<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/12-poster.jpg"></p>

Ef að það er einhver vika í árinu sem ég vildi að ég gæti klippt út og sleppt í heild sinni, þá er það vikan sem er að líða. Ástæðan er að páskarnir eru í næstu viku og þar af leiðandi páskafrí líka. Ég er löngu búinn að eyrnamerkja þetta páskafrí fyrir saurlifnað og dekadens - jesúbarnið hefði viljað það - í formi þess að liggja í sólinni í almenningsgörðum með endalausar vínflöskur með vinkonu minni sem kemur í heimsókn frá Íslandi. Eins sexý og góður félagsskapur Hodge-fræði og þjappaðar Kähler víðáttur eru, þá ná þau ekki að toppa vínflöskur og sénsinn á að segja vonda brandara á íslensku, og fyrir utan það væri ég alveg til í að taka mér vikufrí frá bókasafninu sem ég er búinn að eyða meiri tíma á en hollt er.

Helst hefði ég verið til í að mega eyða þessari viku í montage atriði, það er atriði í bíómynd þar sem aðalpersónan er sýnd læra eitthvað og þroskast á stuttum tíma, yfirleitt við undirleik hetjugítara og þvíumlíks. Þið vitið, eins og æfingaratriðin í Rocky undir 'Eye of the tiger' eða þegar að Simbi í Lion King vex úr grasi við 'Hakuna Matata'. Ég sé alveg fyrir mér að fá lánað frá báðum þessum atriðum og vera sýndur vaxa smekklegur rauðbrúnn makki á vikutíma á meðan ég hleyp upp á gamla virkið sem gnæfir yfir bænum, þrýsti hefunum til himins þegar upp er komið og öskra eitthvað sem má túlka á jákvæðan hátt, áður en að myndavélin hringsólar í burtu í þyrlu og endar á skoti á sólarupprás, af því að það yrði táknrænt eða eitthvað. Undir yrði svo spilað 'Montage' úr Team America eftir gaurana sem gera South Park.

Ég hef mjög gaman af South Park. Á meðan að þeir eru ekki alltaf góðir, sumir þættirnir inn á milli eru reyndar svo leiðinlegir að þeir teljast alger tímasóun, þá eru þeir alveg dásamlegir þegar þeim tekst vel upp. Sérstaklega hef ég gaman af þegar þeir troða inn klisju ofan á klisju í söguþráð sem var ekkert svo spes til að byrja með en verður eitthvað annað og meira fyrir sakir miskunnarlauss sívaxandi fáránleika. Uppáhalds dæmið mitt er þátturinn þegar að Queer Eye for the Straight Guy var tekinn fyrir, þar sem höfundarnir voru búnir að mála sig svo gjörsamlega út í horn að það var engin leið til að enda þáttinn og það þurfti ennþá að fylla fimm mínútur af efni. Í innblásnu ,,æ skítt með það`` augnabliki var upplýst að allir vondu kallarnir væru í raun og veru krabbafólk - hálfir menn og hálfir krabbar sem tala eins og menn og bragðast eins og krabbar - sem býr í iðrum jarðar og hyggur á heimsyfirráð. Ég skemmti mér sjaldan jafn mikið og þegar að eitthvað kemur mér á óvart, og ég á erfitt með að muna eftir neinu sem hefur komið jafn aftan að mér og þessi algera rökleysa. Eftir að hafa horft á Midnight Mean Train veit ég að ég er ekki einn um þá skoðun.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/12-crabpeople1.jpg"> Krabbafólkið.</p>

Ég hef ennþá ekki hugmynd um af hverju svona margar hryllingsmyndir byrja á eins konar sýnishorni fyrir það sem koma skal, það er bregðuatriðum eða einhverju einstöku morði eða voðaverki. Eru hryllingsmyndaaðdáendur svo óþolinmótt fólk að þeir verða að fá smá sjokk strax í upphafi bara til að friða blóðlostann gegnum fyrstu mínútúrnar, eins og börn sem fá að opna einn pakka fyrir kvöldmat á aðfangadagskvöldi? Þetta viðgengst ekki svo mikið í öðrum kvikmyndageirum. Svo við höldum áfram með dæmin að ofan þá byrjar Rocky ekki á því að persóna sem kemur málinu ekkert við er barin í klessu, og eins snýst upphafsatriðið í Lion King ekki um að vonda ljónið éti gazellu. Hvað sem því líður hefst Midnight Meat Train á því að maður vaknar í tómri neðanjarðarlest og heyrir undarleg hljóð úr næsta vagni, þar sem maður í snyrtilegum jakkafötum er að berja lífið úr einhverju með kjöthamri, og svo birtist titill myndarinnar. Allt atriðið tekur hálfa mínútu, tengist söguþræðinum ekkert og þjónar engum öðrum tilgangi en að benda á að þetta verður blóðug mynd sem gerist að einhverjum hluta í neðanjarðarlest, sem ég held að öllum hafi þegar verið ljóst út frá titlinum einum saman. Kannski er þetta þjónusta við þá áhorfendur sem skilja ekki ensku og geta ekki lesið texta, þó ég skilji ekki af hverju þeir væru að horfa á myndina yfir höfuð.

Eftir þetta blóðsúthellingafix hittum við aðalpersónu myndarinnar, ljósmyndarann Bradley Cooper. Hann býr í New York með kærustunni sinni Leslie Bibb og er að reyna að koma sér og ljósmyndunum sínum á framfæri hjá fræga galleríeigandum Brooke Shields, sem birtist hér í fyrsta hlutverkinu sem ég man eftir henni í síðan í Suddenly Susan þáttunum á RÚV í dentid. Viðfangsefni ljósmynda Bradley er borgin sjálf. Eins og hann útskýrir fyrir frú Shields vill hann fanga rétta andlit borgarinnar, eitthvað sem engum hefur tekist áður að hans sögn. Henni finnst Bradley samt ekki hafa tekist það heldur, svo hann tekur að ráfa um götur og neðanjarðarlestir New York í kringum miðnætti í leit að einhverju nógu sjokkerandi að mynda, af því hið rétta andlit New York er víst samansett úr nauðgunartilraunum og vandræðaunglingum, en ekki breiðgötum og skýjakljúfum eins og ég hefði ímyndað mér. Honum Bradley tekst prýðilega upp þegar hann kemur í veg fyrir að ungri stúlku sé nauðgað af þrem strákum í undirgöngum, og fær loforð um pláss á sýningu eftir nokkrar vikur ef hann geti bætt nokkrum myndum af svipaðri kaliber í safnið sitt. Næturferðirnar halda því áfram, en fara smátt og smátt út af sporinu eftir að hann kemst að því að unga stúlkan sem hann bjargaði hvarf sporlaust og að hann var síðasti maðurinn sem sá hana lifandi, fyrir utan hinn dularfulla Vinnie Jones sem klæðist alltaf snyrtilegum jakkafötum og er oft á ferð í neðanjarðarlestum New York í kringum miðnætti.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/12-drauminn.jpg"> Bradley lifir drauminn.</p>

Þeir sem hafa lesið eitthvað af hinum umfjöllununum eru örugglega búnir að átta sig á að því minna sem ég segi um söguþráð mynda því betur líkar mér við þær. Ef ég fíla einhverja mynd, þá vil ég að sem flestir aðrir horfi á hana líka og þá er til einskis að spilla söguþræðinum fyrir hinum, en ef að mynd er rusl þá finnst mér ekkert að því að hlægja að hverri einustu fáránlegu sögufléttu til að réttlæta að minnsta kosti eitthvað af tímanum sem fór í að horfa á hana. Þar sem að allt hér að ofan kom fram í trailernum væri því ekki óvitlaust að álykta að mér líkaði mjög vel við Midnight Meat Train, sem mér gerði líka langt fram eftir myndinni af því að hún reyndi aldrei að vera annað en fín og blóðug hryllingsmynd og tókst það alveg prýðilega frá byrjun og þar til í blálokin.

Ólíkt <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/04/02/11-the-unborn/">_The Unborn_</a> frá því í síðustu viku skoraði Midnight Meat Train mörg stig hjá mér út á að halda upp á orsök og afleiðingu. Allt vesenið sem að Bradley lendir í kemur fyrir hann af því að hann vill ekki hætta að snuðrast í kringum Vinnie Jones, þrátt fyrir beinar hótanir Jones um að eitthvað slæmt gerist ef hann hætti því ekki, og beiðnir kærustunnar hans og vina um að hann einbeiti sér að ljósmyndasýningunni sinni í staðinn fyrir að elta ókunnugan mann um neðanlestarkerfið allar nætur. Ofan á þetta orsakasamhengi þá virkuðu persónurnar flestar eins og alvöru manneskjur, í staðinn fyrir gangandi hryðjuverkaskotmörk eins og vill oft verða í svona myndum. Ég fékk alla vega á tilfinninguna að þau Bradley og Leslie ættu sitt eigið líf sem að miðnæturlestirnar pössuðu ekki inn í, og fyrir sitt þögla leyti virtist Vinnie Jones frekar vera maður sem vildi fá að vinna vinnuna sína í friði fyrir einhverjum smáljósmyndara heldur en froðufellandi geðsjúklingur sem drepur fólk af illkvittninni einni saman. Þetta var enginn Laxness, en þetta virkaði alveg.

Í gegnum alla myndina hafði ég gaman af hvernig söguþráðurinn og persónurnar virtust vera aðeins meira samanhangandi en ég hef átt að venjast hingað til. Í fyrstu pirraði mig aðeins hvað leikstjórinn notaði mikið af hægum skotum og tölvutæknibrellum þar sem þær vantaði alls ekki, en ég fyrirgaf honum það og meira til eftir að hann datt niður á einstaka innblásinn gullmola, eins og þegar hann sýndi Vinnie Jones lemja höfuðið af einu fórnarlambinu sínu út frá skoppandi fyrstu persónu sjónarhóli fórnarlambsins. Ef að Alan Turing fann tölvur upp til einhvers, þá var það til að sýna afhöfðanir í fyrstu persónu. Þar að auki vakti Midnight Meat Train upp skemmtilegar pælingar hjá mér um hvernig fólk hegðar sér og hundsar að mestu hvort annað í stórborgum og ég var búinn að glósa hjá mér nokkra punkta til að tala um í kringum þær. En í blálokin, þegar að fimm mínútur voru eftir af myndinni, datt botninn úr allir myndinni í fullkominni u-beygju úr hreinni örvæntingu og rökleysi. Krabbafólkið mætti.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/12-crabpeople2.jpg"> Krabbafólkið snýr aftur.</p>

Ég vildi óska að krabbafólkið væri einhversskonar meinhæðin myndlíking, en svo er ekki. Þegar að fimm mínútur eru eftir af Midnight Meat Train og lokaslagurinn á milli Brad og Vinnie erg búinn þá mætir hópur af undirmennskum verum sem éta fólk og búa í neðanjarðargöngum New York á staðinn. Í ljós kemur að Vinnie Jones var einn hlekkur í aldagömlu samsæri um að halda tilvist þeirra leyndu og sjá þeim fyrir mannakjöti á hverjum degi og að þetta samsæri teygir sig meðal annars til lögreglunnar í New York. Og nú þegar að Vinnie Jones er orðinn gamall og þreyttur á Bradley að taka við af honum, sem hann gerir eftir að tungan er rifin úr honum og kærastan hans er rist á hol fyrir framan hann.

Ha?

Af hverju? Af hverju í fokkings ósköpunum? Það var kominn fínn endir á myndina. Hún var búin. Og svo kemur þetta? Hverjum datt þetta í hug? Hvað hafði hann eiginlega á móti okkur? Þetta er ekki South Park, þar sem maður gerir beinlínis ráð fyrir að hlutirnir séu fáránlegir og veruleikafirrtir, heldur bíómynd sem gaf aldrei neina vísbendingu um að eitthvað svona væri á leiðinni. Af hverju eyddu höfundarnir öllum þessum tíma í að byggja upp trúanlegar persónur og aðstæður ef þeir ætluðu að henda þeim öllum fyrir borð á síðustu fimm mínútunum? Af hverju tróðu þeir krabbafólkinu þarna inn? Hver var tilgangurinn með að halda tilvist þeirra leyndu? Ég tali nú ekki um að halda lífinu í þeim? Ég veit að mitt fyrsta verk sem borgarstjóri New York væri að uppræta öll samfélög undirmennskra mannæta í holræsunum mínum, í staðinn fyrir að fóðra þau á fólki úr daglega lífinu. Af hverju var tungan rifin úr Bradley þegar að Vinnie Jones var ennþá með sína? Af hverju var kærastan hans Bradley drepin? Og af hverju í andskotanum samþykkti hann að taka við starfinu hans Vinnie? Hélt hann að honum myndi leiðast á daginn núna þegar hann hafði ekkert að lifa fyrir lengur og vantaði eitthvað til að drepa tímann? Ég sver að fokking Eraserhead meikar meira sens en þetta, og hún er eins og fokking hálfs klukkutíma útgáfa af martröð sem David Lynch fékk einhvertímann!

Ef við segjum að vinir séu tvær manneskjur sem hafa aldrei kært hvor aðra til lögreglunnar, þá er ég vinamargur maður. Nelson Mandela er vinur minn. Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti líka. Áður en ég horfði á Midnight Meat Train voru handritshöfundarnir Clive Barker og Jeff Buhler vinir mínir. Þeir eru það ekki lengur. Þegar að myndin kláraðist var ég sár. Mér fannst ég svikinn og mér leið eins og kjána fyrir að hafa leyft Midnight Meat Train að gera mér upp vonir og spila svona með mig. Ég var reiður og mig langaði að fá svör við mörgum spurningum, einföldum spurningum, réttlátum spurningum, sem ég öskraði til þeirra um miðja nótt af grasinu fyrir framan húsið þeirra klæddur í ekki neitt nema hlaupaskó og kúrekahatt, með hálftóma ginflösku í vinstri hendinni sem ég sveiflaði til og frá til að leggja áherslu á mál mitt á milli gúlsopa. Þegar að löggurnar drógu mig froðufellandi í burtu tuttugu mínútum síðar í miðri útlistun á ömurleika Clive og Jeff höfðu þeir ekki svarað einni einustu fyrirspurn minni.

Frá og með deginum í dag eru Clive Barker og Jeff Buhler óvinir mínir. Ég ætla aldrei að horfa á, lesa, eða koma líkamlega nálægt neinu sem þeir gera. Ef ég kemst að hvert þeir fluttu eftir síðustu heimsókn mun ég mæta þangað og gera grín að skónum þeirra og segja börnunum þeirra að jólasveinninn sé ekki til og brenna húsin þeirra. Þetta verður slæmt ástand sem þeir verðskulda hverja einustu sekúndu af. En vitið þið hvað er það versta? Alveg sama hvað ég geri, alveg sama hvaða sjúka fjanda mér dettur í hug, þá verður það of gott fyrir þá.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

Píparinn Jack Brooks tekst á við djöfla í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Jack_Brooks:_Monster_Slayer">_Jack Brooks: Monster Slayer_</a>, sem virðist ætla að taka sjálfa sig hæfilega alvarlega.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=ejwdhipRQJU&hl=fr&fs=1]</p>