<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/14-poster1.jpg"></p>
Fyrir rúmri viku var slæmt ástand á mér. Ég hafði millilent á Stansted flugvellinum fyrir utan London á leiðinni til Íslands og þurfti að bíða í sjö klukkutíma eftir fluginu mínu. Þó að ég hefði getað hringt í einhverja vini mína og kíkt á þá í London, þá fannst mér ekki taka því að eyða tveim tímum í lest til og frá borginni til að hitta þá, en mig langaði samt ekki að hanga á flugvellinum allan daginn svo ég tók lestina til næsta bæjar, Harlow Town. Ekki fara til Harlow Town. Skítaholuleiki bæjarins storkar ímyndunaraflinu og besti hluturinn við staðinn er að það er hægt að fara þaðan. Engu að síður eyddi ég sirka fjórum tímum á slæmum túristapöbb þar, sem var svo sem allt í lagi þangað til að batteríið í tölvunni minni kláraðist akkúrat um þær mundir sem ég var orðinn nógu kenndur til að nenna ekki að lesa. Kvenkostirnir á barnum voru annað hvort gamlir eða ómyndarlegir, nema að bæði væri, svo ég afskrifaði hugmyndina um að fara að daðra við gærur mér til dægrardvalar. Í staðinn pantaði ég mér annan bjór og fór að hugsa um skammtafræði, þó að ég vissi fullvel að það leiði aldrei til annars en almennrar óhamingju og siðleysis.
Nú veit ég ekki hversu mikið þið hafið spáð í skammtafræði, en einn af eiginleikum hennar er að í henni hafa frumeindirnar sem mynda heiminn okkar - rafeindir, róteindir og nifteindir - enga ótvírætt ákvarðaða staðsetningu. Ef að bíllinn þinn hagaði sér svipað og róteind, þá myndirðu finna hann í stæði sirkabout þar sem þú lagðir honum síðast en ekki á sama stað. Þetta er óneitanlega spes hegðun og hún vekur upp undarlegar spurningar og hugmyndir. Ein þeirra er margra heima túlkunin á skammtafræði, sem segir í grófum dráttum að í hvert einasta skipti þegar að frumeind getur beygt til vinstri eða hægri, þá skipti alheimurinn sér í tvö eintök. Í öðru eintaki fer frumeindin til vinstri, og í hinu fer hún til hægri. Þetta þýðir að það eru óteljanlega margir alheimar til og að sumir þeirra eru næstum því eins og okkar, það munar kannski stefnunni á nokkrum frumeindum. Þar sem við erum sett saman úr þessum frumeindum, þá þýðir þetta líka að til eru fleiri alheimar en þú getur hugsað þér með öðrum útgáfum af þér, og að sama hversu skrýtnar aðstæður sem þú getur ímyndað þér þig í, þá er sennilega til alheimur einhversstaðar þar sem þú hefur lent í þeim.
Þessar hugleiðingar vöktu með mér mikla depurð og óhamingju, af því að þær þýða að á meðan ég er sæmilega ábyrgur og siðprúður drengur - alla vega á meðan fólk sér til - þá er til útgáfa af sjálfum mér sem stóð upp úr flugvélasætinu sínu áðan, klæddi sig úr buxunum, setti nærbuxurnar á hausinn á sér, og hristi sig þokkalega og skók höndum til og frá á meðan hann sveiflaði typpinu sínu í hringi eins og þyrluspaða og hrópaði ,,O-ho-ho-ho!`` á franskan máta. Það var ekki laust við að ég yrði svolítið deprimeraður við þessa tilhugsun, af því að allar aðrar útgáfur af mér voru að skemmta sér, en ég sat á skítabar í Harlow Town umkringdur sjötta bjórs fólki. Stuttu seinna tók ég þó gleði mína á ný, vegna þess að sömu pælingar leiða til þess að það er til fullt af útgáfum af mér sem hafa aldrei séð The Host, og þeir eru fátækir og óöfundsverðir menn fyrir vikið.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/14-family.jpg"> Þrír fimmtu Park fjölskyldunnar á góðri stund.</p>
The Host hefst á atriði sem er svo löðrandi í tilgangslausri mannvonsku að það hálfa væri nóg, og ég held að sjálfir Fóstbræður hafi ekki einu sinni náð í þessar hæðir í gervisýnishornunum sínum í gamla daga. Í atriðinu gerist svo sem ekkert mikið, aðstoðarmanni á rannsóknarstofu er sagt að hella flöskum af formaldehýði í vaskinn, sem hann gerir eftir að yfirmaðurinn hans talar niður til hans í fimm mínútur vegna þess að hann benti á að þetta eru eiturefni sem þeir hafa betri leiðir til að losa sig við. Næstu nokkur skot gerast á nokkurra ára tímabili og sýna að eiturefnin hafa haft einhver áhrif, því tveir veiðimenn finna litla undarlega veru sem sleppur svo frá þeim, og nokkrir menn sem standa á bryggju taka eftir stórum skugga í ánni fyrir neðan þá.
Þegar að þessari kynningu er lokið hittum við persónur sögunnar, sem eru Park fjölskyldan. Aðalpersónan er hinn vitgranni Gang-du sem vinnur í söluturni sem pabbi hans rekur. Hann á dóttur, Hyun-seo, sem virðist vera að klára grunnskóla og tvö systkini, sem eru annars vegar bogmaður og hins vegar fyrrverandi háskólanemi og aktivisti og núverandi atvinnulaus alkahólisti. The Host sóar þó engum tíma í að skoða samböndin á milli þeirra, heldur vindur sér beint í fyrstu af mörgum skrýmslaárásum. Kvikyndið sem var vísað til í byrjuninni er nú á stærð við vörubíl og drífur sig upp úr ánni sem söluturn þeirra fegða stendur við og tekur að rífa sólsleikjandi borgarana í sig. Í ringulreiðinni sem myndast reynir Gang-du að bjarga lífi sínu, á meðan að pabbi hans og dóttir sitja í söluturninum og horfa á sjónvarpið og taka ekki eftir neinu óeðlilegu, en eftir að tilraun hans og bandarísks hermanns við að reyna að hrekja skrýmslið í burtu ber vafasaman árangur grípur skrýmslið dóttur Gang-du, hoppar aftur í ánna og syndir í burtu.
Öllum eftirlifendum árásarinnar er trillað í neyðarbúðir á vegum hersins án neinnar ástæðu þar sem fólk fær ekki meira en svefnpláss og tækifæri til að minnast hinna látnu. Eftir einhvern tíma mæta menn í gulum eiturefnavarnargöllum í búðirnar og vilja að allir sem komust í tæri við skrýmslið gefi sig fram, en neita að segja af hverju. Þar sem Gang-du er einn þeirra er hann tekinn höndum og einangraður frá hinum af því að yfirvöldin halda að skrýmslið hafi borið mér sér illskeyttan vírus. Lífið virðist ekki bjóða upp á mikið fyrir aumingja Gang-du, sem manni finnst á köflum ekki skilja fullkomlega hvað hefur komið fyrir sig, en það breytist þegar að hann vaknar um miðja nótt við símhringingu frá dóttur sinni. Hún er á lífi en föst í ræsi sem skrýmslið notar sem hreiður, og eftir að enginn frá hernum vill hlusta á þau taka Gang-du og fjölskyldan hans málin í sínar eigin hendur, flýja úr búðunum og hefja leitina að Hyun-seo.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/14-monster.jpg"> Skrýmslið á einum af sínum þokkafyllri stundum.</p>
Ég á erfitt með að ákveða hvað mér finnst best við The Host svo ég held að ég leyfi mínum innri þrettán ára unglingi að ráða valinu: djöfull var ég ánægður með risaskrýmslið. The Host á hrós skilið fyrir að halda sig innan ramma skrýmslamyndanna, en beygja engu að síður allar venjur og reglur innan þeirra. Kvikyndið sem herjar á Seoul er ekki á stærð við skýjakljúf, eins og við eigum að venjast frá Godzillu myndunum og Cloverfield, heldur er það svipað stórt og vörubíll. Fyrir risaskrýmsli er það í minna lagi, en gerir að verkum að barátta Park fjölskyldunnar við skrýmslið verður meira trúanleg, maður heldur alla vega að þau hafi einhvern séns á móti því. Þar að auki er þetta í fyrsta skipti sem að ég sé skrýmsli sem að stökkbreyttist inní heiminn í eiturefnahaugi og lítur út og hagar sér í samræmi við það. Skrýmslið er forljótt og lítur út eins og því hafi verið hent saman úr sjö öðrum dýrum. Það virðist fíla sig best þegar það sveiflar sér á milli staða á skottinu, sem er rosalega óhentugur ferðamáti, og á þurru landi er það klunnalegra en trúður á vondu sýrutrippi. Þetta er eitthvað sem ég kaupi alveg; ef að ég hefði skriðið upp úr formaldehýðspolli væru þokki og fríðleiki varla höfuðeinkenni mín.
Eins og skrýmslið eru hinar persónur myndarinnar mjög vel heppnaðar. Þrátt fyrir að það séu fimm meðlimir í Park fjölskyldunni og að þau séu öll mjög ólík, þá nær The Host bæði að sýna hvert og eitt þeirra sem sjálfstæðan einstakling sem hefur sínar eigin skoðanir og að gera samböndin á milli þeirra áþreifanleg. Í stuttu máli virka þau öll eins og alvöru fólk en ekki skrýmslafóður á tveim fótum. Ég veit ekki hvort að síbylgja vondra mynda á síðustu mánuðum hefur lækkað kröfur mínar til bíómynda svona svakalega, en mér fannst æðislegt að sjá persónunum gerð svona góð skil. Mér finnst æ sjaldgæfara að sjá vel tálgaða karaktera í venjulegum myndum, hvað þá í mynd um risaskrýmsli sem herjar á Asíubúa, og að persónurnar hegðuðu sér þar að auki eins og venjulegt fólk en ekki eins og áðurnefnt skrýmslafóður var rúsínan í pylsuendanum.
Fyrir mynd um ógnvætt sem býr í vatninu hefur The Host líka undarlega vel mótaðar skoðanir, sem hún er ekki hrædd við að koma á framfæri á milli skrýmslaárása. Fyrsta og augljósasta skotmark The Host er bandaríski herinn, sem hefur verið viðloðandi Suður-Kóreu síðustu fimmtíu ár. Allt frá upphafsatriðinu, þegar að bandarískur hermaður skipar undirling sínum að hella formaldehýðinu niður, yfir í fyrstu skrýmslaárásina þegar að ungur hermaður hleypur frá kærustunni sinni í áttina að skrýmslinu með þeim orðum að hann verði að hjálpa til, og að sóttkví og lokalausn hersins er bandaríski herinn aldrei sýndur öðruvísi en þannig að hann bregðist umsvifalaust við án umhugsunar eða tillits til almennra borgara. Hann er ekki beint sýndur sem algerlega illt fyrirbæri, eins og sést með hermanninum í byrjun sem vill bara hjálpa til þó að það sé aldrei á hreinu hvað hann geti eiginlega gert, en gegnum harkalegar aðgerðir og lygavef hersins sér maður að honum er meira umhugað um að vernda sjálfan sig en aðra. Fyrir utan bandaríska herinn fá kóreskir mótmælendur og hið opinbera líka sinn skerf af skotum. Hinir fyrri virka sem velviljað fólk sem hefur samt enga hugmynd um hvað það er að gera og þvælist meira fyrir en það hjálpar til, og allir sem koma nálægt hinu opinbera eru regluföst möppudýr sem eru í besta falli gagnslaus og í versta falli skítsama um almenna borgara.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/14-protest.jpg"> Eins og Akira kenndi okkur enda mótmæli í Austurlöndum aldrei vel.</p>
Öll þessi atriði - vel úthugsað skrýmsli, persónur og boðskapur - eru ekki eitthvað sem maður býst við af hryllingsmynd, en þau eru dæmi um hvernig The Host er algerlega óttalaus við að taka áhættu og fara ótroðnar slóðir. Flestar góðar skrýmslamyndir, eins og Alien eða Cloverfield, taka sinn tíma í að sýna skrýmslið sitt og láta því aðeins bregða óljóst fyrir í skuggum þar til í lokin. Af fyrstu tuttugu mínútum The Host fer helmingurinn í árás þar sem að skrýmslið sést vel og greinilega, og við sjáum það oft og reglulega í gegnum restina af myndinni. Með þessu kastar The Host venjulegu brellunni um að láta fólk vera hrætt við hið óþekkta fyrir borð, en í staðinn fær skrýmslið að njóta sín miklu betur en ella og verður eins og alvöru persóna en ekki bara söguþráðshvati með vígtennur.
Áhættufíkn The Host takmarkast ekki við skrýmslasýningarnar, heldur smitar hún sér leið inn í sjálfa uppbyggingu myndarinnar. The Host er hryllingsmynd. Slíkar myndir eru ólíkar sínar á milli og það rúmast ágæt breidd inní þeim flokki; það eru til dæmis til hryllingsmyndir sem keyra aðallega á spennu eða andrúmslofti, aðrar nota hryllinginn til að undirstrika dramatík, og enn aðrar nota djöflana og gerviblóðið til að láta okkur hlægja. The Host gerir allt þrennt. Eina stundina heldur maður í sætið sitt af spenningi, þá næstu fylgist maður af miklum áhuga með samskiptum persónanna, og þá þriðju er ekki annað hægt en að hlægja yfir kjánalegum slappstikkatriðum. Að láta sér detta í hug að troða öllu þessu þrennu í eina mynd er hugmynd sem aðeins fólk sem á heima í spennutreyjum fær, og hún verður bara geðbilaðri fyrir þær sakir að hún gengur fullkomlega upp. Með þessum skiptingum hefði The Host auðveldlega getað orðið jafn slæm og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/03/19/9-repo-the-genetic-opera/">_Repo! The Genetic Opera_</a>, ef ekki verri, en hún lætur þær virka gegnum einhversskonar svartagaldurskukl sem ég mun aldrei átta mig á.
The Host er metnaðarfyllsta mynd sem ég hef séð í langan tíma og hún er miklu betri en hryllingsmynd um skrýmsli í vatninu hefur nokkurn rétt á að vera. Að detta í hug að troða svona skiptingum, persónum, sögufléttum og boðskap inn í eina mynd er álíka bilað og að ráðast inn í Rússland með þrjátíu fyllibyttum vopnuðum sleifum og títuprjónum, og að það gangi allt upp kemur jafn mikið á óvart og að sú innrás takist. Undarlegast af öllu er samt að með þessum viðbætum er The Host ennþá fantagóð skrýmslamynd. Persónurnar í henni eru betur gerðar en í flestum venjulegum kvikmyndum, hún hefur boðskap sem hún er ekki hrædd við að deila með áhorfendum, og í hvert einasta skipti sem að maður fattar hvert söguþráðurinn stefnir tekur hann u-beygju sem er bæði ófyrirsjáanleg fyrir fram og eðlileg eftir á, en The Host missir aldrei sjónar af því að hún er mynd um vatnaskrýmsli. Að The Host sé yfir höfuð til er jafn ólíklegt og að tvö snjókorn séu nákvæmlega eins, og hún er ein af bestu myndum sem ég hef séð í langan tíma.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
Unglingar vaða uppi með gemsana sína og tyggjóið sitt í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Eden_Lake">_Eden Lake_</a>.
<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=Z1QaFtd55MI&hl=fr&fs=1]</p>