<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/12-poster.jpg"></p>

Ef að það er einhver vika í árinu sem ég vildi að ég gæti klippt út og sleppt í heild sinni, þá er það vikan sem er að líða. Ástæðan er að páskarnir eru í næstu viku og þar af leiðandi páskafrí líka. Ég er löngu búinn að eyrnamerkja þetta páskafrí fyrir saurlifnað og dekadens - jesúbarnið hefði viljað það - í formi þess að liggja í sólinni í almenningsgörðum með endalausar vínflöskur með vinkonu minni sem kemur í heimsókn frá Íslandi. Eins sexý og góður félagsskapur Hodge-fræði og þjappaðar Kähler víðáttur eru, þá ná þau ekki að toppa vínflöskur og sénsinn á að segja vonda brandara á íslensku, og fyrir utan það væri ég alveg til í að taka mér vikufrí frá bókasafninu sem ég er búinn að eyða meiri tíma á en hollt er.

Helst hefði ég verið til í að mega eyða þessari viku í montage atriði, það er atriði í bíómynd þar sem aðalpersónan er sýnd læra eitthvað og þroskast á stuttum tíma, yfirleitt við undirleik hetjugítara og þvíumlíks. Þið vitið, eins og æfingaratriðin í Rocky undir 'Eye of the tiger' eða þegar að Simbi í Lion King vex úr grasi við 'Hakuna Matata'. Ég sé alveg fyrir mér að fá lánað frá báðum þessum atriðum og vera sýndur vaxa smekklegur rauðbrúnn makki á vikutíma á meðan ég hleyp upp á gamla virkið sem gnæfir yfir bænum, þrýsti hefunum til himins þegar upp er komið og öskra eitthvað sem má túlka á jákvæðan hátt, áður en að myndavélin hringsólar í burtu í þyrlu og endar á skoti á sólarupprás, af því að það yrði táknrænt eða eitthvað. Undir yrði svo spilað 'Montage' úr Team America eftir gaurana sem gera South Park.

Ég hef mjög gaman af South Park. Á meðan að þeir eru ekki alltaf góðir, sumir þættirnir inn á milli eru reyndar svo leiðinlegir að þeir teljast alger tímasóun, þá eru þeir alveg dásamlegir þegar þeim tekst vel upp. Sérstaklega hef ég gaman af þegar þeir troða inn klisju ofan á klisju í söguþráð sem var ekkert svo spes til að byrja með en verður eitthvað annað og meira fyrir sakir miskunnarlauss sívaxandi fáránleika. Uppáhalds dæmið mitt er þátturinn þegar að Queer Eye for the Straight Guy var tekinn fyrir, þar sem höfundarnir voru búnir að mála sig svo gjörsamlega út í horn að það var engin leið til að enda þáttinn og það þurfti ennþá að fylla fimm mínútur af efni. Í innblásnu ,,æ skítt með það`` augnabliki var upplýst að allir vondu kallarnir væru í raun og veru krabbafólk - hálfir menn og hálfir krabbar sem tala eins og menn og bragðast eins og krabbar - sem býr í iðrum jarðar og hyggur á heimsyfirráð. Ég skemmti mér sjaldan jafn mikið og þegar að eitthvað kemur mér á óvart, og ég á erfitt með að muna eftir neinu sem hefur komið jafn aftan að mér og þessi algera rökleysa. Eftir að hafa horft á Midnight Mean Train veit ég að ég er ekki einn um þá skoðun.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/12-crabpeople1.jpg"> Krabbafólkið.</p>

Ég hef ennþá ekki hugmynd um af hverju svona margar hryllingsmyndir byrja á eins konar sýnishorni fyrir það sem koma skal, það er bregðuatriðum eða einhverju einstöku morði eða voðaverki. Eru hryllingsmyndaaðdáendur svo óþolinmótt fólk að þeir verða að fá smá sjokk strax í upphafi bara til að friða blóðlostann gegnum fyrstu mínútúrnar, eins og börn sem fá að opna einn pakka fyrir kvöldmat á aðfangadagskvöldi? Þetta viðgengst ekki svo mikið í öðrum kvikmyndageirum. Svo við höldum áfram með dæmin að ofan þá byrjar Rocky ekki á því að persóna sem kemur málinu ekkert við er barin í klessu, og eins snýst upphafsatriðið í Lion King ekki um að vonda ljónið éti gazellu. Hvað sem því líður hefst Midnight Meat Train á því að maður vaknar í tómri neðanjarðarlest og heyrir undarleg hljóð úr næsta vagni, þar sem maður í snyrtilegum jakkafötum er að berja lífið úr einhverju með kjöthamri, og svo birtist titill myndarinnar. Allt atriðið tekur hálfa mínútu, tengist söguþræðinum ekkert og þjónar engum öðrum tilgangi en að benda á að þetta verður blóðug mynd sem gerist að einhverjum hluta í neðanjarðarlest, sem ég held að öllum hafi þegar verið ljóst út frá titlinum einum saman. Kannski er þetta þjónusta við þá áhorfendur sem skilja ekki ensku og geta ekki lesið texta, þó ég skilji ekki af hverju þeir væru að horfa á myndina yfir höfuð.

Eftir þetta blóðsúthellingafix hittum við aðalpersónu myndarinnar, ljósmyndarann Bradley Cooper. Hann býr í New York með kærustunni sinni Leslie Bibb og er að reyna að koma sér og ljósmyndunum sínum á framfæri hjá fræga galleríeigandum Brooke Shields, sem birtist hér í fyrsta hlutverkinu sem ég man eftir henni í síðan í Suddenly Susan þáttunum á RÚV í dentid. Viðfangsefni ljósmynda Bradley er borgin sjálf. Eins og hann útskýrir fyrir frú Shields vill hann fanga rétta andlit borgarinnar, eitthvað sem engum hefur tekist áður að hans sögn. Henni finnst Bradley samt ekki hafa tekist það heldur, svo hann tekur að ráfa um götur og neðanjarðarlestir New York í kringum miðnætti í leit að einhverju nógu sjokkerandi að mynda, af því hið rétta andlit New York er víst samansett úr nauðgunartilraunum og vandræðaunglingum, en ekki breiðgötum og skýjakljúfum eins og ég hefði ímyndað mér. Honum Bradley tekst prýðilega upp þegar hann kemur í veg fyrir að ungri stúlku sé nauðgað af þrem strákum í undirgöngum, og fær loforð um pláss á sýningu eftir nokkrar vikur ef hann geti bætt nokkrum myndum af svipaðri kaliber í safnið sitt. Næturferðirnar halda því áfram, en fara smátt og smátt út af sporinu eftir að hann kemst að því að unga stúlkan sem hann bjargaði hvarf sporlaust og að hann var síðasti maðurinn sem sá hana lifandi, fyrir utan hinn dularfulla Vinnie Jones sem klæðist alltaf snyrtilegum jakkafötum og er oft á ferð í neðanjarðarlestum New York í kringum miðnætti.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/12-drauminn.jpg"> Bradley lifir drauminn.</p>

Þeir sem hafa lesið eitthvað af hinum umfjöllununum eru örugglega búnir að átta sig á að því minna sem ég segi um söguþráð mynda því betur líkar mér við þær. Ef ég fíla einhverja mynd, þá vil ég að sem flestir aðrir horfi á hana líka og þá er til einskis að spilla söguþræðinum fyrir hinum, en ef að mynd er rusl þá finnst mér ekkert að því að hlægja að hverri einustu fáránlegu sögufléttu til að réttlæta að minnsta kosti eitthvað af tímanum sem fór í að horfa á hana. Þar sem að allt hér að ofan kom fram í trailernum væri því ekki óvitlaust að álykta að mér líkaði mjög vel við Midnight Meat Train, sem mér gerði líka langt fram eftir myndinni af því að hún reyndi aldrei að vera annað en fín og blóðug hryllingsmynd og tókst það alveg prýðilega frá byrjun og þar til í blálokin.

Ólíkt <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/04/02/11-the-unborn/">_The Unborn_</a> frá því í síðustu viku skoraði Midnight Meat Train mörg stig hjá mér út á að halda upp á orsök og afleiðingu. Allt vesenið sem að Bradley lendir í kemur fyrir hann af því að hann vill ekki hætta að snuðrast í kringum Vinnie Jones, þrátt fyrir beinar hótanir Jones um að eitthvað slæmt gerist ef hann hætti því ekki, og beiðnir kærustunnar hans og vina um að hann einbeiti sér að ljósmyndasýningunni sinni í staðinn fyrir að elta ókunnugan mann um neðanlestarkerfið allar nætur. Ofan á þetta orsakasamhengi þá virkuðu persónurnar flestar eins og alvöru manneskjur, í staðinn fyrir gangandi hryðjuverkaskotmörk eins og vill oft verða í svona myndum. Ég fékk alla vega á tilfinninguna að þau Bradley og Leslie ættu sitt eigið líf sem að miðnæturlestirnar pössuðu ekki inn í, og fyrir sitt þögla leyti virtist Vinnie Jones frekar vera maður sem vildi fá að vinna vinnuna sína í friði fyrir einhverjum smáljósmyndara heldur en froðufellandi geðsjúklingur sem drepur fólk af illkvittninni einni saman. Þetta var enginn Laxness, en þetta virkaði alveg.

Í gegnum alla myndina hafði ég gaman af hvernig söguþráðurinn og persónurnar virtust vera aðeins meira samanhangandi en ég hef átt að venjast hingað til. Í fyrstu pirraði mig aðeins hvað leikstjórinn notaði mikið af hægum skotum og tölvutæknibrellum þar sem þær vantaði alls ekki, en ég fyrirgaf honum það og meira til eftir að hann datt niður á einstaka innblásinn gullmola, eins og þegar hann sýndi Vinnie Jones lemja höfuðið af einu fórnarlambinu sínu út frá skoppandi fyrstu persónu sjónarhóli fórnarlambsins. Ef að Alan Turing fann tölvur upp til einhvers, þá var það til að sýna afhöfðanir í fyrstu persónu. Þar að auki vakti Midnight Meat Train upp skemmtilegar pælingar hjá mér um hvernig fólk hegðar sér og hundsar að mestu hvort annað í stórborgum og ég var búinn að glósa hjá mér nokkra punkta til að tala um í kringum þær. En í blálokin, þegar að fimm mínútur voru eftir af myndinni, datt botninn úr allir myndinni í fullkominni u-beygju úr hreinni örvæntingu og rökleysi. Krabbafólkið mætti.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/12-crabpeople2.jpg"> Krabbafólkið snýr aftur.</p>

Ég vildi óska að krabbafólkið væri einhversskonar meinhæðin myndlíking, en svo er ekki. Þegar að fimm mínútur eru eftir af Midnight Meat Train og lokaslagurinn á milli Brad og Vinnie erg búinn þá mætir hópur af undirmennskum verum sem éta fólk og búa í neðanjarðargöngum New York á staðinn. Í ljós kemur að Vinnie Jones var einn hlekkur í aldagömlu samsæri um að halda tilvist þeirra leyndu og sjá þeim fyrir mannakjöti á hverjum degi og að þetta samsæri teygir sig meðal annars til lögreglunnar í New York. Og nú þegar að Vinnie Jones er orðinn gamall og þreyttur á Bradley að taka við af honum, sem hann gerir eftir að tungan er rifin úr honum og kærastan hans er rist á hol fyrir framan hann.

Ha?

Af hverju? Af hverju í fokkings ósköpunum? Það var kominn fínn endir á myndina. Hún var búin. Og svo kemur þetta? Hverjum datt þetta í hug? Hvað hafði hann eiginlega á móti okkur? Þetta er ekki South Park, þar sem maður gerir beinlínis ráð fyrir að hlutirnir séu fáránlegir og veruleikafirrtir, heldur bíómynd sem gaf aldrei neina vísbendingu um að eitthvað svona væri á leiðinni. Af hverju eyddu höfundarnir öllum þessum tíma í að byggja upp trúanlegar persónur og aðstæður ef þeir ætluðu að henda þeim öllum fyrir borð á síðustu fimm mínútunum? Af hverju tróðu þeir krabbafólkinu þarna inn? Hver var tilgangurinn með að halda tilvist þeirra leyndu? Ég tali nú ekki um að halda lífinu í þeim? Ég veit að mitt fyrsta verk sem borgarstjóri New York væri að uppræta öll samfélög undirmennskra mannæta í holræsunum mínum, í staðinn fyrir að fóðra þau á fólki úr daglega lífinu. Af hverju var tungan rifin úr Bradley þegar að Vinnie Jones var ennþá með sína? Af hverju var kærastan hans Bradley drepin? Og af hverju í andskotanum samþykkti hann að taka við starfinu hans Vinnie? Hélt hann að honum myndi leiðast á daginn núna þegar hann hafði ekkert að lifa fyrir lengur og vantaði eitthvað til að drepa tímann? Ég sver að fokking Eraserhead meikar meira sens en þetta, og hún er eins og fokking hálfs klukkutíma útgáfa af martröð sem David Lynch fékk einhvertímann!

Ef við segjum að vinir séu tvær manneskjur sem hafa aldrei kært hvor aðra til lögreglunnar, þá er ég vinamargur maður. Nelson Mandela er vinur minn. Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti líka. Áður en ég horfði á Midnight Meat Train voru handritshöfundarnir Clive Barker og Jeff Buhler vinir mínir. Þeir eru það ekki lengur. Þegar að myndin kláraðist var ég sár. Mér fannst ég svikinn og mér leið eins og kjána fyrir að hafa leyft Midnight Meat Train að gera mér upp vonir og spila svona með mig. Ég var reiður og mig langaði að fá svör við mörgum spurningum, einföldum spurningum, réttlátum spurningum, sem ég öskraði til þeirra um miðja nótt af grasinu fyrir framan húsið þeirra klæddur í ekki neitt nema hlaupaskó og kúrekahatt, með hálftóma ginflösku í vinstri hendinni sem ég sveiflaði til og frá til að leggja áherslu á mál mitt á milli gúlsopa. Þegar að löggurnar drógu mig froðufellandi í burtu tuttugu mínútum síðar í miðri útlistun á ömurleika Clive og Jeff höfðu þeir ekki svarað einni einustu fyrirspurn minni.

Frá og með deginum í dag eru Clive Barker og Jeff Buhler óvinir mínir. Ég ætla aldrei að horfa á, lesa, eða koma líkamlega nálægt neinu sem þeir gera. Ef ég kemst að hvert þeir fluttu eftir síðustu heimsókn mun ég mæta þangað og gera grín að skónum þeirra og segja börnunum þeirra að jólasveinninn sé ekki til og brenna húsin þeirra. Þetta verður slæmt ástand sem þeir verðskulda hverja einustu sekúndu af. En vitið þið hvað er það versta? Alveg sama hvað ég geri, alveg sama hvaða sjúka fjanda mér dettur í hug, þá verður það of gott fyrir þá.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

Píparinn Jack Brooks tekst á við djöfla í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Jack_Brooks:_Monster_Slayer">_Jack Brooks: Monster Slayer_</a>, sem virðist ætla að taka sjálfa sig hæfilega alvarlega.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=ejwdhipRQJU&hl=fr&fs=1]</p>

    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/11-poster.jpg"></p>

    Tíminn er kominn, enn einu sinni. Þessiar hræðilegu vikur þegar við horfum í kringum okkur og langar ekkert meira en að heyra hreinskilið mál og sannleika, en fáum í staðinn hafsjó af lýðskrumi og fingrabendingum og sjálfumgleði frá mannleysum sem gætu ekki hóstað gat á bréfpoka. Og þegar við höldum að það versta sé yfir staðið af því að ekki nokkur heilvita manneskja gæti gleypt við svona rugli sjáum við að ekki aðeins erum við á skjön við næstum alla í samfélaginu, heldur er andaungaeftirherma fólksins sem okkur þykir vænt um svo fullkomin að eina rökrétta svarið er botnlaus deprimering marineruð í ginflösku í örvæntingarfullri tilraun til að gleyma því að eins og lítil fræ sem verða að blómum séum við yfir höfuð til. Já, það eru komnar kosningar.

    Alla vega eru þær komnar hjá mér og mínum, það er náms- og öðru góðu fólki sem er búsett erlendis, af því við kjósum utankjörstaðar í sendirráðum og ræðismannsskrifstofum út um vippinn og vappinn. Við hittumst öll í hverri viku, á þriðjudögum (Útlandið er á stærð við Selfoss - skoðið stærðarskalann á kortunum ykkar) og skálum fyrir því að vera ekki í Gamla Landinu, og það hefur verið áhugavert að heyra hversu mis mikið mál það er að kjósa eftir hvar fólk býr. Einn vinur minn býr í höfuðborg í Vestur-Evrópu og rölti í sendirráðið einn eftirmiðdaginn, sjálfur tek ég lest á morgun í rúman klukkutíma til að komast á ræðismannsskrifstofu í næsta bæ, eitthvað sem ég geri með glöðu geði hvort eð er af því þá get ég kíkt í kínverskan mat og hugsanlegt kelerí hjá vinkonu minni, og annar vinur minn má velja á milli að kjósa ekki eða taka annað hvort 40 tíma rútuferð eða splæsa 400 dollurum í flug til að mæta. Síðast þegar ég vissi var hann að spá í að fara til að skila auðu, af því að það yrði góð saga.

    Þessi sami vinur minn sagði mér um daginn að það kæmi sér á óvart hvað karlmenn eru einfaldar verur. Eftir hundruð þúsunda ára þróun mannkyns, síðustu nokkur þúsund ára siðmenningu með öllum þeim framförum sem henni fylgja, og langa og ítarlega persónulega menntun okkar, þá þarf samt ekki meira til en að stelpa gangi á nærfötunum eða nakin í augsýn til að við séum sáttir með lífið. Hann hefur auðvitað rétt fyrir sér, en ólíkt fertugum konum sem líta á þennan eiginleika okkar sem löst og gera illgjarnt grín að honum yfir kökum og kaffi og misheppnuðum hjónaböndum, þá finnst mér hann tvímænalaus kostur og merki um mikla nægjusemi. Lífið er einfalt og það erum við líka. Hver sá sem sá um auglýsingaherferðina fyrir The Unborn komst augljóslega sjálfstætt að sömu niðurstöðu eins og sést af veggspjaldinu fyrir myndina. Það eru orðin þónokkur ár síðan ég hætti að sofa með bangsa, en ég hef loksins fundið almennilegan staðgengil. Í hvert einasta skipti sem ég lít augum á þetta dásamlega veggspjald kemur yfir mig ró sem búddamunka og taóista getur aðeins dreymt um og ég veit að allt verður í lagi. Ég vil hvetja alla lesendur Árs hinna lifandi dauðu sem vakna á morgnana og þakka fyrir tilvist stelpna til að taka sér augnablik til að fletta upp og meðtaka veggspjaldið fyrir The Unborn einu sinni enn, ekki síst vegna þess að það er langbesti hluturinn við myndina.

    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/11-cageofemotion.jpg"> Þessi drengur er fastur í baðherbergisskáp tilfinninga.</p>

    Ég er í fínu skapi þannig að ég held ég minnist á annan góðan við The Unborn: hún byrjar ekki á bregðuatriði þar sem einhver sem kemur málinu ekkert við deyr á hrottafullan hátt. Mér datt svo sem í hug að ég yrði leiður á einhverju í kringum hryllingsmyndir við að horfa á eina á viku, en aldrei datt mér í hug að það tæki bara tíu myndir til að innræta með mér djúpstætt hatur á bregðuatriðum sem þjóna engum tilgangi. The Unborn byrjar að vísu á atriði sem flokkunarhatturinn úr Harry Potter hefði hent í bregðuhrúguna, þó að á meðal slíkra atriða sé það ósköp sakleysislegt og yrði sennilega strítt af stærri atriðum sem glíma við vandamál heima fyrir og líður illa, en til tilbreytingar kemur atriðið bæði fyrir aðalpersónuna hennar Odette Yustman og er skrýtið og ónotalegt á eigin forsendum áður en það púllar Dallas og leggur út þetta-var-allt-bara-draumur spilið.

    Í fyrri helming The Unborn eru smáatriðin á bakvið þennan leiðinlega draum svo tékkuð af eitt af öðru á meðan að skringilegheitin í kringum Yustman og dásamlega rassinn hennar magnast. Sko, strákur sem hún er að passa lemur hana með spegli svo að augnlitur Odette byrjar að breytast, sem er útskýrt með að hún var tvíburi en bróðir hennar dó á meðgöngunni, tólf ára drengur birtist í örskotsstund í skáp inni á klósettinu hennar, við lærum að mamma hennar var biluð og á hæli þar til hún framdi sjálfsmorð, og að það er gömul kona á elliheimili sem veit kannski eitthvað um fortíð Yustman. Á meðan að þessu stendur þá stigmagnast undarlegu hlutirnir í kringum Yustman, frá áðurnefndri skápabirtingu litla drengsins, yfir í draum þar sem hann reynir að klóra sig inn í hana, og að lokum í að klósett á skemmtistað fyllist af skordýrum sem eru ekki þar í raun og veru.

    Á endanum afhjúpar gamla konan á elliheimilinu sig sem ömmu Odette og fyllir inn í eyðurnar: litli drengurinn sem ásækir hana er illur andi sem tók sér bólfestu í líkama tvíburabróðurs ömmunar á seinnistríðsárunum þegar að þau voru tilraunadýr ills nasistalæknis í Auschwitz útrýmingarbúðunum. Maður hlýtur að spyrja sig hvaða annars flokks hryllingsmynd verður ekki betri á að draga útrýmingarbúðir nasista með í leikinn? Amman drap bróður sinn til að stöðva andann, en síðan þá hefur hann reynt að komast inn í okkar heim, fyrst í gegnum móður Yustman, svo bróður hennar í leginu, og nú loksins í gegnum hana. Eins og Batman er fröken Yustman þeirrar skoðunar að maður eigi að takast á við vandamálin sín í staðinn fyrir að bíða eftir að þau hverfi af sjálfsdáðum, sem hún gerir því miður ekki með því að standa á skýjakljúfum í nærfötunum einum fata, heldur með því að hóa í rabbínan Gary Oldman, sem hefur víst ekkert betra að gera við frítímann sinn en að þýða hnausþykkar og ævafornar bækur fyrir unglingsstúlkur sem segja að illir andar ásæki sig.

    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/11-oldman.jpg"> Gary Oldman táldregur Stringer Bell úr The Wire með þokkafullum hornleik.</p>

    Á blaði hljómar þetta eins og grunnurinn að sæmilegri hryllingsmynd, sem ber að vísu miður litla virðingu fyrir helförinni þegar kemur að því að setja saman baksöguna sína, en í raunveruleikanum er alveg hundleiðinlegt að horfa þessa atburðarrás af því það gerist ekki rassgat í The Unborn. Hvert einasti af punktunum að ofan er útskýrður í gegnum samtöl á milli nokkurra persóna, sem er alveg fínt eitt og sér, en það vantar allan hasar inn á milli útskýringanna og maður fær aldrei á tilfinninguna að manndrápsandinn sé eitthvað meira en lítillega pirrandi fjandi sem fílar að fela sig í skápum, frekar en illt afl sem er eldra en tíminn sjálfur. Ég fattaði aldrei af hverju allir voru svona hræddir við lítinn gutta sem birtist einstaka sinnum á óþægilegum augnablikum, eða hvernig í andskotanum hann ætlaði að taka yfir Odette, eða ef hann ætlaði ekki að gera það, hvað hann myndi græða á því að drepa hana. Fyrir utan þetta þá tekur alveg klukkutíma að draga hr. Oldman til leiks og loksins þegar að útrýmingabúðardrengurinn mannar sig upp í að slátra einhverjum eru bara tuttugu mínútur eftir af myndinni, og lítið annað eftir að gera en að slaufa þessu með spennulausu særingaratriði og lokauppljóstrun sem gerir allt sem kom á undan fullkomlega óþarft og tilgangslaust.

    Burtséð frá því að allir í The Unborn voru undarlega tilbúnir að taka sér tíma til að krukka í yfirnáttúrlegum hlutum sem þeir höfðu ekkert nema orð Yustman fyrir, sem ég er svo sem tilbúinn að samþykkja af því að sannfæringarmáttur rassins er mikill, og að öll atburðarrásin í myndinni fæddist tilgangsvana, þá pirraði mig mikið að bæði orsök og afleiðing tékkuðu sig inn á ódýrt hótel og gerðu ósegjanlega hluti við hvort annað á meðan að The Unborn stóð. Fyrir utan áður dulið hatur mitt á upphafsbregðuatriðum, þá hef ég uppgötvað á síðustu þrem mánuðum að ég vil að fólkið sem ég horfi á lenda í limlestingum og almennum óþægindum sé yfir höfuð í þessu veseni út af þeim ákvörðunum sem það hefur tekið, en ekki af því að það vantaði mannlegt andlit til að verða fyrir hvaða sjúka fjanda sem handritshöfundurinn kokkaði upp. Þær myndir sem gera þetta best hingað til eru <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/01/22/1-day-of-the-dead/">_Day of the Dead_</a> og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/03/12/8-the-ruins/">_The Ruins_</a>, þar sem persónur deyja á hræðilegan hátt af því að þær voru hálfvitar, en á hinum endanum á skalanum eru <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/03/05/7-mirrors/">_Mirrors_</a> og núna The Unborn, þar sem það nægði að aðalpersónurnar mættu í vinnuna eða fæddust til þess að þær gæfu kost á sér sem fórnarlömb okkur hinum til skemmtunar og yndisauka. Ég vil að hryllingsmyndirnar mínar hafi alla vega vott af boðskap, þó hann sé ekki meiri en ,,ekki rölta út í frumskóg með engar vistir og án þess að láta neinn vita, og við hliðina á því gengur ,,ekki fæðast inn í fjölskyldu sem er ásótt af illum anda ekki alveg upp.

    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/11-arse.jpg"> Einu sinni enn, með tilfinningu.</p>

    Mér fannst The Unborn leiðinleg og ósamanhangandi á frekar áhugaverðan hátt, eins og að sá sem skrifaði hana hafi aldrei lesið handritið sitt aftur heldur verið sannfærður um ágæti þess í huganum, og að enginn sem að tók þátt í að búa myndina til hafi lagt í að horfa á hana eftir að tökum lauk. Því kom mér á óvart að hún var skrifuð og henni leikstýrt af einum og sama manninum, sem hlýtur því að hafa skilað máttlausri sýn sinni nokkuð óspilltri til okkar óþvoðu, honum David S. Goyer. Ég varð enn meira undrandi þegar ég leit á ferilskránna hans og sá að hr. Goyer hafði hönd í bagga með að skrifa Dark City (Kiefer!), Blade-myndirnar og bæði Batman Begins og The Dark Knight. Nú er Blade-bálkurinn kannski engin Hringadróttinssaga en það verður seint tekið frá þeim að það er gaman að horfa á þær, og bæði Dark City og Batman-myndirnar eru góðar og vel uppsettar sögur. Ég veit því ekki hvað klikkaði hérna, kannski skrifaði einhver annar hinar myndirnar og Goyer fékk að vera á listanum af því hann hékk voða oft á staðnum á meðan. Við munum aldrei vita það, eða alla vega ekki gegnum mig, af því ég er alveg sáttur við að losna við The Unborn og allt sem henni tengist úr lífi mínu.

    Ef að ekki væri fyrir þá staðreynd að Odette Yustman eyðir miklum tíma í The Unborn klædd færri fötum en kvefhræddu fólki þykir þægilegt, svo ég tali nú ekki um dýrindisplaggatið hér að ofan, þá færi The Unborn langt með að falla í sama tímasóunarflokkinn og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/03/19/9-repo-the-genetic-opera/">_Repo! The Genetic Opera_</a>. Þetta er alveg heilsteyptari mynd, með persónum og öllu og blessunarlega laus við öll sönglög, en hver einasta mínúta þegar Yustman er ekki léttklædd á skjánum er mínúta sem má missa sín án þess að heildarupplifunin raskist að mælanlegu leyti. Ég get ekki sagt að ég hati The Unborn, eða líki einu sinni illa við hana - til þess að mynd vekji slík tilfinningaviðbrögð þarf hún að ná einhverjum tökum á manni og það er engin hætta á að The Unborn geri það - en eftir stendur að ef vondur maður brýst inn til mín í kvöld með það í huga að neyða mig til að horfa á hana aftur, þá mun ég reyna allt sem ég get til að hann samþykki að leyfa mér að horfa á plaggatið fyrir myndina í níutíu mínútur í staðinn. Allt sem er vel heppnað við The Unborn má finna þar og plaggatið gerir gott betur en að koma í staðinn fyrir myndina sjálfa.

    <p align="center"><strong>

    Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

    Bradley Cooper úr Alias myndar gaur sem heggur mann og annan með kjöthamri í Midnight Meat Train.

    <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=FysmKMq1D4Y&hl=fr&fs=1]</p>

      <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/10-poster.jpg"></p>

      Ég er að hugsa um að ferðast um Evrópu í sumar og ljúga til um hver ég sé. Allt stefnir í að ég hafi frekar mikið frelsi til að færa mig á milli staða og vinna í sumar, og allt frá því að mér datt hugmyndin í hug hefur það kitlað mig svolítið að skálda upp nýtt nafn og uppruna og ljúga að öllum sem ég hitti. Kannski ég kalli mig Don eftir aðalpersónunni úr Mad Men og segist vera frá hvaða ríki Bandaríkjanna sem Fargo gerðist í, það ætti að dekka hreiminn ef ég þarf að tala við enskumælandi fólk. Mig langar ekki beint í frí frá sjálfum mér, heldur frekar frá undrunarstörunum og spurningaflóðinu sem kemur þegar að fólk fréttir að ég sé frá Íslandi. Við erum voða sjaldgæf hérna, og ég er kominn með mikla leið á að segja fólki frá miðnætursólinni og brjóta hjarta þess með að viðurkenna að ég sé ekki skyldur Björk. Nema að fólkið sem um ræðir sé sæt stelpa. Þá er Ísland alveg heillandi fjandi, jarðleg mynd Múmíndalsins sprottin upp í miðju Atlantshafi, þar sem allir eru skemmtilegir og hamingjusamir. Ýmsu lýgur maður til að ganga í augun á sætum stelpum.

      Þetta plan er ennþá á byrjunarstigi, en ég held að ég segji ekki heldur allan sannleikann um hvað ég geri. Fólk bregst þó alla vega við Íslendingasögunni á sæmilega jákvæðum nótum, en hoppar ekki jafnfætis afturábak, hvæsir og gerir krossmark með puttunum eins og þegar að það fréttir að ég sé stærðfræðingur. Næstum allir sem ég hitti hafa miður gott álit á stærðfræði og þar af leiðandi stærðfræðingum líka, sem batnar ekki mikið þegar ég byrja að röfla samhengislaust um að stærðfræði sé helsexí. Hún er það nú samt, þó að eins og með kaffi eða Six með Mansun þurfi smá stund til að komast á bragðið. Í mjög stuttu máli gengur fegurð í stærðfræði út á að byrja með eins lítið og hægt er, vinna sig áfram með einföldum og augljósum skrefum, og enda með eitthvað óvænt og flókið. Svipaðir hlutir eru til bæði í bókmenntum og myndlist og fleirum greinum í formi minimalisma, og ef fimm ára stærðfræðimenntun hefur ekki skilað neinu öðru þá ber hún alla vega ábyrgð á því að mér finnst minimalismi frábær hvar sem honum bregður fyrir.

      Þetta eru ágætar fréttir fyrir Fear(s) of the Dark, því fyrir utan að fá punkta í kladdann fyrir það eitt að vera frönsk og því eitthvað sem ég get æft hlustun á, þá samanstendur hún af sex stuttum svarthvítum teiknimyndum í minimalískum stíl sem fjalla allar á einhvern hátt um ótta. Og allar myndirnar eru um uppvakninga. Sem Jack Bauer drepur. Ókei, þetta tvennt síðasta er lygi, en ef það væri satt þá væri þetta uppáhaldsmyndin mín í öllum heiminum. Ég verð að viðurkenna að ég horfði á Fear(s) of the Dark aðallega til þess að fá smá tilbreytingu við venjulegu myndirnar, sem ég veit oftast fyrir fram að falla í einn af góð/vond/fyndin flokkunum, og líka fyrir hreinar forvitnissakir. Á blaði hljómar hugmyndin að Fear(s) - stuttar svarthvítar franskar teiknimyndir um ótta - eins og svakalegt artfart prump, eitthvað svipað og myndin sem Eddie Izzard lýsti um gaur sem gerir ekkert annað en að kveikja í eldspýtum, og mig langaði að vita hvort að Fear(s) gæti gengið upp og skilað einhverju sem vekti alla vega smá ónot með mér.

      <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/10-gerard.jpg"> Gérard Depardieu.</p>

      Ónotaspurningunni var fljótsvarað af takklistanum sem birtist áður en myndin sjálf byrjaði, en það var af ástæðu sem ég get ekki ímyndað mér að nokkur hafi séð fyrir. Listinn sjálfur reynir að koma manni í stuð með því að flökta brotum af titlum og nöfnum á fólkinu sem kom að gerð myndarinnar, á meðan að mjög viðeigandi tónlist sem minnir á hryllingsmyndatónlist flutta af synfóníum í gamla daga hljómar undir. Eitt og sér er það prýðileg leið til að setja stemminguna, en mér leið frekar illa þegar ég sá að eitt nafnið sem leiftraði á skjánum var Guillaume Depardieu. Guillaume var sonur franska leikarans Gérard Depardieu, sem er mjög ástsæll hér í Frakklandi og hefur leikið í sjokkerandi fáum myndum sem ég þekki miðað við hvað ég hef lengi vitað hver hann er. Guillaume dó úr bráðalungnabólgu við tökur í Rúmaníu fyrir örfáum mánuðum, aðeins 37 ára gamall, og dauði hans var mikið sorgarefni hér, ekki síst vegna hver pabbi hans var. Að sjá nafnið hans á kynningarlistanum var frekar ónotalegt, en eins leiðinlegt og það er að segja það þá er erfitt að sjá fyrir sér betra hugarástand en þetta til að byrja að horfa á hryllingsmynd; ég get vel ímyndað mér að House eða The Ruins hefðu gefið pund af holdi fyrir sömu stemmingu frá upphafi.

      Eins og ég sagði áðan þá samanstendur Fear(s) af sex stuttmyndum, en þar af eru tvær dreifðar á milli hinna í nokkrum pörtum. Fear(s) hefst á annarri þeirra dreifðu sem sýnir mann á 18. öld labba um sveit með fjóra grimma hunda í bandi sem hann sigar einum af öðrum á fólk í kringum sig, einum hundi á undan hverri stuttmynd. Á yfirborðinu er þessi mynd lítið annað en hlé á milli atriða, en ef okkur langar að draga bókmenntafræðingssokkabuxurnar yfir höfuðið og lesa alltof mikið úr henni þá getum við hugsað okkur að vondi maðurinn standi fyrir Fear(s) sjálfa, sérhver hundurinn fyrir eina af myndunum fjórum, og fórnarlömbin fyrir okkur áhorfenduna. Artí. Hin partaskipti stuttmyndin er er aðeins meira spes, því í henni gerist ekkert nema að kona þylur upp kvíða og hversdagslega ótta sína yfir abstrakt bakgrunni sem breytist í sífellu. Þetta samspil náði fram undarlega dáleiðandi áhrifum, eða gerði það alla vega þar til að kvíðaræðan fór að minna mig á svipaðar upptalningar úr Adaptation og Peep Show, en eftir þá tengingu gat ég ekki annað en hlegið að henni.

      Hinar myndirnar fjórar eru hefðbundnari og heilsteyptari og flakka um víðan völl í áhrifavöldum og umfjöllunarefni. Ein fjallar um lítið skordýr sem nær valdi á lífi ungs manns, önnur er í japönskum stíl og segir frá ungri stúlku sem lendir í vondum skóla, sú þriðja tekur á kunnuglegum þemum um skrýmsli sem virka mannleg, og sú fjórða er ein af þessum ,,ó fokk það er geðsjúklingur með hníf í húsinu`` sögum sem við elskum jú öll. Eins og gefur að skilja eru þetta nokkuð misjafnar sögur; mér fundust sú fyrsta og síðasta heppnast best, þó af ólíkum ástæðum, á meðan að þessar tvær í miðjunni fóru fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Eða, ég held alla vega að þær hafi gert það. Sagan um japönsku skólastelpuna er í alvöru anime-stíl, og sú staðreynd að ég skildi hvorki upp né niður í henni og hef enga hugmynd um hver söguþráðurinn var, eða hvað í henni átti að vera raunverulegt og hvað átti að vera draumur, gæti einfaldlega þýtt að stílfæringin hafi tekist vonum framar hjá fólkinu á bakvið hana, því mér líður oftar en ekki nákvæmlega svona eftir að hafa horft á anime-myndir. Ef þetta var ætlun kvikmyndagerðarmannanna, þá eiga þeir hrós og golfklapp skilið fyrir vel unnin störf.

      <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/10-japan.jpg"> Vitið þið hvað er í gangi hérna? Ég hef alla vega enga hugmynd um það.</p>

      Af öllum sögunum fannst mér auðveldast að tengjast þeirri fyrstu á einhvern hátt. Í stuttu máli fjallar hún um ungan feiminn strák sem finnur undarlegt skordýr úti í skógi, sem hann fangar og tekur með sér heim, þar sem það sleppur og fer huldu höfði í herberginu hans í næstu nokkur ár á eftir. Strákurinn vex úr grasi og byrjar í háskóla þar sem hann hittir sæta stelpu sem vill vera með honum, en skordýrið stingur upp kollinum og nær stjórn á líkama stelpunnar á hátt sem er lítið útskýrður, og eftir það bíða stráksins örlög sem eru verri en dauðinn. Ekkert í sögunni er ógeðfellt á augljósan hátt, en þar sem við sjáum veröldina ennþá gegnum rauðbrúnar bókmennasokkabuxurnar liggur beinast við að lesa skordýrið sem tákn kynþroska og alls vesenisins sem honum fylgir, og andsetnu stelpuna og vondu örlögin sem holdgervingu slæms sambands sem engin sómasamleg leið er úr. Sem sjálfskipaður fulltrúi ungra piparsveina sem finnst líf sitt ekkert nema frábært skal ég alveg skrifa undir að hugmyndin um að verða alla ævi bundinn manneskju sem manni líkar ekki vel við, eins og til dæmis gegnum slysabarn eftir miður ráðleg skyndikynni, er miklu líklegri til að halda fyrir mér vöku á nóttunni heldur en allar zombímyndir heimsins samanlagt, og ég fann til með aumingja stráknum í myndinni.

      Hin sagan sem mér fannst eitthvað varið í er svo miklu einfaldari hlutur sem þarf ekki að lesa neitt úr til að njóta. Hún fjallar um mann sem brýst inn í hús til að leita skjóls undan blindbyl. Hér um bil það eina sem gerist í sögunni, sem er algerlega án tals eða texta, er að hann ráfar um húsið og skoðar sig um og áttar sig smátt og smátt á því að eitthvað spes hefur átt sér stað þar og að hann er kannski ekki einn í húsinu. Af öllum sögunum í Fear(s) of the Dark er það þessi sem vinnur næst titlinum og spilar á ótta okkar við myrkrið og ofsóknaræðið sem því fylgir, en kvikmyndagerðamennirnir leika stórkostlega með minimalískar svartar og hvítar teikningarnar bæði til að sýna okkur hluti sem eru þarna í raun og veru, og til að láta okkur halda að við sjáum eitthvað í skuggunum sem er ekki þar. Þó að söguþráðurinn sjálfur sé ekkert til að hrópa húrra fyrir, sem kemur ekki á óvart þar sem það er aðeins hægt að túlka svo mikið með teikningunum einum að vopni, þá rúllar sagan áfram af öryggi á andrúmsloftinu einu saman.

      <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/10-nr4.jpg"> Fjórða myndin kemst skuggalega langt á teikningum í þessum stíl.</p>

      Þó að einstaka partar af Fear(s) of the Dark gangi upp og skilji jafnvel eitthvað eftir sig, þá er myndin langt frá því að vera gallalaus. Eins og er vonandi orðið ljóst þá er Fear(s) engin poppkornsskemmtun, heldur tekur hún sjálfa sig svo snaralvarlega að það væri hægt að búa til formúlukennda gamanmynd þar sem hún og vondur grínisti neyðast til að hanga saman og flýja undan mafíunni yfir eina helgi, og þrátt fyrir að vilja í fyrstu ekkert með hvort annað hafa og ýmsar vandræðalegar aðstæður sem þau koma sér í, þá vingast þau smám saman og byrja að bera viðringu fyrir hvort annað, og í lokin lærir grínistinn að sýna smá ábyrgð og Fear(s) lærir að slappa af og breikdansa. Og af einhverjum ástæðum syngur Snoop Dogg lag í miðri myndinni. Þetta yrði hræðileg mynd í alla staði, en ágætis mótvægi við endalausa og óþreytandi listamannatilburði Fear(s) of the Dark, sem virðist á köflum halda að það sé nóg að hlutirnir séu skrýtnir til að þeir geri góða bíómynd, en ekki að gæðin hangi frekar á góðum persónum og söguþræði.

      Að vísu er ekki hægt að kenna Fear(s) of the Dark algerlega um hvernig er komið fyrir persónusköpun og framvindu í undirmyndunum í henni, af því samkvæmt skilgreiningu er minni tími fyrir slíka hluti í stuttmyndum en ella, og það kemur því ekki svo á óvart að þeir séu frekar ófullnægjandi hér. Mér kemur samt á óvart að fyrir utan fyrstu myndina hafi engin stuttmyndanna náð að stilla upp fólki sem mig langaði að fylgjast með. Það er ekki eins og framleiðendur Fear(s) hafi verið í tímaþröng og því ekki getað lengt einhverja stuttmyndina aðeins til að koma fyrir meiri persónusköpun, því að myndin í heild sinni er rétt tæpar 80 mínútur að lengd. Með það í huga, og að brotin á milli myndanna með hundana og kvíðaræðuna mega alveg missa sig, fær maður á tilfinninguna fólkið á bakvið Fear(s) hafi einfaldlega ekki nennt þessu lengur á einhverjum tímapunkti og ákveðið að þetta væri komið gott.

      Ég á svolítið erfitt með að ákveða hvað mér fannst um Fear(s) of the Dark. Hún er á köflum tilgerðarleg og stundum yfirborðskennd, en tekst líka einstaka sinnum vel upp og nær fram einhverjum viðbrögðum. Ég myndi ekki segja að það hafi verið tímasóun að horfa á Fear(s), en ég á líka í erfiðleikum með að mæla með henni fyrir nokkurn mann. Hugsanlega er þetta mynd sem að harðir kvikmyndaáhugamenn, það er þeir sem fíluðu Coffee and cigarettes eða Paris, je t’aime, eða ákafir áhugamenn um beitingu ljóss og skugga gætu haft gaman af. Allir aðrir ættu sennilega að láta Fear(s) fram hjá sér fara. Þú sérð kannski ekkert eftir tímanum sem fer í að horfa á hana, en þú hefur líka örugglega eitthvað betra að gera.

      <p align="center"><strong>

      Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

      <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/The_Unborn_(film)">_The Unborn_</a> gefur okkur vorn mánaðarlegan J-hrylling.

      <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=sc3Cba0qOco&hl=fr&fs=1]</p>

        <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/09-poster.jpg"></p>

        Ein af skemmtilegri minningunum sem ég á af frændfólki mínu, alla vega hingað til, er þegar að ég og kona frænda míns drukkum eina og hálfa rommflösku saman eitt kvöldið meðan að allir aðrir voru úti. Skiljanlega man ég ekki allt sem við töluðum um á meðan, en upp úr stendur að henni tókst að fá mig til að samþykkja að George W. Bush væri ekki skrýmsli sem étur börn á nóttunni heldur maður að reyna að gera það besta úr erfiðri stöðu, og að hún var svo sjokkeruð á því að heyra að ég væri trúleysingi að hún dró mig út á pall, benti á stjörnurnar og spurði hvort ég héldi í alvöru að eitthvað svona fallegt gæti orðið til fyrir tilviljun. Kona frænda míns er frá Suðurríkjum Bandaríkjanna og harður repúblíkani, eins og hann sjálfur reyndar, sem fer langt með að útskýra skoðanamun okkar á vissum sviðum. Mér þykir samt mjög vænt um þau bæði og tók alveg vel í stjörnuskoðunina, að hluta til af því að mér fannst hún svo lúmskt fyndin; núverandi heimsmynd mín kviknaði gegnum að horfa á stjörnurnar, svo ég á erfitt með að ímynda mér verri leið til að koma mér í samband við almættið.

        Þetta trúboð hennar mistókst, en ýmis önnur hafa heppnast ágætlega. Til dæmis er það þessari konu að þakka að ég hef mjög gaman af bókunum hans David Sedaris, að mér finnast hash browns fínn matur, og að mér finnst Bruce Springsteen æðislegur. Sem hann og er. Eins og allir hlutir sem eru þess virði að taka eftir er hann þó ekki fyrir alla, og margir vinir mínir hafa sérstaklega koksað á hversu bandarískur Springsteen er. Þeir hafa auðvitað talsvert til síns máls - að segja annað væri eins og að segja að vatn væri ekki blautt - en ef maður lætur það ekki trufla sig og byrjar að hlusta á tónlistina sér maður að þarna er eitthvað stórkostlegt í gangi. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér Stjórann gætu gert margt verra en að tékka á Darkness on the edge of town, sem er stútfull af öllu því sem gerði hann frægan, það er hráu kántríslegnu rokki með einstaka píanói og saxafón inn á milli og textum um fólk sem hefur átt betri daga. Auðvitað kemst Darkness ekki með tærnar þar sem The River hefur hælana, en þar sem sú seinni er talsvert lengri og þyngri er hún ekki jafn góður kostur fyrir byrjendur.

        Ég minnist á Springsteen og The River af því að áður en ég horfði á Repo! The Genetic Opera þá hélt ég að við tvö gætum átt svipaðan tíma saman og persónurnar í hinu öskrandi frábæra titillagi The River, sem segir frá saklausu ástarsambandi tveggja unglinga sem að breytist í kæfandi hjónaband þegar að þau eignast óvart barn og hvernig líf þeirra eyðileggst smám saman. Ég hafði nefninlega heyrt ýmislegt um Repo! og ekkert af því var gott. Hún hafði slæmt orðspor. Virkilega slæmt. Orðið á götunni var að hún hengi í sjoppunni á horninu á kvöldin og að hún ætti leðurjakka og reykti. Þess vegna hlakkaði ég dálítið til að sjá Repo!. Ef maður kemur að vondum bíómyndum með réttu hugarfari þá er visst gaman að horfa á þær. Þær geta jafnvel orðið í meira uppáhaldi hjá manni en myndirnar sem allir eru sammála um að séu meistaraverk. Allir guðirnir sem eru ekki til vita að ég er alltaf til í að horfa á The Core eða Southland Tales einu sinni enn, og að þó Godfather sé hundrað sinnum meira listaverk þá þarf að vera áþreifanlegur möguleiki á kynlífi fyrir hendi til þess að ég sitji í gegnum þann langdregna fjanda aftur.

        <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/09-springsteen.jpg"> Svelgjan (e. coolness) lekur af þessum mönnum.</p>

        Frá upphafi sýnir Repo! The Genetic Opera einbeittan brotavilja fyrir því að vera vond mynd, þegar hún byrjar að útskýra baksöguna með því að sýna okkur teiknimyndasögublaðsíður sem segja frá helstu persónum og atriðum hingað til. Í sjálfu sér er ekkert að því að byrja bíómynd þannig, þetta er jú bara eitt stílbragð sem má nota til að setja tóninn, en vandamálið hérna er að á meðan úskýringaratriðinu stendur þá virðist líklegra að friður náist í Mið-Austurlöndum en að myndin byrji einhvertímann. Heildarlengd atriðisins er rúmar þrjár mínútur, sem hljómar ekki langt á blaði, en til að þær séu settar í samhengi þá tók það Wall-E, American Psycho og In Bruges sama tíma að stilla upp aðstæðum sem mann langaði að vita meira um, og þær byrja allar þrjár á því að færa söguþráðinn áfram á jarðfræðilegum tímaskala. Í byrjunaratriðinu í Repo! er engin mannleg tenging heldur bara fullt af ,,og svo gerðist þetta`` útskýringum, sem skilja ekki beint mikið eftir sig.

        Á fyrstu þrem mínútum Repo! lærum við að dularfull plága líffærabilana sigraði næstum því heiminn, en að á síðustu stundu birtist bjargvættur í formi fyrirtækisins GeneCo sem sérhæfir sig í því að rækta líffæri og græða þau í fólk. GeneCo spilar samt leikinn til að græða eitthvað, svo að ef fólk hefur ekki efni á nýju hjarta* eins og er þá getur það samt fengið nýtt slíkt á raðgreiðslum. En ef þú stendur ekki í skilum þá kemur fulltrúi Geneco, The Repo Man, heim til þín, ristir þig á hol, og tekur vanskilalíffærið upp í pant. Þessar endurheimtingar eru þar að auki löglegar, út af lagasetningu sem Geneco fékk dröslað í gegn. Ofan á það byggir auður GeneCo á ávandabindnadi deyfingarlyfi sem þau fundu upp sem gerir skurðaðgerðir sársaukalausar með öllu, en mikill svartur markaður hefur sprottið upp í kringum lyfið, og líka stétt svokallaðra grafræningja sem lifa af því að vinna lyfið úr líkum fólks. Og já, vegna þess að lyfið er ávanabindandi eru skurðaðgerðir orðnar það líka. Og jú líka, fjölskyldan sem á GeneCo fyrirtækið er kynnt í sömu andrá - pabbinn er að deyja en getur ekki hugsað sér að skilja fyrirtækið eftir í höndum barnanna sinna af því þau eru svo spillt, einn er morðingi, annar narkissisti, og sú þriðja háð skurðlækningum - og þau eru öll ill sem við vitum af því að á meðan þau voru kynnt hljómaði illur hlátur yfir. Þetta voru fyrstu þrjár mínúturnar af Repo!, að vísu talsvert styttar. Náðuð þið þessu öllu? Gott, af því að núna byrjar söngurinn.

        Eins og nafnið ber með sér, þá er Repo! The Genetic Opera söngleikur. Það sem nafnið ber hins vegar ekki með sér er að eitt af afrekum Repo! er að hafa troðið 57 lögum í sig, sem er opinbert met yfir alla söngleikjasöguna. Nú veit ég ekki hversu miklum tíma þið hafið eytt með fullum enskumælandi háskólanemum, svo það getur verið að þetta sé ný hugmynd fyrir ykkur, en það er til leikur sem heitir fuzzy bunny. Leikurinn byrjar þannig að maður opnar sykurpúðapoka, setur sykurpúða upp í sig, og segir fuzzy bunny. Næst setur maður annan sykurpúða upp í sig, og segir aftur fuzzy bunny. Þetta endurtekur maður svo þangað til að maður getur ekki sagt fuzzy bunny lengur, og sá sem varð úr leik með flesta sykurpúða uppi í sér vinnur. Að vera með sykurpúða uppi í sér er góð skemmtun. Að vera með tvo eða þrjá sykurúða uppi í sér er það líka. Að vera með 57 sykurpúða uppi í sér teygir á vöðvum sem að þú vissir aldrei að væru í kinnunum þínum og nístir sársauka gegnum tannhold þitt og grætir þig og veldur kvölum þannig að þú verður haldinn óræðum ótta við sykurpúða alla þína ævi. Ef að sönglög væru sykurpúðar, þá yrði Repo! ósigraður heimsmeistari í fuzzy bunny um alla tíð.

        <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/09-stelpa.jpg"> Eitt af því fáu sem er ekki hræðilegt sem ég get sagt um Repo! er að mér finnst aðalleikkonan sæt.</p>

        Þó að söngleikir séu ekki eitthvað sem ég sækist beint eftir að horfa á, þá geta þeir alveg skemmt mér undir réttum kringumstæðum. Til dæmis er Dr. Horrible einn af skemmtilegri hlutum sem ég sá á síðasta ári. Í eðli sínu eru söngleikir aðeins kjánalegri en venjulegar myndir, af því að fólkið í daglega lífinu brestur því miður aldrei út í óskipulögð söng- og dansatriði, en þeir geta sloppið hjá kjánahrollinum með sterkri sögu, áhugaverðum persónum og góðum lögum. Repo! gefur skít í hvernig annað fólk fer að því að komast hjá þessu kjánahrollsvandamáli, beygir til vinstri þegar aðrir beygja til hægri, og fer frekar þá leið að gera ekkert af þessu þrennu. Fjarvera eins þessara atriða er aldrei góðs viti, hvað þá fjarvera allra þriggja, en það gerir Repo! sérstaklega engan greiða að ekki eitt einasta af tæpum 60 lögunum í henni er gott. Þau eru ekki einu sinni sæmileg. Þegar þau eru sem verst eru þau illa sungin með vondum texta og laglínum sem fara ekki neitt, en jafnvel þegar best lætur er ekki hægt að segja mikið meira en að þau séu alla vega auðgleymanleg, og klukkutíma eftir að Repo! kláraðist gat ég ekki sönglað neitt af lögunum úr henni.

        Augljóslega tekur ákveðinn tíma að flytja tæp 60 lög, sem setur öllu öðru í myndinni tímaskorður þar sem að Repo! er blessunarlega aðeins endanlega löng. Afleiðingin er að hverri einastu samtalslínu og hugsun í myndinni var troðið í lag, sem gerir söguþræðinum engan greiða þar sem hann var aldrei mikið annað en skurðlæknaatriðið úr Escape from L.A. teygt út í heila bíómynd. Stórt vandamál við söguþráðinn er myndarlegur fjöldi persóna sem er troðið í hann: við sögu koma feðginin Alexa Vega og Anthony Steward Head (Giles úr Buffy), söngkonan Sarah Brightman, Geneco-forstjórinn Paul Sorvino og börnin hans Nivek Ogre, Bill Moseley og Paris Hilton, látin móðir Alexu og grafarræningi sem er aldrei útskýrður almennilega en poppar upp á sirka hálftíma fresti þar til að maður fattar að hann á að vera sögumaður. Þetta eru ekkert fleiri persónur en gengur og gerist, en munurinn er að þær eiga allar að vera fólk sem við höfum skoðun á svo að þær fá allar sinn skerf af skjátíma. Loksins þegar að það er búið að gera grein fyrir þeim öllum er hálftími liðinn af myndinni og varla neitt búið að gerast, og þegar að sagan á að byrja er okkur skítsama um persónurnar sem koma fyrir í henni af því að þær voru svo margar að það var enginn tími til að kynnast einstökum persónum almennilega.

        Ég vildi óska að ég gæti sagt ykkur í stuttu máli hvað gerist í Repo!, en sannleikurinn er sá að ég hef ekki hugmynd um það. Stuttu eftir að myndin byrjaði fuðraði öll æðri heilastarfsemi mín upp í ógnarbáli slappleikans á skjánum, sem gerði mér ókleift að fylgja öðru en skæru litunum sem leiftruðu þar um. Repo! er alveg lygilega vond mynd og hreinlega allt í henni er illa gert: lögin eru slæm og gleymast samstundis, persónurnar eru varla til, að allar línur eru sungnar verður fljótt þreytt, hún er of löng, leikararnir láta eins og þeir séu í koffínvímu og geta ekki túlkað aðrar tilfinningar en ofsagleði eða manískt þunglyndi, og söguþráðurinn er faldaður og leiðinlegur. Repo! The Genetic Opera er langversta mynd sem ég hef séð. Hún er svo vond að henni tekst ekki aðeins að láta atriði þar sem Paris Hilton missir andlitið falla kylliflatt, heldur virkar Paris Hilton eins og fín leikkona í samanburði við hroðbjóðinn í kringum sig. Það er alveg barnaníðsröng hugmynd, sem nægir ein og sér til að vinna Repo! sæti í innstu viðjum helvítis.

        <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/09-hilton.jpg"> Fröken Hilton missir andlitið.</p>

        Ég er mjög hræddur um að þið misskiljið mig og haldið að Repo! sé ein af þessum vondu myndum sem er gaman að horfa á í glasi með nokkrum vinum og gera grín að á meðan. Það er ekki rétt. Lofið mér að segja þetta mjög skýrt: Enginn ætti nokkur tímann að horfa á Repo! The Genetic Opera. Aldrei. Það er ekkert gott við þessa mynd. Hún tyggur með opin munninn og finnst hárgreiðslan þín ljót og að sýna föngum hana flokkast undir óvenjulega og ómannúðlega refsingu. Upphaflega ætlaði ég að enda þetta spjall á því að taka aftur upp þráðinn með Bruce Springsteen, rugla eitthvað um að áður en ég horfði á Repo! hefði ég átt draum um að hún yrði ein af uppáhalds vondu myndunum mínum, og klára svo á því að vitna í lokaorðin úr The River, sem spyrja hvort að draumur sé lygi eða eitthvað verra ef hann rætist ekki. Þessi draumur hefði klárlega verið eitthvað verra. Ég mun ekki enda þetta spjall þannig. Það krefst ákveðins frumleika í hugsun og einhvers neista innra með manni. Eftir að hafa horft á Repo! hef ég ekkert slíkt lengur.

        Eitthvað kiknaði innra með mér við að horfa á Repo! The Genetic Opera. Ekkert haldbært eða raunverulegt, en ég fann engu að síður að í sálardjúpum mínum brotnaði einhver undirstaða eins og trjágrein eftir langdregna þurrkatíð, og á eftir var ég aðeins minna mennskur. Líkt og sprunga í stíflu sem veikir steypuna í kringum sig smitaði þessi brotna undirstaða út frá sér, hægt í fyrstu en sífellt hraðar eftir því sem fleiri stoðir féllu saman. Allar mínar örvæntingafullu tilraunir til að hægja á hruninu með því að hlusta á Aliciu Keys og Beyoncé í von um að finna mannlegar tilfinningar aftur mistókust; af völdum Repo! er alger eyðilegging alls sem gerði mig að manneskju óumflýanleg. Síðustu kvöld hef ég getað staðist kall hafsins gegnum næturvindinn sem blakar gluggatjöldunum blíðlega til og frá, en ekki lengur. Í kvöld verður ekkert eftir til að tengja mig við þennan heim. Síðustu leifar mannlegra tilfinninga munu grotna niður og ég mun ganga í hafið og taka mér stað á hafsbotninum þar sem sólin drífur ekki niður og nærast á hræjum sem falla til botns. Í myrkrinu skríða þúsund ónefnanlegar verur áfram, og það geri ég líka.

        <p align="center"><strong>

        LAGFÆRING + Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

        • Hér stóð áður milta. Ég vil þakka Arnari, sérlegum anatómíusérfræðingi og innviðakrukkara Árs hinna lifandi dauðu, fyrir að benda mér á að fólk getur lifað án þess að hafa milta.

        Í næstu viku artífartast Frakkar gegnum fimm teiknaðar hryllingsstuttmyndir í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Fear(s)of_the_Dark">_Fear(s) of the Dark</a>.

        <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=T1SbeoOLOUM&hl=fr&fs=1]</p>

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/08-poster.jpg"></p>

          Eftir að ég flutti til Frakklands og komst þannig á meginland Evrópu með öllum þeim flugvöllum og lestarstöðvum sem því fylgja varð ég mjög spenntur fyrir því að ferðast eins víða og hægt var. Ég komst líka fljótlega að því að þegar maður er nemi og lifir af námslánum þá býr maður við viss takmörk þegar kemur að því að eyða peningunum sínum, alla vega ef mann langar að eiga fyrir leigu og geta keypt í matinn, svo að ferðalögin urðu hvorki jafn tíð né yfirdrifin og stóð til í upphafi. Smátt og smátt lærði ég samt að þó að maður hafi enga rosalega fjármuni á milli handanna er engu að síður hægt að komast merkilega langt á litlum pening. Af einhverjum ástæðum er ódýrara að bóka flug með lággjaldaflugfélögum um miðja nótt, fólk undir 25 ára aldri getur fengið allt að helmings afslátt í franska lestarkerfið, og ef að maður þekkir einhvern sem býr þar sem maður ætlar, eða finnst ekkert að því að gista hjá ókunnugu fólki sem að maður hitti á netinu, þá sparar maður helling í hostelkostnað.

          Nokkrir krakkar sem ég bjó með í fyrra tóku þessar pælingar skrefinu lengra þegar þau ákváðu að þeim væri slétt sama um hvar þau enduðu. Um helgar pökkuðu þau niður tjaldi, svefnpokum, mat, auka fötum, tússpenna, pappaspjöldum og piparúða og stóðu svo á hraðbrautinni út úr bænum með spjald með hugmynd að áfangastað krotaða á og biðu eftir að einhver pikkaði þau upp. Í eðli sínu er alltaf viss hætta fólgin í ferðalögum, af því að maður fer á ókunnuga staði þar sem maður þekkir kannski ekki siðina og talar ekki tungumálið, en manni finnst samt einhvernveginn að það sé óþarfa hætta í að húkka far hjá fólki sem maður þekkir ekki neitt. Þessir krakkar voru samt búin að átta sig á þessu og voru með mjög ítarleg plön um hvernig þau höguðu sér - bara það að fara upp í bíl var þaulskipulagt; fyrst fór Stef, svo Cat og síðastur William, svo að það væri hvorki hægt að keyra í burtu með stelpuna, né báða strákana þannig að einhver annar gæti náð í stelpuna. Það sem þið getið lært af þessu er að ef ykkur býðst að þiggja far af fólki sem heitir Cat, Stef og William í framtíðinni skulið þið bara gera það: annað hvort komist þið á leiðarenda, eða þau eru löngu búin að hugsa fyrir öllum undankomuleiðum og þið eigið ykkur enga von.

          Í haust, þegar að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum voru í fullum gangi, tilkynnti einhver fréttastofan að varaforsetaefni Repúblikana, <del>Tina Fey</del> Sara Palin, ætti ekki vegabréf. Sem smáeyjabúa í miðju Atlantshafi fundust mér þetta í fyrstu sjokkerandi fréttir, en eftir því sem ég lærði meira urðu þær skiljanlegri. Til dæmis á minnihluti Bandaríkjamanna vegabréf - í fljótu bragði sögðu google-leitirnar mínar að hlutfallið væri 20% - svo að frú Palin var alls engin undantekning, og þeir hafa líka góðar ástæður til: bæði eru Bandaríkin stærri og fjölbreyttari staður en maður heldur, svo að það er vel hægt að eyða ævinni í að heimsækja þau, þar er lítil hætta á menningar- og tungumálamisskilningi ólíkt því sem gerist í Evrópu, og ef maður þarf að minnsta kosti að eyða fimm tímum í flugvél til að komast til London eða Köben, þá hugsar maður sig tvisvar um og kíkir svo til Jómfrúareyja í Karabíska hafinu í staðinn. Ef mann langar virkilega til útlanda kíkir maður bara til Mexíkó, þar sem sólin er skær, sjórinn hlýr, og lítil hætta á að deyja á sársauka- og hrottafullan hátt. Nema auðvitað að maður hlaupi inn í miðjan frumskóg án þess að láta nokkurn vita eða pakka meiru en tekílaflösku. Sem færir okkur snyrtilega að The Ruins.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/08-injungle.jpg"> In the jungle, the mighty jungle, the lion sleeps tonight.</p>

          The Ruins fjallar um fjóra bandaríska háskólanema - þær Amy og Stacy, sem eru bestu vinkonur, og kærastana þeirra Jeff og Eric - sem eru í fríi á lúxushóteli við strönd í Mexíkó. Þau hafa eytt tímanum þar í að liggja við sundlaugina á hótelinu, drekka, liggja á ströndinni við hótelið, drekka, liggja uppi í rúmi, og drekka, eins og maður gerir þegar maður er í fríi á stað þar sem er ekkert annað að gera en að drekka. Læknaneminn Jeff er samt orðinn þreyttur á að hafa ekki séð neitt annað en botninn á glasinu sínu, svo þegar að krakkarnir kynnast Þjóðverjanum Mathias sem er á leiðinni inn í frumskóg til að leita að bróður sínum, sem fór þangað með vinkonu sinni sem vissi um gamlar rústir sem voru ekki á neinu korti og lausar við alla túrista, stekkur Jeff á tækifærið til að fara með honum og sannfærir hina krakkana um að koma með líka. Hugmyndin er að kíkja í litla dagsferð og upplifa smá menningu síðasta daginn í Mexíkó áður en þau fara aftur heim.

          Þau fimm, ásamt Grikkja sem slæst í lið með þeim, leggja af stað daginn eftir og finna á endanum jeppa bróðurs Mathiasar við slóða sem liggur inn í skóginn. Þau elta slóðann í nokkra klukkutíma, rekast á þögul indiánabörn, brjótast gegnum lauf og greinar sem líta út fyrir að hafa verið stillt upp til að fela leiðina áfram, og komast á endanum að gömlum Maya-pýramída sem er þakinn vinjum með rauðum blómum og falinn í rjóðri í miðjum skóginum. Stuttu seinna mæta indiánar vopnaðir bogum og örvum og byssum sem virðast ekki vera alls kostar sáttir við að krakkarnir séu að þvælast í kringum pýramídann. Í fyrstu reyna hóparnir að tala saman, sem er erfitt af því að þeir tala ekki sama tungumálið, en indiánarnir æsast allir til muna eftir að Amy tekur mynd af þeim og stígur í vinjarnar. Indiánarnir skjóta Grikkjann, neyða hina krakkana til að klifra upp á pýramídann, og umkringja þau svo eftir að liðsauki berst. Þó að þeir virðist ekki hafa áhuga á að fara upp til krakkana, þá eru þeir staðráðnir í að leyfa þeim ekki að fara.

          Þetta er slæmt ástand, þar sem að indiánarnir tóku af þeim eina símann sem náði sambandi í skóginum, en krakkarnir sannfæra sig um að allt geti reddast. Þau ætluðu að fara heim daginn eftir, og þegar að þau tékka sig hvorki út né mæta í flugið þá hlýtur einhver að hringja í lögregluna og láta leita að þeim. Þar að auki lét Mathias vini Grikkjans hafa afrit af kortinu þeirra, svo að þeir vita hvert krakkarnir ætluðu. Þau þurfa bara að bíða í tvo, kannski þrjá daga í mesta lagi, að vísu án matar og vatns, og þá verður þeim bjargað. Ástandið flækist samt þegar að Þjóðverjinn finnur líkið af bróður sínum innvafið í vinjarnar sem eru út um allan pýdamídann, og þegar að þau heyra síma hringja neðan úr brunni á toppnum ákveða þau að sitja ekki auðum höndum, heldur síga niður, finna símann og hringja á hjálp.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/08-spiderbat.jpg"> Þessi maður minnir mig bæði á Tobey Maguire (Spiderman) og Christian Bale (Batman), svo mikið að ég beið alla myndina eftir því að hann byrjaði að spaðadansa og öskra á fólk að drulla sér úr sjónlínunni sinni.</p>

          Ég hafði mjög gaman af atburðarrásinni sem leiðir krakkana út í þessar aðstæður, af því að það er algerlega þeim að kenna hvernig er komið fyrir þeim - eða réttara sagt er það útkoman af runu miður góðra ákvarðana sem þau tóku sjálf. Í grunninn er uppsetningin að The Ruins ekkert svo ólík þeirri í House eða Mirrors, í því að hún fjallar um venjulegt fólk sem lendir í hræðilegum atburðum á afmörkuðum stað, nema í þeim tveim seinni gerðu aðalpersónurnar ekkert annað en að fara á hótel eða mæta í vinnuna, þar sem að hlutir fóru allt í einu að hoppa út úr veggjunum og krefjast skattskýrslanna þeirra. Krakkarnir í The Ruins röltu út í miðjan frumskóg í sandölum og stuttermabolum með engar vistir og án þess að láta neinn sem þekkti þau vita, hundsuðu viðvaranir leigubílstjóra um svæðið sem þau ætluðu á, og þurftu síðan að rífa sér leið gegnum slóða sem var búið að reyna að fela til þess að komast að pýramídanum. Allt þetta ilmar af barnalegri bjartsýni borgarbarna sem hafa aldrei farið í gönguskó og átta sig ekki á því að úti í miðjum skógi er ekki sama öryggisnet til staðar og í siðmenningunni. Jafnvel þegar að staðan er sem verst uppi á pýdamídanum reynir Jeff að hughreysta vini sína með orðunum ,,Svona lagað gerist ekki. Fjórir Bandaríkjamenn á ferðalagi hverfa bara ekki,`` og það er klárt að hann trúir því sjálfur, þrátt fyrir að það sé allt annað en augljóst að hjálpin sé á leiðinni.

          Ég held að ég spilli ekki neinu með því að segja að The Ruins er hreinræktuð skrýmslamynd, sú fyrsta sem að við sjáum síðan að <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/01/29/2-splinter/">_Splinter_</a> var og hét. Eins og í Splinter er skrýmslið sjálft frekar kjánalegt, reyndar svo mjög að ef að maður hoppar inn í seinni helminginn á myndinni er ekki annað hægt en að furða sig á hvernig í ósköpunum einhver hélt að þetta yrði ógnvekjandi. Engu að síður fannst mér skrýmslið ganga upp - sem eru í sjálfu sér vafasöm meðmæli því að ég er tilbúinn að sætta mig við ýmislegt í þessum efnum, mér hefur til dæmis aldrei fundist neitt að ógnvætti vikunnar í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Fringe_(TV_Series)">_Fringe_</a> - en fyrir utan að hugmyndin að skrýmslinu er alla vega frumleg þá er stærsta ástæðan fyrir ástfóstri mínu á því að The Ruins tekur sér góðan tíma í að kynna það fyrir okkur. Allan fyrri hluta myndarinnar er ekki einu sinni ljóst að það sé eitthvað annað í kringum pýramídann en indiánarnir sem leyfa krökkunum ekki að fara, hvað þá að það búi eitthvað hræðilegt í myrkrinu.

          Bæði kjánalega skrýmslahugmyndin og þolinmæðin sem The Ruins sýnir í að kynna skrýmslið og útlista smávægileg vandamál persónanna minna talsvert á hvernig Stephen King byggir sögurnar sínar upp. Það sem er kannski mikilvægara er að The Ruins fylgir honum líka í því að byggja hryllinginn sinn á persónunum og hvernig þær upplifa dvölina á pýramídanum heldur en á lítrum ofan á lítra af gerviblóði. Ekki að gerviblóði sé ekki úthellt í The Ruins en, ef það má nota það orð um blóðsúthellingar í hryllingsmynd, þá er það gert á smekklegan hátt og tilgangurinn er alltaf að auka á spennuna frekar en að vera undirstaða hennar. Munurinn á þessu tvennu hljómar eins og smáatriði sem skiptir ekki máli, en er í raun og veru eitt af atriðunum sem veldur því að myndir skilja eitthvað eftir sig þegar þær klárast.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/08-blood.jpg"> Blóði er ekki úthellt á þennan hátt í The Ruins.</p>

          Kannski má útskýra eitthvað af þolinmæðinni og andrúmsloftinu með því að The Ruins er byggð á samnefndri skáldsögu, en í þeim er yfirleitt meira pláss til að þróa slíka hluti, og þar sem að höfundur skáldsögunnar skrifaði sjálfur handritið að The Ruins hlýtur hann að hafa vitað hverju ætti að halda inni og hvað mætti missa sig. Eftir að hafa lesið Book vs. film spjallið á AV Club um The Ruins skilst mér þó að myndin sé hálfdrættingur bókarinnar og eiginlega ömurleg þegar út í það er farið. Nú hef ég ekki lesið bókina, og það er alveg klárt að þetta er engin tímamótamynd og verður aldrei annað en auðmeltanleg poppkornsskemmtun, en mér finnst þessi dómur samt of harður.

          The Ruins er vissulega kjánaleg á köflum og gengur ekki alltaf upp - sér í lagi er mér gjörsamlega óskiljanlegt af hverju hún byrjar á tilgangslausu bregðuatriði þegar að afgangurinn af myndinni er alls ekki í þeim stíl - en hún skemmti mér oftar en ekki og tókst að stilla upp bæði óvæntum og spennandi augnablikum. Stundum langar mann bara að sjá góða og vel upp setta hryllingsmynd sem reynir ekki að vera neitt annað, og ásamt Splinter er þetta eina myndin hingað til sem ég mæli hiklaust með í því tilviki. Mann langar kannski ekki að kynna The Ruins fyrir foreldrum sínum og eignast með henni sjö börn og hund, en maður myndi heldur ekki skammast sín fyrir að vakna við hliðina á henni daginn eftir.

          <p align="center"><strong>

          Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

          Repo! The Genetic Opera, hryllingssöngleikurinn sem skartar meðal annars Paris Hilton í einu hlutverkanna, leitast við að svara spurningunni ,,Hversu slæmt getur þetta orðið?``

          <p align="center">

          </p>

            <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/07-poster.jpg"></p>

            Ókei krakkar. Ég verð að játa svolítið. Þetta verður játning í spurningarformi. Er einhver hérna eins og ég í því að þeir eru ósjálfbjarga gagnvart, haldnir þráhyggju fyrir, og keyrðir áfram af vilja sem er ekki þeirra eigin til að horfa á 24 í hverri einustu viku? Er það? Í alvöru? Guði sé lof, ég hélt að ég væri einn! Ég er sjúklega mikill 24 aðdáandi. Mér er alveg sama um hversu mikill tími í hverri viku fer í að þylja upp lykilpunktana í söguþræðinum aftur og aftur, eða að það sé mannlega ómögulegt að koma atburðarrásinni fyrir á einum degi, eða að þættirnir prediki pólitísk sjónarmið sem eru hænuskref til vinstri við Þriðja ríkið. Ég elska hverja einustu mínútu af þessum gjörsamlega absúrd þáttum.

            Dálæti mitt á 24 bliknar samt í samanburði við hversu mikið ég dýrka jörðina sem aðalpersónan Jack Bauer gengur á. Í fyrsta sæti yfir uppáhaldshlutina mína í öllum heiminum eru uppvakningar, en Jack Bauer er í mjög nálægu öðru sæti. Skjaldbökur eru svo í þriðja. Yfir síðustu sex seríur af sí ólíklegri atburðum hefur Jack Bauer bjargað deginum aftur og aftur, fengið alls konar fólk til að gera það sem hann vill með því einu að stara á það, skotið fleiri hundruð hryðjuverkamenn, og pyntað heilu tugina af persónum sem þéruðu hann ekki. Nú eru pyntingar alveg hræðilegur hlutur, og inni í hausnum á mér er lítil rödd sem segir að ég ætti að hafa óbeit á viðhorfi 24 til þeirra, en í hverri viku bind ég og kefla þessa litlu rödd og hendi henni inn í kústaskáp og hvet Jack Bauer áfram í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Eru móðir og ungabarn fyrir Jack? Ha! Þau verða það ekki þegar að hann verður búinn að brjóta nokkra putta á þeim.

            Fyrir þá sem hafa áhuga þá á ég fleiri hundruð blaðsíður af hómóerótískum aðdáendaskáldskap um 24 ofan í skúffu. Í honum er gangandi þema að ég og Jack Bauer erum bestu vinir og höngum geðveikt oft saman og drekkum bjór og spjöllum um strákalega hluti og stoppum svo hryðjuverk. Yfirleitt þarf að reikna eitthvað eða leysa diffurjöfnu til að koma í veg fyrir voðaverkin, svo ég sé um það, og hann fer svo og bjargar deginum og ég hjálpa til. Saman myndum við eina skítsæmilega Lassí: Ég gelti óskiljanlegum stærðfræðihugtökum sem ég útskýri svo með einföldum myndlíkingum og Jack, þú veist, bjargar fólki.

            <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/07-spegill.jpg"> Rrrrrrrr…​</p>

            Eins og allir vita þá er Jack Bauer til í alvörunni og lifir tvöföldu lífi í gegnum Clark Kent-lega dulargervið sitt Kiefer Sutherland. Sem dulargervi er Kiefer einstaklega vel heppnaður, því að hann hefur verið frægur kvikmyndaleikari frá því löngu áður en 24 byrjaði og hefur meðal annars sýnt skemmtilega takta í myndum eins og Young Guns og Dark City. Kiefer er þekkt partíljón og vinnualki og ef hann skortir eitthvað þá eru það ekki peningar, svo að þegar hann tekur sér pásu frá þeim tíu mánuðum á ári sem fara í 24 til að leika í einhverju öðru, þá býst maður einhvern veginn við því að hann velji skemmtilegt hlutverk í áhugaverðri mynd frekar en eitthvað út í bláinn. Ég var því nokkuð spenntur fyrir Mirrors, af því að Kiefer Sutherland leikur ekki aðeins aðalhlutverkið í henni, heldur sýnir trailerinn af Mirrors Jack Bauer brjótast fram og stara og öskra á spegla, væntanlega þar til að þeir gera það sem hann vill. Þetta yrði sennilega engin kvikmyndaperla, en ég hef alltof mikinn frítíma og er til í að horfa á Jack Bauer pynta spegla hvaða dag vikunnar sem er.

            Eins og margar af myndunum sem við höfum rætt um þá reynir Mirrors að draga áhorfendurna inn með því að sýna stutt voðaverk í byrjun: áður en takklistinn rúllar sjáum við mann hlaupa gegnum yfirgefna ranghala og enda inni í búningsherbergi með stórum spegli á einum veggnum. Eftir að hann reynir að biðja spegilinn afsökunar á því að hafa reynt að flýja brotnar stykki af speglinum, og maðurinn horfir skelkaður á meðan að spegilmyndin hans tekur stykkið upp, sker sig á háls með því, og um leið opnast skurður á sama stað á hálsinum á manninum sem dettur svo niður dauður. Mirrors byrjar svo fyrir alvöru á því að við kynnumst Kiefer Sutherland, en hann er lögga sem var vikið úr starfi fyrir að skjóta óvart annan lögregluþjón. Þetta slys ásækir Kiefer, sem byrjaði að drekka stíft eftir það og hrakti konuna sína frá sér, þar til að hann reyndi að snúa við blaðinu. Í upphafi myndarinnar býr hann hjá systur sinni, tekur sterk lyf við áfengissýki, reynir að bjarga hjónabandinu sínu, og er að byrja í nýju starfi sem næturvörður í byggingunni úr upphafsatriðinu.

            Fljótlega kemur í ljós að speglarnir í byggingunni eru ekki allir þar sem þeir eru séðir. Kiefer fer að sjá hluti í þeim sem eru ekki þarna í raunveruleikanum: í fyrstu eru það smáhlutir eins og hurðir sem eru opnar í speglinum en lokaðar í alvörunni, en sýnirnar fara stigvaxandi þar til að þær byrja að hafa raunveruleg áhrif á Kiefer eins og þegar hann heldur að það sé kviknað í sér eða sér fórnarlömb bruna sem átti sér stað fyrir nokkrum árum. Þar að auki eru sýnirnar ekki lengur takmarkaðar við speglana í byggingunni, heldur geta þær tekið sér bólfestu í öllum öðrum speglum, og að lokum í hvaða yfirborði sem speglar af, og í staðinn fyrir afmarkaðar sýnir byrja spegilmyndir fólks að hegða sér sjálfstætt eins og í upphafsatriðinu. Speglarnir eru þó ekki að þessu upp á flippið, heldur vilja þeir að Kiefer finni eitthvað eða einhvern sem heitir Esseker, og til að hvetja hann til að spila með byrja speglarnir að hrella systur hans og eiginkonuna og börnin.

            <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/07-konan.jpg"> Hún er örugglega bara með honum fyrir peningana og skilur hann ekki eins og við.</p>

            Þrátt fyrir að Mirrors rembist við að hræða mann eins og rjúpa við staurinn þá tekst henni ætlunarverk sitt voðalega sjaldan. Vandamálið er að það er ekkert haldbært í myndinni til að vera hræddur við. Hver fjandinn er í gangi með speglana er ekki útskýrt fyrr en að það er hálftími eftir af myndinni, en þangað til eru þeir algerlega persónuleika- og andlitslaus ógn sem virðist geta hvað sem hún vill, og á meðan er Mirrors lítið annað en kvikmyndaútgáfan af því að horfa á rottu hlaupa gegnum völundarhús sem hún skilur ekkert í. Eitt og sér er að horfa á það alveg skemmtilegra en að horfa út í loftið, en það er ekki sérstaklega ógnvekjandi. Í staðinn fyrir að byggja upp persónur sem að manni þykir vænt um og koma þeim í hræðilegar aðstæður fer Mirrors frekar þá leið að reyna að sjokkera okkur, en fyrir utan innblásið atriði þar sem systir Kiefer Sutherlands fer í bað þá fara tilraunir hennar til þess fyrir ofan garð og neðan.

            Helsta rót þess að Mirrors mistekst svona leiðinlega er að hún er mjög innblásin af austurlenskum hryllingsmyndum síðustu ára eins og The Ring og Dark Waters. Persónulega er ég ekki hrifinn af slíkum myndum af því að þær snúast yfirleitt um anda í hvítum fötum með dökkt úfið hár sem eiga óuppgerðar sakir við eitthvað í daglega lífinu. Ég hef bæði ákveðnar efasemdir um allan hrylling sem stafar af ótrúlega máttugum yfirnáttúrulegum verum, af því að það er engin fjandans leið að berjast við þær svo að maður á aldrei nokkurn séns á að lifa af, og einnig finnast mér allar gjörðir yfirnáttúrulegu veranna vera kjánalega yfirdrifnar og tilgangslausar. Ef að maður getur skriðið út úr sjónvörpum og hrætt líftóruna úr fólki, þá getur maður líka útskýrt fyrir því á kurteisilegan hátt nákvæmlega hvað það er sem maður vill. Kurteisi kostar ekki neitt, og ef að fólk vill ekki gera það sem maður vill þá getur maður alltaf haldið fjölskyldunni þeirra í gíslingu þar til að það gefur sig.

            Engu að síður skal ég vera fyrstur til að viðurkenna að þegar að asískar hryllingsmyndir ganga upp, þá eru þær virkilega góðar. The Ring er til dæmis mynd sem að ég er ennþá skíthræddur við í dag, þrátt fyrir að það séu fimm eða sex ár frá því að ég fór á hana í bíó og þorði ekki að horfa á sjónvarp í viku eftirá. Mirrors klikkar á því að hún reynir að nota helstu atriði austurlenskra hryllingsmynda - flöktandi ljós, bregðuatriði, illa anda - en hún er gerð af Bandaríkjamönnum en ekki Asíubúum og veit þess vegna ekki alveg hvernig púslin passa saman, rétt eins og Asíubúarnir ættu erfitt með að setja saman búningadrama sem gerist á Viktoríutímanum. Þetta er ekki spurning um hæfileika, heldur er þetta spurning um að þekkja viðfangsefnið, og Mirrors virkar ekki af nákvæmlega sömu ástæðum og mér finnast sögulegar skáldsögur aldrei ganga upp: fólkið á bakvið þær er örugglega fært í sínu starfi, en það hefur aldrei andað að sér loftinu á tímabilinu sem það skrifar um, heldur hefur það bara heyrt sögur af því og lesið um það í bókum, svo að lokaútkoman er ljósrit af reynslu einhvers annars.

            <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/07-gunshot.jpg"> ,,Do you feel lucky, punk?``</p>

            Eins svekkjandi og misheppnaða stílæfing Mirrors er, þá er enn meira frústerandi að það er miklu betri bíómynd falin á milli þilja í henni. Eins og ég sagði áðan þá er Kiefer Sutherland lögga sem á við áfengisvandamál að stríða, tekur sterk lyf, berst við að halda fjölskyldunni sinni saman og er þar að auki þjakaður af minningunni um að hafa skotið aðra löggu. Ef að maður sleppir upphafsatriðinu þar sem að speglarnir drepa næturvörðurinn á undan Kiefer úr myndinni, og hendir svo öllum atriðum þar sem að speglarnir angra einhvern annan en Kiefer, þá er maður kominn langt upp í frábæra mynd um mann sem kiknar undir alltof miklu álagi og missir vitið hægt og rólega. Reyndar er ég alveg sannfærður um að það sé handritið sem að Kiefer Sutherland hafi samþykkt að leika í, og svo þegar að hann var búinn að skrifa undir hafi höfundarnir bætt nokkrum atriðum við og breytt endinum aðeins. Þetta er leiðindamál, því að Mirrors hefði geta orðið The Shining þessa áratugar en er í staðinn auðgleymanleg miðjumoðsmynd.

            Að öllum glötuðum tækifærum til mikilfenglega slepptum, og þrátt fyrir að Mirrors muni seint teljast góð mynd á hvaða mælikvarða sem er, þá situr eftir að mér leiddist ekkert sérstaklega í gegnum bregðuatriðin og spéspeglana. Eina ástæðan fyrir því er samt að áður en Kiefer Sutherland barðist við andsetna nunnu í lokin (hóst symbólismi) fékk ég að horfa á hann skjóta spegla úti á götu og mæta heim til konunnar sinnar og mála öll skínandi yfirborð í húsinu án leyfis eða útskýringar. Ef að þú ert ekki jafn mikill aðdáandi Kiefers og ég þá á þér örugglega eftir að hundleiðast gegnum Mirrors, en fyrir mitt leyti eru allar bíómyndir með Kiefer Sutherland eins og kynlíf: jafnvel þegar þær eru slæmar, þá hugsar maður alla vega um hann á meðan.

            <p align="center"><strong>

            Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

            Grænt, grænt, grænt er grasið úti í haga, og það eru manndrápsvinjarnar í The Ruins líka.

            <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=ZKcCXyi7Pjs&hl=fr&fs=1]</p>

              <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/06-poster.jpg"></p>

              Fyrir nokkrum árum afgreiddum ég og vinir mínir Noreg í heild sinni með orðunum ,,það eru bara fjöll og hommar í Noregi.`` Við vorum að fljúga þar yfir til að millilenda í Svíþjóð á leiðinni til Eistlands, og við vorum svolítið leiðir yfir því að fá ekki tækifæri til að skoða fjörðina og slíkt fyrst að við vorum þarna, þannig að við gerðum það næst besta og ákváðum að Noregur væri með öllu ómerkilegur staður. Skítapleis. Með nákvæmlega einn homma tjóðraðann við hvert fjall.

              Mér þykir vænt um Norðurlöndin. Í heimi þar sem að fólk keyrir vitlausu megin á götunni eða finnst allt í lagi að leyfa hundunum sínum að skíta á gangstéttir, þá finnst mér gott að vita að eftir þrjú ár, þegar að Ísland sekkur í sæ, þá verður ennþá til fólk sem hlær að óviðeigandi bröndurum og drekkur of mikið um helgar og þekkir sögnina ,,að nenna. Það skemmir svo alls ekki fyrir að hvert land hefur sinn persónuleika: Finnar eru þunglyndir og með extra svartan húmor, Danir reykja hass og lifa af sósíal, og eins og áður hefur komið fram þá eru Norðmenn samkynhneigðir fjallgöngugarpar. Í mínum sjúka huga eru Svíar samt sér á báti, en mig grunar að það sé bara vegna þess að eini Svíinn sem ég þekki er stelpa sem er að læra klassískar enskar bókmenntir, og hún á það til að detta í enskan hreim þegar hún er í glasi og svara strákum sem hafa áhuga á því að sofa hjá henni með því að hrópa hneyksluð ,,I am no lightskirt! Svona þegar ég spái í því er hún örugglega talsvert til hliðar við toppinn á normalkúrvunni.

              Hvort sem að hún er frávik eða ekki breytir hins vegar litlu um það að það fyrsta sem mér dettur í hug þegar fólk minnist á Svíþjóð í einhverju poppkúltúrlegu samhengi er Abba. Nú minnir tónlist Abba mig helst á atriðið úr Hitchhiker’s Guide to the Galaxy þar sem Arthur og Ford eru pyntaðir með upplestri á vondum ljóðum, en það verður ekki frá þeim tekið að lögin þeirra hljóma eins og að þau hafi baðað sig upp úr kettlingum á morgnana og neitað tilvist annarra tilfinninga en ótakmarkaðrar hamingju. Sem er fínt mál, miðað við sölutölurnar þeirra er til talsvert af fólki sem hefur gaman af svoleiðis hlutum. Nei, það sem vakti með mér ugg og óhug var að mynd vikunnar, Let the right one in, heitir upprunalega Låt den rätte komma in, kemur frá Svíþjóð og er vampýrumynd. Ég átti mjög erfitt með að sjá fyrir mér að sama þjóðin og sleppti Abba lausri á heiminn, urrandi hamingju og rósum hvert sem þau komu, gæti gert eitthvað sem nálgaðist sannfærandi hryllingsmynd, hvað þá sannfærandi hryllingsmynd um vampýrur, sem eru einkar vængbrotnar sem trúanleg ógn.

              <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/06-rubik.jpg"> Kåre og Lina á góðri stund.</p>

              Við komum aftur að vandamálunum við vampýrur seinna, en frá fyrstu mínútu er ljóst að myndin sem er dregin upp af Skandinavíu í Let the right one in á ekkert sameiginlegt með Abba & co. Í Let the right one in er allt landslag þakið snjó, næturnar eru dimmar og langar, og dagsljósið er dauft og getur ekki meira en undirstrikað að nóttin er skammt undan. Skammdegisþunglyndið er næstum áþreifanlegt og setur tóninn fullkomlega fyrir það sem koma skal. Aðalpersóna myndarinnar er Kåre Hedebrant, sem er tólf ára skilnaðarbarn sem býr í blokk hjá mömmu sinni sem hefur ekki nægan tíma til að sinna honum. Hann er klár strákur en feiminn og er lagður í einelti í skólanum sínum. Hann á enga vini og er einmana og í byrjunaratriðinu þar sem hann stendur hálfnakinn fyrir framan gluggann sinn og fer með línur sem eiga heima í Deliverance fær maður ærna ástæðu til að efast um geðheilsu hans. Eftir að hann klárar að fara með línurnar sínar sjáum við leigubíl renna í hlað og út úr honum koma tólf ára stelpan Lina Leandersson og miðaldra maður, sem flytja dótið sitt inn í íbúðina við hliðina á Kåre og byrja strax að hylja alla gluggana í íbúðinni með plaggötum.

              Ef eitthvað þá er Lina ennþá hlédrægari en Kåre. Henni bregður aldrei fyrir nema á nóttunni, hún leikur sér aldrei heldur hengur í mesta lagi í kringum rólurnar í garðinum, og þrátt fyrir að það sé miður vetur og snjór úti þá gengur hún yfirleitt í kjól. Hægt og rólega verða Kåre og Lina vinir, en á meðan kemur bæði í ljós að hún er vampýra og að maðurinn sem að hún býr með er einhvers konar þjónn hennar sem sér um að myrða fólk og útvega henni blóð. Allt þetta gerist á fyrsta korteri myndarinnar, og ætti meira að segja að vera ljóst hverjum þeim sem sá trailerinn, svo að ég hef ekki spillt neinu með því að segja frá þessum fáu atriðum. Let the right one in er þannig mynd að ég vil ekki fara meira út í söguþráðinn. Málið er ekki að það séu einhverjar brjálaðar fléttur í gangi, eða punktar sem má alls ekki segja frá, heldur er sagan fanta vel upp sett og þrátt fyrir að manni finnist aldrei neitt gerast á sérhverju einstöku augnabliki þá standa persónurnar gjörbreyttar eftir í lokin.

              Á köflum sést að Let the right one in er gerð eftir samnefndri 500 síðna skáldsögu John Ajvide Lindqvist, því fyrir utan að taka sinn tíma í að sýna okkur allt sem skiptir máli þá eru nokkrir þræðir sem virka endaslepptir í myndinni. Sænska vinkonan mín úr inngangnum var látin lesa Let the right one in í skólanum í gamla daga (Mér finnst ég svikinn. Ég meina, Englar alheimsins er alveg góð, en kommon.) og útskýrði meðal annars fyrir mér að sambandið á milli Linu og ,,þjónsins`` hennar sé bæði ítarlegra og langtum sjúklegra í bókinni, og að í henni sé útskýrt mjög undarlegt skot sem sést í eina sekúndu og er svo aldrei minnst á aftur. Ef þið horfið á myndina þá munið þið fatta hvaða skot ég á við án þess að ég segi meira; óútskýrt er það svo út úr kú að það er hálf ótrúlegt að það hafi verið látið fylgja með.

              <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/06-notscary.jpg"> Þetta er ekki ógnvekjandi.</p>

              Eins og ég minntist á áðan þá gerir það kvikmyndum engan greiða í mínum bókum að fjalla um vampýrur. Ástæðan fyrir því liggur í hvernig ímynd þeirra hefur þróast og hvernig þær hafa verið kynntar gegnum árin. Á meðan að Bram Stoker var ekki fyrsti maðurinn til að skrifa um vampýrur, þá er Dracula frá 1897 ennþá áhrifamesta sagan sem hefur verið skrifuð um þær og í henni má finna öll helstu einkenni vampýra sem hafa að lifað af til dagsins í dag. Vampýran hans Stokers er sjarmerandi yfirstéttarmaður sem á auðvelt með að fá fólk til að gera það sem hann vill, en heldur engu að síður ákveðinni fjarlægð á milli sín og venjulegs fólks, eins og að hann líti einungis á það sem verkfæri eða dýr. Aðeins huldari, en engu að síður mjög greinilegir, eru alls kyns kynferðislegir undirtónar í kringum hann; Drakúla er ekki aðeins kynþokkafullur og seiðandi heldur stendur hann beinlínis fyrir kynlífið sjálft.

              Eins og með öll önnur skáldsagnafyrirbæri eru nákvæm einkenni vampýra nokkuð á reiki, en flestar eiga þær sameiginlegt að vera dánar, þurfa að drekka blóð manna til að lifa af, geta smitað aðra af vampýrismanum með bitum sínum, og halda til á nóttinni af því að dagsljósið er þeim skaðlegt. Sem gangandi myndlíking banvænna sjúkdóma er þetta nokkuð öflugur kokteill. Ef maður bætir við kynþokkanum að ofan, og gengur svo skrefinu lengra og kynnir bitin þeirra sem holdgervingu viðhorfs 19. aldarinnar til kynlífs, þar sem saklausum fórnarlömbum er spillt af óhreinum skrýmslum, þá er farið að glitta í eitthvað sem hefur mikla möguleika til að hræða okkur. Vandamálið við vampýrur er hins vegar að fólk klúðrar alltaf að bæta einhverju leynikryddi í pottinn. Á sínum tíma var aðalsmaðurinn hans Stoker örugglega ógnvekjandi tákn kúgunar yfirstéttanna, en hundrað árum seinna höfum við enga tilfinningu fyrir því samfélagi sem Stoker ólst upp í og þetta korn sem fyllti mælinn í gamla daga dugir ekki lengur til.

              Auðvitað eru rithöfundar og kvikmyndagerðamenn löngu búnir að átta sig á þessum vankanti, en hingað til hefur ekki gengið mjög vel að finna lausn á honum. Augljósa lausnin er að uppfæra yfirstéttarmanninn hans Stokers á daginn í dag, en útkoman er svo hallærisleg að hún gengi aldrei upp. Þó að það megi segja ýmislegt vont um bankapeyja og útrásarvíkinga, þá yrði ekki nokkur maður hræddur við þá í myrku húsasundi. Annað sem menn hafa reynt er að sleppa því einfaldlega að finna eitthvað í staðinn fyrir yfirstéttina og leyfa vampýrunum bara að rúlla eins og þær eru. Þetta hefur reynst stórkostlega vond hugmynd, af því að um leið og vampýrurnar hafa enga mannlega eiginleika fyrir utan að vera nokk sama um alla í kringum sig, þá missa þær alla möguleika til að hræða fólk öðruvísi en með því að hoppa á það úr illa lýstum skúmaskotum. Því miður virðist þessi hugmynd hafa orðið ofan á, af því að í dag er ekki hægt að hugsa um vampýrur öðruvísi en að fá nettan kjánahroll, og þegar að þær ber á góma leiðir hugann ósjálfrátt í áttina að tilgerðarlegu hvítu evrórusli sem klæðist svörtum kjólfötum og talar með vondum hreim.

              <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/06-scary.jpg"> Þetta er ógnvekjandi.</p>

              Til allrar hamingju virðist Let the right one in hafa dottið niður á betri leið til að koma vampýrunum niður á mannlegt plan, og gera þær um leið að skrýmslum sem ber að óttast. Á meðan að Lina þarf nauðsynlega að drekka blóð annars fólks eins og allar fyrirmyndar vampýrur og að hún hugsar ekkert sérstaklega um hverjum hún nærist á, frekar en að við hugsum um hvaðan sunnudagssteikin kemur, þá er hún ekki haldin neinum kvalarlosta. Það sem lætur hana samt ganga algjörlega upp og færir hana niður á okkar plan er hversu hrottalega einmana hún er. Vegna þess að morðin hennar vekja óhjákvæmilega athygli getur hún ekki haldið kyrru fyrir lengi í hverri borg, og hún getur ekki myndað tengsl við nýtt fólk af því að ef það fattaði hvað hún er myndi það gera allt í sínu valdi til að drepa hana eins fljótt og hægt er. Engu að síður kemur hún út á næturnar til að tala við Kåre af því að hún er svo ótrúlega einmana. Þetta er einföld hugmynd, en gríðarlega vel framkvæmd, og hún gerir það að verkum að bæði Lina og voðaverkin hennar verða því miklu hræðilegri fyrir vikið.

              Fyrir utan Linu hef ég ekki talað það mikið um það sem Let the right one in gerir vel, af því að í sannleika sagt er talsverð hætta á því að ef ég byrja á því yfir höfuð þá missi ég mig í samhengislausri froðufellingu af lofi og hrósi og litlum sætum merkingarleysum. Næstum allt í henni er vel gert, hvort sem það eru smáatriði eins og að allir í myndinni vita hvað vampýrur eru ólíkt því sem gengur og gerist í zombímyndum, eða hvernig samband þeirra Kåre og Linu þróast og minnir mann á hvernig það var að verða skotinn í einhverjum í fyrsta skipti og hafa ekki hugmynd um hvað gerðist næst, eða að öll viðbrögð Kåre við eineltinu eru grátlega sönn og bersýnilega skrifuð af einhverjum sem var laminn daglega í langan tíma. Þetta er allt stórkostlega gert, og reyndar svo vel að á löngum köflum gleymdi ég að ein persónan átti að vera ódauð vampýra.

              Let the right one in er ekki gallalaus og reynir helst að troða of miklu efni í of stutta mynd, en henni tekst oftar ætlunarverk sitt en ekki og þau atriði sem ganga upp gera miklu meira en að bæta fyrir gallana. Þetta er átakanlega hreinskilin mynd um tíma sem er ekki auðveldur fyrir neinn; hún er um að detta undir radar fullorðna fólksins í kringum mann, hún er um að vera útundan og einmana, hún er um að verða fyrir ofbeldi, og hún er um að verða ástfanginn í fyrsta skipti. Let the right one in minnir okkur á tíma þegar að lífið var flókið og hræðilegt og ofbeldisfullt og fallegt allt í senn, þó að það sé tími sem að við værum frekar til í að gleyma. Og já, ein persónan í henni er vampýra.

              <p align="center"><strong>

              Í NÆSTU VIKU ::</strong></p> Jack Bauer vinnur störukeppni við spegilmyndina sína í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Mirrors_(film)">_Mirrors_</a>.

              <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=O92QxxgeCO8&hl=fr&fs=1]</p>

                <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/05-poster.jpg"></p>

                Að finna góða leið til að byrja þessar umfjallanir er lang erfiðasti parturinn af öllu ferlinu. Sem er undarlegt, af því að það skiptir næstum engu máli á hverju maður byrjar að tala um. En þið vitið það auðvitað, alla þau ykkar sem hafa lesið eitthvað af hinum umfjöllununum. Málið er að það er óttalega leiðinlegt að lesa hluti sem hafa engan inngang, það er svona svipað og að hlusta á fyrirlestur þar sem fyrirlesarinn stendur kyrr og les af glærum. Það virkar miklu betur að mjaka fólki rólega í gang og koma inn af snertlum. Svo er þetta líka smá spurning um að koma sér í gírinn til að skrifa. Ég get haft útlínuna af umfjölluninni í hausnum og vitað nákvæmlega hvað ég ætla að tala um, en ég get ekki byrjað í miðjunni. Ég þarf að gera eins og Hemingway, finna eina góða setningu og vinna út frá henni, af því að um leið og hún er komin þá rúllar þetta áfram af sjálfu sér. Ekki það að þetta rugl eigi eitthvað sameiginlegt með því sem að Hemingway gerði fyrir utan að vera sett saman með orðum, en jafnvel sú tenging er vafasöm.

                Sem betur fer ákvað ég að hafa reglulega skilafresti á þessum umfjöllunum. Ef ég þyrfti ekki að vera búinn að skrifa (og endurskrifa og endurskrifa og endurskrifa) þetta fyrir hvern fimmtudag, þá myndi ég bara horfa á næsta þátt af Mad Men í staðinn fyrir að setjast niður og gera eitthvað. Þó svo að ein eða ein umfjöllun dytti út myndi heimurinn sennilega ekki farast með hálfkæfðu ópi, en það yrði svekkjandi að standa ekki undir væntingum. Ég er reyndar undarlega veikur fyrir hlutum sem standa ekki undir væntingum, af því að fólkið á bakvið þá reyndi alla vega að gera eitthvað. Það er til dæmis ein af ástæðunum fyrir að mér finnst Southland Tales ein skemmtilegasta mynd síðustu ára, þrátt fyrir að hún geti ekki reimað skóna sína sjálf og þurfi hjálp við að fara á klóstið.

                Af svipuðum ástæðum var ég mjög spenntur fyrir fyrstu Spiderman myndinni á sínum tíma, nánar tiltekið af því að Sam Raimi leikstýrði henni. Það er eitthvað ótrúlega heillandi við hugmyndina um að láta Evil Dead gaurinn fá eina stærstu ofurhetju í heimi: Öðrum megin höfum við kóngulóarmanninn sem stendur fyrir sæmilega fjölskylduvæna skemmtun, og hinum megin höfum við leikstjóra sem teipaði vélsög á hendina á einni hetjunni sinni og lét tré nauðga kvenkyns persónunum sínum. Þetta leikstjóraval ilmaði af þeirri tegund sturlunar sem fær menn til að ganga í ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka og rífa af sér skyrturnar og spangóla á tunglið. Það gat ekki annað en skilað stórkostlegum hlutum, en gerði það svo einhvernveginn ekki. Ég held að ég verði samt að leyfa einhverjum öðrum að skoða af hverju möguleikar Spiderman myndanna til að verða frábærar enduðu með því að gamlar konur grétu á götum úti og afneituðu hinum heilaga anda. Þetta er jú einu sinni hryllingsmyndablogg, og fyrir utan spaðadansinn hans Tobey Maguire í þriðju Spiderman er lítið við þann bálk sem telst hrollvekjandi. Ég hef samt mínar tilgátur um af hverju þetta endaði svona: Spiderman vantaði meiri kúabjöllu, og hana vantaði meiri Bruce Campbell.

                <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/05-dance.gif"> Ennþá slæmt eftir allan þennan tíma.</p>

                Mynd vikunnar, My name is Bruce, þjáist alls ekki af sama vandamáli. Ókei, meiri kúabjalla gerði henni örugglega ekkert nema gott, en þar sem Bruce Campbell leikur aðalhlutverkið í henni, leikstýrir henni, og framleiðir hana þá væri erfitt að koma meiri Bruce Campbell fyrir í henni, nema hugsanlega með því að henda söguþræðinum fyrir borð og láta Campbell hrópa hnyttin slagorð í myndavélina í einn og hálfan tíma. Reyndar væri það mynd sem mér þætti mjög gaman að horfa á, svona þegar út í það er farið. Og fyrst við erum að deila vonum okkar og draumum hérna, þá vil ég sjá mynd með Al Pacino áður en hann deyr þar sem hann gerir ekkert annað en að ganga á milli sviðsmynda og öskra magnaðar ræður. Hoo-ah!

                Allavega. Því miður er heimurinn ekki sanngjarn og réttlátur staður, eins og sést ágætlega á því að þeir sem taka mark á stjörnuspám mega eignast börn, eða því að hvert mannsbarn þekkir ekki Bruce Campbell. Reyndar er það ekkert skrýtið, af því að hann hefur aldrei skotist upp á stjörnuhimininn, heldur frekar flogið letilega í átt til himins á skýjaðri nóttu. Í dag er Bruce Campbell ennþá þekktastur fyrir að leika Ash Williams úr Evil Dead seríunni hans Sam Raimi, en fyrsta myndin úr þeim bálki er frumraun þeirra beggja. Evil Dead kom út árið 1981 og síðan þá hefur Bruce Campbell leikið sama hlutverkið aftur og aftur - það er kaldhæðna B-myndahetju sem dritar niður vondum bröndurum og skrýmslum með svipaðri tíðni - með litlum sem engum breytingum. Engu að síður er Bruce Campbell virtur á sinn hátt og á gríðarlega dyggan aðdáendahóp, sem má útskýra með því að hann tekur sjálfan sig aldrei of alvarlega, og að hann er rosalega góður í því sem hann gerir vel. Til dæmis er það Bruce Campbell að þakka að strákar um allan heim geta gripið næstu stelpu og sagt ,,Hail to the king, baby`` áður en þeir kyssa hana. Geri aðrir betur.

                Okkur hefur tekist að komast ansi langt án þess að minnast á My name is Bruce að einhverju leyti, en því miður var engin leið framhjá því. Þetta er mynd sem þarf að vera í samhengi til þess að það sé eitthvað vit í henni. Sér í lagi þarf fólk að þekkja Bruce Campbell, af því að öll myndin er einn stór brandari á kostnað hans. Í My name is Bruce er gert stólpagrín að persónunum sem Campbell leikur, leikstílnum hans, myndunum sem hann velur að leika í, og vondu bröndurunum sem hann segir í téðum myndum. Ef að fólk þekkir Bruce Campbell ekki, þá er ansi hætt við að allur punkturinn með myndinni fari framhjá því, á sama hátt og spilagaldrar fara fyrir ofan garð og neðan hjá hundum.

                <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/05-chainsaw.jpg">_Því miður er þetta eina atriðið í myndinni þar sem Bruce heldur á keðjusög._</p>

                Þrátt fyrir að söguþráðurinn í My name is Bruce falli í svipaðan flokk og sá í Frontier(s) frá því í síðustu, í þeim skilningi að hann er þarna yfir höfuð af skyldurækni við kvikmyndaformið frekar en af því að hann hefur eitthvað að segja, þá verð ég að gefa My name is Bruce prik fyrir skemmtilegasta inngang sem ég hef séð hingað til. Í stuttu atriði sem setur tóninn algerlega fyrir myndina syngja tveir menn alla baksöguna í kántrílagi: Fyrir sirka hundrað árum féll náma í smábæ saman og hundruðir kínverskra innflytjenda festust inni í henni og dóu, og sagan segir að kínverski guðinn Guan-Di gæti hinsta hvíldarstað þeirra og muni refsa hverjum þeim sem raskar við honum. Eftir að kántrílagið klárast, þá byrjar myndin fyrir alvöru á því að Bruce Campbell megaaðdáandinn Taylor Sharpe raskar hinsta hvílustað innflytjendanna með vini sínum og tveim stelpum sem þeim langar að sofa hjá. Eins og kántrílagið spáði fyrir um þá drepur Guan-Di þau öll nema Taylor, sem sleppur í burtu í þetta skiptið en er ennþá á skítlistanum hjá kínverska guðinum. Þar lendir restin af smábænum líka, af því að þetta er lítill bær og Guan-Di ætlar einnig að drepa alla ættingja stráksins. Eins og þið getið ímyndað ykkur yrðu svipaðar aðstæður alvarlegt vandamál á Íslandi.

                Til að leysa þetta vesen rænir Taylor kvikmyndaleikaranum Bruce Campbell, sem er best þekktur í myndinni eins og í raunveruleikanum fyrir hlutverk sín í B-myndum eins og Evil Dead, og hefur því talsverða reynslu í að berjast við svona ógnir. Eini hængurinn á planinu er að þessi útgáfa af Bruce Campbell er í svipuðum stíl og Neil Patrick Harris úr Harold and Kumar myndunum. Hann er misheppnaður fráskilinn róni sem býr í hjólhýsi með hundinum sínum, og lifir á því að gera hvert framhaldið á fætur öðru af vondri mynd um hellageimverur. Í fyrstu er Bruce ekki hrifinn af því að vera rænt og neyddur til að berjast við fornan kínverskan guð, en eftir að hann misskilur aðstæðurnar og heldur að þetta sé allt saman afmælisgjöf frá umboðsmanninum sínum skiptir hann um skoðun, alla vega þangað til að hann leiðir bæjarbúana í bardaga gegn Guan-Di og fattar að kínverski guðinn er ekki gaur í gúmmíbúningi.

                Alveg frá fyrstu mínútu er My name is Bruce staðráðin í að koma eins mörgum klisjum fyrir og eðlisfræðin leyfir: Táningagredda er glæpur og refsingin við henni er umsvifalaus og blóðugur dauðadagi (sjá einnig: Krysta Now - Teen horniness is not a crime); þegar að fólk sér eitthvað skuggalegt í skóginum röltir það undantekningalaust í áttina að því í staðinn fyrir að koma sér í burtu; í einu atriði hringir Bruce í fyrrverandi konuna sína og segist sakna hennar og barnanna (hún: ,,Hvaða barna?``); Kínverjar og Ítalir koma aðeins fyrir sem öskrandi steríótýpur sem geta annað hvort ekki sagt stafinn L eða enda öll orð á A; og undir lokin ráfar My name is Bruce inn á yfirráðasvæði Tomma og Jenna þegar að engill og djöfull birtast á öxl Bruce og ræða málin. Allt þetta er svo sem í lagi, af því að My name is Bruce er kjánaleg frá fyrstu mínútu og meirihlutinn af bröndurunum gengur upp, en mér fannst þetta fara út í öfgar alveg í blálokin þegar að myndin gat bókstaflega ekki ákveðið sig hvernig hún ætlaði að enda; í sönnum Wayne’s World stíl eru þrír mismunandi endar á myndinni.

                <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/05-megahappy.jpg">_,,We should do the megahappy ending.``_</p>

                Það er ákveðið vandamál við myndir eins og My name is Bruce, en það er að þær eru kvikmyndaútgáfan af því að sprengja plastkúlurnar sem að maður pakkar dóti inn í. Á meðan að ég skemmti mér mjög vel við að horfa á hana og að þetta sé fullkomin mynd til að horfa á yfir bjór með nokkrum vinum, þá er voða lítið hægt að segja um hana og hún vekur ekki upp djúpar pælingar hjá einum né neinum. Ég held ég láti mér þetta að kenningu verða og velji héðan í frá myndir sem reyndu að vera eitthvað meira en gjörsamlega heilalaus skemmtun, eins og Splinter eða House, af því að hvort sem þær ganga upp eða hrapa og brotlenda þá er alla vega hægt að segja eitthvað um þær. En eins og allt annað sem ég segi þá mun ég að sjálfsögðu svíkja þetta að minnsta kosti einu sinni, því að ég er búinn að bíta í mig að horfa á mynd með Paris Hilton eftir nokkrar vikur.

                Að öllum lífslexíum og óhjákvæmilegum svikum slepptum, þá get ég samt mælt heilshugar með því að fólk kíki á My name is Bruce. Ef maður hefur séð eitthvað af myndunum hans Bruce Campbell og slatta af vondum hasarmyndum, þá er hún alveg öskrandi fyndin. Ef ekki, þá er hér komin prýðileg afsökun til þess að kynna sér Evil Dead myndirnar, ef aðeins til þess að fatta brandarana í My name is Bruce. Af því að jafnvel þó að þú hafir aldrei heyrt um Evil Dead áður, þá langaði þig alltaf að sjá þær. Þú vissir það bara ekki fyrr en núna.

                <p align="center"><strong>

                Í NÆSTU VIKU ::</strong></p> Ungur sænskur drengur verður fyrir einelti og vingast við vampýru á sjöunda áratugnum í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Let_the_Right_One_In_(film)">_Let the right one in_</a>. <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=ICp4g9p_rgo&hl=en&fs=1]</p>

                  <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/04-poster.jpg"></p>

                  Í einu uppistandinu sínu talar Eddie Izzard um að hann hafi lært frönsku í þónokkur ár og tali hana mjög vel, eitthvað sem hann nýtti einu sinni til að setja upp nokkrar sýningar í Frakklandi; að hluta til af því að hann gat flutt efnið sitt á frönsku, og að hluta til vegna þess að þá gat hann ullað á fólk sem getur það ekki. Mér finnst þetta viðhorf flott. Ég vil kannski ekki að ganga svo langt að segja að allt sem ég geri sé til þess að líta betur út í augum annarra svo ég fái kannski að ríða, en það hefur vissulega áhrif. Í algerlega ótengdum fréttum hef ég búið í Frakklandi í rúmt ár og tala frönsku alveg sæmilega, og get þess vegna horft á franskar myndir eins og Frontier(s) án texta. Og keypt baguette í bakaríum. Og pantað demi á kaffihúsum. Allir þeir sem vilja sofa hjá mér nú þegar þeir vita þessar upplýsingar eru vinsamlegast beðnir um að senda mér tölvupóst með nýlegri mynd.

                  Því miður fór þessi tilkomumikla og kynþokkafulla frönskukunnátta fyrir lítið í þetta skiptið, því enskur texti var harðkóðaður í eintakið af Frontier(s) sem ég stal af intertúbunum. Satt að segja var það eins gott. Það er nefninlega nokkur munur á hvernig fólk talar í daglega lífinu og í bíómyndum, tali nú ekki um ef þetta sama fólk eyðir mestum sínum tíma í að flýja banvæna hættu, og eftir fimm mínútur gafst ég upp á að sitja með annað eyrað við hátalarana til þess að heyra orðaskil og las bara textann. Ég skil vel ef þið viljið ekki sofa hjá mér lengur. Ég ætla samt að halda tölvupóstunum og myndunum. Þær kæta mig.

                  Meginland Evrópu hefur sótt í sig veðrið í hryllingsmyndagerð á síðustu árum. Til dæmis hefur Spánn sent frá sér draugasöguna El Orfanato, sem heldur spennu alla leið í gegn á meðan að sagan skríður áfram eins og jökull, og zombítryllinn [REC] sem er svo ótrúlega vel heppnuð að mig langar aldrei að sjá hana aftur. Þegar að það dimmir úti þá minnir stigagangurinn í húsinu mínu talsvert á blokkina úr [REC], sem gerir það að verkum að ég verð skíthræddur þegar ég kem heim af fylleríum og reyni því að stunda mína drykkju annað hvort einn inni í herbergi eða á daginn. Um svipað leyti og Spánverjarnir fóru að sækja í sig veðrið tóku Frakkar eftir að splattermyndir voru komnar aftur í tísku, og þeir hafa eytt síðustu árum í að framleiða myndir eins og Ils og A L’interieur, sem litu á Hostel og fannst hún fín fyrir utan að hún var ekki nógu ofbeldisfull.

                  Svona þegar ég segi þetta þá finnst mér munurinn á myndunum frá Spáni og Frakklandi áhugaverður. Stærstu spænsku myndirnar eiga það sameiginlegt að eiga við yfirnáttúruleg fyrirbæri eins og drauga eða uppvakninga, en þær frönsku ná í sinn hrylling gegnum samviskulausa sadista sem eru samt sem áður mennskir. Fólki finnst gaman að reyna að lesa eitthvað um þjóðfélagið og náungann úr hryllingsmyndum, því að til þess að geta hrætt fólk almennilega þarf maður að þekkja það vel, og á pappír ættu hryllingsmyndir hvers þjóðfélags því að endurspegla allt sem það óttast. Í framhaldinu hlýtur maður að spyrja sig hvort að þessi meinti ágreiningur Spánverja og Frakka um hvað sé ógnvekjandi endurspegli einhvern grundvallarmun á þjóðarsál þeirra, eða hvort hann sé tálsýn sem orsakast af tilviljun einni? Því miður þekki ég hvoruga þjóðina nógu vel til að geta svarað þessari spurningu á sannfærandi hátt, en ég skal sjá hvar ég verð eftir tíu ár og reyna aftur þá.

                  <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/04-fire1.jpg"> Eldurinn hreinsar.</p>

                  Þangað til getum við talað um Frontier(s). Hún hefst á runu fréttamynda af þjóðaríþrótt Frakka, það er verkföllum og óeirðum, og smátt og smátt púslar maður saman að öfgasinnaður hægrimaður hafi verið kosinn forseti Frakklands og að óeirðirnar séu honum til höfuðs. Ég veit ekki með ykkur, en ég gæti eytt heilu dögunum í að stara á sjónvarpsmyndir af óeirðum á meðan ég kveiki áhugalaust í pappírssneflum sem ég sleppi þegar eldurinn kemur of nærri fingrum mínum, þannig ég var pínulítið vonsvikinn þegar að sagan byrjaði fyrir alvöru með því að kynna hóp af þjófum sem höfðu nýlokið stóru ráni og voru á flótta undan lögreglunni. Eftir smá skotbardaga, bræðiskast og útsýnisferð um undarlega mannlausar óeirðir sem einkenndust af molotovkokteilakasti í auða veggi, þá voru allir komnir í stórt vöruhús og gátu tekið púlsinn á stöðunni. Einn af þjófunum fimm hafði orðið fyrir skoti, svo honum var skutlað á spítala og hin fjögur flúðu svo út á land með það í huga að komast til Hollands til að fela sig. Með því að keyra á ábyrgan hátt með hendur á tíu og tveim komust þau þangað heilu og höldnu fyrir dagmál, og eyddu restinni af myndinni í að skoða síki og söfn í Amsterdam og skrifa póstkort til vinar síns á spítalanum sem náði fullum bata, og saman skiluðu þau svo peningunum sem þau stálu í lokin. Ó hryllingurinn, ó hryllingurinn.

                  Til allrar hamingju kláraðist Frontier(s) ekki svona, því hópurinn ákvað að stoppa nálægt landamærunum og gista á hóteli lengst úti í rassgati, sem er alltaf góð hugmynd þegar maður hefur nýlokið stóru ráni eins og þeir sem hafa séð Psycho vita. Í upphafi virtist þetta vera besta hótel í heimi á hátt sem vakti sko ekki upp neinar grunsemdir, því allir máttu gista frítt og fengu meira segja að sofa hjá húshjálpinni í mjög svo óþörfu kynlífsatriði. Réttara sagt fékk einn þjófanna að sofa hjá húshjálpinni, en annar fann sinn innri Michael Douglas þegar honum var gott sem nauðgað af þernu sem vissi að ,,nei er bara önnur leið til að segja ,,já. Öllum að óvörum var galli á gjöf Njarðar, því meðlimir fjölskyldunnar sem rak hótelið voru bæði mannætur og nasistar - ekkert nýnasistarugl hérna, höfuð fjölskyldunnar var nasisti í gamla daga áður en það komst í tísku - og taka til óspilltra málana við að pynta, myrða og éta þjófana, auk þess að nota stelpuna í hópnum til að halda innræktun í lágmarki. Í kjölfarið fylgir svo ótrúlega blóðug blanda af Hostel og Texas Chainsaw Massacre, með einstaka slettum af The Descent.

                  Þó að ég reyndi í þúsund ár tækist mér tækist aldrei að gera almennilega grein fyrir hversu blóðug og ofbeldisfull Fronter(s) er. Tungumálið hefur sín takmörk, og Frontier(s) er langt fyrir utan þau. Fyrir utan vanilluofbeldi eins og barsmíðar, hnífsstungur og skotárásir, þá má sjá kjötkæli fullan af fórnarlömbum sem hafa verið í kvöldmat, hásinaklippingar með stórum járntöngum, og gaur sem er hent á járnsög með tilheyrandi hreinlæti og kvalarleysi. Af Frontier(s) má líka læra þá mikilvægu lexíu að það sé vond hugmynd að fela sig inni í litlum klefum sem eru notaðir til að gufusjóða heilu kjötskrokkana í einu. Ekki gera það, krakkar. Það endar með því að einhver meiðir sig. Eða aðeins nákvæmar, að einhver endurupplifi síðustu augnablik Jeff Goldblum úr The Fly, með blóði útum allt og bræddri húð og haglabyssuskoti í hausinn og öllu tilheyrandi. Margar persónurnar í Frontier(s) eyða svo miklum tíma útataðar í blóði frá toppi til táar, blóði sem er að mestu ekki þeirra eigið, ofan á að vera með opin sár á sama tíma að ég gat ekki annað en hugsað um heilsufar þeirra. Þetta er augljóslega fólk sem hefur ekki minnstu áhyggjur af smitsjúkdómum.

                  <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/04-nazi.jpg"> Maður heyrir orðin ,,Arbeit macht frei`` ekki oft í dag, en þessi viðkunnalegi maður muldrar þau og aðra gamla nasistaslagara á milli viðurverka.</p>

                  Um miðja myndina datt ég úr sambandi við aflimanirnar og mannátið á skjánum í smástund og fór að hugsa um vandamálin sem fylgja því að reka hótel sem gerir út á manndráp. Það vakna svo margar brýnar spurningar við þannig rekstur. Drepur maður alla gestina sem koma til manns? Ef ekki, hvernig ákveður maður þá hvaða gestir tékka sig út og hverjir ekki? Hvað gerir maður við líkin ef maður hefur ekki lyst á að borða þau? Er það vesenisins virði að reyna að selja vegabréf og skilríki gestanna? Gerir fjarskiptatækni nútímans það erfiðara að reka manndrápshótel í dag en, segjum, fyrir fimmtíu eða hundrað árum? Þetta eru allt áhugaverðar spurningar, sem ég velti auðvitað bara upp okkur til dægrastyttingar og tengjast nýlegum fjárfestingum mínum í ferðalagabransanum ekki á nokkurn hátt.

                  Upp úr þessu fór ég svo að velta fyrir mér hver fyrsta morðhótelssagan væri? Augljóslega er Frontier(s) langt frá því að vera sú fyrsta, þó ekki nema vegna þess að Hostel og Psycho komu á undan henni. Mig minnti samt endilega að þessi hugmynd teygði sig miklu lengra aftur, og rámaði í eitthvað sem ég hélt að væri annað hvort þjóðsaga eða smásaga eftir Edgar Allan Poe sem fjallaði um gistihúseiganda sem smíðaði sérstakt rúm til að kæfa gestina sína og ræna þá. Þrátt fyrir að hafa slátrað sjö geitum til heiðurs Google þá fann ég ekki söguna sem mig rámaði í (ótengt: það eru sjö vænlegir geitarskrokkar í boði handa hverjum þeim sem getur bent á líklegan kandidat), en ég fann svolítið annað sem staðfestir enn og aftur að raunveruleikinn er miklu undarlegri en nokkur skáldskapur.

                  Rétt fyrir heimssýninguna í Chicago árið 1893 ákvað ungi athafnamaðurinn H.H. Holmes að fara út í hótelrekstur og hóf að reisa sitt eigið hótel. Að byggja hótelið tók óvenju langan tíma, af því að Holmes rak og réð nýja verkamenn á tveggja vikna fresti. Þetta gerði hann af tveim ástæðum: annars vegar af því að með þessu þurfti hann ekki að borga þeim laun, þökk sé lögum sem yrðu seint samþykkt í dag, og hins vegar af því að þannig hafði enginn nema hann skilning á teikningunum að hótelinu, en á þeim mátti finna þrjár hæðir af ranghölum, stigaganga sem leiddu ekki neitt, yfir hundrað gluggalaus herbergi, þar af sum hljóðeinangruð og önnur búin leiðslum sem gátu veitt gasi inn á gestina, brennsluofn í kjallaranum og strekkingarbekk sem Holmes ætlaði víst að nota til að búa til kynstofn af risum.

                  Á næstu árum myrti Holmes bæði gesti sína og starfsfólk, sem hann fékk fyrst til að taka út veglega líftryggingu sem tiltók sig sem bótaþega. Holmes myrti fórnarlömb sín bæði með venjulegu ofbeldi sem og óhefðbundnari aðferðum, eins og að læsa herbergishurðunum, fylla herbergin af gasi og hlusta á gestina kafna. Í kjallaranum brenndi Holmes ýmist líkin, leysti þau upp í sýru, eða verkaði þau og seldi beinagrindurnar og líffærin til læknaskóla. Árið 1897 var H.H. Holmes fundinn sekur um 27 morð og tekinn af lífi. Þessi 27 morð voru bara þau sem hann játaði, en allt í allt var hann grunaður um aðild að meira en 200 morðum sem voru framin á tíu ára tímabili. Það er ljótt að gera grín að þessu, en það er varla hægt annað en að hugsa til þess sem Eddie Izzard sagði þegar hann velti fyrir sér hvernig svona fólk kæmi öllum þessum morðum eiginlega í verk:

                  Þú hlýtur að vakna mjög snemma á morgnana - ég hef ekki einu sinni tíma til að fara í ræktina. Stundataflan þín lítur örugglega undarlega út: Vakna, fara fram úr, dauði, dauði, dauði, dauði, dauði, snögg sturta, dauði, dauði, dauði …​

                  <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/04-peningaskot.jpg"> Þetta er það sem fólkið í bransanum kallar ,,peningaskotið``.</p>

                  Ég veit ekki hvort að framleiðendur Frontier(s) vissu af herra Holmes eða ekki þegar þeir gerðu myndina sína, en ég er viss um að hann og Frontier(s) myndu ná ágælega saman yfir sameiginlegum blóðlosta ef þau hittust í partíi. Eins og ég sagði áðan þá er þráhyggja Frontier(s) fyrir blóðsúthellingum á svo háu stigi að manni hættir að standa á sama. Ég fékk hálfpartinn á tilfinninguna að fyrsta uppkastið af henni hafi samanstaðið af engu öðru en níutíu mínútum af fólki að limlesta hvort annað og baða sig í gerviblóði. Seinna meir hafi stúdíóið svo snúið upp á hendina á höfundunum, látið þá fá tékklista yfir það sem þyrfti að vera í myndinni og þeir hafi síðan bætt punktunum af honum inn í myndina eftirá: ,,Persónur? Jebb. Söguþráður? Jebb. Kynlífsatriði? Jebb. Samfélagsádeila? Je…​ nei, fjandinn. Umm…​ það eru nasistar í myndinni. Getum við slengt inn einhverju í byrjun um að öfgahægrimenn séu vondir?`` Ekkert þessara atriða er illa framkvæmt sem slíkt, eða alla vega ekki verr en gengur og gerist, en það skín í gegn að ekki nokkur þeirra sem kom að gerð Frontier(s) hafði minnsta áhuga á þeim.

                  Og hvað með það? Eftirá að hyggja er mér í raun og veru alveg sama um að ég hafi varla getað þekkt aðalpersónurnar í sundur frá hvorri annari, eða að söguþráðurinn hafi gott sem klárast eftir tíu mínútur þegar hann var búinn að þjóna tilgangi sínum og koma persónunum til mannætunasistanna. Fólkinu sem gerði Frontier(s) var kannski skítsama um persónur og söguþráð, en það hafði ótrúlegan metnað fyrir blóðsúthellingum, og hjarta þeirra var barmafullt af ást á splattermyndum. Þetta er smá spurning um sjónarmið. Já, á annan bóginn hefur Frontier(s) sögumannshæfileika á við draghalta geit, en aftur á móti endar hún á því að kona sem maður sér ekki lengur í fyrir blóði hrindir annarri stelpu í jörðina, rífur hana á háls með tönnunum einum saman, og öskrar heljaróp í átt til himins meðan rigningu lemur niður allt í kringum hana. Það er alveg hægt að finna vankanta á Frontier(s), en hún kemur aldrei til dyra klædd öðruvísi en sá froðufellandi vanskapnaður sem hún er, og fjandinn ef það er ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir svona heiftarlegum blóðsúthellingum.

                  <p align="center"><strong>

                  Í NÆSTU VIKU ::</strong></p> Bruce Campbell (leikinn af Bruce Campbell) er rænt af aðdáendum sínum sem vilja að hann berjist við djöful sem herjar á smábæinn þeirra í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/My_Name_Is_Bruce">_My name is Bruce_</a>. <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=2tmMYS8s-Pk&hl=en&fs=1]</p>

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/01/03-poster1.jpg"></p>

                    ,,Ljósið skein í myrkrið, og myrkrið skildi það ekki.`` - Upphafsorðin úr House

                    Um leið og ég sá Being John Malkovich áttaði ég mig á því að ég var með holu í hjartanu sem var nákvæmlega eins í laginu og handritshöfundurinn Charlie Kaufman. Eina myndin eftir Kaufman sem ég man eftir að hafa rekist á áður en ég sá Malkovich er Adaptation. Af ýmsum ástæðum fannst mér hún ömurlega leiðinleg á þeim tíma, kannski af því að ég var ekki byrjaður að hafa jafn mikinn áhuga á súrrealískum pælingum og nú, og kannski af því að Adaptation er ekki mynd sem maður getur gengið inn í einum og hálfum tíma eftir að hún byrjar og ætlast til að fatta hvað er í gangi. Ég kenni því ríkissjónvarpinu um að ég fékk ekki áhuga á Charlie Kaufman fyrr en nýlega. Ef RÚV hefði aldrei sýnt Adaptation, þá hefði ég aldrei gengið svona seint inn í miðja sýningu á henni, og þá væri líf mitt án efa miklu, miklu betra í dag, og dekadens þess næði nú síðrómverskum hæðum með borgarbrennum, fiðluleik og hórum og öllu.

                    Ástæðan fyrir að ég nefni Adaptation sérstaklega er að á undarlegan hátt tengist hún House, myndinni sem er á boðstólnum í dag. Nákvæmlega hvernig verður að bíða í smástund, en ég lofa því að það verður þess virði. Nú veit ég ekki hversu margir hérna hafa séð Adaptation, en til þess að allir séu með skulum við rifja upp það sem við á. Hún fjallar um bræðurna Charlie og Donald Kaufman. Charlie er handritshöfundur sem á í miklum vandræðum með að fylgja nýjustu myndinni sinni eftir, en hún hét Being John Malkovich. Hann er þunglyndur, kvíðinn yfir öllu, og með ritstíflu. Donald er svarti sauðurinn í fjölskyldunni sem hefur aldrei getað neitt rétt, en dettur svo í hug að gerast handritshöfundur eins og bróðir sinn. Hann fer á námskeið um hvernig maður eigi að fara að, sest niður, og dúndrar út sálfræðitrylli sem er algerlega málaður eftir númerum en selst svo fyrir milljónir.

                    Þessi sálfræðitryllir heitir The 3 og fjallar um fjöldamorðingja, nýjasta fórnarlamb hans, og lögreglumann sem reynir að finna morðingjann áður en hann getur drepið fórnarlambið. Eftir mikla bílaeltingaleiki og ég veit ekki hvað og hvað, þá kemur í ljós að þessi þrjú eru öll sama manneskjan sem þjáist af klofnum persónuleika. Í Adaptation er þetta handrit nett ádeila á ruglið sem Hollywood lætur frá sér, því ef maður sest niður og hugsar um söguna í smástund sér maður að það er ekki nokkur leið að hún geti gengið upp, þó ekki nema vegna þess að persónurnar þrjár eru oft sýndar gera mismunandi hluti á sama tíma.

                    Adaptation kom út 2002. Einu ári seinna gaf rithöfundurinn Ted Dekker út bókina Thr3e, en söguþráður hennar er nákvæmlega eins og sagan hans Donald Kaufman. Í fyrra var svo gerð bíómynd eftir bókinni hans Dekker, og í augnablikinu hefur líf mitt þann eina tilgang að finna eintak af henni og rökstyðja að hún geti talist hryllingsmynd. Fyrir utan Thr3e hefur herra Dekker skrifað 27 aðrar bækur á síðustu níu árum, og fyrir skemmtilega tilviljun er hann annar höfunda House. Af hverju var ég eiginlega að nefna allt þetta áður en ég byrja á að tala um House? Ástæðan er sú að ég vil að hlutirnir séu í samhengi. Ég vil að þið vitið hvers konar fólki fannst góð hugmynd að skrifa og kvikmynda House. Þetta er sama fólkið og sá ekkert að hugmyndinni um að morðingi, fórnarlamb og lögga væru sama persónan, jafnvel þegar að þau væru í æsispennandi bílaeltingarleik hvort við annað.

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/03-adapt.jpg"> Charlie og Donald Kaufman úr Adaptation.</p>

                    Það virðist vera hipp og kúl núna að byrja hryllingsmyndir á því að sýna eitt voðaverk sem tengist svo inn í söguþráðinn seinna, svona svipað og X-Files byrjuðu alltaf og Fringe gera núna. Splinter frá því í síðustu viku gerði þetta og House byrjar líka svona. Í byrjunaratriðinu sjáum við konu reyna að fela sig frá eiginmanninum sínum í stóru og gömlu húsi, en hann finnur hana, segir henni að allt verði í lagi, og skýtur hana með haglabyssu. Eins og maður gerir þegar að kellingin hættir ekki að nöldra í manni, er það ekki strákar? Ha? Ha? Þið vitið hvað ég á við. Ahem.

                    Eftir takklistann kynnumst við hjónunum Reynaldo Rosales og Julie Ann Emery, sem eru bæði áttavillt og pirruð á hvort öðru, og við sjáum Michael Madsen bregða fyrir sem sveitalögreglumanni. Ég hafði gaman af Madsen þegar hann var leigumorðingi og útkastari á strippbar í Kill Bill, og það gladdi mig að sjá glitta í hann. Hann lenti þó alla vega á fótunum þegar strippbarinn gekk ekki upp lengur. Eftir smástund lenda hjónin í því að bíllinn bilar og það byrjar að rigna, þau leita sér skjóls á gömlu nálægu hóteli sem við þekkjum úr byrjunaratriðinu, og þar hitta þau parið J.P. Davis og Heidi Dippold. Þau fjögur rölta um hótelið og kynntast aðeins með samtölum eins og þessu hérna, sem á sér stað þegar rafmagnið er farið af og krípí barnahlátur heyrist í bakgrunni: <blockquote>,,Hvað var þetta? ,,Brak í húsinu.</blockquote> Um þetta leyti hélt ég að ég væri búinn að fatta myndina. Okkar biði sálfræðitryllir í sama stíl og The Shining þar sem eitthvað við húsið gerði fólk bilað, en Michael Madsen myndi ríða inn á hvítum hesti í lokin og bjarga eiginkonunni frá manninum sínum, og hugsanlega vondum samtölum líka.

                    Ég hafði rangt fyrir mér (House 1 - Gunnar 0), eins og kom nær samstundis í ljós þegar að meðlimir fjölskyldunnar sem rekur hótelið tóku að birtast óvænt í hverju dimmu horninu á fætur öðru. Við hliðina á þeim þrem virka sveitadurgarnir úr Deliverance eins og ekta lattesötrandi heimsborgarar. Húsbóndinn gerði aldrei annað en að slá fólk í höfuðið og stynja, fullorðinn sonurinn kynnti sig með orðunum ,,You’re purty``, og húsfreyjan á staðnum slaufaði matarboði til gestanna með undarlegri viðvörun um að þau þyrftu að taka til eftir sig, því annars værum við ekkert meira en svín að velta okkur um í eigin drullu. Akkúrat þarna fattaði ég hvernig myndin ætti eftir að klárast. Hún yrði svona pyntingarklámsútgáfa af Deliverance, þar sem fólkið myndi falla eitt af öðru fyrir hendi sveitadurganna, þar til að Michael Madsen myndi redda málunum áður en tjaldið félli.

                    Aftur hafði ég rangt fyrir mér (House 2 - Gunnar 0). Í þetta skiptið birtist maður í regnjakka, grímu og haglabyssu fyrir utan húsið og reyndi hvað sem hann gat að komast inn. Sveitadurgarnir sögðu að hann héti Tinmaðurinn, og það virtist nokkuð daglegt brauð fyrir þeim að hann sæti um húsið þeirra og kastaði niðursuðudósum niður skorsteininn með leiðbeiningum um að drepa einhvern úr hópnum fyrir sólarupprás, því annars myndi hann drepa alla með tölu.

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/03-tinman.jpg">_Tinmaðurinn: Ódýrari en Járnmaðurinn og skemmtir þar að auki í barnaafmælum._</p>

                    Ókei…​ þannig að House er í sama stíl og Saw, þar sem einhver maður herjar á fólk og neyðir það til að gera ógeðslega hluti? Neibb (House 3 - Gunnar 0), því það kom fljótlega í ljós að það flæddi svartur reykur úr sveitadurgunum þegar þeir voru særðir, og að í kjallaranum á hótelinu var mjög fín flauelsdýflyssa, sem reyndist vera djöfladýrkunarkirkja þegar betur var að gáð, og myndarlegt safn steypulagðra ranghala sem ekkert hótel hefur minnstu not fyrir. Um þetta leyti játaði ég mig sigraðan, því það var orðið ljóst að House hafði gríðarlegan metnað fyrir því að meika ekkert fokking sens, sem hún og gerði alveg fram í rauðan dauðann. Til að gefa smjörþefinn af því hversu ruglingsleg myndin er þá er hérna lítið brot af atriðum sem koma fyrir í House. Hafið ekki áhyggjur af því að þau skemmi myndina ykkur. Ég gæti sagt ykkur allt sem gerist í myndinni fyrirfram og það myndi samt koma ykkur á óvart ef þið horfðuð á hana:

                    <ul> <li>Julie flýr inn í kústaskáp og stendur þar hrædd, áður en vatn byrjar að flæða inn í hann. Vatnið frýs svo og myndar svell, sem brotnar og konan fellur ofan í stöðuvatn þar sem áður var gólf og kjallari fyrir neðan. Um það bil 20 mínútum seinna finnst Julie gegndrepa í kjallaranum.</li> <li>Lítil föl stelpa finnst innilokuð í 1x2 metra klefa og er samstundis tekin inn í hóp þeirra sem eru að berjast fyrir lífi sínu, en það er aldrei útskýrt hvaðan hún kemur eða hvernig hún veit allt sem hún veit um Tinmanninn og sveitadurgana, sem er óeðlilega mikið.</li> <li>Heidi er rænt, hún klædd upp í bláan kjól beint úr Mjallhvíti, og henni gefnar bökur.</li> <li>Öllum í myndinni byrjar að blæða svartri þoku í staðinn fyrir blóði, og eiga það til í að hitta tvífara sína gerða úr téðri þoku. Það er samt engin leið að greina á milli tvífaranna og upprunalegu eintakana, því þeir vita allt sem þú veist, og þeim blæðir þoku eins og þér.</li> <li>Vírgrindur sjálfkvikna yfir öllum helstu útgönguleiðum þannig að allir eru lokaðir inni. Tinmaðurinn kemst að lokum inn í húsið, en virðist aðallega vera í því að láta fólk upplifa sársaukafullar minningar en að, þú veist, drepa það með haglabyssunni sinni.</li> </ul>

                    Allt þetta og meira til er svo leikið af útskrifarbekknum úr Leiklistarskóla Williams Shatners og Calculons, en sannfæring þeirra er að fólk eigi að vita að þú SÉRT! AÐ! LEIKA! Undir lokin var House búin að enduruppgötva sig oftar en Madonna og Prince samanlagt, en á síðustu mínútunum ákvað hún að verða nýmóðins uppfærsla á Huis Clos eftir Jean-Paul Sartre, nema með auknum athyglisbresti og engri rökhugsun. Kemur í ljós að Tinmaðurinn er enginn annar en Michael Madsen, að hann er í liði með sveitadurgunum, að þau eru öll djöflar eða eitthvað þannig (af hverju þurfa djöflar sína eigin djöfladýrkunarkirkju í kjallar…​ æ, sleppum því), og að samkvæmt Tinmanninum er allur hópurinn syndugur og þau þurfa að drepa einhvern úr honum til að eiga séns á fyrirgefningu. Persónulega finnst mér það nokkuð öfugsnúin leið til að betra sig, en hún er svo sem í stíl við allt sem ég hafði þegar sætt mig við frá House.

                    Í næstum því lokaatriðinu, sem er algerlega laust við spennu og þvíumlíkt, nagar Tinmaðurinn húsgögn af geðbilun, segir setningar eins og ,,Ég er hrein illska. Eða níutíu prósent.'', og skýtur loksins litlu fölu stelpuna sem enginn man hver er. Síðan er honum eytt með kærleiksbjarnaárás úr hreinu ljósi og góðmennsku. Ég vil endurtaka þetta svo það sé engin hætta á misskilningi: Michael Madsen er sigraður með kærleiksbjarnaárás úr hreinu ljósi og góðmennsku. Svo klárast myndin á því að ekkert af henni var raunverulegt, en það var það samt smá (House milljón - Gunnar 0).

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/03-carebear.jpg"> Kærleiksbjarnaárás úr hreinu ljósi og góðmennsku.</p>

                    Eftið að House kláraðist sat ég þögull uppi í rúmi og vissi ekki alveg hvað hafði gerst síðustu níutíu mínúturnar, eða hvernig mér ætti að líða um það. Á endanum ákvað ég að mér þætti ég vera óhreinn og fór í sturtu. Það hjálpaði ekki. House gerir fólki voða erfitt fyrir að líka við sig. Hún hoppar á milli kvikmyndageira á tíu mínútna fresti, söguþráðurinn yrði ekki flóknari þó maður myndi bleyta hann og vinda hann eins og viskustykki, og persónurnar virðast hamingjusamastar þegar þær valhoppa í áttina að næstu leið til að deyja á eins hræðilegan hátt og hægt er.

                    Fyrir utan þetta hefur House undarlegar hugmyndir um hvernig heilbrigð hjónabönd virka. Hjónaband þeirra Reynaldo og Julie er að niðurlotum komið vegna þess að dóttir þeirra féll í gegnum vök á frosnu vatni og dó. Reynaldo finnst dauði stelpunnar sé Julie að kenna vegna þess að hún var að tala í símann þegar þetta gerðist, og Julie finnst að dauði stelpunnar sé Reynaldo að kenna vegna þess að hann var að vinna í staðinn fyrir að leika sér með dóttur sinni. Þetta er erfitt ástand sem hefur enga auðvelda lausn. Um þetta rífast þau alla myndina, þar til rétt áður en Michael Madsen fellur fyrir - allir saman nú - kærleiksbjarnaárás úr hreinu ljósi og góðmennsku, þegar Julie ákveður að taka þetta bara á sig og leysir með því öll hjónabandsvandamálin í einum rykk. Nú kem ég auðvitað frá einhverju jafnréttiskommatittalandi og hef þar að auki aldrei verið giftur, en ég held að hjónabönd virki ekki alveg svona.

                    Mig grunar samt af hverju House fór svona gjörsamlega framhjá mér. Eftir aðra sturtuna í röð varð ég mjög forvitinn um hvaða fólki fannst góð hugmynd að gera þessa mynd og las aðeins um höfundana Frank Peretti og Ted Dekker. Þeir eru mjög virkir spennu- og hryllingssagnahöfundar og talsvert frægir innan síns markhóps, sem er strangtrúað kristið fólk í Bandaríkjunum. Hvernig eru svo spennu- og hryllingssögur fyrir kristna öðruvísi en aðrar? Samkvæmt góðum mönnum virka þær nokkurn veginn eins og þessar venjulegu, nema það er ekkert blótað í þeim og það er eitthvað vísað í jesúbarnið og gildi þess. Að kunna biblíuna sína hlýtur að gera gæfumuninn þegar maður horfir á House, því bæði henni og Thr3e var tekið ágætlega af strangkristna markhópnum þeirra Frank og Ted.

                    Ég er farinn að hallast að því að í augum Frank, Ted og markhópsins sé House ljósið sem skín í myrkrið úr upphafsorðum myndarinnar. Mér fannst House alveg leðurblökuskítsbiluð og skildi hana vægast sagt ekki, svo ég neyðist til að álykta að ég sé myrkrið í þessari líkingu. Ég er hrein illska. Eða alla vega níutíu prósent.

                    <p align="center"><strong>

                    Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

                    Frakkar koma sterkt inn með splatter- og pyntingarklámsveislunni <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Frontier(s)">_Frontier(s)_</a>.

                    <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=GmmpJSiqU3Y&hl=en&fs=1]</p>