<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/11-poster.jpg"></p>
Tíminn er kominn, enn einu sinni. Þessiar hræðilegu vikur þegar við horfum í kringum okkur og langar ekkert meira en að heyra hreinskilið mál og sannleika, en fáum í staðinn hafsjó af lýðskrumi og fingrabendingum og sjálfumgleði frá mannleysum sem gætu ekki hóstað gat á bréfpoka. Og þegar við höldum að það versta sé yfir staðið af því að ekki nokkur heilvita manneskja gæti gleypt við svona rugli sjáum við að ekki aðeins erum við á skjön við næstum alla í samfélaginu, heldur er andaungaeftirherma fólksins sem okkur þykir vænt um svo fullkomin að eina rökrétta svarið er botnlaus deprimering marineruð í ginflösku í örvæntingarfullri tilraun til að gleyma því að eins og lítil fræ sem verða að blómum séum við yfir höfuð til. Já, það eru komnar kosningar.
Alla vega eru þær komnar hjá mér og mínum, það er náms- og öðru góðu fólki sem er búsett erlendis, af því við kjósum utankjörstaðar í sendirráðum og ræðismannsskrifstofum út um vippinn og vappinn. Við hittumst öll í hverri viku, á þriðjudögum (Útlandið er á stærð við Selfoss - skoðið stærðarskalann á kortunum ykkar) og skálum fyrir því að vera ekki í Gamla Landinu, og það hefur verið áhugavert að heyra hversu mis mikið mál það er að kjósa eftir hvar fólk býr. Einn vinur minn býr í höfuðborg í Vestur-Evrópu og rölti í sendirráðið einn eftirmiðdaginn, sjálfur tek ég lest á morgun í rúman klukkutíma til að komast á ræðismannsskrifstofu í næsta bæ, eitthvað sem ég geri með glöðu geði hvort eð er af því þá get ég kíkt í kínverskan mat og hugsanlegt kelerí hjá vinkonu minni, og annar vinur minn má velja á milli að kjósa ekki eða taka annað hvort 40 tíma rútuferð eða splæsa 400 dollurum í flug til að mæta. Síðast þegar ég vissi var hann að spá í að fara til að skila auðu, af því að það yrði góð saga.
Þessi sami vinur minn sagði mér um daginn að það kæmi sér á óvart hvað karlmenn eru einfaldar verur. Eftir hundruð þúsunda ára þróun mannkyns, síðustu nokkur þúsund ára siðmenningu með öllum þeim framförum sem henni fylgja, og langa og ítarlega persónulega menntun okkar, þá þarf samt ekki meira til en að stelpa gangi á nærfötunum eða nakin í augsýn til að við séum sáttir með lífið. Hann hefur auðvitað rétt fyrir sér, en ólíkt fertugum konum sem líta á þennan eiginleika okkar sem löst og gera illgjarnt grín að honum yfir kökum og kaffi og misheppnuðum hjónaböndum, þá finnst mér hann tvímænalaus kostur og merki um mikla nægjusemi. Lífið er einfalt og það erum við líka. Hver sá sem sá um auglýsingaherferðina fyrir The Unborn komst augljóslega sjálfstætt að sömu niðurstöðu eins og sést af veggspjaldinu fyrir myndina. Það eru orðin þónokkur ár síðan ég hætti að sofa með bangsa, en ég hef loksins fundið almennilegan staðgengil. Í hvert einasta skipti sem ég lít augum á þetta dásamlega veggspjald kemur yfir mig ró sem búddamunka og taóista getur aðeins dreymt um og ég veit að allt verður í lagi. Ég vil hvetja alla lesendur Árs hinna lifandi dauðu sem vakna á morgnana og þakka fyrir tilvist stelpna til að taka sér augnablik til að fletta upp og meðtaka veggspjaldið fyrir The Unborn einu sinni enn, ekki síst vegna þess að það er langbesti hluturinn við myndina.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/11-cageofemotion.jpg"> Þessi drengur er fastur í baðherbergisskáp tilfinninga.</p>
Ég er í fínu skapi þannig að ég held ég minnist á annan góðan við The Unborn: hún byrjar ekki á bregðuatriði þar sem einhver sem kemur málinu ekkert við deyr á hrottafullan hátt. Mér datt svo sem í hug að ég yrði leiður á einhverju í kringum hryllingsmyndir við að horfa á eina á viku, en aldrei datt mér í hug að það tæki bara tíu myndir til að innræta með mér djúpstætt hatur á bregðuatriðum sem þjóna engum tilgangi. The Unborn byrjar að vísu á atriði sem flokkunarhatturinn úr Harry Potter hefði hent í bregðuhrúguna, þó að á meðal slíkra atriða sé það ósköp sakleysislegt og yrði sennilega strítt af stærri atriðum sem glíma við vandamál heima fyrir og líður illa, en til tilbreytingar kemur atriðið bæði fyrir aðalpersónuna hennar Odette Yustman og er skrýtið og ónotalegt á eigin forsendum áður en það púllar Dallas og leggur út þetta-var-allt-bara-draumur spilið.
Í fyrri helming The Unborn eru smáatriðin á bakvið þennan leiðinlega draum svo tékkuð af eitt af öðru á meðan að skringilegheitin í kringum Yustman og dásamlega rassinn hennar magnast. Sko, strákur sem hún er að passa lemur hana með spegli svo að augnlitur Odette byrjar að breytast, sem er útskýrt með að hún var tvíburi en bróðir hennar dó á meðgöngunni, tólf ára drengur birtist í örskotsstund í skáp inni á klósettinu hennar, við lærum að mamma hennar var biluð og á hæli þar til hún framdi sjálfsmorð, og að það er gömul kona á elliheimili sem veit kannski eitthvað um fortíð Yustman. Á meðan að þessu stendur þá stigmagnast undarlegu hlutirnir í kringum Yustman, frá áðurnefndri skápabirtingu litla drengsins, yfir í draum þar sem hann reynir að klóra sig inn í hana, og að lokum í að klósett á skemmtistað fyllist af skordýrum sem eru ekki þar í raun og veru.
Á endanum afhjúpar gamla konan á elliheimilinu sig sem ömmu Odette og fyllir inn í eyðurnar: litli drengurinn sem ásækir hana er illur andi sem tók sér bólfestu í líkama tvíburabróðurs ömmunar á seinnistríðsárunum þegar að þau voru tilraunadýr ills nasistalæknis í Auschwitz útrýmingarbúðunum. Maður hlýtur að spyrja sig hvaða annars flokks hryllingsmynd verður ekki betri á að draga útrýmingarbúðir nasista með í leikinn? Amman drap bróður sinn til að stöðva andann, en síðan þá hefur hann reynt að komast inn í okkar heim, fyrst í gegnum móður Yustman, svo bróður hennar í leginu, og nú loksins í gegnum hana. Eins og Batman er fröken Yustman þeirrar skoðunar að maður eigi að takast á við vandamálin sín í staðinn fyrir að bíða eftir að þau hverfi af sjálfsdáðum, sem hún gerir því miður ekki með því að standa á skýjakljúfum í nærfötunum einum fata, heldur með því að hóa í rabbínan Gary Oldman, sem hefur víst ekkert betra að gera við frítímann sinn en að þýða hnausþykkar og ævafornar bækur fyrir unglingsstúlkur sem segja að illir andar ásæki sig.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/11-oldman.jpg"> Gary Oldman táldregur Stringer Bell úr The Wire með þokkafullum hornleik.</p>
Á blaði hljómar þetta eins og grunnurinn að sæmilegri hryllingsmynd, sem ber að vísu miður litla virðingu fyrir helförinni þegar kemur að því að setja saman baksöguna sína, en í raunveruleikanum er alveg hundleiðinlegt að horfa þessa atburðarrás af því það gerist ekki rassgat í The Unborn. Hvert einasti af punktunum að ofan er útskýrður í gegnum samtöl á milli nokkurra persóna, sem er alveg fínt eitt og sér, en það vantar allan hasar inn á milli útskýringanna og maður fær aldrei á tilfinninguna að manndrápsandinn sé eitthvað meira en lítillega pirrandi fjandi sem fílar að fela sig í skápum, frekar en illt afl sem er eldra en tíminn sjálfur. Ég fattaði aldrei af hverju allir voru svona hræddir við lítinn gutta sem birtist einstaka sinnum á óþægilegum augnablikum, eða hvernig í andskotanum hann ætlaði að taka yfir Odette, eða ef hann ætlaði ekki að gera það, hvað hann myndi græða á því að drepa hana. Fyrir utan þetta þá tekur alveg klukkutíma að draga hr. Oldman til leiks og loksins þegar að útrýmingabúðardrengurinn mannar sig upp í að slátra einhverjum eru bara tuttugu mínútur eftir af myndinni, og lítið annað eftir að gera en að slaufa þessu með spennulausu særingaratriði og lokauppljóstrun sem gerir allt sem kom á undan fullkomlega óþarft og tilgangslaust.
Burtséð frá því að allir í The Unborn voru undarlega tilbúnir að taka sér tíma til að krukka í yfirnáttúrlegum hlutum sem þeir höfðu ekkert nema orð Yustman fyrir, sem ég er svo sem tilbúinn að samþykkja af því að sannfæringarmáttur rassins er mikill, og að öll atburðarrásin í myndinni fæddist tilgangsvana, þá pirraði mig mikið að bæði orsök og afleiðing tékkuðu sig inn á ódýrt hótel og gerðu ósegjanlega hluti við hvort annað á meðan að The Unborn stóð. Fyrir utan áður dulið hatur mitt á upphafsbregðuatriðum, þá hef ég uppgötvað á síðustu þrem mánuðum að ég vil að fólkið sem ég horfi á lenda í limlestingum og almennum óþægindum sé yfir höfuð í þessu veseni út af þeim ákvörðunum sem það hefur tekið, en ekki af því að það vantaði mannlegt andlit til að verða fyrir hvaða sjúka fjanda sem handritshöfundurinn kokkaði upp. Þær myndir sem gera þetta best hingað til eru <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/01/22/1-day-of-the-dead/">_Day of the Dead_</a> og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/03/12/8-the-ruins/">_The Ruins_</a>, þar sem persónur deyja á hræðilegan hátt af því að þær voru hálfvitar, en á hinum endanum á skalanum eru <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/03/05/7-mirrors/">_Mirrors_</a> og núna The Unborn, þar sem það nægði að aðalpersónurnar mættu í vinnuna eða fæddust til þess að þær gæfu kost á sér sem fórnarlömb okkur hinum til skemmtunar og yndisauka. Ég vil að hryllingsmyndirnar mínar hafi alla vega vott af boðskap, þó hann sé ekki meiri en ,,ekki rölta út í frumskóg með engar vistir og án þess að láta neinn vita, og við hliðina á því gengur ,,ekki fæðast inn í fjölskyldu sem er ásótt af illum anda
ekki alveg upp.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/11-arse.jpg"> Einu sinni enn, með tilfinningu.</p>
Mér fannst The Unborn leiðinleg og ósamanhangandi á frekar áhugaverðan hátt, eins og að sá sem skrifaði hana hafi aldrei lesið handritið sitt aftur heldur verið sannfærður um ágæti þess í huganum, og að enginn sem að tók þátt í að búa myndina til hafi lagt í að horfa á hana eftir að tökum lauk. Því kom mér á óvart að hún var skrifuð og henni leikstýrt af einum og sama manninum, sem hlýtur því að hafa skilað máttlausri sýn sinni nokkuð óspilltri til okkar óþvoðu, honum David S. Goyer. Ég varð enn meira undrandi þegar ég leit á ferilskránna hans og sá að hr. Goyer hafði hönd í bagga með að skrifa Dark City (Kiefer!), Blade-myndirnar og bæði Batman Begins og The Dark Knight. Nú er Blade-bálkurinn kannski engin Hringadróttinssaga en það verður seint tekið frá þeim að það er gaman að horfa á þær, og bæði Dark City og Batman-myndirnar eru góðar og vel uppsettar sögur. Ég veit því ekki hvað klikkaði hérna, kannski skrifaði einhver annar hinar myndirnar og Goyer fékk að vera á listanum af því hann hékk voða oft á staðnum á meðan. Við munum aldrei vita það, eða alla vega ekki gegnum mig, af því ég er alveg sáttur við að losna við The Unborn og allt sem henni tengist úr lífi mínu.
Ef að ekki væri fyrir þá staðreynd að Odette Yustman eyðir miklum tíma í The Unborn klædd færri fötum en kvefhræddu fólki þykir þægilegt, svo ég tali nú ekki um dýrindisplaggatið hér að ofan, þá færi The Unborn langt með að falla í sama tímasóunarflokkinn og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/03/19/9-repo-the-genetic-opera/">_Repo! The Genetic Opera_</a>. Þetta er alveg heilsteyptari mynd, með persónum og öllu og blessunarlega laus við öll sönglög, en hver einasta mínúta þegar Yustman er ekki léttklædd á skjánum er mínúta sem má missa sín án þess að heildarupplifunin raskist að mælanlegu leyti. Ég get ekki sagt að ég hati The Unborn, eða líki einu sinni illa við hana - til þess að mynd vekji slík tilfinningaviðbrögð þarf hún að ná einhverjum tökum á manni og það er engin hætta á að The Unborn geri það - en eftir stendur að ef vondur maður brýst inn til mín í kvöld með það í huga að neyða mig til að horfa á hana aftur, þá mun ég reyna allt sem ég get til að hann samþykki að leyfa mér að horfa á plaggatið fyrir myndina í níutíu mínútur í staðinn. Allt sem er vel heppnað við The Unborn má finna þar og plaggatið gerir gott betur en að koma í staðinn fyrir myndina sjálfa.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
Bradley Cooper úr Alias myndar gaur sem heggur mann og annan með kjöthamri í Midnight Meat Train.
<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=FysmKMq1D4Y&hl=fr&fs=1]</p>