<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/13-poster.jpg"></p>

Ég varð fyrir vonbrigðum í gærkvöldi. Engum litlum vonbrigðum, heldur upplifði ég eitt af þessum augnablikum sem að hrista trú manns á mannkynið í heild sinni og gera það að verkum að maður ákveður að eignast aldrei börn, af því að það væri hvort eð er tilgangslaust í þessum grimma heimi og svo framvegis. Ég var með vinkonu minni og sirka þrjátíu öðrum krökkum í laut á bakvið gamalt virki sem hengur utan í fjalli yfir bænum mínum. Nóttin var skollin á, en það var ennþá hlýtt úti og ofan úr dalnum drógu götuljósin útlínur bæjarins í myrkrinu. Við sátum í kringum varðeld, sem við höfðum grillað pylsur með papriku á fyrir sirka tveim tímum, og vorum búin að eyða kvöldinu í að drekka bjór og spjalla saman og spila á gítar.

Ein af betri ákvörðununum sem ég hef tekið er að taka gítarinn minn með mér hingað út. Þegar ég fór var ég nýbúinn að kaupa hann og á meðan að ég hafði umgengist gítara áður og kunni helstu gripin og gat hamrað út einu eða tveim lögum, þá hefði enginn sem væri ekki að reyna við mig sagt að ég spilaði vel. Þannig að það var ekki sjálfgefið að ég myndi drösla honum gegnum millilandaflug, lestir og almenningssamgöngur til þess eins að geta spilað vondar útgáfur af Pixies lögum. Eftir á er ég ótrúlega feginn að ég tók gítarinn með. Þegar að maður kemur inn til sín eftir daginn á þriðja mánuði í landi þar sem maður talar tungumálið ekki nógu vel, þá er fátt meira slakandi en að setjast niður og spila aðeins. Þar að auki hefur maður nóg af frítíma til að æfa sig þegar að maður kann ekki ennþá nóg í málinu til að eignast vini og maður verður merkilega fljótt betra en mellufær.

Þegar ég bað um að fá gítarinn í gærkvöldi var ég því nokkuð viss um að ég myndi ekki gera sjálfan mig að of miklu fífli, þrátt fyrir að vera búinn að marinerast í áfengi í smá tíma. Allir aðrir voru samt á sama ölvunarstigi og ég, þannig að þau feilspor sem ég tók þegar ég sló upphafshljómana í 'No One' eftir Aliciu Keys fóru framhjá hinum, sem þekktu ekki ennþá lagið. Svo söng ég fyrstu línuna og vinkona mín tók undir. Og enginn annar. Við tvö sungum allt lagið án þess að ein einasta manneskja syngdi með. Þetta er ekki eðlilegt. Líf fólks skiptist í tvo hluta, áður og eftir að það heyrði 'No One', og það er algjörlega ómögulegt að sitja kyrr og sötra bjór þolinmæðislega á meðan að það er spilað, hvað þá sungið af innlifun. Á þessu var aðeins ein möguleg útskýring: Ég og vinkona mín vorum í grillfylleríi í rjóðri fyrir aftan gamalt virki með þrjátíu manns sem höfðu aldrei hlustað á Aliciu Keys. Á augnablikinu sem ég áttaði mig á þessu ákvað ég að eignast aldrei börn. Hvaða heimur sem inniheldur þrjátíu manns sem hafa ekki heyrt 'No One' er of grimmur til að fæða börn í.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/13-parents.jpg"> Foreldrar Jacks étnir af skógartrölli/manni í latexbúning.</p>

Á sama hátt vil ég ekki búa í heimi sem býr ekki til myndir eins og Jack Brooks: Monster Slayer. Ekki endilega af því að ég hafi eitthvað sérstakt dálæti á svona myndum, heldur út af allri vinnunni á bakvið þær. Að setja saman bíómynd er langt, flókið og taugatrekkjandi ferli sem er háð samvinnu fjölda einstaklinga og á meðan því stendur er oft er allt annað en augljóst að myndin líti einhvertímann dagsins ljós eða verði ekki að athlægi undir lokin. Mér hlýnar því um hjartarætur þegar ég hugsa til þess að einhversstaðar þarna úti er fólk sem helgaði líf sitt því í ár eða svo að búa til mynd um pípara sem berst við andsetinn efnafræðikennara. Sumt fólk reynir að betra sig og heiminn með því að vinna fyrir Amnesty International, aðrir gera magaæfingar á morgnana, og enn færri kvikmynda Jack Brooks: Monster Slayer.

Aðalpersóna Jack Brooks er píparinn Jack Brooks. Þegar að hann var lítill varð hann vitni að því að skógartröll drap fjölskylduna hans meðan þau voru í útilegu, og hann þjáist af bræðisköstum af því hann hefur aldrei getað fyrirgefið sér fyrir að hafa flúið, þrátt fyrir að hann hefði ekki getað gert neitt til að hjálpa þeim. Ofan á að píparast á daginn og bræðiskasta bílnum sínum í gang, þá fer Jack í kvöldskóla með óþolandi kærustunni sinni þar sem þau sækja efnafræðitíma hjá Dr. Crowley. Ef það var einhvertímann útskýrt af hverju Jack er í þessum tímum þá fór það framhjá mér, en það skiptir svo sem engu máli af því tímarnir eru bara afsökun til að hafa einhver tengsl á milli Jack og Crowley. Svona þegar ég hugsa um það átta ég mig ekki alveg á af hverju þeir tveir þurftu að eyða einhverjum tíma saman fyrir utan kennslustofuna, af því að það eina sem kemur út úr því sem tengist sögunni eitthvað er viðvörun frá gömlum manni í pípulagningarbúð um að eitthvað illt sé í kringum húsið sem að Crowley býr í, en því hefði alveg eins verið hægt að koma fyrir sem slembisamtali á bar eða eitthvað þannig.

Hvað sem því líður hafði gamli maðurinn rétt fyrir sér, eins og Dr. Crowley kemst að þegar hann grefur upp innsiglaðan kassa í garðinum sínum, sem í eru beinagrind af manni og hjarta innsiglað í einhversskonar svartri demónískri leðju. Leðjan yfirtekur líkama Crowley og ræktar með honum mikla matarlyst og kolkrabbaþreifara, sem hann nýtir til að gæða sér á nemendunum í efnafræðitímanum sínum og breyta þeim í andsetin skrýmsli. Eins og nafni sinn Bauer sættir Jack sig ekki við þetta kjaftæði og afræður að bræðiskasta sér í gegnum skrýmslin og andsetna kennarann til þess að bjarga ótrúlega tíkarlegu kærustunni sinni, sætu gellunni sem er búin að vera að daðra við hann, og hverjum öðrum sem er líka á lífi á staðnum.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/13-hippie.jpg"> Þessi maður er blessunarlega laminn.</p>

Fyrir utan hvernig djöflaleðjan er kynnt til leiks (Í alvöru, hver heldur áfram að grúska í dularfullum kassa fullum af mold eftir að hann finnur lærlegg af manni í honum?) þá fannst mér gaman að frelsinu sem fylgdi henni. Aðrar hryllingsmyndir þurfa að vinna eftir nokkuð föstum reglum þegar að þær eru búnar að negla skrýmslin sín niður - vampýrur, uppvakningar og almennar dýraplágur eru frekar vel skilgreind fyrirbæri með þekktar afmarkanir - en um leið og maður segir að þetta sé allt djöfullegri andsetningu að kenna getur maður eiginlega gert hvað sem er. Viltu láta fálmara vaxa út úr vísindakennaranum? Eða leyfa honum að smita aðra af djöfladýrkuninni? Eða breyta honum í ódýra útgáfu af Jabba the Hut? Gerðu það þá! Hvers vegna í fjandanum ekki? Andsetningar eru töfralausn kvikmyndanna á öllum vandamálum, og ég ætla héðan í frá að reyna að nýta mér þær oftar sem afsakanir í daglega lífinu. Auðvitað kemst hvaða mynd sem er ekki upp með svona stæla, maður þarf að vera tilbúinn til að taka hana hæfilega alvarlega til að sætta sig við svona spuna, en að vera tekin alvarlega er ekki eitt af vandamálum Jack Brooks. Hún þykist aldrei vera neitt annað en ódýr skemmtun um reiðan gaur og skrýmsli.

Þess vegna er undarlegt hversu miklum tíma Jack Brooks eyðir í tilraunir til persónusköpunar og baksögu áður en að Jack byrjar að berja á djöflunum. Þó að Dr. Crowley verði sífellt undarlegri eftir að hann kemst í tæri við djöfulinn, þá ógnar hann engum fyrr en að það er klukkutími liðinn af myndinni og lokabardaginn er rétt handan við hornið. Allur tíminn þar á undan fór í að horfa á Jack spjalla við sálfræðinginn sinn um reiðivandamálið og fjölskylduna sína eða fylgjast með efnafræðitímum og einstaka atriðum úr daglega lífinu. Útkoman er sérkennileg. Öll baksagan er vel sett saman og er á köflum fyndin og manni leiðist ekkert við að horfa á hana, en það er alltaf á tæru að Jack Brooks er mynd um gaur sem lemur skrýmsli í klessu, og á meðan henni stendur finnur maður í sífellu fyrir lítillega ertandi tilhugsun um að það er ekki búið að lemja nein skrýmsli ennþá. Ég er alveg til í að fylgjast með fólki með djúpstæð persónuleg vandamál, og kunni vissulega að meta vinnuna sem fór í að reyna að skissa alvöru persónu úr Jack, en hvorugt þessara atriða er ástæðan fyrir að mig langaði að horfa á mynd sem heitir Jack Brooks: Monster Slayer.

Ég hef á tilfinningunni að Jack Brooks sé ekki alveg viss um hvernig henni á að finnast um reiðisköst og ofbeldi. Eins og kemur skýrt fram er Jack sjálfur orðinn leiður á því að hafa ekki stjórn á skapi sínu og hvernig það kemur honum í vandræði, af því að hann er ekki vondur maður heldur bara gaur sem verður pirraður þegar að hann mætir einhverju sem hann skilur ekki og á erfitt með að hemja sig. Hins vegar er erfitt að lesa einhverja fordæmingu á gjörðum Jacks úr myndinni, af því að hún hefur óhemju gaman af því að velja hentug fórnarlömb fyrir reiðisköstin (Ég stóð upp úr stólnum og klappaði þegar að Jack barði óþolandi hippabekkjabróður sinn. Eins og skáldið sagði: ,,Goddamn hippies. Say they wanna save the world, but all they do is smoke pot and smell bad.``) og hún málar slagsmálaatriðin yfirleitt í jákvæðu ljósi, eins og þau séu kannski ekki eitthvað sem þurfti að gera en þau séu alla vega réttlætanleg.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/13-wrestling.jpg"> Ofbeldi er kannski rangt, en eins óskýrt og þetta skot er, þá er það ekkert nema töff.</p>

Út af þessum umfjöllunum á ég það til að hugsa miklu meira um þessar myndir en höfundarnir gerðu endilega ráð fyrir að fólk myndi gera, svo það er möguleiki að þetta sé kolrangt hjá mér, en ég held að Jack eigi að vera persónugerving ákveðnar karlmennskuímyndar sem á sér erfitt uppdráttar í samfélaginu í dag. Hann er gangandi dæmi um sterka manninn sem vill helst ekki tala um tilfinningar sínar og finnst auðveldast að lemja frá sér þegar hann mætir einhverju nýju. Allt vesenið sem Jack lendir í út af hegðun sinni endurspeglar hvernig þessi ímynd er ekki talin eðlileg lengur, en jafnframt má lesa lokin á myndinni sem viðurkenningu á því að þessi hegðun átti sér eðlilegan stað í fortíð okkar þegar að heimurinn var ekki jafn öruggur og nú.

Ég held líka að Jack Brooks líti ekki svona jákvæðum augum á reiðisköstin hans Jacks og leyfi honum að sleppa tiltölulega vel undan andsetna efnafræðikennararnum bara af því að það er sögumennskan sem maður býst við að myndum af þessum klassa, heldur líka af því að stundum langar okkur öllum að bregaðst við eins og Jack. Alveg sama þó að maður viti að það sé ekki rétt og leysi ekki neitt og að maður geti lent í alvarlegum vandræðum fyrir það, þá langar mann stundum bara að kýla fólkið í daglega lífinu. Maður gerir það ekki, en eftir stendur engu að síður að löngunin var til staðar, sem minnir á að þrátt fyrir lög, siðareglur og fallegan arkitektúr er ennþá mjög stutt frá því að við bjuggum í trjám og að við erum ekki komin lengra frá þeim en þetta.

Ef að þessi pæling tryggði Jack Brooks: Monster Slayer ekki verðlaun ársins fyrir mestu oflesningu úr kvikmynd miðað við gæði, þá bíð ég spenntur eftir myndinni sem toppar þetta. Jack Brooks er mynd um reiðan pípara sem lemur skrýmsli. Hún skartar kannski meiri persónusköpun og aðeins dýpri baksögu en aðrar myndir af sama toga, á verulegs kostnaðar skrýmslabarsmíðanna, en hún er ekkert annað en auðgleymanleg og skemmtileg mynd sem er best notið með nokkrum vinum yfir mörgum bjórum. Stundum er vindill bara vindill, og hlutirnir gerast ekki vindlalegri en Jack Brooks: Monster Slayer.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

<a href="http://en.wikipedia.org/wiki/The_Host_(film)">_The Host_</a> frá Suður-Kóreu mætir sterk til leiks sem fyrsta, og vonandi ekki eina, risaskrýmslamynd ársins.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=hJnq9sm4Zxk&hl=fr&fs=1]</p>