<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/02-poster.jpg" /></p>
,,Hefurðu einhvertímann fengið flís í puttann?``
,,Og fannst þér það ekki óþægilegt?``
,,Ímyndaðu þér þá að sjá fólk fá flísar í puttann í einn og hálfan tíma!``
Einhvern veginn svona held ég að hugmyndin að Splinter hafi fæðst. Þegar maður veit ekkert annað um myndina en nafnið þá er voðalega erfitt að taka hana alvarlega. Flís. Flís. Flíííísss. Sama hvernig maður segir það, þá hljómar þetta orð bara engan veginn ógnvekjandi.
Fyrstu mínútur myndarinnar hafa ekki mikil áhrif á þessa fordóma. Á þeim sjáum við gaur sem vinnur á bensínstöð úti í sveit setjast í stól fyrir framan stöðina, og verða samstundis mjög áhyggjufullur yfir skrjáfi í grasinu fyrir aftan sig. Eftir stutt samtal við grasið er hann svo étinn af því sem virðist vera minnsti en jafnframt pirraðasti smáhundur í heimi, og kreditlistinn byrjar að rúlla. Þar fáum við að vita að þetta er mynd eftir Toby Wilkins, í leikstjórn Toby Wilkins, eftir handriti sem Toby Wilkins skrifaði, með skrýmsli eftir Toby Wilkins, og tónlist eftir Elia Cmiral [sic], sem er samt byggð á laglínum sem Toby Wilkins sönglaði. Bætum því við pirraðasta nálapúða alheimsins og þá er þetta farið að hljóma ískyggilega eins og að myndin hafi verið byggð á einni af bókunum sem Stephen King man ekki eftir að hafa skrifað.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/01/02-costanzo.jpg?w=295" />
Paulo Costanzo: Framhaldsnemi, elskhugi, byssumaður.</p>
Auðvitað væri þetta frekar stutt mynd ef ekkert meira myndi gerast, svo næst kynnumst við tveim huggulegum pörum. Fyrra parið eru þau Jill Wagner sem er falleg ung stúlka sem kallar ekki allt ömmu sína, og Paulo Costanzo sem er lúðalegur síkvartandi framhaldsnemi með gleraugu, sem mun eyða meirihlutanum af myndinni kjökrandi í fósturstellingu í næsta horni. Að þau tvö séu yfir höfuð saman er það ósennilegasta í allri myndinni, en í henni kemur einnig fyrir lífvera sem púslar saman líkömum fólks með heimaræktuðum göddum eins og heimsins sjúkasti legóaðdáandi. Fyrir einhverja tilviljun ganga þessar persónur samt upp, að hluta til af því að þau eru skemmtilegur viðsnúningur á venjulega ráðafulla massa og gagnslausa ljósku parinu, og að hluta til vegna þess að ég er nördalegur framhaldsnemi. Sem slíkur get ég fullvissað alla hér um að fyrstu viðbrögð okkar við öllum aðstæðum, alveg sama hverjum, eru að skríða út í horn, kuðla okkur í fósturstellingu og kjökra hljóðlátt. Það er svona nans fyrir sannleikskornum sem myndir skora auka prik fyrir.
Hitt huggulega parið eru þau Shea Whigham og Rachel Kerbs. Hún er eiturlyfjafíkill vitlausu megin við fráhvarfseinkenni, hann er ofbeldisfullur strokufangi, og þau eru á flótta til Mexíkó - ah, l’amour - þegar bíllinn þeirra bilar og þau grípa til þess ráðs að ræna ungu saklausu krökkunum og neyða þau til að skutla sér. Þau komast samt aldrei lengra en á bensínstöðina úr byrjunaratriðinu, þar sem áðurnefndur legóaðdáandi ræðst á þau og allir neyðast til að leita sér skjóls inni á bensínstöðinni. Þar myndast heimilisleg blanda af gíslatöku og umsátri, þar sem það er alveg jafn líklegt að verða skotinn ef maður er kyrr inni, eða rifinn í sundur ef maður hættir sér út.
Þetta hljómar allt eins og ósköp venjuleg mynd hingað til, og virkar þannig líka þegar maður horfir á hana. Samt er eitthvað heillandi við Splinter sem er erfitt að koma orðum að. Hún hefur þennan druslulega hundseiginleika. Manni er alveg sama um að hundurinn sé skítugur og slefi á mann og sé sennilega með orma, því hann reynir sitt besta og manni langar að klappa honum. Á sama hátt langar mig langar að halda að Splinter sé miklu klárari mynd en hún er örugglega í raun og veru. Til dæmis eru atriði í henni sem er erfitt að sjá sem annað en dulbúnar vísanir í aðrar bíómyndir, eins og þegar ein persónan missir stjórn á handleggnum á sér og verður andsetin af Peter Sellers úr Dr. Strangelove, eða þegar afskorin hendi kemst inn í bensínstöðina og býður upp á öskrandi fyndna uppfærslu af Thing úr Addams Family. Ég losna samt ekki við gruninn um að þessar vísanir séu bara tilviljun og eitthvað sem minn sjúki heili kokkaði upp sér til yndisauka, í staðinn fyrir hulin smáatriði sem meistaraleikstjórinn Toby Wilkins deildi út með elskandi hendi og hálfglotti á vör (Splinter var fyrsta stóra myndin hans, sú næsta verður The Grudge 3: The Re-Grudgificationing.)
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/01/02-thing.jpg" />
Thing úr Addams Family.</p>
Ofan á þessar hugsanlega huldu kvikmyndaperluvísanir þá er myndin góð, ógnvekjandi, og virkar frumleg við fyrstu sýn en leiðir svo út í áleitnar spurningar um hvenær hlutir geta talist frumlegir. Einhversstaðar aftan í hnakkadrambinu mínu er lítil rödd sem segir mér að kannski fyrir utan flísarnar, þá hafi ég séð hverja einustu hugmynd úr Splinter áður. Gíslataka kom fyrir í Funny Games, hver einasta uppvakningamynd er um umsátur og skrýmslamyndir eru langt frá því að vera sjaldgæfar. Reyndar er hægt að ganga langt á innblásturinn að skrýmslinu þegar út í það er farið: Langt leidd fórnarlömb þess sem eru ennþá lifandi stynja ,,dreptu mig`` (Aliens) á meðan dauð fórnarlömb hökta í áttina að lífi og smita aðra af flísaplágunni (Night of the Dead et al.), eru ónæm fyrir barsmíðum og byssuskotum (Dracula), og eru samtvinningur ýmissa líkamsparta (Frankenstein). Skrýmslið sjálft er svo lífvera með plöntueiginleika (The Thing) sem veiðir með hitaskynjun (Tremors 2) og má aðeins eyða með eldi (James Hetfield).
Þegar maður maður sér svona lagað hlýtur maður að spyrja sig hvort að það sé allt í lagi að fá hugmyndir lánaðar, eins lengi og maður fær bara nógu fjandi margar hugmyndir lánaðar? Ætli svarið fari ekki eftir hvort að útkoman gangi upp eða ekki. Tökum Planet Terror sem dæmi. Þarna er bíómynd sem var gerð í þeim eina tilgangi að virka sem mest eins og Grindhouse mynd frá áttunda áratugnum, og meðal ansi kunnuglegra þema má sjá uppvakninga, vonda hermenn, afbrýðisama eiginmenn, dularfulla einfara sem búa yfir leyndarmáli og lögreglumann sem grunar einfarann í fyrstu um græsku, en áttar sig svo á að hann er fínn gaur. Á meðan að nokkur atriði í Planet Terror eru vel heppnuð, þá verður að segjast að hún er alveg hundleiðinleg. Ef þú trúir mér ekki skaltu horfa á hana í annað skiptið. Þú sérð hana aldrei í það þriðja. Á hinn bóginn er Alien alveg frábær mynd, en Dan O’Bannon, sem skrifaði mikið af handriti hennar, hefur sjálfur sagt að mörg af minnisstæðustu atriðunum úr Alien - risabeinagrindin, eggin, hvernig veran brýst út úr fólki - séu fengin að láni héðan og þaðan. Eða með hans eigin orðum: ,,Ég stal Alien ekki frá neinum ákveðnum. Ég stal henni frá öllum!`` Eins og með Alien þá virkar lokaútkoman hérna, svo ég er tilbúinn að líta í hina áttina í þetta skiptið.
Ég er reyndar tilbúinn að líta í hina áttina með fullt af hlutum sem virka ekki við Splinter, því að mér kom skemmtilega á óvart hvað mér fannst hún góð. Sagan byrjar hálf kjánalega og persónurnar virka pirrandi í byrjun, en þegar umsátrið á bensínstöðinni byrjar fara hlutirnir að ganga upp. Sagan snarskánar, persónurnar þróast, til tilbreytingar eru þær ekki algerir hálfvitar, og skrýmslið er bæði ógnvekjandi og sýnt nógu lítið til að maður ímyndi sér eitthvað sem er miklu verra. Splinter er kannski engin tímamótamynd, en hún hélt athygli minni, skemmti mér og var á köflum ógnvekjandi án þess að grípa til auðveldra bregðuatriða. Á þessum síðustu tímum, þegar unglingar vaða útum allt með farsímana sína, og önnur hver hryllingsmynd er annað hvort ódýr endurgerð eða framhald númer n+1, þá er mynd eins og Splinter alveg kærkomin, sama þó hún hafi slefað á mig og sýkt mig af ormum.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
<a href="http://en.wikipedia.org/wiki/House_(2008_film)">_House_</a> segir okkur sögu sem fer frá punkti A til B, án þess að A og B tengist á nokkurn hátt eða séu yfir höfuð í sama alheiminum.
<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=25e0xgdGZ3k&hl=en&fs=1]</p>
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/01/dotd-titles1.jpg" />
Fyrsta stig alvarlegs Helvetica-smits.</p>
Loforðin eru gerð til þess að svíkja þau, svo ég ætla að byrja árið á að tala um Day of the Dead frá 1985 sem er einmitt fæðingarár mitt. Auðvitað lofaði ég því aldrei að ég ætlaði ekki að tala um gamlar myndir, en það þarf að nýta öll tækifæri sem gefast til dramatískra yfirlýsinga. Við erum jú atvinnumenn.
Mér finnst hálf skammarlegt að hafa ekki séð Day áður. Eins og mun koma í ljós aftur og aftur á næsta ári eru fá, ef einhver, takmörk fyrir uppvakningaást minni, svo þessi yfirsjón er vandræðaleg. Ég hef ekki einu sinni tekið ódýru leiðina út og séð endurgerðina sem kom út á síðasta ári, þrátt fyrir heiðarlega hálftíma tilraun einhvern þynnkusunnudaginn. Endurgerð er kannski of örlátt orð, því nýrri útgáfan skartar hlaupandi uppvakningum, spastískri klippingu, aumkunarverðum söguþræði, og á eiginlega ekkert sameiginlegt með upprunalegu myndinni þegar út í það er farið.
Ástæðan fyrir því að ég byrja árið á Day er tvíþætt: í fyrsta lagi er þetta eina Romero uppvakningamyndin sem ég hef ekki séð ennþá, og í öðru lagi var ég að klára prófin mín. Mér finnst það alveg verðskulda það að blanda nokkra gin og tónik, horfa á klassíska zombímynd og teipa kettlinga við skrifborð. Skítt með siðferðislega gráu svæðin, skrifborðið mitt er loðið og mjálmar, og það er langt síðan ég slappaði svona vel af.
Allavega, Day of the Dead er þriðja myndin sem George Romero gerði um göngutúra hinna lifandi dauðu, og þó að það sé nokkuð langt á milli myndanna - Night of the Living Dead kom út árið 1968 og Dawn of the Dead 1978 - þá virðast þær allar gerast í sama heiminum. Það sem skilur þær að, fyrir utan mismunandi persónur og aðstæður, er á hvaða tímabili í umsátrinu þær gerast. Night byrjar á fyrsta degi uppvakningaárásanna og klárast á einum degi, og þegar Dawn hefst eru nokkrir dagar eða vikur liðnar frá fyrstu atvikunum og myndin sjálf segir frá nokkrum mánuðum þar á eftir. Við fáum aldrei að vita nákvæmlega hversu langt er liðið frá fyrstu faröldrunum í Day, en það er nógu langt til að siðmenningin sé hrunin og að allir afkomendur, ef einhverjir eru, hafa tvístrast og misst samband sín á milli. Í staðinn eru allar borgir, smábæjir, yfirgefnar námur, brunnar, leikskólar og túristastopp full af uppvakningum. Þetta er staðan sem blasir við persónunum í upphafi myndarinnar, þau eru alein í heiminum og á meðan þau lifa sjálf í tiltölulegu öryggi þá eru stress og almenn deprimering farin að taka sinn toll.
Myndin gerist að mestu í neðanjarðarherstöð sem var byggð í einhverjum vísindalegum tilgangi. Þar býr ennþá handfylli af hermönnum, vísindamönnum og almennum borgurum sem voru send þangað á fyrstu dögum krísunnar til að finna lausn á vandanum. Þrátt fyrir að að það hafi mistekist all hressilega, þá halda þau áfram að vinna að rannsóknum, að hluta til af því að það gæti bjargað því sem er eftir af mannkyninu, og að hluta til af því að þau hafa ekkert annað að gera.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/01/dotd-folk1.jpg" />
Tvær persónur úr DotD á einum af sinum sjaldgæfu minna snarbiluðu stundum.</p>
Meirihlutinn af persónunum eru málaðar með nokkuð breiðum pensli. Hermennirnir eru á snarfasísku valdatrippi og langþreyttir á að þurfa að passa óbreytta borgara, og langar að yfirgefa herstöðina og útrýma uppvakningunum fyrir ofan, þrátt fyrir að hafa hvorki mannskap né skotfæri til þess. Vísindamennirnir eru algerlega helgaðir sínum rannsóknum og hafa hvorki tíma fyrir þær takmarkanir sem aðstæðurnar neyða þá í, né leiðinlegar siðferðislegar spurningar. Almennu borgararnir eru svo fastir í miðjunni, og eru þess vegna alveg til í að slaufa þessu og finna einhverja Kyrrahafseyju til að eyða restinni af dögum sínum á.
Af þessum eru það Lori Cardille og Terry Alexander sem mynda viðkunnalega þungamiðju myndarinnar, hún sem langþreyttur og stressaður vísindamaður og hann sem flippaður þyrluflugmaður. Ein og sér væru þau samt frekar leiðinleg, því eins skemmtilegur og karabíski hreimurinn hans Terry er, þá eru þau eðlilegasta fólkið á staðnum.
Til allrar hamingju eru Joe Pilato og Richard Liberty þarna líka. Joe persónugerir allt sem er vont við herinn - hann myndi ekki hika við að skjóta fólk sem hlýðir honum ekki og er sama um allt nema sig og sína - og Richard er bilaður vísindamaður. Hversu bilaður er hann? Doktor Richard sést aldrei öðruvísi en í hvítum slopp, blóðugur upp að olnboga, og eyðir tímanum sínum annars vegar í að útskýra fyrir öðrum að það sé nauðsynlegt að innræta uppvakningunum góða siði, og hins vegar í að reyna að temja uppvakninginn Bub til að hlusta á tónlist, rífa ekki bækur, og éta sig ekki. Þetta gerir hann með einföldu Pavlovsku kerfi sem byggir á umbun og refsingu: ef Bub reynir að éta Richard, þá þarf hann að sitja einn í myrkrinu, en annars fær hann fötu af ferskum líkamspörtum. Jafnvel miðað við Framsóknarmenn er það nokkuð bilað.
Eitt af því sem gerir myndirnar hans Romero svo skemmtilegar er að hann reynir alltaf að gera eitthvað meira en að sýna fólk vera rifið í sundur (aths: í Day of the Dead er fullt af fólki rifið í sundur undir tölvutrommum og hetjugítarleik). Í Night kraumar kynþáttahatur og gagnrýni á vísitölufjölskylduna undir niðri, og Dawn er fyrir löngu orðin fræg fyrir að skjóta hressilega á neyslusamfélagið. Sumir vilja meina að í Day sé að finna svipaða ádeilu á herinn og vísindasamfélagið, að hluta til vegna þeirra Joe og Richard að ofan. Að einhverju leiti er það rétt, en ég held að það hafi ekki verið tilgangurinn með myndinni, því bæði herinn og vísindasamfélagið eru einfölduð allt of mikið til að verða eitthvað meira en brandarar fyrir fólk með afbrigðilega kímnigáfu.
Þó að ég sé vissulega með afbrigðilega kímnigáfu, þá finnst mér áhugaverðara að halda að myndin sé að reyna að segja eitthvað um samskipti milli fólks. Allir í myndinni eru hundleiðir á hvor öðrum en neyðast samt til að búa saman, og allir hóparnir vilja mismunandi hluti. Hermennirnir vilja ráða sér sjálfir og sleppa því að hætta lífi sínu fyrir vísindamennina. Vísindamönnunum finnast rannsóknir sínar mikilvægari en allt annað og vilja halda þeim áfram eins lengi og hægt er. Og almennu borgurunum finnst ástandið tapað og að við ættum öll að lifa í dekadens þar til við deyjum. Allir hafa eitthvað til síns máls, og allir eru sannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér, en þeim er lífsins ómögulegt að útskýra stöðu sína út fyrir hvor öðrum. Hermennirnir virðast vilja lögregluríki, vísindamennirnir spilast kaldlyndir og ósamúðarfullir, og almennu borgararnir virka sinnulausir.
Þessi samskiptaupplausn fer síversnandi gegnum myndina þar til hlutirnir brotna gjörsamlega niður og allir eru étnir af uppvakningum. Svona samskiptaörðugleikar eru eitthvað sem ég þekki mjög vel, og þó að þeir hafi hingað til ekki endað með uppvakningaárás, þá finnst mér stundum ótrúlegt að þeir séu yfir höfuð til staðar. Á síðustu árum hefur minn innri hippi sætt gríðarlegum ofsóknum og bælingum, og eigur hans verið frystar og blautir puttar settir í eyrun hans, svo það er Day of the Dead til mikils sóma að ná að toga þessi orð upp úr mér, en af hverju getur okkur ekki bara öllum komið saman og drasl?
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/01/dotd-bub.jpg" />
Enn annar uppvakningur hættir í skóla og verður ofbeldi að bráð.</p>
Eins og ég sagði áðan eru lítil takmörk fyrir dálæti mínu á uppvakningum, og ég held að yrði erfitt að leggja of mikla áherslu á hvað fyrstu þrjár Romero myndirnar gerðu mikið til að kynna og þróa uppvakninga sem alvöru skrýmsli fyrir heiminum. Áður en Night kom út höfðu zombíar komið fyrir í einhverjum bíómyndum og skáldsögum, en þeir voru peð vúdúpresta og lítið skyldir því sem við þekkjum í dag. Með því að sameina gamlar vúdúgoðsagnir og alla bestu eiginleika vampíra, það er ódauðleikann, bitin og blóðþorstann, þá rakst George Romero á eitthvað nýtt sem hafði möguleika til að vera virkilega hryllilegt.
Öll helstu einkenni uppvakninga eru nú þegar til staðar í Night. Þeir eru hægfara, heimskir, dauðir, sækja í mannfólk, eru auðviðráðanlegir einn og einn, og má drepa með því að eyðileggja heilann þeirra, en eftir því sem þeir verða fleiri vex hættan sem stafar af þeim fljótt. Þar er líka lagður grunnurinn að stallinum sem bit þeirra hafa, því þau leiða alltaf til dauða, sama hversu lítilfjörleg þau eru. Í Dawn hegða uppvakningarnir sér að mestu eins og áður. Þeir höltra áfram og borða fólk, allir sem deyja verða uppvakningar, bit þeirra eru ennþá banvæn, en þeir eru farnir að stynja meðan þeir sligast í áttina að bráð sinni. Þar að auki halda þeir í einhverjar minningar frá því sem áður var, því eins og er sagt í myndinni sækja þeir í verslunarmiðstöðina af því þeir muna eftir henni úr fyrra lífi.
Það er auðvitað ekkert nema gott mál að Romero hafi reynt að þróa skrýmslahugmyndina sína meira með hverri mynd, og í Day má bæði finna góðar og slæmar viðbætur við zombísjálfið. Með bilaða vísindamanninum Richard lærum við að þó að uppvakningarnir valhaltri um af gleði við tilhugsunina um að borða fólk, þá hafa þeir ekkert að gera hvorki við mögulegu næringuna né kjötið sjálft sem þeir fá úr því. Einnig sjáum við í runu klígjuvaldandi tilraunadýra að það má skólfa öllu innvolsinu úr uppvakningunum, og jafnvel afhausa þá, án þess að þeim verði meint af. Á meðan maður snertir ekki heilann mun restin reyna áfram að skríða, klóra og naga sig í átt að manni. Þetta, ásamt atriðinu þar sem stunurnar í heilli borg af uppvakningum yfirgnæfa þyrlumótor, eru góðar viðbætur við venjulegu ímyndina, en ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem eitthvað þessara einkenna kemur fram.
Ekki jafn vel heppnaður er allur söguþráðurinn í kringum gæluzombíinn Bub. Þarna er kominn uppvakningur sem man hvernig á að nota rakvél og skammbyssu, hvernig á að fletta bókum og heilsa fólki að hermannasið, hann langar ekki að borða alla sem hann sér og sýnir viðbrögð við tónlist, og nær að sýna grunntilfinningar og meira að segja að stynja upp nokkrum orðum. Eins og ég sagði, þá kann ég að meta að Romero hafi reynt að þróa hugmyndina sína í staðinn fyrir að búa bara til framhald númer n+1, en þetta var feilspor. Uppvakningar eru ógnvekjandi af því að þeir líta út eins og venjulegt fólk, og sumir þeirra eru kannski fólk sem við þekktum áður, en þeir hafa engar mannlegar tilfinningar og enga aðra hvatningu en eðlisávísunina. Um leið og það er hægt að hafa samúð með zombíunum, þá eru þeir ekki hræðilegir lengur.
En 1985 var yfir höfuð ekki gott ár fyrir uppvakninga í heild sinni. Fyrsta Return of the Living Dead myndin kom út á sama ári, og fyrir utan að útskýra uppvakningana með veirusýkingu, þá kynnti hún í fyrsta sinn hlaupandi uppvakninginn, áráttu uppvakninga fyrir heilum fólks, og gaf uppvakningum hæfileikann til að tala eins og venjulegt fólk. Afleiðingin af þessu öllu er svo að zombíarnir eru ekki ógnvekjandi lengur, því þeir eiga nú meira skylt með skrýtna frænda þínum sem býr í kjallaranum og er alltaf að leggja til vídjókvöld bara fyrir ykkur tvo en ódauðri ógn sem mun eyða okkur öllum.
Á næstu tveim áratugum var hugmyndin um uppvakninga þróuð meira af ýmsum aðilum, þangað til að hún átti lítið skylt með upphafi sínu. Mér langar pínulítið að líkja þróuninni við ferlið sem Batman hefur verið látinn þola gegnum árin - frá einfaldri noir spæjara hugmynd, yfir í hallærislega Adam West þætti, yfir í skærahandaútgáfuna hans Tim Burton, yfir í George Clooney í gúmmíbúning með geirvörtum, yfir í Patrick Bateman - en ég kann ekki við það vegna þess að með því væri uppvakningunum gert full hátt undir höfði.
Í staðinn getum við sagt að upphaflega hugmyndin með þeim hafi verið góð, og einhverjar næstu viðbætur voru góðar líka, en svo fokkaðist þetta upp, og varð sí verra þangað til að Max Brooks endurræsti hugmyndina í heild sinni upp úr aldamótunum með Zombie Survival Guide og World War Z. Hann gerði fyrir uppvakninga það sem <em>Batman <del datetime="00">Returns</del> Begins</em> og Dark Knight gerðu fyrir Leðurblökumanninn, tók allt sem var gott við þá til að byrja með og blandaði því við allt sem við óttumst í dag. Útkoman er frábær og ég fæ ennþá gæsahúð við að hugsa um hana, en hún hefði aldrei orðið til án fyrstu þriggja Romero myndanna, og sérstaklega ekki án þess sem er vel gert í Day of the Dead.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
<a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Splinter_(2008_film)">_Splinter_</a> kemur á óvart með sterkri persónusköpun og kjánalegri skrýmslahugmynd sem gengur engu að síður upp.
<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=aJndd5Eyz18&hl=en&fs=1]</p>