morgunblaðsins hlýtur aðeins annar ritsjóri þess að vera þessarar skoðunar. Megi honum ganga vel að lifa með henni.

Sko Svía Ritstjórn Morgunblaðsins (Davíð Oddson og Haraldur Johannessen)

Veður hafa minnt á að vetur er genginn í garð víðar en hér og fóru þau mikinn í Englandi, Danmörku og Svíþjóð um helgina með tilheyrandi búsifjum fyrir þarlenda. Reynsla og líkur standa til þess að við munum fá okkar skammt, þótt tíminn sé óviss. Ekki þó vegna þess að veður séu smitandi og lúti lögmálum pestanna. En hleranir virðast á hinn bóginn vera það.

Hleranafárviðrið hefur skekið meginland Evrópu síðustu vikur og nú hefur það óvænt náð norður á dauðhreinsuð svæði Skandinavíu. Þannig var upplýst á vef Mbl. í gær, að ríkisútvarp þeirra í Noregi hefði greint frá því "að samkvæmt sænskum lögum geta þarlend stjórnvöld haft eftirlit með tölvupóstssamskiptum og netumferð í Noregi, en hún fer að stórum hluta í gegnum Svíþjóð.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefur nú krafið starfsbróður sinn í Svíþjóð, Fredrik Reinfeldt, um skýringar.

"Við ræddum um þetta í gær, og ég sagði að við vildum fá nánari upplýsingar," segir Solberg í samtali við NRK.

"Við höfum áhyggjur af því að stór hluti netumferðarinnar okkar fer í gegnum Svíþjóð. Þar af leiðandi sagði ég við Reinfeldt að við myndum fara með málið lengra," sagði norski forsætisráðherrann aðspurður".

Ekki var tekið fram hvert norski forsætisráðherrann ætlaði með málið. Varla í suðurátt, því þar ná menn ekki upp í nefið á sér vegna hlerana og treysta sér því varla til að vera með nefið niðri í annarra manna hlerunum, þótt þær séu jafnspennandi og hleranir Svía á Norðmönnum hljóta að vera.

Ekki geta þeir farið með málið lengra í austur, því þá lenda þeir í Svíþjóð og fari þeir enn austar, á sléttur Rússlands, er alls ekki víst að Pútín sé sömu megin og Norðmenn, það er að segja í hópi hinna hleruðu, en ekki í hinum hópnum með tól á eyrum.

Auðvitað gætu Norðmenn reynt að halda með málið lengra og þá í vesturátt. Þeir hljóta að eiga hauk í horni þar sem Obama er eftir friðarverðlaunin sem hann fékk fyrir að vinna bandarískar kosningar. Obama mun hafa látið segja sér þrem sinnum að þetta væri ekki aprílgabb og hafi ekki sannfærst að fullu fyrr en hann var upplýstur um að hleranir á norsku nóbelsnefndinni staðfestu þessar fréttir. Verðlaunaveitingin til Obama var að auki jafnvel ekki eins fáránleg og þegar gleðipinnarnir í Jagland-nefndinni ákváðu að veita æðstustrumpunum í Brussel friðarverðlaun vegna þeirrar birtu sem eldar og atvinnuleysi í Grikklandi og Spáni brugðu á álfuna. En það er þó ekki víst að Obama forseti sé sérstaklega upplagður til að gefa góð ráð til vina sinna í hlerunarmálum einmitt núna, þótt hann sé fús til að hlusta á Norðmenn svo lítið beri á.

Og ef þetta er staðan þá er augljóst að Norðmenn ná engri annarri átt en að halda í norður, ef Erna Solberg forsætisráðherra er ákveðin í að "fara með málið lengra".

Sem betur fer mun norski forsætisráðherrann ekki koma að tómum kofunum hjá frændum sínum, kóngaskáldunum. Í útvarpsfréttum í gær var þannig alllangur pistill um að talsmenn "hraunavina" vildu að lögreglan kannaði hvort hún sjálf hefði verið að hlera hraunavini. Talsmaðurinn tók fram að hann vissi ekki til að nokkur skapaður hlutur benti til slíkra hlerana á símum tveggja forystumanna hraunavina en sjálfsagt væri að lögreglan stæði fyrir máli sínu. Þetta var ekki verri nálgun á hlerunarmáli en þegar ógnvænlegur stormur og manndrápsveður urðu í tebollanum á fréttastofu "RÚV" vegna fullyrðinga um að sími Jóns Baldvins Hannibalssonar hafi verið hleraður fyrir einum 15 árum eða svo af manni sem annar maður hefði séð sitja á kolli í Landssímahúsinu.

Árni Páll Árnason, sem verið hafði pólitískur lærlingur í utanríkisráðuneytinu á umræddum tíma, sá þarna færi og komst í viðtal á "RÚV", sem stofnunin virtist taka í fullri alvöru, um að lærlingssíminn hans hefði líka verið hleraður á sama tíma. Ekki var upplýst hvort lærlingshlerarinn hefði haft sérstakan koll fyrir sig.

Auðvitað var þetta mikil hneisa fyrir þá tugi metnaðarfullra starfsmanna utanríkisráðuneytisins sem skipuðu stöðurnar sem lágu á milli ráðherrans og lærlingsins og enginn virtist nenna að hlera. En það breytti ekki því, að 15 mínútna frægðin sem Árni Páll Árnason fékk hjá "RÚV" út á hina meintu hlerun, sem hlýtur þá að hafa verið gerð af manni sem fór númeravillt, dugði honum í yfirstandandi prófkjörsbaráttu!

Á Íslandi er því kjörlendi fyrir þá sem vilja kafa ofan í hlerunarmál og vilji Solberg fara með sitt hlerunarmál lengra þarf hún ekki að leita annað.

Í pottinum með Birni Bjarnasyni

Góðvinur minn og fyrirmynd Björn Bjarnason skrifaði í gær pistil á vef Evrópuvaktarinnar. Tilefnið var Youtube myndband Láru Hönnu Einarsdóttur, fyrrverandi blaðamanns og núverandi varaformanns í stjórn RÚV, þar sem hún gagnrýndi nýjan sunnudagsþátt Gísla Marteins Baldurssonar.

(Sanngirnissvigi: Svo jafnt gangi yfir alla skal ég taka fram að ég er ekki sáttur við allt í myndbandi Láru; sumar tilvitnanir hennar eru endaslepptar og geta ekki talist annað en strámannstilburðir. Aðrir hlutar gagnrýni hennar eiga þó rétt á sér; mér fannst hart að sjá Gísla Martein ramma umræðuna inn þannig að mótmælendur væru sjálfkrafa af hinu slæma.)

Þetta myndband Láru, eða frekar tilvist þess, hafa vakið athygli fleiri en Bjarnar, til dæmis sá Fréttablaðið ástæðu til að benda á það og Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði á Facebook síðu sinni:

Þessi kona er einhver furðufugl. Hún hefur gert myndbönd um marga. Ég botna ekki í, hvers vegna henni eru falin einhver trúnaðarstörf. En því miður gat ég ekki horft á þátt Gísla Marteins, þar sem ég var (og er) erlendis í fyrirlestraferð.

Ég fel lesendum það verk að meta ummæli HHG (Ath: ekki Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata) á rökfræðilegum nótum.

En hvað finnst Birni Bjarnasyni? Af pistli hans að dæma er þetta pólitískt mál í hans augum. Björn byrjar á að rifja upp að nýlega var lögum um skipan í stjórn RÚV breytt svo að nú ákveður Alþingi hver situr þar:

Þá rákum [sic] vinstrisinnar upp ramakvein og töldu að pólitík hefði hafið innreið sína í stjórn ríkisútvarpsins, var látið eins og stjórn undir formennsku Bjargar Evu Erlendsdóttur, fulltrúa vinstri-grænna hefði verið ópólitísk.

Ég held að þetta sé strámaður hjá Birni, það er að hann geri andstæðingum sínum upp skoðun sem þeir höfðu ekki: Meintir vinstrimenn (var bara fólk frá þeim væng kaldastríðsstjórnmála á móti að Alþingi skipaði stjórn RÚV?) héldu ekki fram að stjórn RÚV hefði verið laus við pólitík heldur að ríkisstjórnir Íslands gæti í framtíðinni, gegnum þingmeirihluta, haft áhrif á fréttaflutning stofnunarinnar; sjá ræðu HHG (ekki Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar) á Alþingi og pistil Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns DV.

Hvað sem því líður er ljóst að ef stjórn RÚV var ekki pólitísk áður þá er hún það núna. Leyfum Birni því að eiga þann punkt. Undir þeim formerkjum er Björn viss um hvað býr að baki myndbandi Láru:

Lára Hanna er varamaður í stjórn útvarpsins á vegum Píata [sic]. Við hið furðulega kjör í stjórn útvarpsins á alþingi sl. sumar var upphaflega ætlun Pírata að Lára Hanna yrði aðalmaður en fallið var frá því og sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við Fréttablaðið að líklega væri Lára Hanna „illa séð af valdamönnum“ og þess vegna hefði hún orðið varamaður en ekki aðalmaður!

Heift Láru Hönnu, sem var (og er) í uppáhaldi hjá Agli Helgasyni, í garð Gísla Marteins einkennist að sjálfsögðu af flokkspólitík. Ber að líta á hana sem slíka, tilgangurinn er einfaldlega að skemma sem mest fyrir Gísla Marteini af pólitískum ástæðum.

Hér sé ég vankanta á tvennu í málflutningi Björns.

Fyrst er smáatriðið um hin undarlegu orð Björns að Lára sé í uppáhaldi hjá Agli Helgasyni, sem ég fæ ekki séð að komi málinu nokkuð við, þá ef sönn reynast. Mér dettur helst í hug að hugsun Bjarnar sé eitthvað á þá leið að Egill Helgason sé þekktur vinstrimaður (hrækt á jörð), því sé hann illur og að Lára sé í meintu uppáhaldi hans merki að hún sé ill líka. Jafnvel þó við gerum ráð fyrir illsku Egils Helgasonar er þetta rökvillan um sök vegna tengsla, því sá hugur sem Egill ber til Láru er málinu óviðkomandi.

Næst er aðalhugsun Bjarnar, sem er einhvern veginn svona: Lára var pólitísk skipuð af Pírötum. Markmið hennar að eyðileggja fyrir Gísla Marteini með öllum ráðum. Því er málflutningur hennar ómerkur.

Rétt er að Píratar vildu Láru í stjórn RÚV. Þeir hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir endurtaka ástæður sínar fyrir því ("[hún] þorir að vera óþolandi flugan í tjaldinu") og styðja myndband Láru út frá tjáningafrelsissjónarmiði. Ég veit ekki til þess að Píratar hafi nokkuð á móti Gísla Marteini eða telji hann sérstakan andstæðing sinn, svo án frekari rökstuðningar Bjarnar eru tengsl á milli skipunar Láru af hálfu Pírata og skoðana hennar á Gísla Marteini dæmi um rökvilluna niðustaða tengist staðreyndum ekki beint.

Næst er fullyrðing Bjarnar um að markmið Láru sé að eyðileggja fyrir Gísla Marteini. Hún er hér sett fram án frekari rökstuðnings og þó einhverjir rökfræðilegir vankantar séu á myndbandi Láru sé ég ekki ástæðu til að efast um að tildrög þess séu önnur en það sem hún segir sjálf: "Við þurfum beitta, upplýsandi og gagnrýna umræðu. Ekki yfirborðskennda froðu." Þar gagnrýnir Lára innihald þáttar Gísla, og þó sú gagnrýni sé ekki gallalaus byggist hún á verki Gísla Marteins en ekki persónu hans. Eftir að hafa skoðað myndband Láru fæ ég því ekki annað út en að þessi fullyrðing Bjarnar eigi ekki við rök að styðjast og kalla eftir frekari útskýringum af hans hálfu.

Björn lýkur svo máli sýnu á þessum orðum:

Viðbrögð dagskrárstjórans um að varamaður í stjórn ríkisútvarpsins megi ekki segja opinberlega skoðun á efni stofnunarinnar eru dapurleg. Það er greinilega litið þannig á stjórnarmenn ríkisútvarpsins innan veggja þess að þeir séu hluti af hópnum í Efstaleiti en ekki fulltrúar almennings með sjálfstæða, gagnrýna rödd. Verði frumhlaup Láru Hönnu til að virkja stjórnarmenn ríkisútvarpsins í opinberum umræðum um dagskrá þess og efnistök ber að taka því fagnandi þótt efnistökum hennar sé mótmælt sem óvinsamlegum og hlutdrægum.

Þannig starfsmenn RÚV mega tjá sig eins og þeir vilja, svo lengi sem þeir tjá sig rétt?

Það sem þig raunverulega langar

Um helgina birtist leiðarinn Það sem þig raunverulega langar eftir Ólaf Þ. Stephensen í Fréttablaðinu. Ólafur er ritstjóri Fréttablaðsins, fyrir þá sem ekki vissu.

Í þessari grein talar Ólafur fyrir því að veitur eins og Hulu og Netflix séu og verði lokaðar fyrir íslenskum neytendum, því noktun þeirra brjóti í bága við höfundarréttarlög. Athugið að Ólafur leggur ekki til að breyta höfundarréttarlögum til að leyfa notkun þessa þjónusta eða að semja við viðeigandi aðila til að þær verði löglegar, heldur að noktun þeirra verði áfram ólögleg.

Ég ætla bara ekkert að tala um smáatriði málflutnings Ólafs. Í staðinn bendi ég á leiðara hans Ruglið í rauða hliðinu frá 27. nóvember 2012. Þar segir Ólafur meðal annars:

Auðvitað á bara að hætta þessu rugli í rauða hliðinu, rýmka reglurnar og hætta að koma fram við fólk sem hefur verzlað í útlöndum eins og glæpamenn. Það er neytendum í hag, stuðlar að því að innlend verzlun fái hæfilega samkeppni og yrði ekki sízt til þess að tími tollvarða nýttist betur.

Þannig innlend verzlun á að fá hæfilega samkeppni, en lokað skal fyrir Netflix og Hulu.

Ja-há.

Hér held ég að Ólafur misskilji sjálfan sig. Ég á mjög erfitt með að útskýra þennan misskilning á málefnalegan hátt, þannig ég ætla að gera það ómálefnalega:

Í sama tölublaði Fréttablaði talaði Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, einnig gegn aðgangi að þjónustum eins og Netflix og Hulu. Ég skil að 365 miðlar tali gegn Netflix, því þeir eru í samkeppni við Netflix og ef maður getur ekki unnið samkeppnina á frjálsum markaði er eins gott að maður grafi sér einokunarstöðu og verji hana með kjafti og klóm. En hvað hefur ritstjóri Fréttablaðsins í þennan slag að gera? Hér gæti, bara hugsanlega, skipt máli að eigendur Fréttablaðsins eru 365 miðlar. Ófágaðri manni en mér dytti kannski í hug að ritstjóri Fréttablaðsins hafi aðra skoðun á þessu málefni, en hann hafi fengið símskeyti frá forstjóra sínum um að "pop that pussy, twerk some," eins og skáldið sagði.

Auðvitað dytti hvorki mér né lesendum slíkt í hug.

Erlendar IP tölur og allsherjarsamsæri

Þegar rignir, þá hellirignir. Í gær fann ég engar rökvillur sem ég gat hugsað mér að tala um en í dag flæðir á þeirra yfir bakka sína og útbíar okkur upp að hnjám. Skrifum þetta flóð í bili upp á almenna föstudagsstemmingu. Við fáum tvo aðskilda mola í dag:

(1) Erlendar IP tölur stela störfum og konum okkar

Fyrst er frétt Vísi.is sem ber fyrirsögnina Bjóða útlendar IP tölur sem nota má til að hala niður frá efnisveitum. Þar er fjallað um þjónustu Tals, sem gengur út á að bjóða "erlendar" IP tölur sem viðskiptavinir Tals geti nýtt til hvers sem þeir vilja.

(Raunveruleikasvigi: Þjónusta Tals gengur væntanlega út á að beina netumferð viðskiptavina gegnum netþjón úti í heimi og blekkja þannig þau föll sem ákvarða staðsetningu viðskiptavinarins. Því misskilja talsmaður Tals og fréttamaður sjálfa sig þegar þeir segja að IP tölurnar sjálfar séu erlendar.)

Rökvillan í þessari frétt er í boði Snæbjörns Steingrímssonar, framkvæmdastjóra SMÁÍS, sem gæti haldið þessu bloggi í góðum holdum einn síns liðs. Það er reyndar örugglega ekki Snæbirni sjálfum að kenna heldur starfi hans, því hann er í þeirri ömurlegu stöðu að vinna við að verja tapaðan málstað, svo ekki er undarlegt að hann beiti þeim tólum sem til séu. Í fréttinni segir:

[Smáís] segja þjónustuna klárt brot á lögum um höfundarrétt. Þjónustan snýst um að útvega íslenskum viðskiptavinum erlendar IP tölur. Ef viðkomandi er með íslenska IP tölu þá getur hann ekki nálgast þjónustu Netflix og Hulu, sem eru erlendar efnisveitur og bjóða upp á kvikmyndir og þætti. Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að nálgast slíkar efnisveitur vegna laga um höfundarrétt.

Í svari framkvæmdastjóra Tals, Petreu Ingileifar Guðmundsdóttur, segir að Tal bjóði aðeins upp á tæknilegar lausnir svo viðskiptavinir geti nálgast veiturnar. "Notkun á erlendum efnisveitum og heimasíðum er alltaf á ábyrgð viðskiptavinar," segir Petra og varpar þannig ábyrgðinni af fyrirtækinu.

"Þessi rök halda ekki, hvorki siðferðislega né lagalega að [Smáísar] mati. Í raun eru þetta nákvæmlega sömu röksemdarfærslurnar og við heyrum varðandi torrent-síðurnar."

Mótmæli Smáís eru þessi: Þjónusta Tal gerir fólki kleift að brjóta á höfundarrétti. Því mun fólk brjóta á höfundarrétti.

Þetta er líkinda- eða möguleikavilla, þar sem sagt er að því eitthvað sé líklegt eða mögulegt muni það gerast. Það er rangt; lesandi getur sannfært sig um það með að kasta krónu og athuga að þó bæði hafi verið mögulegt að skjaldamerki eða fiskur komi upp gerðist annað þeirra ekki.

Hér má mótmæla og segja "Allt í lagi, en ef við köstum nógu oft þá mun fiskur koma upp. Eins má segja tölfræðilega að á endanum muni einhver brjóta á höfundarrétti gegnum þjónustu Tals."

Hér er í raun sama villa á ferðinni þar sem fjöldi kasta hefur verið látinn stefna á óendanlegt, en við getum svarað svo: Brot á höfundarrétti varða við lög. Samt þarf einhver að brjóta lögin til að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Undir núverandi lögum ber Smáís að sakast út í einstaklinga sem brjóta á höfundarrétti en ekki Tal. Smáís hefði eitthvað til síns máls ef eina mögulega notkun þjónustu Tals væri að brjóta á höfundarrétti en svo er ekki; að dulbúa IP tölu getur hjálpað við að vernda rétt fólks til einkalífs í samskiptum og viðskiptum (auðvelt er að hugsa sér blaðamenn sem gagnast af slíku nafnleysi) og sjálfur nota ég slíka þjónustu reglulega og löglega til að lesa rannsóknagreinar. Alveg eins má mótmæla fullyrðingum um að torrent megi aðeins nota á ólöglegan hátt; fullt af hugbúnaði er dreift löglega með torrent, sjá til dæmis Arch Linux stýrikerfið.

Sorrí, Smáís.

(2) Innihald tengist niðurstöðu ekki beint

Stígur Helgason skrifar um allsherjarsamsærið á Vísi.is. Þar telur hann upp hluti sem eru ekki í lagi. Nokkur dæmi:

Í heiminum eru fleiri hungruð börn en kindur, maðurinn er ekki enn búinn að stíga fæti á Mars og Mumford and Sons er ein vinsælasta hljómsveit sem til er.

Eftir fjórar málsgreinar af svipuðum bölmóði get ég ekki annað en minnst Monty Python sketsins þar sem maður heldur langloku en er truflaður af hrópum um "get on with it!" Það gerir Stígur að lokum:

Ég veit ekki hverju öll þessi dómadagsógæfa er að kenna. En ég veit – ég bara veit – að einhvers staðar í dimmu skúmaskoti sitja Engeyingar og græða á öllu saman. Helvítis Engeyingarnir.

Hér vísar Stígur til meints spillingarmáls þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á að hafa misnotað stöðu sína sem borgarfulltrúi Garðabæjar til hagnaðar vissra fjölskyldumeðlima sinna (sem eru af Engeyjarætt). Enginn botn er enn kominn í það mál.

Vegna þess að Stígur kýs að fara óbeint að boðskap sínum er mér ekki ljóst nákvæmlega hver sá boðskapur var. Helst dettur mér tvennt í hug, þar sem annað er rökvilla:

(i) Stígur gæti viljað segja: "Sjáið allt það sem Engeyjingar eru ekki sekir um. Því geta þeir ekki verið sekir um spillingu."

Þetta er non sequitur villa, sem mætti íslenska sem "niðurstaðan tengist staðhæfingum ekki beint". Það er einfaldlega ekkert orsakasamband á milli þess að Engeyjingar hafi enga hönd í bagga með vinsældum Mumford and Sons og að þeir hafi ekki notið góðs af fjölskyldutengslum sínum við hið opinbera.

(ii) Hinn möguleikinn sem ég sé er að Stígur meini að fólk sé saklaust þar til sekt sé sönnuð. Þetta er auðvitað hárrétt og á fullkomlega við hér; þetta mál hefur ekki komið fyrir dómstóla eða verið kært til lögreglu og enginn hefur verið dæmdur fyrir eitt eða neitt. Enn er ekki einu sinni víst nákvæmlega hvað gerðist hér. Því eru fullyrðingar um spillingu Engeyjinga og fjármálaráðherra í þessu máli ómerkar.

(3) Meistaramánuður og einræðishugleiðingar

Til tilbreytingar langar mig að benda á tvo pistla sem ég hafði gaman af að lesa, algjörlega óháð rökfræðilegu innihaldi:

Lára Björg Björnsdóttir lýsir hatri sínu á meistaramánuði í Viðskiptablaðinu. Ég hef rosa gaman af almennum bölmóði og Láru tekst vel upp hér.

Á aðeins alvarlegri nótum fjallar Hrafnkell Lárusson um ýmsar birtingamyndir einræðis í stjórnmálum. Pistill hans er hlutlaus og fræðandi, fyrir alla fjölskylduna.

Aflaleysi 1

Þegar ég byrjaði á þessu bloggi ákvað ég að taka aðeins fyrir skrif hvers dags fyrir sig en leggjast ekki í fornleifauppgröft á rökvillum. Það verkefni tæki aldrei enda. Því hlaut að koma að því að einhvern daginn fyndi ég ekkert til að tala um; fallegur og fullkominn dagur þar sem engin rökvilla sem tekur því að tala um var framin í íslenskri umræðu.

Ef mér skjátlast ekki er sá dagur í dag. Eins og alla morgna (þar sem ég bý er farið að ganga á eftirmiðdegið á Íslandi þegar það er morgunn hjá mér) fletti ég í gegnum skoðanir Vísi.is og Viðskiptablaðsins, blogg DV og Eyjunnar, Pressupenna og leiðara og aðsendar greinar Morgunblaðsins. Og ég fann ekkert til að tala um.

Auðvitað getur verið að ég hafi ekki leitað nógu ítarlega að efni. Ef þú, kæri lesandi, veist betur hvet ég þig til að láta vita. Pósturinn hér er

<code>rokvillur@gmail.com</code>

Hugleiðingar um Skálholt

Guðbjörg Snót Jónsdóttir er ekki hamingjusöm í Morgunblaðinu í dag:

Það kom nýlega fram í fréttum, hvað Kirkjuráð hefur verið að gera. Þeir ætla sér að ausa stórfé í þessa svokölluðu miðaldadómkirkju, og það á sama tíma og margar sóknir eru nærri gjaldþrota og geta vart sinnt því starfi, sem þær eiga að sinna, eins og kom fram í grein eftir sr. Gísla Jónasson, prófast, hér í blaðinu í sumar.

Þeir lesendur sem vita ekki hvað um ræðir þurfa ekki að örvænta, því gríðarlega heppilega nefnda vefsíðan Miðaldakirkja í Skálholti mun allt útskýra. Í stuttu máli vill hluti Þjóðkirkjunnar reisa eftirlíkingu af kirkju frá miðöldum í Skálholti. Kirkjan sem á að líkja eftir stóð víst þarna í raun og veru, en á síðu stuðningsmanna vekur athygli mína að skýrustu lýsingarnar á þeirri kirkju eru úr skáldsögu sem kom út árið 2003. Lesendur geta skemmt sér við að bera þær saman við hugmynd listamanns á sömu síðu um hvernig eftirlíkingin muni líta út.

Guðbjörg er lítið hrifin af þessari hugmynd og mun útlista mótrök sín við henni.

Hvað kemur næst, getur maður líka farið að spyrja. Ég er alls ekkert hrifin af þessu brölti í Kirkjuráðinu, og botna ekkert í því að halda áfram með þetta með þessum hætti, sem það gerir, í andstöðu við fjöldann.

Nú veit ég ekkert um hvað meðlimum Þjóðkirkjunnar finnst um þessar framkvæmdir og því ekki hvort þeir séu almennt fylgjandi þeim eða ekki. Þar sem Þjóðkirkjan er ríkistengd mætti jafnvel færa rök fyrir að landsmönnum almennt komi þetta málefni við. Óháð því er merking Guðbjargar:

Fólkið er á móti framkvæmdunum, svo það á ekki að ráðast í þær.

Sem röksemdafærsla væri þetta allt í lagi, ef að Guðbjörg hefði sýnt fram á að fólkið (aftur, hvaða fólk nákvæmlega?) sé á móti framkvæmdunum. Hún gerir það ekki í pistli sínum heldur virðist gera ráð fyrir mótbárum fólksins.

Þessu bragði er mikið beitt í almennum umræðum. Þá álitur flutningsmaður að eitthvað málefni sé svo sjálfsagt eða viðurstyggilegt að allt sómakært fólk hljóti að vera sammála honum. Yfirleitt gleymist þó að sannreyna að fólk sé almennt sammála flutningsmanninum; og ef það er gert en ákveðinn hluti fólksins streytist á móti má alltaf endurskoða skilgreingu sómakærleika til að útiloka skemmdu eplin. (Hversu oft höfum við til dæmis heyrt að þeir einu sem gætu verið ósammála sammála stjórnmálamanni X séu vinstri-/hægrimenn?)

Guðbjörg heldur áfram og útlistar fleiri ástæður á móti miðaldakirkju. Helst hefur hún áhyggjur af plássleysi sem bygging hennar mun hafa í för með sér og ágangi ferðamanna:

Ef fræðimenn vildu vera í næði þarna á staðnum til að skrifa eða stúdera fræðin sín, þá væri nú lítill friður til þess, ef þetta ætti að vera almennur ferðamannastaður. Hvernig ættu prestarnir líka að fara með fermingarbarnahópa í Skálholt, ef það ætti að reka skólann eins og venjulegt hótel við veginn? Þeir kæmust aldrei að, enda skilst mér nú, að Sigurbjörn biskup hafi aldrei ætlað skólanum að vera slíkt hótel við veginn, heldur reka hann sem skóla, minnug gamla lýðháskólans, sem þar var rekinn fyrir margt löngu og mætti alveg endurreisa þess vegna, ef hægt væri. Og hvað með kyrrðardagana? Þeir myndu alveg leggjast af, því að það fer engan veginn saman að hafa kyrrðardaga og túristarennerí á sama tímanum. Og hvernig ættu tónlistarmenn Sumartónleikanna að komast að þar til veru og æfinga, ef öll hús yrðu troðfull af ferðamönnum? Það sér náttúrlega hver viti borinn maður, að þetta gengur engan veginn upp.

Ég viðurkenni að skilja ekki fullkomlega hvernig bygging húss mun leiða til húsnæðisskorts, en hugsanlega hefur Guðbjörg hér áhyggjur af auknum ágangi í það gistihúsnæði sem er til staðar í Skálholti. Hvað sem því líður er rökvilla í hugleiðingu Guðbjargar, því það eina sem hún hefur í raun og veru á móti framkvæmdunum er að hún getur ekki ímyndað sér lausn á ákveðnum vandamálum og ályktar því að engin lausn sé til. Köllum þetta ímyndunarleysi og athugum að hún er einnig algeng rökvilla í almennri umræðu.

Næst leggur Guðbjörg í þrennu, því verk er hálfnað þegar hafið er:

Þetta gengur ekki. Ég get heldur ekki séð, hvernig þetta timburferlíki getur verið í Skálholtslandi. Fyrst á að byrja á þessari vitleysu, á maður kannski von á að sjá allar kirkjurnar rísa þarna af grunni í viðkvæmu Skálholtslandinu: þetta ferlíki, og svo Ögmundarkirkju og Brynjólfskirkju?

Fyrst kirkja hér, svo kirkja þar, svo kirkjur alls staðar. Að ímynda sér að ein aðgerð hafi stigvaxandi afleiðingar sem endi með ósköpum er rennibrautarvillan, oft notuð einmitt til að stöðva breytingar eða framkvæmdir. Til dæmis getum við engan veginn leyft samkynhneigðum að giftast því innan skamms verða þá öll pör samkynhneigð og þá deyr mannfólkið út. (Athugið að villunni er venjulega beitt af aðeins meiri skynsemi en þetta. Ég tek einnig fram að ég veit ekkert og vil ekkert gefa í skyn um afstöðu Guðbjargar til giftinga samkynhneigðra.)

Aðrar mótbárur Guðbjargar má lesa hér að neðan, en engin þeirra er sérstaklega sannfærandi. Annars held ég að aðalástæðuna fyrir mótlæti hennar megi finna í þessum orðum:

Ég skil ekki tilganginn, og því verður að reyna að stöðva þessa vitleysu.


Það kom nýlega fram í fréttum, hvað Kirkjuráð hefur verið að gera. Þeir ætla sér að ausa stórfé í þessa svokölluðu miðaldadómkirkju, og það á sama tíma og margar sóknir eru nærri gjaldþrota og geta vart sinnt því starfi, sem þær eiga að sinna, eins og kom fram í grein eftir sr. Gísla Jónasson, prófast, hér í blaðinu í sumar. Ég verð nú að segja, að heldur þykir mér þetta æðsta ráð kirkjunnar vera farið að líkjast þjóðníðingi Ibsens, þegar það böðlast svona áfram með þessa fáránlegu hugmynd Flugleiðafólks um þennan kumbalda þarna í Skálholti, hvað sem hver segir og þótt þeir hafi stærstan hluta kirkjunnar fólks á móti sér, líkt og þjóðníðingurinn hafði þjóðina á móti sér í leikritinu, og ansaði því í engu, sem hún sagði. Það er ekki gott að spá um endinn á þessum ósköpum, ef enginn lifandi maður getur komið vitinu fyrir þá þarna í Kirkjuráðinu.

Hvað kemur næst, getur maður líka farið að spyrja. Ég er alls ekkert hrifin af þessu brölti í Kirkjuráðinu, og botna ekkert í því að halda áfram með þetta með þessum hætti, sem það gerir, í andstöðu við fjöldann.

Á líka að segja manni það, að kirkjan geti ekki auglýst staðinn upp og trekkt upp aðsóknina að honum, án þess að fara að breyta rekstrinum að stærstum hluta, og gera þetta að einhverjum Edduhótelsstað? Ég er nú sannfærð um það, að Sigurbjörn biskup, frændi minn, hefði vel treyst sér til þess, og ég er hissa á biskupi Íslands að ljá máls á þessu ferlíki á Skálholtsstað og eyðileggja staðinn með því móti, og var nú að vonast til, að hún reyndi að standa vörð um staðinn eins og hann hefur verið byggður upp, og starfsemina þar, eins og hún hafði verið hugsuð, og skil ekkert í henni. Ég hélt nú, að ekki vantaði traffíkina á þessum stað, og þyrfti þess vegna ekki að gera hann að ferðamannastað, enda hefur mér skilist, að hann hafi verið það á margan hátt frá 1056.

Þegar ég dvaldist vikulangt í Skálholti sumarið 2004, þá fannst mér ekkert vanta upp á það, að fólk sækti staðinn eða vildi sækja hann heim. Þó að það sé nú ekki alltaf jafnmikil traffík alla daga, þá gerði það nú ekki mikið til, hélt ég. Ef fræðimenn vildu vera í næði þarna á staðnum til að skrifa eða stúdera fræðin sín, þá væri nú lítill friður til þess, ef þetta ætti að vera almennur ferðamannastaður. Hvernig ættu prestarnir líka að fara með fermingarbarnahópa í Skálholt, ef það ætti að reka skólann eins og venjulegt hótel við veginn? Þeir kæmust aldrei að, enda skilst mér nú, að Sigurbjörn biskup hafi aldrei ætlað skólanum að vera slíkt hótel við veginn, heldur reka hann sem skóla, minnug gamla lýðháskólans, sem þar var rekinn fyrir margt löngu og mætti alveg endurreisa þess vegna, ef hægt væri. Og hvað með kyrrðardagana? Þeir myndu alveg leggjast af, því að það fer engan veginn saman að hafa kyrrðardaga og túristarennerí á sama tímanum. Og hvernig ættu tónlistarmenn Sumartónleikanna að komast að þar til veru og æfinga, ef öll hús yrðu troðfull af ferðamönnum? Það sér náttúrlega hver viti borinn maður, að þetta gengur engan veginn upp.

Eins og margoft hefur verið klifað á í ræðu og riti, þá fékk kirkjan Skálholt til eignar og umsjónar fyrir réttum fimmtíu árum, og því á kirkjan ævinlega fyrsta rétt á notkun staðarins og staðarhúsa, og þannig ætti það að vera alla tíð. Það hefur enginn utanaðkomandi aðili leyfi til að bola því kirkjunar fólki, sem vill nýta staðinn fyrir kirkjulega starfsemi, í burtu á grundvelli annarra hugsjóna óskyldra, eins og ferðamannaiðnaðar. Það væri helber dónaskapur og yfirgangur í hæsta máta, sem engum má líðast. Kirkjuráðið verður að vera sér þess vel meðvitað, áður en það fer að hleypa einhverjum slíkum boðflennum að helgasta kirkjustað þjóðarinnar.

Mér finnst þetta svo fáránleg framganga af hálfu Kirkjuráðs, að ég veit ekki, hvað ég á að hugsa eða halda um þetta. Ég vona, að hávaðinn verði sem mestur, bæði í vígslubiskupi, skólaráði, Skálholtsfélagsstjórninni og öllum, sem láta sig málið varða. Þetta gengur ekki. Ég get heldur ekki séð, hvernig þetta timburferlíki getur verið í Skálholtslandi. Fyrst á að byrja á þessari vitleysu, á maður kannski von á að sjá allar kirkjurnar rísa þarna af grunni í viðkvæmu Skálholtslandinu: þetta ferlíki, og svo Ögmundarkirkju og Brynjólfskirkju? Til hvers, væri þá næsta spurning. Ég skil ekki tilganginn, og því verður að reyna að stöðva þessa vitleysu, áður en lengra verður haldið, því að þó að þetta kunni að líta vel út á teikniborðinu, þá yrði þetta ömurlegt í raun og myndi skyggja á heildarmynd staðarins, og þá fallegu kirkju, sem þar stendur.

Guðni rektor í MR var gjarn á að áminna okkur nemendur sína á ensku að nota heilann, þegar honum fannst við fara fram úr okkur að einhverju leyti eða gera einhverjar vitleysur. Ég held ég sendi þau orðin til Kirkjuráðs hér í lokin og bæti við: Notið heilann og látið nú skynsemina ráða. Þetta gengur ekki lengur.

Mistök 1

Stefán Gunnar Sveinsson, höfundur Frá Kasakstan til Dýrafjarðar sem ég fjallaði um í gær, hafði samband við mig í dag.

Hann benti mér góðfúslega á að í pistli hans er utanríkisráðherra aldrei borinn saman við Steve Jobs, Henry Ford og Thomas Edison, og útskýrði frekar að markmið hans hafi verið að kalla eftir málefnalegum umræðum í stað hrópa um afsagnir á litlum sem engum forsendum. Ég gerði Stefáni því upp þessa skoðun sem ég gagnrýndi sem rökvillu. Það er klassískt dæmi um strámann af minni hálfu.

Ég biðst afsökunar og get aðeins borið fyrir mig að ég gerði þetta ekki viljandi. Ég held reyndar að fólk fremji rökvillur almennt ekki viljandi, heldur séu þær gildrur sem sé lygilega auðvelt að falla í.

Sem dásamlega lokakaldhæðni býð ég lesendum að lesa pistil Stefáns aftur, en eitt þemað í honum er að mistök séu mannleg.

Tillögur stjórnlagaráðs vondar

Við ætlum að breyta aðeins frá hefðbundinni dagskrá í dag. Í staðinn fyrir að skoða texta og benda á rökvillur í honum ætlum við að lesa textann á aðeins hærra plani og meta röksemdafærslur í honum í heild sinni. Þetta er ekki alveg sami hluturinn; að finna rökvillu er eins og að finna tvo víra í húsi sem ekki eru tengdir saman og leiða engan rafstraum sín á milli en að skoða röksemdafærslu er að sjá að allt húsið hallar um 40 gráður til hægri. Til þess þarf yfirleitt meiri vinnu en bara til að finna rökvillu, það þarf að skoða heimildir og fréttir til að athuga staðreyndir, fyrir utan að inn í það blandast óhjákvæmilega tilfinningar manns á málinu sem um ræðir.

Til að allt sé hér ljóst ætlum við að tala um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá; ég er sammála þeim en viðfangsefni okkar í dag er það ekki.

Í gær svaraði Brynjar Nielsson, hæstaréttarlögmaður og alþingismaður, fyrirspurnum almennings um hvort hann teldi sig bundinn af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá. Brynjar telur sig ekki bundinn af henni og útskýrir mál sitt.

Við skulum athuga ástæður Brynjars.

Stjórnlagaráð var skipað af pólitískum meirihluta Alþingis og tillögur þess báru keim af því.

Rétt er að stjórnlagaráð var skipað af Alþingi. Að tillögur þess hafi borið keim af þáverandi pólitískum meirihluta þarf þó að rökstyðja á einhvern hátt. Í núverandi mynd er erfitt að lesa þessa setningu öðruvísi en að hún merki "ég er ósammála tillögunum," sem er svo sem gild persónuleg ástæða til að telja sig ekki bundinn af þeim en ekki rökfræðilega mikils virði.

Svo má nefna að það skiptir eiginlega ekki máli hvort tillögurnar báru keim einhverrar hugmyndafræði, því það var kosið um þær í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef tillögurnar hefðu verið í andstöðu við vilja almennings hefði hann hafnað þeim, sem er nákvæmlega það sem almenningur gerði við tillögu stjórnlagaráðs um stöðu þjóðkirkjunnar.

Þjóðaratkvæðagreiðslan var ráðgefandi og því ekki skuldbindandi fyrir mig, hvorki af siðferðilegum né pólitískum ástæðum.

Rétt. Þetta er nákvæmlega það atriði sem gerir Brynjari kleift að neita að fara eftir niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar, þó það dekki hann aðeins lagalega og pólitískt séð.

Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar var ábótavant og þátttaka svo dræm að niðurstaðan telst vart marktæk.

Ég hefði hér verið til í frekari rökstuðning á meintum vanköntum framkvæmdarinnar; ein og sér gegnir þessi fullyrðing þeim tilgangi að peppa upp það fólk sem er sammála Brynjari og verður að teljast ómerk.

Að fetta fingur út í þátttökuna er þó mælanlegt. Samkvæmt heimildum kjörstjórnar voru 236.903 manns á kjörskrá fyrir þessa atkvæðagreiðslu og 115.980 manns greiddu atkvæði; það er um 49% kjörsókn.

Til samanburðar var minnsta kjörsókn í sögu Íslands í síðustu Alþingiskostningum, þegar 81,4% fólks á kjörskrá mætti á kjörstað. Kjörsókn á höfuðborgarsvæðinu í síðustu sveitastjórnarkosninum hljóp svo á milli 66% og 93.7%. Í síðustu forsetakosningum var kjörsókn svo afar lítil miðað við áður, eða 69,2%.

Eins ósammála og ég er Brynjari eru staðreyndirnar hans megin hér. Kjörsókn var dræm.

Svo er ég þeirrar skoðunar að samfélagssáttmála verði að gera í sæmilegri sátt.

Í sjálfu sér er ekkert að þessari skoðun, en varast verður að "sæmileg sátt" er gríðarlegt túlkunaratriði, svo þessari klausu má beita til að neita breytingum á stjórnarskrá út í lengstu lög. Hér þarf Brynjar að skilgreina hvað hann á við með sæmilegri sátt til að þessi klausa sé ekki geðþóttaatriði.

Aðalástæðan er þó sú að tillögur stjórnlagaráðs eru heild sinni vondar og til skaða fyrir íslenskt samfélag. Þótt einhverjar hugmyndir stjórnlagaráðs séu þess virði að skoða betur voru tillögur ráðsins svo illa fram settar að þær eru ekki nothæfar með góðu móti. Um það eru stjórnlagafræðingar á einu máli.

Tillögurnar voru vondar. Af hverju? Þær voru illa fram settar. Hvernig þá? Þar til Brynjar útskýrir það er þetta markleysa.

Ég er heldur ekki viss um að stjórnlagafræðingar séu sammála Brynjari hér. Þar til hann sýnir fram á það er þetta ófullnægjandi vísun í kennivald, sem er rökvilla.

Svo væri það til góðs að fara eftir þeirri stjórnarskrá sem í gildi er áður farið er að semja nýja með enn óljósari ákvæðum.

Þessi setning er dæmi um algleymisvillu. Hér segir Brynjar: "Það er til einskis að samþykkja nýja stjórnarskrá því við myndum líka brjóta á ákvæðum hennar."

Berum þetta saman við: "Það er til einskis að nota sætisbelti því sumt fólk sem notar þau deyr samt í bílslysum." Þetta eru ekki rök gegn sætisbeltum því þeim er aðeins ætlað að draga úr dauðsföllum en ekki fyrirbyggja þau algjörlega. Algleymisvillan hér hafnar öllum lausnum sem leysa vandamálið ekki fullkomlega, og hafnar því öllum lausnum því fólk mun alltaf deyja í bílslysum.

Eins getur Brynjar hafnað öllum stjórnarskrárbreytingum með þeirri rökvillu að þær fyrirbyggi ekki að það verði brotið á þeim í framtíðinni. Hann getur hafnað öllum lausnum sem eru ekki fullkomnar, sem þýðir að hann hafnar öllum lausnum.

Hvað stendur þá eftir í rökum Brynjars þegar við fjarlægjum rökvillur og ónægilega rökstuddar fullyrðingar?

Þjóðaratkvæðagreiðslan var ráðgefandi og því ekki skuldbindandi fyrir mig, hvorki af siðferðilegum né pólitískum ástæðum.

Þátttaka [í þjóðaratkvæðagreiðslunni var] svo dræm að niðurstaðan telst vart marktæk.

Brynjar hefur rétt til að fara ekki eftir tillögum stjórnlagaráðs. Einu rök hans fyrir að gera það ekki sem halda vatni (án frekari rökstuðnings af hans hálfu) eru að þátttakan hafi ekki verið nógu góð.

Þegar sú rök eru metin ber þó að muna að það var ósamhverfa í atkvæðagreiðslunni á sínum tíma. Ef maður var fylgjandi nýrri stjórnarskrá þurfti maður að mæta og kjósa um hana. Ef maður var á móti henni gat maður setið heima og þannig í raun sýnt skoðun sína óbeint. Það er ekki ljóst hversu mikið hlutfall þess fólks sem sat heima var á móti nýrri stjórnarskrá og hversu miklu þeirra var alveg sama; það er hversu margir hefðu sagt "nei" og hversu margir hefðu skilað auðu ef það hefði verið 100% kjörsókn.

Þetta er erfitt og flókið mál og því á ég erfitt með að skilja afdráttarlausan dóm Brynjars um að niðurstaðan sé ekki marktæk, sérstaklega þegar hann hvílir á tiltölulega veikum rökum. Að mínu mati þarf Brynjar að rökstyðja stöðu sína betur, að minnsta kosti ef að baki henni hvíla raunveruleg rök en ekki persónuleg eða pólitísk sannfæring.

Frá Kakastan til Dýrafjarðar

Nýlega mistókst utanríkisráðherra vorum að bera fram nafn landsins Kasakstan við opinbert tilefni. Þetta er neyðarlegt mjög fyrir ráðherrann, sem hefur verið gagnrýndur fyrir reynsluleysi og vanþekkingu á viðfangsefni ráðuneyti síns: útlöndum. Stefán Gunnar Sveinsson tekur upp hanskann fyrir ráðherrann í Morgunblaðinu í dag:

Barack Obama hefur heimsótt öll 58 ríki Bandaríkjanna. Dan Quayle sagði að framtíðin yrði betri á morgun og fólk átti það til að misvanmeta George W. Bush. Og látum nú vera í hvaða firði Jón Sigurðsson fæddist. Nú hefur utanríkisráðherrann okkar bæst í hóp stjórnmálamanna sem hafa talað illilega af sér enda ekki á allra færi að bera fram orðið Kasakstan. Og hvað um það?

Ráðherrann gerði mistök, so fucking what?

Mér finnst reyndar erfitt að vera ósammála Stefáni hér. Fólk mismælir sig. Punktur. (Þó sú staðhæfing Stefáns um að bera fram "Kasakstan" sé aðeins á færi tunguliprustu manna sé bull — prófaðu bara.)

Nei, ræða Stefáns verður áhugavert því hann finnur sig knúinn til að halda áfram og heimspekúlera um að maður hafi gert mistök:

Þetta verður þeim mun sérstæðara þegar haft er í huga að tilvitnanasöfn eru sneisafull af visku um það hversu gott sé að gera mistök, af þeim læri menn nú mest. Og þegar horft er yfir þann hóp sem hefur látið eitthvað flakka um mistökin verður ekki sagt annað en að kannski hafi hann eitthvað til síns máls, enda þar samankomnir flestir uppfinningamenn og frumkvöðlar sem sagan hefur að geyma, menn sem breyttu heiminum eins og Steve Jobs, Henry Ford og Edison.

Látum okkur nú sjá. Mér sýnist Stefán hér ýja að þessu: Ráðherra er í hópi þeirra manna sem gert hafa mistök. Í þeim hópi eru líka X, Y og Z. Þeir voru allir frábærir. Því er ráðherra frábær.

Önnur óformleg leið til að segja sama hlut er: "Sjáðu hvað ráðherra á flotta vini! Hann hlýtur þá að vera góður drengur."

Því miður er þetta rökvilla, sem við getum kallað félagsskapavillu. Hér er Venn-teikning sem útskýrir þesa villu:

<img src="http://upload.wikimedia.org/wikipedia/en/0/06/Venn-diagram-AB.svg" alt="" />

Í okkar tilfelli táknar A allt það fólk sem er frábært. Til að umræða okkar hafi innihald skulum við, eins og Stefán, gera ráð fyrir að Steve Jobs, Henry Ford og Thomas Edison hafi verið frábærir. Í hópi B er þá allt fólk sem hefur gert mistök. Þar eru vissulega Steve Jobs, Henry Ford og Thomas Edison, sem eru þá bæði í hópum A og B. Í hópi B er líka ráðherra vor. Því miður hefur Stefán ekki rökstutt að ráðherra sé frábær, svo við vitum ekki hvort hann sé utan við gula hringinn.

Ráðherra hefur gert mistök. Af því leiðir ekki að hann sé jafningi Henry Ford.


Frá Kakastan til Dýrafjarðar Stefán Gunnar Sveinsson

Barack Obama hefur heimsótt öll 58 ríki Bandaríkjanna. Dan Quayle sagði að framtíðin yrði betri á morgun og fólk átti það til að misvanmeta George W. Bush. Og látum nú vera í hvaða firði Jón Sigurðsson fæddist. Nú hefur utanríkisráðherrann okkar bæst í hóp stjórnmálamanna sem hafa talað illilega af sér enda ekki á allra færi að bera fram orðið Kasakstan. Og hvað um það?

Stjórnmálamenn og fjölmiðlafólk sker sig úr að því leyti að þegar það mismælir sig eða gerir meinlega villu er það oftar en ekki á almannafæri. Mistök sem annars yrðu gleymd um leið geta því lifað ansi lengi, ekki síst ef sífellt er vakin athygli á þeim. Og fólk er dæmt hart af þeim. Enginn er syndlaus þegar kemur að því að gera mistök, en samt eru allir tilbúnir að kasta ekki bara fyrsta steininum heldur einnig þeim næsta og þarnæsta. Sumum finnst sem það eigi að varða atvinnumissi, eins og þegar lítilsháttar þýðingarvilla varð að fyndinni en rangri frétt um Excel-skjöl og erlenda söngvara.

Vissulega eru mistök af þessu tagi oft mjög spaugileg og/eða vandræðaleg. Sjálfur hef ég oft og mörgum sinnum hlegið að slíkum ummælum. Ég hef líka margoft sjálfur talað illilega af mér og kasta því reglulega steinum úr grjóthúsi. Þess vegna kemur mér á óvart heiftin og dómharkan sem fólk getur sýnt í þessum efnum. Menn eru ekki sjálfkrafa vanhæfir til að gegna embættum þó að tungan vefjist um tönn eða ræðuskrifarinn sé ekki nógu vel að sér í sögu og landafræði.

Þetta verður þeim mun sérstæðara þegar haft er í huga að tilvitnanasöfn eru sneisafull af visku um það hversu gott sé að gera mistök, af þeim læri menn nú mest. Og þegar horft er yfir þann hóp sem hefur látið eitthvað flakka um mistökin verður ekki sagt annað en að kannski hafi hann eitthvað til síns máls, enda þar samankomnir flestir uppfinningamenn og frumkvöðlar sem sagan hefur að geyma, menn sem breyttu heiminum eins og Steve Jobs, Henry Ford og Edison. Þrátt fyrir það virðist sem speki hins seinheppna Hómers Simpsons falli gagnrýnendum best í geð, en hún er í lauslegri þýðingu: "Aldrei reyna, mistakast aldrei."

Hvaðan ætli þetta umburðarleysi gagnvart sárasaklausum mismælum og minniháttar mistökum komi? Er þetta hluti af þeirri óheillaþróun sem hefur sést hér eftir hrun að enginn virðist ábyrgur orða sinna og hægt er að láta allt flakka í heift sinni gagnvart öðru fólki? Er ekki kominn tími til að slaka aðeins á? Á móti kemur að kannski er upphlaupið nú meira vegna þess að gúrkutíð sumarsins virðist hafa teygt sig yfir á veturinn. Og kannski ættum við að þakka fyrir það að geta hlegið í ládeyðunni að mismælunum um "Kakastan" eftir alla þá býsnavetur sem hér hafa riðið yfir síðustu árin. Líklega orðuðu Rómverjarnir þetta best: Errare humanum est. Eða var það Romanes eunt domus?