<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/15-poster.jpg"></p>
Þegar ég sá tágranna sextuga konu í gær í svörtu mínípilsi og snaggarlegum topp með laglega greitt hár og eyrnalokka sem glampaði á í sólinni ákvað ég að ég yrði aldrei svona þegar ég verð gamall. Ónei, mér er svo sem sama hvað aðrir gera á meðan það færir þeim ánægju eða fróun, sama þótt það þýði að klæða sig og hegða sér eins og að maður sé sautján fram á gamalsaldur, en ég sjálfur verð fúll gamall karl í ljótu vesti og buxum sem hann man ekki alveg hvar hann fékk. Helst ætla ég líka að koma mér upp minnisleysi og ringlun eða jafnvel vægum geðsjúkdómi, sem ég mun vita af en reyna af besta megni að fela fyrir öllum í kringum mig. Ég mun aldrei viðurkenna að Jóna vinkona á ekki þessa rauðu tösku á borðinu, ég mun vita fullvel að hún gleymdi henni hérna í þessum djöfuls kjaftaklúbb ykkar kerlingin þín, og mér mun einnig vera skítsama um að þú þekkir enga Jónu. Þú munt bara víst þekkja hana.
Fyrir utan minnisleysið held ég að þetta sé aðallega spurning um að halda upp á gamla klassíkera. Ég mun segja krökkum og unglingum að hunskast af lóðinni minni. Reynar er raunverulegur möguleiki á því að ég muni búa í borg þar sem að lóðir og garðar í einkaeign eru ekki á hverju strái, en ég er búinn að sjá fyrir því. Þegar ég finn mér varanlegan bústað ætla ég að byrja að halda utanum hversu mikið ég borga í skatta annars vegar og hversu mikið lóðir almenningsgarðanna í bænum eru virði hins vegar. Á hverju ári mun ég svo reikna út hversu marga fermetra ég á í almenningsgörðunum, merkja mér þá á hátt sem aðeins ég tek eftir, og segja svo krökkum og unglingum sem slysast á blettinn að drulla sér burt. Ptu. Þetta verður talsverð vinna, en mér finnst réttlætanlegt að leggja hana á mig. Það verður einhver að faire chier börn og unglinga, sem eru og verða leiðinlegar manneskjur.
Nákvæmlega hvað mér finnst að börnum verður að bíða þar til eftir tvær vikur, þegar að við gæðum okkur á The Children, en ég er sjálfur hálf sjokkeraður á viðhorfi mínu til unglinga. Eftir sirka mánuð skríð ég á síðasta hrópmerkt afmælið þannig að það eru ekki mörg ár síðan að ég var sjálfur unglingur. Til tilbreytingar við mjög vinsæla sjálfsblekkingu ætla ég ekki að halda því fram að mín kynslóð hafi verið betri en aðrar á þessu skeiði, því almennt vorum við, og sér í lagi ég, fokking óþolandi hálfvitar. Það fylgir unglingum bara. Þeir eru orðnir nógu gamlir til að vilja hafa skoðanir, en ekki nógu gamlir til að vita nokkurn skapaðan hlut sem þarf til að mynda téðar skoðanir, þeir klæða sig undarlega, þeir tala tungum (Tengt: Veit einhver af hverju ungar stelpur eru núna kallaðar ,,skinkur``? Eini möguleikinn sem mér dettur í hug er full klúr og úthugsaður.) og þeir hlusta á vonda músík, sem þeir eru ófeimnir við að blasta á almannafæri úr símunum sínum. Ég skil þá ekki og ég er hræddur við þá. Sem er ágætis forgjöf fyrir Eden Lake.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/15-begood.jpg"> Ég skal vera þægur.</p>
Aðalpersónurnar í Eden Lake eru annars vegar Kelly Reilly - ímynd hins fullkomna kvenmanns, verðandi eiginkona mín í réttlátum heimi og Wendy úr L’Auberge Espagnole - og Michael Fassbender, sem hefur án efa narrað hana Kelly til samlífs við sig með bellibrögðum af því að Kelly sem ég þekki myndi aldrei láta kenna sig við slíkt dusilmenni, og hann var víst í 300 og Band of Brothers þó ég muni ekki eftir honum þaðan. Þau eru á leiðinni út úr bænum til að eyða rómantískri helgi saman nálægt lítt þekktu stöðuvatni, sem er reyndar gömul náma sem búið er að veita vatni í (Kelly, ég myndi aldrei fara með þig í gamla námu. Nema þú fílaðir það. Ef þú vildir það fengirðu alla þá skoðunartúra í zinkverksmiðjuna sem þig dreymdi um. Ég þekki gaur og fæ frítt inn.)
Stöðuvatnið reynist prýðilega fallegt þegar þau koma þangað loksins eftir næturstopp í huggulegum breskum hvíthyskisbæ, þar sem fullorðna fólkið er feitt, drukkið og með sorakjaft, og börnin eru hávær, óþæg og lamin af þeim fullorðnu. Kelly og Michael henda upp tjaldi og leika sér í vatninu, en eru þó ekki lengi í paradís því að stuttu seinna plantar hópur af unglingum sér á ströndina rétt hjá þeim, spila vonda músík hátt og hafa engan hemil á hundinum sínum á meðan þau drekka og reykja og tala í farsímana sína. Þegar að Michael biður krakkana um að lækka í græjunum svara þau með stælum og skætingi og þau skötuhjúin láta lætin yfir sig ganga, vegna þess að þrátt fyrir að það sé nóg pláss við vatnið ætla þau ekki að færa sig út af einhverjum vandræðaunglingum. Árekstrarnir á milli þeirra stigmagnast svo með hverri ítrun þar til að þeir enda með því að einhver meiðir sig, sem losar um allar hömlur og leiðir út í ofsafullt ofbeldi.
Ég reyni yfirleitt að segja ekki of mikið um söguþráð myndanna nema að þær séu algert rusl, en í þessu tilfelli verður einfaldlega ekki hjá því komist að upplýsa allan söguþráðinn um leið og maður byrjar að tala um hann. Þetta sem stendur að ofan er það eina sem gerist í Eden Lake, og söguþráðinn má meira að segja taka enn betur saman: Ungt par hittir unglinga úti í sveit og þau gera hræðilega hluti við hvort annað. Eden Lake er í svipuðum stíl og Hostel, <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/02/12/4-frontiers/">_Frontier(s)_</a> og aðrar pyntingaklámsmyndir sem eru kvikmyndaútgáfan af hundaati, þar sem söguþráðurinn er ekki mikið annað en afsökun til þess að brýna hnífa og skvetta gerviblóði á allt og alla og horfa á síóþægilegri og meira klígjuvaldandi ofbeldisatriði.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/15-youths.jpg"> Æskan, skjöldur vor og sómi.</p>
Þar sem söguþráðurinn og persónurnar í Eden Lake vekja álíka mikla athygli og heimilislausi karlinn fyrir neðan gluggann minn sem betlar pening með því að spila sama fiðlustefið aftur og aftur þá verðum við að finna eitthvað annað til að tala um. Sem betur fer býður Eden Lake upp á einhver umræðuefni og vangaveltur, þar af ekki síst spurninguna um af hverju hún var eiginlega búin til? Í sjálfu sér hef ég ekkert út á tilvist Eden Lake að setja, en ég á voða erfitt með að sjá fyrir mér ástæðurnar sem liggja að baki því að dúndra henni út í heiminn. Nú er Eden Lake mjög blóðug og ógeðsleg mynd, og mín tilfinning er sú að af öllum kvikmyndaaðdáendum heimsins séu ekkert svo margir sem sækja viljandi í slík verk, þannig að Eden Lake var varla gerð fyrir frægð, peninga og kellingar eins og flest annað sem karlmenn taka sér fyrir hendur (leikstjóri og höfundur Eden Lake er karlmaður).
Eina önnur ástæðan sem mér dettur í hug fyrir að gera svona mynd er til að sanna fyrir sjálfum sér að maður geti það og vekja athygli á sér, sem gæti vel verið tilfellið af því að Eden Lake er fyrsta myndin í leikstjórn James Watkins og önnur myndin sem hann skrifar handritið að. Ef að það er rétt þá óska ég James Watkins hér með alls hins besta í því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni (ef að internetinu er trúandi verður það framhald af <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/The_descent">_The Descent_</a>), af því að andrúmsloftið í Eden Lake er lygilega vel heppnað. Mikið af myndinni snýst um kattar og músar leik þeirra Kelly og Michael við unglingana í skóginum umhverfis stöðuvatnið. Í röngum höndum hefði verið hundleiðinlegt að horfa á þennan eltingarleik, en Watkins hefur góða tilfinningu fyrir myndavélinni og nær á köflum að pumpa spennuna upp í óþægilegar hæðir. Að minnsta kosti stóð ég mig að því að halda full fast í stólinn minn í þegar að eltingarleikurinn var sem æsilegastur.
Þó að mikið af myndinni fari í þennan feluleik og að spennan í Eden Lake komi aðallega úr honum er alls ekki svo að hér sé um einhvern flogaveikisvald à la Michael Bay að ræða. Nei, þetta er allskostar rólegri eltingarleikur sem gengur út á taugatrekkingar og stress. Svipaða sögu er að segja um hryllinginn og blóðsúthellingarnar, sem eru bæði merkilega lítið sýndar þegar ég hugsa um það eftirá og yfirvegaðar miðað við magnið af drullu og blóði sem er þeytt útum allt. Besta leiðin sem mér dettur í hug til að útskýra þetta er að benda á að Eden Lake er bresk mynd. Á sama hátt og að góðir breskir gamanþættir eru, frekar en bandarískir kollegar sínir, tilbúnir að leyfa áhorfandanum að fylla inn í eyðurnar og fatta sjálfur af hverju síðasti brandari var fyndinn, þá er Eden Lake ófeimin við að leyfa okkur að ákveða hvað í henni er hræðilegt og hvað ekki. Voðalegustu og blóðugustu atburðirnir í henni, og af þeim er nóg, gerast úr augsýn og við sjáum annað hvort aðeins afleiðingar þeirra eða heyrum í fórnarlömbum þeirra á meðan þeim stendur. Eli Roth eða Frakkarnir sem gerðu Frontier(s) hefðu haldið andlitinu okkar að þeim og neytt okkur til að horfa, en Eden Lake gerir akkúrat það öfuga og þvingar okkur í staðinn til að fylla sjálf upp í eyðurnar.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/15-onesecond.jpg"> Þetta skot hefði tekið korter ef það hefði verið í Hostel, í staðinn fyrir eina sekúndu.</p>
Annað eftirtektarvert verk Eden Lake er að þrátt fyrir að unglingarnir séu án efa vondu karlar myndarinnar leyfir hún leyfir þeim að vera merkilega mannlegum. Aðeins einn krakkana, höfuðpaurinn Jack O’Connell sem einhverjir þekkja kannski úr menntaskólasápunni Skins, virðist vera haldinn kvalarlosta og samviskuleysi, og það er meira að segja ýjað að því að það sé komið frá ofbeldisfullum pabba hans frekar en að hann hafi fæðst sem sonur næturinnar undir sjöunda tungli hins sjöunda mánaðar. Þar að auki er hann ekki tilfinningalaust skrýmsli því honum er augljóslega umhugað um hundinn sinn, sem er aðalástæðan fyrir því að atburðarrásin fer jafn úr böndunum og raun ber vitni, og hann er bæði gáfaður og meðvitaður um afleiðingar gjörða sinna, sem sést best á að hann neyðir vini sína til að særa Michael og tekur þá upp á vídjó á meðan svo að enginn þeirra geti farið til lögreglunnar ef þeir fá samviskubit seinna meir. Fyrir sitt leyti virðast hinir unglingarnir vera krakkar sem hafa í gegnum hópþrýsting villst inn í aðstæður sem þeir hafa enga stjórn á lengur og geta ekki losnað úr þó þá langi til þess.
Ofaná þetta er eitt horn á Eden Lake sem stingur í augun en ég treysti mér ekki til að tala um, einfaldlega af því að ég þekki ekki aðstæðurnar þar í kring og væri þá að tala út úr rassgatinu á mér, en það er hvað má lesa úr henni um stéttarskiptingu og viðhorf mismunandi samfélagshópa í Bretlandi til hvors annars. Bæði unglingarnir og foreldrar þeirra koma utan af landi og eru verkamannafólk, á meðan að Michael og Kelly búa í einhverri borginni og virðast teljast til miðstéttarinnar. Árekstarnir á milli parsins og krakkana virðast kvikna að einhverju leyti af því að krakkarnir halda að þau séu uppar sem eru að skoða stöðuvatnið, en það á að breyta því í lokað sumarbústaðasamfélag fyrir ríka fólkið. Þetta er rangt hjá krökkunum, en hjálpar alls ekki til við samskipti hópanna tveggja. Eins og ég segi treysti ég mér ekki til að lesa mikið úr þessu, en mér þætti gaman að ræða þetta einhvern daginn yfir bjór við hryllingsmyndaáhugamann sem þekkir staðhætti í Bretlandi.
Strax eftir að ég kláraði Eden Lake vísaði ég henni frá sem einfaldri pyntingaklámsmynd og fannst ekki mikið til hennar koma. Út af þessum umfjöllunum neyddist ég þó til að koma aftur til hennar og hugsa betur um hana og þá áttaði ég mig á að ég hafði verið full fljótur á mér. Ég fattaði að á milli allra blóðsúthellingana og gaddavírsfjötranna er þétt og klár mynd, sem birtist eins og falin þrívíddarmynd í málverki ef mann langar að finna hana. Eden Lake er sjaldgæf hryllingsmynd. Ef þig langar að sjá venjulegt fólk lenda í hræðilegum aðstæðum sem það getur lítið gert við, þá gerir hún það prýðis vel. Ef þig langar að sjá ógeðslega hluti sem að gefa þér eitthvað til að hugsa um eftirá, þá gerir hún það líka. Ef það að sama myndin geti gert bæði er ekki ávísun á góða hryllingsmynd, þá veit ég ekki hvað er það.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
Í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Dead_Snow">_Dead Snow_</a> herja nasistauppvakningar á hóp af Norðmönnum í útilegu. Gæti þetta orðið betra?
<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=3-KQh87_V2Q&hl=fr&fs=1]</p>