<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/10-poster.jpg"></p>

Ég er að hugsa um að ferðast um Evrópu í sumar og ljúga til um hver ég sé. Allt stefnir í að ég hafi frekar mikið frelsi til að færa mig á milli staða og vinna í sumar, og allt frá því að mér datt hugmyndin í hug hefur það kitlað mig svolítið að skálda upp nýtt nafn og uppruna og ljúga að öllum sem ég hitti. Kannski ég kalli mig Don eftir aðalpersónunni úr Mad Men og segist vera frá hvaða ríki Bandaríkjanna sem Fargo gerðist í, það ætti að dekka hreiminn ef ég þarf að tala við enskumælandi fólk. Mig langar ekki beint í frí frá sjálfum mér, heldur frekar frá undrunarstörunum og spurningaflóðinu sem kemur þegar að fólk fréttir að ég sé frá Íslandi. Við erum voða sjaldgæf hérna, og ég er kominn með mikla leið á að segja fólki frá miðnætursólinni og brjóta hjarta þess með að viðurkenna að ég sé ekki skyldur Björk. Nema að fólkið sem um ræðir sé sæt stelpa. Þá er Ísland alveg heillandi fjandi, jarðleg mynd Múmíndalsins sprottin upp í miðju Atlantshafi, þar sem allir eru skemmtilegir og hamingjusamir. Ýmsu lýgur maður til að ganga í augun á sætum stelpum.

Þetta plan er ennþá á byrjunarstigi, en ég held að ég segji ekki heldur allan sannleikann um hvað ég geri. Fólk bregst þó alla vega við Íslendingasögunni á sæmilega jákvæðum nótum, en hoppar ekki jafnfætis afturábak, hvæsir og gerir krossmark með puttunum eins og þegar að það fréttir að ég sé stærðfræðingur. Næstum allir sem ég hitti hafa miður gott álit á stærðfræði og þar af leiðandi stærðfræðingum líka, sem batnar ekki mikið þegar ég byrja að röfla samhengislaust um að stærðfræði sé helsexí. Hún er það nú samt, þó að eins og með kaffi eða Six með Mansun þurfi smá stund til að komast á bragðið. Í mjög stuttu máli gengur fegurð í stærðfræði út á að byrja með eins lítið og hægt er, vinna sig áfram með einföldum og augljósum skrefum, og enda með eitthvað óvænt og flókið. Svipaðir hlutir eru til bæði í bókmenntum og myndlist og fleirum greinum í formi minimalisma, og ef fimm ára stærðfræðimenntun hefur ekki skilað neinu öðru þá ber hún alla vega ábyrgð á því að mér finnst minimalismi frábær hvar sem honum bregður fyrir.

Þetta eru ágætar fréttir fyrir Fear(s) of the Dark, því fyrir utan að fá punkta í kladdann fyrir það eitt að vera frönsk og því eitthvað sem ég get æft hlustun á, þá samanstendur hún af sex stuttum svarthvítum teiknimyndum í minimalískum stíl sem fjalla allar á einhvern hátt um ótta. Og allar myndirnar eru um uppvakninga. Sem Jack Bauer drepur. Ókei, þetta tvennt síðasta er lygi, en ef það væri satt þá væri þetta uppáhaldsmyndin mín í öllum heiminum. Ég verð að viðurkenna að ég horfði á Fear(s) of the Dark aðallega til þess að fá smá tilbreytingu við venjulegu myndirnar, sem ég veit oftast fyrir fram að falla í einn af góð/vond/fyndin flokkunum, og líka fyrir hreinar forvitnissakir. Á blaði hljómar hugmyndin að Fear(s) - stuttar svarthvítar franskar teiknimyndir um ótta - eins og svakalegt artfart prump, eitthvað svipað og myndin sem Eddie Izzard lýsti um gaur sem gerir ekkert annað en að kveikja í eldspýtum, og mig langaði að vita hvort að Fear(s) gæti gengið upp og skilað einhverju sem vekti alla vega smá ónot með mér.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/10-gerard.jpg"> Gérard Depardieu.</p>

Ónotaspurningunni var fljótsvarað af takklistanum sem birtist áður en myndin sjálf byrjaði, en það var af ástæðu sem ég get ekki ímyndað mér að nokkur hafi séð fyrir. Listinn sjálfur reynir að koma manni í stuð með því að flökta brotum af titlum og nöfnum á fólkinu sem kom að gerð myndarinnar, á meðan að mjög viðeigandi tónlist sem minnir á hryllingsmyndatónlist flutta af synfóníum í gamla daga hljómar undir. Eitt og sér er það prýðileg leið til að setja stemminguna, en mér leið frekar illa þegar ég sá að eitt nafnið sem leiftraði á skjánum var Guillaume Depardieu. Guillaume var sonur franska leikarans Gérard Depardieu, sem er mjög ástsæll hér í Frakklandi og hefur leikið í sjokkerandi fáum myndum sem ég þekki miðað við hvað ég hef lengi vitað hver hann er. Guillaume dó úr bráðalungnabólgu við tökur í Rúmaníu fyrir örfáum mánuðum, aðeins 37 ára gamall, og dauði hans var mikið sorgarefni hér, ekki síst vegna hver pabbi hans var. Að sjá nafnið hans á kynningarlistanum var frekar ónotalegt, en eins leiðinlegt og það er að segja það þá er erfitt að sjá fyrir sér betra hugarástand en þetta til að byrja að horfa á hryllingsmynd; ég get vel ímyndað mér að House eða The Ruins hefðu gefið pund af holdi fyrir sömu stemmingu frá upphafi.

Eins og ég sagði áðan þá samanstendur Fear(s) af sex stuttmyndum, en þar af eru tvær dreifðar á milli hinna í nokkrum pörtum. Fear(s) hefst á annarri þeirra dreifðu sem sýnir mann á 18. öld labba um sveit með fjóra grimma hunda í bandi sem hann sigar einum af öðrum á fólk í kringum sig, einum hundi á undan hverri stuttmynd. Á yfirborðinu er þessi mynd lítið annað en hlé á milli atriða, en ef okkur langar að draga bókmenntafræðingssokkabuxurnar yfir höfuðið og lesa alltof mikið úr henni þá getum við hugsað okkur að vondi maðurinn standi fyrir Fear(s) sjálfa, sérhver hundurinn fyrir eina af myndunum fjórum, og fórnarlömbin fyrir okkur áhorfenduna. Artí. Hin partaskipti stuttmyndin er er aðeins meira spes, því í henni gerist ekkert nema að kona þylur upp kvíða og hversdagslega ótta sína yfir abstrakt bakgrunni sem breytist í sífellu. Þetta samspil náði fram undarlega dáleiðandi áhrifum, eða gerði það alla vega þar til að kvíðaræðan fór að minna mig á svipaðar upptalningar úr Adaptation og Peep Show, en eftir þá tengingu gat ég ekki annað en hlegið að henni.

Hinar myndirnar fjórar eru hefðbundnari og heilsteyptari og flakka um víðan völl í áhrifavöldum og umfjöllunarefni. Ein fjallar um lítið skordýr sem nær valdi á lífi ungs manns, önnur er í japönskum stíl og segir frá ungri stúlku sem lendir í vondum skóla, sú þriðja tekur á kunnuglegum þemum um skrýmsli sem virka mannleg, og sú fjórða er ein af þessum ,,ó fokk það er geðsjúklingur með hníf í húsinu`` sögum sem við elskum jú öll. Eins og gefur að skilja eru þetta nokkuð misjafnar sögur; mér fundust sú fyrsta og síðasta heppnast best, þó af ólíkum ástæðum, á meðan að þessar tvær í miðjunni fóru fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Eða, ég held alla vega að þær hafi gert það. Sagan um japönsku skólastelpuna er í alvöru anime-stíl, og sú staðreynd að ég skildi hvorki upp né niður í henni og hef enga hugmynd um hver söguþráðurinn var, eða hvað í henni átti að vera raunverulegt og hvað átti að vera draumur, gæti einfaldlega þýtt að stílfæringin hafi tekist vonum framar hjá fólkinu á bakvið hana, því mér líður oftar en ekki nákvæmlega svona eftir að hafa horft á anime-myndir. Ef þetta var ætlun kvikmyndagerðarmannanna, þá eiga þeir hrós og golfklapp skilið fyrir vel unnin störf.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/10-japan.jpg"> Vitið þið hvað er í gangi hérna? Ég hef alla vega enga hugmynd um það.</p>

Af öllum sögunum fannst mér auðveldast að tengjast þeirri fyrstu á einhvern hátt. Í stuttu máli fjallar hún um ungan feiminn strák sem finnur undarlegt skordýr úti í skógi, sem hann fangar og tekur með sér heim, þar sem það sleppur og fer huldu höfði í herberginu hans í næstu nokkur ár á eftir. Strákurinn vex úr grasi og byrjar í háskóla þar sem hann hittir sæta stelpu sem vill vera með honum, en skordýrið stingur upp kollinum og nær stjórn á líkama stelpunnar á hátt sem er lítið útskýrður, og eftir það bíða stráksins örlög sem eru verri en dauðinn. Ekkert í sögunni er ógeðfellt á augljósan hátt, en þar sem við sjáum veröldina ennþá gegnum rauðbrúnar bókmennasokkabuxurnar liggur beinast við að lesa skordýrið sem tákn kynþroska og alls vesenisins sem honum fylgir, og andsetnu stelpuna og vondu örlögin sem holdgervingu slæms sambands sem engin sómasamleg leið er úr. Sem sjálfskipaður fulltrúi ungra piparsveina sem finnst líf sitt ekkert nema frábært skal ég alveg skrifa undir að hugmyndin um að verða alla ævi bundinn manneskju sem manni líkar ekki vel við, eins og til dæmis gegnum slysabarn eftir miður ráðleg skyndikynni, er miklu líklegri til að halda fyrir mér vöku á nóttunni heldur en allar zombímyndir heimsins samanlagt, og ég fann til með aumingja stráknum í myndinni.

Hin sagan sem mér fannst eitthvað varið í er svo miklu einfaldari hlutur sem þarf ekki að lesa neitt úr til að njóta. Hún fjallar um mann sem brýst inn í hús til að leita skjóls undan blindbyl. Hér um bil það eina sem gerist í sögunni, sem er algerlega án tals eða texta, er að hann ráfar um húsið og skoðar sig um og áttar sig smátt og smátt á því að eitthvað spes hefur átt sér stað þar og að hann er kannski ekki einn í húsinu. Af öllum sögunum í Fear(s) of the Dark er það þessi sem vinnur næst titlinum og spilar á ótta okkar við myrkrið og ofsóknaræðið sem því fylgir, en kvikmyndagerðamennirnir leika stórkostlega með minimalískar svartar og hvítar teikningarnar bæði til að sýna okkur hluti sem eru þarna í raun og veru, og til að láta okkur halda að við sjáum eitthvað í skuggunum sem er ekki þar. Þó að söguþráðurinn sjálfur sé ekkert til að hrópa húrra fyrir, sem kemur ekki á óvart þar sem það er aðeins hægt að túlka svo mikið með teikningunum einum að vopni, þá rúllar sagan áfram af öryggi á andrúmsloftinu einu saman.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/10-nr4.jpg"> Fjórða myndin kemst skuggalega langt á teikningum í þessum stíl.</p>

Þó að einstaka partar af Fear(s) of the Dark gangi upp og skilji jafnvel eitthvað eftir sig, þá er myndin langt frá því að vera gallalaus. Eins og er vonandi orðið ljóst þá er Fear(s) engin poppkornsskemmtun, heldur tekur hún sjálfa sig svo snaralvarlega að það væri hægt að búa til formúlukennda gamanmynd þar sem hún og vondur grínisti neyðast til að hanga saman og flýja undan mafíunni yfir eina helgi, og þrátt fyrir að vilja í fyrstu ekkert með hvort annað hafa og ýmsar vandræðalegar aðstæður sem þau koma sér í, þá vingast þau smám saman og byrja að bera viðringu fyrir hvort annað, og í lokin lærir grínistinn að sýna smá ábyrgð og Fear(s) lærir að slappa af og breikdansa. Og af einhverjum ástæðum syngur Snoop Dogg lag í miðri myndinni. Þetta yrði hræðileg mynd í alla staði, en ágætis mótvægi við endalausa og óþreytandi listamannatilburði Fear(s) of the Dark, sem virðist á köflum halda að það sé nóg að hlutirnir séu skrýtnir til að þeir geri góða bíómynd, en ekki að gæðin hangi frekar á góðum persónum og söguþræði.

Að vísu er ekki hægt að kenna Fear(s) of the Dark algerlega um hvernig er komið fyrir persónusköpun og framvindu í undirmyndunum í henni, af því samkvæmt skilgreiningu er minni tími fyrir slíka hluti í stuttmyndum en ella, og það kemur því ekki svo á óvart að þeir séu frekar ófullnægjandi hér. Mér kemur samt á óvart að fyrir utan fyrstu myndina hafi engin stuttmyndanna náð að stilla upp fólki sem mig langaði að fylgjast með. Það er ekki eins og framleiðendur Fear(s) hafi verið í tímaþröng og því ekki getað lengt einhverja stuttmyndina aðeins til að koma fyrir meiri persónusköpun, því að myndin í heild sinni er rétt tæpar 80 mínútur að lengd. Með það í huga, og að brotin á milli myndanna með hundana og kvíðaræðuna mega alveg missa sig, fær maður á tilfinninguna fólkið á bakvið Fear(s) hafi einfaldlega ekki nennt þessu lengur á einhverjum tímapunkti og ákveðið að þetta væri komið gott.

Ég á svolítið erfitt með að ákveða hvað mér fannst um Fear(s) of the Dark. Hún er á köflum tilgerðarleg og stundum yfirborðskennd, en tekst líka einstaka sinnum vel upp og nær fram einhverjum viðbrögðum. Ég myndi ekki segja að það hafi verið tímasóun að horfa á Fear(s), en ég á líka í erfiðleikum með að mæla með henni fyrir nokkurn mann. Hugsanlega er þetta mynd sem að harðir kvikmyndaáhugamenn, það er þeir sem fíluðu Coffee and cigarettes eða Paris, je t’aime, eða ákafir áhugamenn um beitingu ljóss og skugga gætu haft gaman af. Allir aðrir ættu sennilega að láta Fear(s) fram hjá sér fara. Þú sérð kannski ekkert eftir tímanum sem fer í að horfa á hana, en þú hefur líka örugglega eitthvað betra að gera.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

<a href="http://en.wikipedia.org/wiki/The_Unborn_(film)">_The Unborn_</a> gefur okkur vorn mánaðarlegan J-hrylling.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=sc3Cba0qOco&hl=fr&fs=1]</p>