Hiti

Um leið og ég gekk inn um dyrnar í kvöld slökkti ég öll ljós…​ eða…​ ef þau hefðu þegar verið kveikt hefði ég slökkt á þeim. Þetta er reyndar andstæðan við það fyrsta sem ég gerði, því ég hafði bjór sem þurfti að fara inn í frysti. Þar sem ég sá ekki neitt kveikti ég ljósin, í beinni mótsögn við fyrstu setningu mína.

Reynum aftur.

Stuttu eftir að ég gekk inn um dyrnar í kvöld slökkti ég öll ljós. Ég stóð í meterslöngum ganginum á milli eldhússins míns og stofunnar og vandist myrkrinu. Annað fólk, hugsaði ég, fólk sem hefur hluti að fela, er illa við myrkrið. Ég er vanur því og öllum þess myndum, myrkar sem þær eru. Ég gekk inn í stofu og sparkaði í hægindastól sem ég sá ekki og bölvaði öllum guðum þessa heims.

Ég opnaði stofugluggann upp á gátt og haltraði inn í svefnherbergi. Á miðju gólfinu lá dýnan mín, svo ég gekk til hennar og greip í nælonkuðul sem hékk úr loftinu ofan við hana. Með mjúkum handatökum gekk ég hringin í kringum dýnuna og breiddi úr honum, og gekk svo annan hring og renndi lausum endum undir dýnuna. Svo opnaði ég svefnherbergisgluggann og settist í jógastöðu á dýnuna mína með bjór í hönd undir dásamlegum moskítóflugnanetshimni.

Endrum og eins drifu léttir vindhvirflar í gegnum netið og léku um líkama minn eins og konur hafa ekki gert lengi. Mér þótti það gott.

Áður en ég flutti til Frakklands langaði mig mest að komast til heitari lands þar sem væri enginn vindur. Grenoble liggur í dal sem sorðinn er á þrjá vegu af fjallsbálknum. Þau dekka alla vinda sem leita í dalinn okkar. Á sama tíma hindra þau alla loftmengun í að hypja sig burt og gera borgina að prýðilegu sýnidæmi fyrir gróðurhúsaáhrif.

Á sumrin nær hitinn á daginn reglulega 35 stigum. Það sem er einstakt við Grenoble er að hitinn helst í 35 gráðum frá hádegi fram yfir miðnætti. Fyrst upp úr tvö um nóttina tekur hitinn að lækka niður í mannleg stig á tvítugsaldri og litlir Íslendingar ná að sofa. Þangað til, sem og eftir, þarf fólk að lifa með mannhæðarháa gluggana opna að nóttu til.

Á nóttunni koma moskítóflugurnar. Þær koma í hrönnum. Þær bíta og suða og bíta aftur og í bitin klæjar í viku á eftir.

Áður en ég flutti til Frakklands langaði mig mest að komast til heitari lands þar sem væri enginn vindur. Stundum rætast óskir manns.

    Hlé fram yfir áramót

    Ókei, þetta gengur ekki. Ég get engan veginn haldið þessu bloggi uppi í augnablikinu.

    Ástæðan er rosa einföld: ofan á fyrsta árs doktorsnám er ég að kenna áfanga á fyrsta ári í háskólanum hérna. Fimm daga vikunnar heldur þetta tvennt mér uppteknum sirka ellefu tíma á dag, á laugardögum fara aðeins svona fjórir eða fimm tímar í vinnu, og á sunnudögum tek ég frí.

    Þið megið alls ekki misskilja mig þannig að ég sé eitthvað annað en viðurstyggilega ánægður með þetta fyrirkomulag. Næstum það eina sem ég geri er að rúlla mér eins og svín upp úr stærðfræðidrullu allan liðlangan daginn, og ég er hamingjusamur sem eitt slíkt. En ég vil að sá litli frítími sem ég á fari í eitthvað annað en að hanga fyrir framan tölvuna og skrifa langar, ólesnar pælingar um hryllingsmyndir.

    Ég losna við kennsluskylduna eftir áramót, svo þá geri ég ráð fyrir að geta byrjað aftur með reglulegt röfl. Áður en það gerist hlýt ég að geta mannað mig upp í að klára Cold Prey loksins, og kannski detta ein eða tvær aðrar inn á næstu þrem mánuðum.

    Sjáumst í mesta skammdeginu.

      Doublefail

      Þið vitið hvað þeir segja: þú hefur ekki feilað fyrr en þú hefur tvöfaltfeilað. "Þeir" verandi fólk sem þýðir hluti beint yfir á íslensku án þess að færa hug að samhengi. Eða orðum sem eru í raun til á öðru hvoru tungumálinu.

      En ég biðst innilega afsökunar á Cold Prey leysi þessarar viku. Ég lofa að hún komi inn um helgina.

      Síðustu tíu, þrettán dagar hafa einkennst af því að vakna klukkan sex, hálf sjö, og fara að sofa í kringum tíu, með litlu öðru en kennslu og lestri þar á milli. Bæði mitt vikulega hryllingsmyndaröfl, sem og vandræðalegt daður við kvenmenn hefur þjáðst fyrir. Ég held og vona að næstu vikur og mánuðir verði öðruvísi, okkar allra vegna.

        Nobattabattabatta

        Jebb, við verðum seint á ferðinni þessa vikuna. Ég ætla að giska á að Cold Prey detti inn á sunnudagskvöldið. Ég var ótrúlega þreyttur í gær, að kenna til sex í dag, og er að fara á mjög nördalegt retreat to move forward á morgun og hinn.

        Þannig: sunnudagur. Sennilega. En við verðum á réttum tíma á fimmtudaginn í næstu viku.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-poster.jpg"></p>

          Um daginn náði karlmennska mín hámarki. Eftir að hafa tekið til í íbúðinni minni, þurrkað af arinhillunni og stofuborðinu, og sópað gólfin og skúrað - sem tekur miklu styttri tíma en maður myndi halda af því það er ekkert í íbúðinni minni - hellti ég mér vel kældum eplasíder í glas, blastaði Lady GaGa úr græjunum mínum, og fór að mixa salat í kvöldmat. Tvennt hvarflaði að mér. Annars vegar að það er eins gott að ég er sæmilega öruggur um karlmennsku mína, því ég er ekki viss um að ég hefði getað gert þetta kvöld mikið stelpulegra án ilmkerta og bleikra tuskudýra, en hvorugt þeirra get ég kallað mig nógu heppinn að eiga. Og hins vegar fór ég að spá í hvað Pride and Prejudice með Keiru Knightley er óendanlega frábær.

          Viðhorf mitt til Pride and Prejudice í öllum sínum myndum hefur breyst all svakalega yfir síðasta síðasta mánuðinn. Í mörg ár hef ég verið sannfærður um að P&P sé argasta tilfinningaklám og aðeins fyrir homma og kellingar. Ég hef sagt ljóta hluti um hana í návist óharnaðra unglinga, skotið mér inn í búðir til að sleppa við að heilsa henni úti á götu, og falsað undirskrift hennar á víxla sem ég lét svo falla á hana. Allt þetta breyttist þegar að vinur minn gaf mér eintak af Pride and Prejudice and Zombies, því ef þig langar að vekja áhuga minn á hverju sem er dugir að bendla uppvakninga við það. Fljótlega eftir að ég byrjaði á P&P&Z sá ég þó að allt sem við kom uppvakningunum var klisjukennt og illa skrifað, og að allt sem mér fannst skemmtilegt við bókina kom frá Jane Austen. Þegar að ævi mín verður kvikmynduð mun hér verða montage atriði þar sem ég kaupi, les, horfi á, hugsa um, og ræði Pride and Prejudice í heilan mánuð, umkringdur bleikum koddum og glimmeri.

          Eitt af því sem mér hefur þótt skemmtilegast við tiltölulega nýfundinn kvikmyndaáhuga minn er að uppgötva hversu hröð þróunin í frásagnastíl þeirra hefur verið. Miðað við sirka hundrað ára gamalt sagnaform er hún reyndar alveg ótrúleg. Fyrstu kvikmyndirnar sýna greinileg tengsl bæði við leikhús og bókmenntir, en þau stílbrögð og venjur sem að tíðkast og virka þar ganga ekki alltaf upp á hvíta tjaldinu. Saga kvikmyndanna er tilraunakenndur slembigangur þar sem gömlu trixin eru slípuð niður í hluti sem virka, og hugmyndir sem voru ekki mögulegar eða í boði áður prófaðar og hent til eða frá. Eftir alla þessa vinnu og tíma eigum við verkfærakassa sem getur skilað okkur ótrúlegri snilld eins og Pride and Prejudice með Keiru Knightley, sem ég skal slást við hvern sem er upp á að sé nær fullkomin skáldsagnaaðlögun. En vegurinn hingað er hræjum stráður, minnisvörðum um allt sem gekk ekki upp. The Last Man on Earth er því miður einn þessara minnisvarða.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-tikall.jpg"> Ef ég ætti tíkall fyrir hvert skipti sem ég hef séð svona skilti…​</p>

          Á fyrstu augnablikum The Last Man on Earth er ljóst að samfélagið er löngu dottið í sundur eins og legóbrú sem var ekki púslað saman úr nógu mörgum stykkjum. Byggingar eru í misgóðu ástandi, vegir eru fullir af drasli, lík liggja dreifð útum gangstéttir líkt og lauf að hausti, og umhverfið er grámyglað og dökkt, aðallega af því að myndin er frá 1964 og því svarthvít. Fljótlega hittum við þó herramanninn Vincent Price, sem að fólk af minni kynslóð þekkir sennilega aðeins sem uppfinningamanninn í byrjuninni á Edward Scissorhands, sem er helber synd og skömm.

          Á sjötta og sjöunda áratugnum lék Vincent Price í haug af hryllingsmyndum, þar á meðal upprunalegu The Fly og heilli runu af myndum byggðum á sögum Edgar Allan Poe. Hann er einn af risum hryllingsmyndanna, þekktur fyrir ógnandi rödd sína, almenn myndarlegheit og að taka sjálfan sig mátulega alvarlega. Eina myndin sem ég hef séð Price í er hinni stórgóðu Witchfinder General, þar sem hann er óhugnalegri en flestir hlutir á tveim fótum, en sú mynd á víst ekki að gefa sérstaklega rétta mynd af Vincent sem leikara, svo ég hlakkaði til að sjá hann í náttúrulegra umhverfi.

          En aftur að myndinni, sem leyfir okkur að fylgjast byrjuninni á venjulegum degi hjá hr. Price. Eins og flest okkar á Vincent vel skilgreinda rútínu, sem samanstendur af því að fá sér kaffi og með því, krota risastórt dagatal á veginn sinn, skipta um brotna spegla á útidyrahurðunum og hengja á þær fersk knippi af hvítlauk, flísa til nokkra fleiga úr við, redda bensíni, og safna saman og brenna hvaða lík sem hann finnur fyrir utan húsið sitt eftir nóttina, og rúnta svo um yfirgefna borgina og stjaksetja þá fáu sem hann rekst á. Ókei, svo rútínan er kannski aðeins öðruvísi en hjá okkur hinum.

          Ástæðan fyrir þessari hvítlauks, líkbrennslu, og stjaksetningaráráttu kemur ekki í ljós fyrr en að myrkva tekur, þegar að heimili Vincents breytist í fanglelsi um leið og hundruðir vera ráfa úr nóttinni og gera aðsúg að herramanninum okkar. Eins og speglarnir, hvítlaukurinn, fleigarnir og nóttin gefa kannski í skyn þá eru þær vampírur, en Vincent er eini maðurinn í heiminum sem lifði af einhversskonar plágu sem breytti öllum sem smituðust af henni í heimskar, klaufalegar og dagfælnar blóðsugur. Sem síðasti maðurinn á jörðinni eyðir Price því tímanum sínum í að þræða borgina götu fyrir götu og hús fyrir hús og drepa óvættina á daginn á meðan þeir sofa.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-mrprice.jpg"> Rrrrrrrrrrrrr.</p>

          Ef þessi söguþráður hljómar kunnuglega er það örugglega af því hann hefur verið nýttur þrisvar eða fjórum sinnum, nú síðast í hittífyrra í I Am Legend með Will ,,Welcome to Earth! [rothögg]`` Smith. Þar sem báðar þessar myndir, og The Omega Man með Charlton Heston, voru gerðar eftir skáldsögu Richard Matheson deila þær ansi miklu sín á milli. Þannig ættu þeir lesendur sem fylgdust með hr. Smith að finna fyrir nettu dèja vu þegar að Vincent Price fer í leiðangra sína um yfirgefna borgina, er aðeins of lengi úti, finnur hund fyrir tilviljun, og rekst að lokum á lifandi konu.

          Munurinn á The Last Man on Earth og fyrri hlutanum á I Am Legend (sem var frábær, seinni helmingurinn var ömó) er aðallega í hvernig okkur er sýnt hvað er í gangi. Will Smith sýnir frekar einmana og bilaða takta á meðan hann spjallar við gínur um hvað hann er einn, á meðan að Vincent Price lagar kaffi og segir okkur nákvæmlega hvað honum liggur á hjarta, með einstaklega þjálum línum eins og ,,Another day to live through. Better get started. og ,,December 1965. Is that all it has been since I inherited the world? Only three years. Seems like a hundred million. Ef maður les þetta í bók er ekkert að þessu, en ef maður þarf að hlusta á þetta í formi innri hugsana manns að laga kaffi, þá virka svona frasar alls ekki.

          Það má auðveldlega finna fleiri hluti sem hafa verið þýddir beint frá bók á filmu og þjáðst nokkuð fyrir. Uppbygging myndarinnar er ágætt dæmi. Fyrstu tuttugu mínútur hennar snúast um að mestu viðburðalítið líf Vincent Price. Næsti hálftími þar á eftir er ein samfelld minningaruna sem útskýrir hvernig heimurinn varð eins og hann er, hvað varð um fjölskyldu Price, hvaða maður þetta er fyrir utan húsið hans á næturnar sem hrópar á hann að koma út, og af hverju Price er svona fjári myndarlegur. Svona frásagnastíll virkar kannski í skáldsögu, en hann drepur gjörsamlega allt flæði í bíómynd sem mátti ekki við hægara tempói til að byrja með.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-laughing.jpg"> Jafnvel hlæjandi er þessi maður meira en lítið krípí.</p>

          Nú er ég búinn að fá að vera sæmilega neikvæður í smástund, svo mér verður kannski fyrirgefið fyrir að spjalla um hvað virkar við The Last Man on Earth. Þrátt fyrir hlutina sem tapast í aðeins of beinni þýðingu frá bók í kvikmynd eru einstaka hlutir sem fúnkera í myndinni. Í fyrsta lagi er Vincent Price frábær. Röddin hans er akkúrat á réttri bylgjulengd fyrir mann sem er búinn að vera einn í nokkur ár og hefur ekkert að lifa fyrir. Hann lítur líka út fyrir að vera nett bilaður til að byrja með. Og hann er fjandi góður leikari - atriðið þar sem hann byrjar að hlæja að minningu um dóttur sína áður en hann brotnar niður og brestur í grát situr ennþá í mér mörgun dögum eftir að ég horfði á myndina.

          Fyrir utan herra Price er mjög áhugavert að skoða skrýmslin í The Last Man on Earth á tvo mismunandi vegu. Annars vegar getum við séð vampírurnar og allt húllumhæið í kringum þær eins og þær koma okkur ómengað fyrir sjónir. Það sem vekur virkilega athygli þá er hversu svakalega yfirhlaðin vampírugoðsögnin í myndinni er. Næstum hverju einasta klassíska smáatriði vampíra er troðið inn. Þær koma aðeins út á nóttunni (en deyja reyndar ekki í sólarljósi - prik fyrir það), þær þola ekki spegilmyndina sína, þær hata hvítlauk, og svo framvegis og svo framvegis. Það vantar bara að þær geti breyst í leðurblökur og tali með kjánalegum hreim. Þessar vampírur þjást af nákvæmlega sama vandamáli og Batman gerði í gamla daga: þær eru svo klyfjaðar smáatriðum og baksögu að það er engin leið að taka þær alvarlega. Þegar þarna var komið við sögu var ekki enn alveg orðin brýn nauðsyn að dekonstrúera vampíruna, sikta út hvað virkaði enn við hana og gera hana ógnvekjandi á ný - eins og var nýlega gert við Leðurblökumanninn sem við þekkjum og elskum - en viðvörunarflauturnar voru orðnar ansi háværar.

          Hins vegar er gaman að fylgjast með vampírunum í The Last Man on Earth utan frá, í samhengi við hvaða áhrif þær höfðu á poppmenningu okkar, af því þegar vel er að gáð voru þau áhrif talsverð. Fyrir utan ljós-, spegla- og hvítlauskfælni sína eru skrýmslin hér nefninlega föl á hörund, klunnaleg í hreyfingum, hægfara mjög, stynja oftar en ekki í staðinn fyrir að tala og smita aðra af ástandi sínu með bitum. Hljómar þetta kunnuglega? Ég ætla rétt að vona það af því að fjórum árum eftir að The Last Man on Earth sá dagsins ljós gaf ungur og óreyndur kvikmyndagerðarmaður fyrstu myndina sína út. Hún skartaði meðal annars skrýmslum sem voru föl á hörund, klunnaleg í hreyfingum, hægfara mjög, stundu í staðinn fyrir að tala og smituðu aðra af ástandi sínu, og hét Night of the Living Dead. Auðvitað er nokkur munur á skrýmslunum hér og í fyrsta uppvakningameistaraverki George Romero, en það er mjög erfitt að sjá engan áhrifavald hér á ferð.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-vampirur.jpg"> Vampírur hinna lifandi dauðu.</p>

          Þrátt fyrir þessa jákvæðnis- og áhugabylgju sem við fundum okkur undir þarna á þrímínútu Vatnsberans, þá verður að segjast að The Last Man on Earth er hundleiðinleg mynd. Þeir einu sem gætu haft gagn og gaman af því að sitja gegnum hana eru ákafir stuðningsmenn Vincent Price eða áhugamenn um þróun uppvakninga í sameiginlegri poppvitund okkar. Það hefur aldrei verið auðvelt verk að færa sögur úr skrifuðu formi á hvíta tjaldið, en á síðustu hundrað árum höfum við dottið niður á dágóðan lista af trixum sem má nota og holur sem ber að forðast. The Last Man on Earth hoppar ofan í hverja þessara hola á fætur annarri, og heldur áfram löngu eftir að hún brýtur báðar lappirnar í slæmri lendingu. Hún er þurr, hún er langdregin, hún virðist ekki hafa neinn sans fyrir því að fólk er að horfa á sig, og ef að Vincent Price væri ekki í henni væri hún óbærileg, í staðinn fyrir að vera bara mjög, mjög leiðinleg.

          <p align="center"><strong>

          Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

          Nú skal það ske: engin innsláttarvilla skal stöðva mig í að horfa á Norðmenn vera saxaða í sundur í Cold Prey.

          <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=uDWe2QbCTG8&hl=en&fs=1&]</p>

            Upprunaleg dagskrá hefst óvart aftur

            Okkur ber skylda til að tilkynna að núna á fimmtudaginn munum við ekki ræða norsku slashermyndina Cold Prey eins og til stóð, heldur ætlum við að bregða aftur okkur til litblindari tíma og kíkja á The last man on Earth frá árinu 1964 með kempunni Vincent Price í aðalhlutverki.

            Ástæðan fyrir þessu er gríðareinföld og skammarleg: mig vantaði texta á Cold Prey, svo ég náði í hann og skrifaði svo "mv [ógó rugl].srt Cold_Prey.avi" í staðinn fyrir "mv [ógó rugl].srt Cold_Prey.srt" inn í terminalið mitt. Vel gert, herra minn, vel gert.

            Hins vegar er skemmtilegt að þetta neyðir mig til að halda áfram með dagskránna eins og hún var hugsuð fyrir sumarfrí, því þá ætlaði ég að horfa á Last man on Earth og síðan Cold Prey. Jásveimérþá.

            <p align="center"><strong>

            The last man on Earth ::</strong>

            [youtube=http://www.youtube.com/watch?v=i4mYireNvcg&hl=en&fs=1&]</p>

              Jæja, börnin góð. September er kominn, með sílækkandi sól, dimmum nóttum, kaldara lofti, og helgibænum múslima í næstu húsum í tilefni af ramadan er berast gegnum gluggann þegar við sitjum á gólfunum okkar að sötra bjór af því að við eigum engin húsgögn. Út úr litlum krókum og kimum skríða milljónir kakkalakka þegar enginn sér til, og það gerum við líka. Ár hinna lifandi dauðu er komið úr sumarfríi. Ég vona að þið, eins og ég, bindið þennan klút um ennið á ykkur og minnist orða atómskáldsins Private Vasquez úr Aliens: ,,Rock and roll! [skothríð]``

              Munið þið fyrir nokkrum árum, um það leyti sem að DV var nýrisið upp frá dauðum og fór mikinn í metnaði sínum fyrir fullkomnu ábyrgðar- og siðleysi, þegar að gríðarmiklu púðri var eytt í að hafa áhyggjur af unglingunum okkar, sem enginn hugsar um lengur óseiseinei? Sérstaklega rifu góðborgarar hár sitt upp með rótum og hrintu teborðum til og frá um vel hirta bakgarða af áhyggjum af sakleysisskorti ungu kynslóðarinnar, og gengu svo langt að kenna hana við klám.

              Hin Íslenzka Klámkynslóð var auðvitað bara þjóðlegur angi stærri hreyfingar sem teygði sig yfir Vesturlönd eins og þau lögðu sig, gegnum intertúburnar og tónlistarsjónvarpið og rappvídjóin. Almenningur hérna og hinum megin Atlantshafsins virtist vera á einu máli um að unga kynslóðin samanstæði af eintómum Narkissosum er hossuðust á hvorum öðrum í eigin persónu allan liðlangan daginn, nema í gegnum myndavélasíma og Myspace væri.

              Ég þori ekki að segja til um hvort að tímasetningin sé tilviljun ein, en ef ekki þá finnst mér skemmtilega kaldhæðið að á sama tíma hafi indístefnan í kvikmyndagerð fengið byr undir báða vængi. Á meðan að unglingar hafa verið úthrópaðir sem siðlaus klámtryllt fjórhólaspíralserðingsjúnit í hefðbundnum fjölmiðlum, þá hafa óvæntustu velgengnissögur kvikmyndaheimsins síðustu ára verið myndir á borð við Garden State, Little Miss Sunshine og Juno. Allar þessar myndir eiga sameiginlegt að vera ekki aðeins sakleysið uppmálað, heldur að hrópa nafn þess af húsþökum síðla nætur eins og uppreisnargjörnustu Vottar Jehóva gera við nafn drottins síns. Það er eins og að síðustu ár hafi kvikmyndagerðarmenn stungið hvorn annan í bakið fyrir tækifæri til að sýna hversu saklaust en jafnframt hreinskilið og ábyrgðarfullt ungt fólk væri.

              Eins og Newton kenndi okkur, þá á allt atlag samsvarandi mótlag. Að reyna að skera út um hvort kom á undan, klámvæðing vestrænnar æsku yfir eina nóttu eða upphafning kvikmynda á sakleysi umfram allt annað, er álíka tilgangsmikið og að svara klassísku kjúklinga-eða-eggjar spurningunni. Aftur á móti er víst að á meðan klámásakanirnar hafa gleymst í tímanna rás, þá lifir indíkvikmyndin enn góðu lífi. Atlag hennar kallar á mótlag. Deadgirl er það mótlag.

              Aðalpersóna Deadgirl er menntaskólaneminn Rickie. Í mörg ár hefur Rickie verið skotinn í rauðhausnum JoAnn, sem er aftur á móti að deita ruðningsstjörnu skólans. Þar sem Rickie og besti vinur hans JT passa hvergi inn í klíkurnar í skólanum sínum, og eiga engan séns að ná sér í stelpu þar, hvað þá rauðhaus eins og JoAnn, þá eyða þeir tímanum frekar í að skrópa í tíma og drekka bjór en að læra um þróunarkenninguna og grundvallaratriði mannlegrar anatómíu. Á einum af sínum mörgu skrópunarleiðangrum ákveða þeir félagarnir að kíkja á gamla yfirgefna geðveikrahælið sem er algerlega úr alfaraleið, eins og fórnarlömbum snarbilaðra manna er best til lista lagt. Þar stunda Rickie og JT asnastrik eins og að rúlla sér um á skrifborðsstólum, kasta hlutum gegnum rúður, henda pappír útum allt og drekka bjór, en tekst alveg að forðast að vera saxaðir niður í litla bita fyrir þær sakir að geðveikrahælið er mannlaust.

              Eða, tja, tæknilega séð er hælið mannlaust. Niðri í skítugum kjallaranum, bakvið læsta hurð, marga illa lýsta ranghala, og vel úrillan varðhund finna Rickie og JT herbergi. Í miðju herberginu er rúm. Á rúminu liggur nakin kona, sem er reynist vera fjötruð niður við nánari skoðun. Þegar að strákarnir koma nær hreyfir hún sig. En hún getur ekki sagt neitt, bara urrað. Og hún berst ekki mikið um, heldur reynir bara að glefsa frá sér. Og hún getur ekki dáið.

              Taktu þér augnablik til að hugsa um hvað þú myndir gera í þessari stöðu. Þrátt fyrir að við séum öll misjöfn okkar á milli, þá lendir svarið án efa á nokkuð takmarkaðri bylgjulengd, sem spannar sviðið frá því að hringja á lögregluna, yfir í að berja hausinn á konunni í spað og hringja svo á lögregluna, eftir hversu margar zombímyndir maður hefur séð. Ímyndaðu þér núna að þú sért sautján ára lúser í menntaskóla sem getur ekki náð sér í kærustu, og að aðeins þú og besti vinur þinn vitið um konuna. Sem er nakin. Og bundin niður. Eins og röksemdafærlsan gengur nokkurn veginn í myndinni, þá er sameiginlegt með öllum lifandi verum að þær deyja. Konan getur ekki dáið, svo hún er ekki lifandi. Ef hún er ekki lifandi, þá er það ekki nauðgun.

              Já, Deadgirl er ein af þessum fágætu og yndislegu hryllingsmyndum þar sem einstaka splatterskot og sjónrænn viðbjóður þjóna þeim eina tilgangi að undirstrika hvað persónurnar í myndinni eru viðurstyggilegar. Í Deadgirl er þessari undirstrikun þar að auki beitt á hverja einustu persónu, en allir sem fá svo mikið sem mínútu af skjátíma í myndinni eru undantekningarlaust misheppnaðar manneskjur. Mannvonska JT þarfnast ekki mikilla útskýringa, og á meðan Rickie fylgir honum kannski ekki heilshuga að málum þá maldar hann heldur ekki mikið í móinn. Forráðamenn Rickie eru sjaldséðir alkahólistar, kennararnir hans eru í besta falli vanmátta, hinir vinir Rickie eru aumkunarverðir minnipokamenn, strákarnir í skólanum eru frekir sadistar, og hið rauðhærða man telur að það sem öðru fólki finnist sé mikilvægara en allt annað.

              Það var ekki að ástæðulausu sem ég minntist á Juno áðan, en hún er grínlaust sú mynd sem Deadgirl minnir mig hvað mest á. Báðar myndirnar gerast í bandarískum menntaskóla í persónulausu úthverfi, báðar myndirnar keyra mikið á ljúfri kassagítardrifinni indímúsík, báðar myndirnar fjalla um erfiðar ákvarðanir unglinga og afleiðingar þeirra, og báðar myndirnar ýkja ákveðna eiginleika mannfólksins út í ystu æsar. Munurinn á myndunum tveim felst aðallega í hvaða hlið fólks þær ýkja.

              Í Juno er varla hægt að kasta steini án þess að hitta eina af þeim umhyggjufyllstu, þroskuðustu, en umfram allt saklausustu (Horfið á Juno aftur. Fyrir utan eitt tveggja sekúndna skot er ekki ýjað að kynlífi alla myndina, sem er undarlegt miðað við umfangsefnið.) manneskju sem hægt er að hugsa sér. Í Deadgirl eru aftur á móti, eins og áður sagði, allir svo saurugir upp fyrir haus að jafnvel prestar færu hjá sér og skömmuðust sín í návist þeirra. Hvorug kvikmyndin bregður upp sérstaklega sannrænni mynd af manneskjum, því allir eiga sínar góðu sekúndur og slæmu daga, en engu að síður á ég auðveldara með að kyngja persónunum í Deadgirl, sem segir örugglega meira um mitt krumpaða svarta hjarta en góðu hófi gegnir.

              Í fyrstu pirraði mig svolítið hvað rauðhausnum JoAnn eru gerð lítil skil í Deadgirl, bæði af því að hver sem lék hana er alveg rosalega sæt og ég er nú það einfaldur að ég hef gaman af því að horfa á sætar stelpur, og af því að hún á að vera það sem drífur Rickie áfram. Í hausnum á Rickie er JoAnn fullkomnunin sjálf, sem allar aðrar stelpur falla í skuggann á, en við sjáum aldrei af hverju hún er það. JoAnn kemur örsjaldan fyrir í myndinni, oftar en ekki sjáum við hana bara úr fjarska eða í dagdraumum Rickie, og í þau fáu skipti sem hún segir eitthvað er það ekkert sérstaklega merkilegt. Í stuttu máli sjáum við aldrei hvað er sérstakt við hana, annað en að hún lítur fjandi vel út í stuttbuxum.

              Eftir að Deadgirl kláraðist og ég náði að skrapa kjálkann af stofugólfinu sannfærðist ég þó um að þetta persónuleysi JoAnn hafi verið mjög meðvituð ákvörðun. Við sjáum JoAnn nákvæmlega eins og Rickie sér hana, og þar sem Rickie er sautján ára menntaskólanemi þá sjáum við aldrei annað en júllur og rass. Í hans huga er JoAnn ekkert annað en virkilega sæt stelpa. Hann þekkir hana sama og ekkert, hann hefur enga hugmynd um hverju hún hefur gaman af eða hvaða skoðanir hún hefur, og líkt og endirinn sýnir er honum alveg nákvæmlega sama um allt þetta. Sjitt, þessi endir, maður. Hlutirnir eru aldrei það slæmir að þeir geti ekki orðið miklu verri.

              Ég held að það sé eins gott að ég var ekki ennþá kominn með nettengingu í íbúðina mína þegar að Deadgirl kláraðist, af því að annars hefðu allir sem ég hef einhver tök á að hafa samband við fengið að heyra að hún væri besta hryllingsmynd ársins, og bæri höfuð og herðar yfir meistaraverk eins og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/02/26/6-let-the-right-one-in/">_Let the right one in_</a> og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/04/26/14-the-host/">_The Host_</a>. Eins og hann gerir við svo margt annað hefur tíminn linað tilfinningar mínar til Deadgirl. Ég er ekki lengur hundrað prósent viss um að hún sé besta hryllingsmynd ársins, en fokk hvað ég hlakka ekki til að þurfa að gera upp á milli hennar og hinna tveggja hér að ofan í árslok. Það verður blóðugur andskoti.

              Við heimsækjum vini og frændur okkar Norðmenn aftur og förum á slasherflakk um jökla í <em><a>Cold Prey</a></em>.

                Uppstefnumót!

                Eins og ég lofaði í sumar byrjar reglulegt hryllingsmyndaáhorf aftur núna í september, en það er ennþá aðeins á reiki nákvæmlega hvenær það gerist. Ótrúlega bjartsýnt væri núna á fimmtudaginn, en ég þori að lofa því að við verðum byrjuð aftur vikuna eftir það.

                Ég er nefninlega heimilislaus í augnablikinu og flyt ekki inn í nýja íbúð fyrr en á mánudaginn. Heimilisleysi er svo sem fínt þannig, en það eru ekki bestu aðstæður í heimi fyrir hryllingsmyndaskrif. Svo þarf ég að redda helstu nauðsynjum í íbúðina. Netinu, rúmi, borði, stól…​ já, ætli það sé ekki það eina sem ég hafi efni á þennan mánuðinn. Doktorsnemalífið er minimalískt og gott.

                Þetta tekur sem sagt sinn tíma, en er allt að púslast saman. En þá sem langar að vera tilbúnir þegar að við byrjum aftur geta reddað sér fyrstu mynd haustsins, Deadgirl, sem er zombímynd með verulega sjúku ívafi sem ég get ekki beðið eftir að sjá. Trailer að neðan.

                Friður út! <p align="center"><strong>Deadgirl</strong> [youtube=http://www.youtube.com/watch?v=-2SSL6Ipnvw&hl=en&fs=1&]</p>

                  Sumarfrí

                  Ár hinna lifandi dauðu er farið í sumarfríi. Like a boss! Reglulegt vondumyndaröfl hefst aftur í september.

                  Það eru ýmsar ástæður fyrir þessum helbera aumingjaskap. Sú stærsta er að ég er gjörsamlega útkeyrður eftir mastersritgerðina mína (já, þú mátt lesa!) og reyna að skrifa þessar umfjallanir á meðan, enda hefur það ekki tekist svo vel upp á síðkastið. Þess vegna held ég að það sé best að taka frí frá hryllingsmyndunum á sama tíma og stærðfræðinni og koma endurnærður inn í bæði í haust.

                  Næst stærsta ástæðan útskýrir líka af hverju ég ætla að vera svolítið lengi í sumarfríi. Ég verð meira og minna heimilislaus í allt sumar og að heimsækja vini á Spáni, Englandi, Íslandi (sirka tvær vikur í ágúst, látið mig vita ef ykkur langar í hryllingsmyndaspjall yfir bjór), Frakklandi og kannski Noregi líka. Ég býst þess vegna ekki við að hafa mikinn tíma einu sinni til að horfa á hryllingsmyndir, hvað þá skrifa um þær.

                  Að lokum vil ég nýta þetta tækifæri til að ráðleggja ykkur að horfa aldrei á Mega Shark vs Giant Octopus. Þrátt fyrir stórglæsilegt nafn er hún hrottalega slæm.

                  Gleðilegt sumar!

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/20-poster.jpg"></p>

                    Stundum þegar ég ligg í rúminu snemma á morgnana með sængina dregna yfir haus og reyni að sofa í tíu mínútur í viðbót fyrir vegaframkvæmdum og kirkjuklukkum fyrir utan gluggann, þá velti ég fyrir mér hvort að hálfkæfðu hljóðin sem ég heyri á milli hamarshögga og klukkuklingja séu fuglasöngur eða kynlífsstunur úr nýja húsfélaganum í næsta herbergi. Óvanir menn myndu halda að það væri auðvelt að greina þar á milli, en þeir hefðu rangt fyrir sér. Stynur stelpan í næsta herbergi eins og spörfugl? Kannski, ég þori ekki að hengja mig upp á það. Hljóma franskir fuglasöngvar eins og kynlífsstunur? Já, merkilegt nokk. Alla vega þegar þeir bergmála um fjölfarin borgartorg á meðal iðnaðarmanna og kirkjuturna í morgunsárið.

                    Auðvitað getur verið að þessi ljósbláa dirfska smáfuglana sé bara til í hausnum á mér, sóðaleg afleiðing of lítils svefns í bland við hefðbundna léttmorgunþynnku og glæpsamlegt kynlífsleysi. Ég hef verið sannfærður um undarlegri hluti á milli svefns og vöku; í nokkrar mínútur einn sunnudaginn var ég svartur maður í heimsókn hjá breskum strák í York. Svo er ekki eins og að kynferðislegar hugsanir séu fjarri huga mínum sérhverja stund. Undir venjulegum kringumstæðum gengur mikill meirihluti hugsana minna út á misgrafískar og ítarlegar vangaveltur um hinar og þessar stúlkur, sem hafa oft ekki orðið fyrir barðinu á hugsanaglæpum mínum fyrir aðrar sakir en að vera til og vera hugsanlega í stuttu pilsi eða kjól. Reyndar fer þessa dagana um það bil helmingur minna pælinga í fleygaðar lestir og kóhómólógíu, en ég geri ráð fyrir að hefðbundin dagskrá hefji göngu sína aftur í næstu viku, eða um leið og ég skila mastersritgerðinni minni.

                    Ekki er nóg með að hausinn á mér sé niðursokkinn í sín saurugu áhugamál nær öllum stundum, heldur er lítið í kring sem letur hann til þessarar hobbíiðkunar. Það er miður júní og heitt úti hér í Suður-Evrópu og fólk almennt léttklætt eftir því. Ég skammast mín líka ekkert fyrir að trúa ykkur, mínum ektavinum, fyrir að útsýnið á góðum degi á Austurvelli er eins og þriðja flokks hundasýning í samanburði við franskar stelpur. Stundum furða ég mig á að ég komist almennt á milli staða þegar ég fer úr húsi, en standi ekki bara úti á horni með opinn munninn og stari í forundran á dýrðina í kring. Þar sem útivera leiðir til pervertisma, og stærðfræðilegar útleiðslur á eiginleikum samheldna knippa á fáguðum rúmum eru upp til hópa eggjandi og sexí, hef ég því hingað til bundið vonir mínar við vorar vikulegar hryllingsmyndir til að halda huga mínum frá jesúbarnsgrætandi hætti sínum. Þessa vikuna bauð Teeth upp á skólabókardæmi um <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Doublethink">_doublethink_</a> þegar hún bæði í senn brást hlutverki sínu heiftarlega og tók fyrir alla kynlífslöngun mína héðan í frá.

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/20-dawn.jpg"> Dawn á einum af sínum betri dögum.</p>

                    Aðalpersóna Teeth er menntaskólaneminn Dawn O’Keefe. Hún býr hjá mömmu sinni og stjúpföður ásamt stjúpbróður sínum, sem er hinn mesti vandræðaunglingur sem að gerir lítið annað en að hlusta á dauðarokk, hata Dawn og stunda endaþarmsmök með druslulegu kvenfólki. Dawn er aftur á móti prýðilega þæg stelpa sem að er kurteis við alla, heldur upp á einhyrninga og er virkur meðlimur í kristna skírlífsklúbbnum Loforðið, sem lokkar litla krakka til að ganga til liðs við sig með því að gefa þeim skírlífshringa og predikar að kynlíf fyrir hjónaband sé rangt á allan hátt. Segja má að ég og skírlífsklúbburinn Loforðið séum ósammála um nokkur lykilatriði í lífinu, þarf af ekki síst hvernig sé best að lokka litla krakka til sín. Hundakex á snæri hefur alltaf virkað betur en glingur fyrir mig.

                    Eins og allir unglingar er Dawn frekar óörugg um líkama sinn og heldur að hún sé einhvernveginn öðruvísi en allir aðrir. Bæði skírlífsklúbburinn Loforðið og menntakerfið gera lítið til að bæta úr þessari tilfinningu Dawn, þar sem annað þeirra bannar alla umræðu um kynlíf manna yfir höfuð og hitt sér ekkert að því að ræða innri uppbyggingu lima en límir stóra gullstjörnu yfir samsvarandi umfjöllun um sköp. Þess vegna er Dawn sérstaklega illa undirbúin undir að hitta Tobey, nýja sæta strákinn í skírlífsklúbbnum. Hlutirnir batna heldur ekki þegar þau byrja að hanga saman og tala um hvernig þau dreymdi um nóttina að þau væru gift og misvel klædd. Aðstæðurnar roðna svo og fara hjá sér í sóðalegu feimniskasti þegar að þau fara að synda tvö ein í litlum hyl rétt hjá bænum þeirra.

                    Í litlum hylum fyrir neðan litla fossa rétt hjá litlum bæjum leynast illar verur, ævafornar, frá því áður en tíminn varð til, er bera hrottaleg nöfn og kasta skugga á allt sem gott er. Og allar sem ein flúðu þær í djúpar holur af vandræðalegheitum þegar að Dawn og Tobey byrjuðu að kyssast og kela, danglandi úr reipi, sem náði frá trjágrein og ofaní vatnið. Ekki veit ég svo hvað þær gerðu þegar að leikurinn færðist inn í lítinn helli við hylinn og kossar og káf héldu áfram, en ég er nokkuð viss um að þær tóku gleði sína á ný þegar að Tobey henti Dawn á hellisgólfið og reyndi að nauðga henni. En fátt er svo með öllu illt að ei boði nokkuð gott, því að Tobey uppgötvaði fyrstur manna að ólíkt níutíu og níu prósentum unglinga var Dawn í alvöru öðruvísi en allir aðrir. Hún var með vagina dentata. Tennur í leggöngunum. Tennur sem að bitu liminn hans Tobey af. Og Tobey öskrar og Dawn öskrar og við öskrum öll á ís og Tobey stekkur í vatnið og sést aldrei aftur.

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/20-toby.jpg"> Tobey grætur missi sjálfsins.</p>

                    Að ég eigi í vandræðum með að ákveða hvað mig langi mest að tala um varðandi Teeth segir meira um hversu vel heppnuð hún er heldur en mörg orð gætu. Eða ég held alla vega að það segi það. Ég hef eytt miklum tíma upp á síðkastið í lokuðum herbergjum með ekkert nema tvinnfallagreiningu til að stytta mér stundir, og hugsanlega er ég bara feginn að sleppa út og gera eitthvað sæmilega eðlilegt aftur. Hvað sem því líður finnst mér að aðalatriðin í Teeth séu tvö.

                    Annars vegar er Teeth bæði augljós og beitt ádeila á skírlífspredikanir bókstafstrúarmanna í Bandaríkjunum og kynfræðslu í skólum þar í landi. Í Teeth bregst skólakerfið hlutverki sínu algerlega þegar að einstaka kennarar fá að ritskoða og sleppa því að kenna þá hluta námsefnisins sem að þeim þykja óþægilegir eða vandræðalegir. Skírlífsklúbburinn Loforðið sópar svo allri umræðu um kynferði manna undir teppi og kallar hana skammarlega nema að maður sé giftur. Í sameiningu gera bókstafstrúarmennirnir og skólakerfið það að verkum að hvorki Dawn né neinir af krökkunum í kringum hana hafa nokkra hugmynd um hvernig líkamar þeirra virka eða hvað sé yfir höfuð eðlilegt og hvað ætti kannski að skoða betur. Eins og í The Wire bregðast allar stofnanir samfélagsins hlutverki sínu, sem bitnar á fólkinu sem þarf mest á hjálp þeirra að halda.

                    Hins vegar er persóna Dawn og ferlið þegar hún þroskast og breytist ein stór líking fyrir kynþroska okkar. Í byrjun myndarinnar er Dawn saklaus og barnaleg, en líka ósátt við sjálfa sig og óviss um hvernig líkami hennar virkar. Eftir því sem líður á myndina, í gegnum atriðin með Tobey, kvensjúkdómalækninum og Ryan, breytist viðhorf hennar smátt og smátt og hún venst sjálfri sér og líkama sínum. Undir lokin er Dawn svo orðin fullkomlega sátt við sjálfa sig, hefur fulla stjórn á sér og er jafnvel tilbúin að nýta þá stjórn meðvitað til sinna eigin vébragða. Ef að maður hefur tvö síðustu atriðin með vígvagínunni í huga má eiginlega færa rök fyrir því að Teeth styðji að maður noti kynþokka sinn til þess að ná sínu fram, eða alla vega svo framarlega sem að málstaður manns sé réttlátur. Við megum nota kynþokka okkar til að refsa vondu fólki og leiðrétta ranglæti, en ekki til að komast frítt í bíó eða fá séns á fargjaldinu í strætó. Gott ef að þetta er ekki svipuð pæling og er á bakvið kóngulóarmanninn: Miklum mætti fylgir mikil ábyrgð.

                    Núna þegar ég fer að hugsa um það koma þessar síðustu tvær hugleiðingar mér pínulítið á óvart. Á meðan að ég horfði á Teeth datt mér aldrei í hug að ég væri að horfa á annað en bíómynd um unga stelpu með tennur í leggöngunum sínum, sem endar að vísu á því að berjast gegn óréttlæti með téðum tönnun, en undir niðri virðist eitthvað annað og meira hafa kraumað. Þetta er auðvitað ekkert nema gott mál, því til hvers horfum við á hryllingsmyndir ef ekki til þess að fá tilviljanakenndar skoðanir meitlaðar á undirmeðvitund okkar, eins og eins ramma kókauglýsingu í filmurúllu? Til einskis, segi ég! Ptu! Svo skemmir heldur ekkert fyrir að Teeth er vel leikin, sagan er góð, persónurnar trúanlegar og að aflimuð typpi eru merkilega fyndin.

                    <p align="center"><strong>

                    Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

                    Sumarfrí. Og næstu nokkrar vikur þar á eftir líka. Sjá þessa færslu.