<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/16-poster.jpg"></p>

Þarna. Þetta er byrjun. Ertu ánægður núna?

Mér þykir fyrir því að þið þurftuð að verða vitni að þessum leiðindum milli mín og sjálfs mín, en ég er bara svo óttalega óþolandi stundum. Ég var búinn að vera að rífast við sjálfan mig síðusta hálftímann eða svo, og á meðan að við vorum báðir á sama blaði um að annar bjór væri alveg málið, þá vildi ég líka ná mér í kvöldmat og horfa á lokaþátt Twin Peaks á meðan að hinn ég vildi að ég skrifaði alla vega innganginn að umfjöllun vikunnar áður. Við tók frekar undarlegt augnablik þar sem ég sakaði sjálfan mig um að vera ekki alvöru mamma mín, hljóp grátandi út og skellti hurðinni á sjálfan mig.

Eins og með allt annað koma augnablik þegar mig langar alls ekki að skrifa þessar umfjallanir. Lífið gengur í bylgjum; sumar vikur hef ég geðveikan áhuga á náminu mínu, aðrar vikur langar mig ekkert nema að rugla um hryllingsmyndir og poppkúltúr, og svo koma tímabil þegar að mig langar lítið annað en að hanga úti í garði með hvítvínsflösku og góða bók. Akkúrat núna er eitt af þessum garðatímabilum, sem að heiðskýri himininn, lognið, sólin og sætu stelpurnar í stuttu pilsunum úti hjálpa ekkert til með. Í alvöru, þið trúið ekki hvað pilsin eru stutt. Eða kjólarnir. Og ég er nógu sunnarlega til að það sé engin þörf á neinu sokkabuxnakjaftæði, þannig að leggir sem að ná alla leið upp fá að njóta sín óáreittir. Vorið er góður tími til að vera hvítur strákur. Mmmmm…​

Norðmenn!

Er ég einn um að fatta ekki þessa nettu óvild Íslendinga í garð Norðmanna? Kannski er hún bara ímyndun, en mér hefur alltaf fundist bera svolítið á leiðinlegum skotum og hártogunum í garð Norðmanna í þjóðfélagsumræðunni. Hugsanlega eru gildar og góðar ástæður að baki þeim, en ekki nokkur einasti maður hefur sagt mér hverjar þær eru. Þegar að Norðmenn ber á tal í blönduðum selskap geri ég eins og hinir og hristi hnefann til himins, en mér líður alltaf eins og litlum krakka sem er að horfa á grínmynd með fullt af fullorðnu fólki og hlær að brandara af því að allir hinir gerðu það þó hann viti sjálfur ekki af hverju hann var fyndinn.

Á yfirborðinu ætti okkur að koma best saman við Norsarana af öllum Norðurlandaþjóðunum; skattsvikaforfeður okkar komu þaðan, áfengið þar er líka geðveikt dýrt og aðeins selt í ríkisreknum verslunum, og norska er eina skandinavíska málið sem hægt er að tala án þess að skammast sín (danska er alveg off, sænska hljómar kjánalega, og á meðan að finnska er voðalega falleg er hún gjörsamlega óskiljanleg). Af einhverjum ástæðum sem enginn vill segja mér hverjar eru líkar okkur samt ekki við þá, svo þegar það kom að því að horfa á Dead Snow gerði ég þjóðlega skyldu mína og fór í bol frá Dogma, náði í kippu af bjór sem ég hafði keypt hjá Indverjanum úti á horni, og reisti hnefa til himins á meðan að Norðmenn dóu á hræðilegan hátt.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/16-guys.jpg"> Karlkyns uppvakningafóðrið í Dead Snow.</p>

Norðmennirnir sem um ræðir eru hópur af læknanemum sem ætla að eyða páskafríinu sínu í sumarbústað úti í skógi og ærslast um á snjósleðum og drekka sig fulla, eins og nemum er von og vísa. Þetta eru sjö manns og persónur þeirra eru jafn mismunandi og þær eru margar og eru skissaðar á yndislegan og hjartnæman hátt. Persónurnar eru: gaurinn sem var í hernum, gaurinn sem er hræddur við blóð, graði gaurinn, feiti kvikmyndanördinn, gellan með dreddana, ljóshærða gellan og gellan sem fílar kvikmyndir. Vinur minn útskýrði einu sinni fyrir mér hvernig maður getur búið til persónur eins og þær í Friends með því að ,,taka quirky characteristic og gefa því nafn``, og sú aðferð virðist hafa verið brúkuð við gerð Dead Snow.

Nú er ég þessi týpíski nútímakarlmaður sem hefur enga hugmynd um hvað það þýðir einu sinni að vera karlkyns lengur og hefur litla sem enga tilfinningu fyrir því hlutverki sem hann á að uppfylla, svo ég veit ekki alveg hvort að dálæti mitt á vel skrifuðum persónum og sögufléttum umfram stórar sprengingar er eðlilegt eða ekki. Ég veit hins vegar að ég fylgdist ekkert með söguþræðinum í Dead Snow og hefði verið skítsama þó að persónurnar í henni hefðu verið leiknar af kústsköftum sem var búið að hefta afklippur úr Séð og Heyrt á. Ástæðan er einföld og smeygir sér leið gegnum allar mínar kaldhæðnirvarnir og hittir beint í einhvern barnslegan ánægju- og spenningsblett innra með mér, sem að gerir allar spurningar um persónur, söguþráð, lífið og tilveruna óþarfar. Ástæðan er eitt orð: nasistauppvakningar.

Eins og gamall maður sem kemur arkandi úr snjónum eitt kvöldið útskýrir fyrir læknanemunum, þá var fjörðurinn sem þau eru í ein af aðalbækistöðvum nasistanna í Noregi í seinni heimsstyrjöldinni. Líkt og handfylli af óþekkum börnum í annars fyrirmyndar bekk voru þetta þó ekki góðu og vingjarnlegu nasistarnir sem við eigum að venjast, heldur virkilega sjúkir fantar sem pyntuðu og drápu fólkið í kringum sig og stálu öllum eigum og fjármunum þeirra. Eftir nokkurra ára kúgun, rányrkju og vosbúð sættu bæjarbúarnir sig ekki lengur við þetta kjaftæði, risu upp gegn nasistunum og ráku þá úr bænum og upp í snævi þakin fjöllin í kring, þar sem þeir frusu í hel og fundust aldrei aftur. Eða, það er að segja, sú einstaka manneskja sem rakst á þá næstu 60 árin lifði aldrei til að segja frá því, af því að nasistarnir voru risnir upp frá dauðum og átu alla sem þeir hittu. Þegar að krakkarnir finna öskju með gullinu sem að nasistarnir stálu frá bæjarbúunum eru nasistazombíarnir ekki lengi að mæta á staðinn til að sækja það sem þeir stálu með réttmætum hætti í lifanda lífi, og læknanemarnir verða að gjöra svo vel og snúa bökum saman og berja frá sér til að lifa af.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/16-zombie.jpg"> Þriðja ríkið hefur aldrei litið betur út.</p>

Það er óhætt að segja að hver sá sem horfir á Dead Snow með því markmiði að sjá atburðarrás sem er eitthvað sérstaklega mikið vit í verður fyrir vonbrigðum. Dead Snow er ekki þannig mynd. Söguþráðurinn virkar eins og leiðinlegi krakkinn sem enginn vill leika sér með en mamma manns neyðir mann til að bjóða í afmæli af því það er ljótt að skilja útundan, hann er þarna bara til að læknanemarnir hafi afsökun til að hlaupa undan nasistauppvakningum. Sem ágætt dæmi skildi ég aldrei af hverju uppvakningunum var svona umhugað um að fá gullið sitt aftur. Var þetta bara svona prinsippmál, að skilja ekki hluti eftir hjá óæðri kynstofnum? Ég veit alla vega ekki hvað hópur af 60 ára gömlum rotnandi líkum hefur að gera við reiðufé. Ekki þurfa þeir að borða eða drekka, ekki vantar þá að komast í H&M, og ekki geta þeir ferðast neitt án þess að verða fyrir talsverðu aðkasti hinna lifandi fyrir að vera nasistar, dauðir, og fyrir að éta fólk, svo að fátt eitt sé nefnt.

Því er eins gott að Dead Snow spilaði vel með hefðbundnar hryllingsmyndavenjur, það er vondan húmor, vísanir í aðrar hryllingsmyndir og skapandi blóðsúthellingar. Ég hafði sérstaklega gaman af hvernig kvikmyndanördinn var notaður til að benda á ákveðin atriði við hryllingsmyndir, eins og að hver einasta mynd í dag þarf að byrja á að útskýra af hverju farsímar allra í hópnum eru gagnslausir, eða að hann var eini maðurinn á staðnum sem að vissi hvað uppvakningar voru. Nú hefur nútímauppvakningurinn verið til í sirka 40 ár, frá því að Romero gerði fyrstu myndina sína, og það er gaman að hugsa um vitundarmuninn á þeim og vampýrum. Sem dæmi þá vita allir í vampýrumyndum hvað vampýrur eru og hafa einhverja hugmynd um hvernig á að drepa eða umgangast þær, enda eru meira en hundrað ár síðan að fyrsta eiginlega vampýrusagan kom út og fólk hefur því haft góðan tíma til að venjast þeim. Aftur á móti hef ég aldrei séð zombímynd þar sem að fólkið í myndinni veit hvað uppvakningar eru, svo að það þarf alltaf að byrja á að rúlla í gegnum undirstöðuatriðin við þá, það er að þeir séu dauðir, að það þurfi að eyðileggja heilann í þeim og að þeir bíti frá sér.

Þetta er til marks um að á meðan að mamma þín og pabbi vita örugglega hvað vampýrur eru, þá eru uppvakningar á grárra svæði og því þarf að útskýra hvað þeir eru. Reyndar vekur þetta upp spurninguna um hvort að það væri hægt að búa til trúverðuga mynd þar sem að þessari almennu vitneskju væri snúið við, það er vampýrumynd þar sem enginn veit hvað þær eru eða zombímynd þar sem allir eru með á nótunum um gangandi pláguna, eða hvort að stökkið þar á milli sé það stórt að útkoman verði ekki annað en kjánaleg. Það getur verið að við sjáum tilraun til seinni myndarinnar á næstu árum, þegar og ef að kvikmyndaútgáfan af World War Z kemur út, en þar sem að hún gerist áratug eftir faraldurinn og segir frá liðnum atburðum má rífast um hvort að hún svari spurningunni raunverulega.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/16-snowslead.jpg"> Frábær notkun á snjósleða.</p>

Hvað sem því líður þá býður Dead Snow upp á prýðilegan kokteil. Við höfum nasistazombíana okkar og kvikmyndanördinn, sem mig grunar reyndar að hafi verið skrifaður inn í myndina til þess eins að láta gagnrýnendum líka betur við hana, af því að þó hann deyji fljótt á mjög blóðugan hátt þá er hann eini strákurinn sem fær að ríða, og það meira að segja út á ítarlega bíómyndaþekkingu sína. Þar að auki lærir maður hvernig á að vita í hvaða átt maður á að grafa til að sleppa úr snjóflóði við að horfa á Dead Snow (hræktu og grafðu í öfuga átt við þá sem hrákinn lekur í), Norðmennirnir í henni búa yfir hressilega heilbrigðri skynsemi og hlaupa ekki strax út í nóttina einir síns liðs, og það er ekki annað hægt en að standa upp og klappa fyrir einstaka uppvakningaútrýmingu sem að hefði listrænt gildi ein og sér. Ég mun aldrei horfa á snjósleða sömu augum aftur. Mér finnst því mjög skrýtið að mér hafi ekki fundist Dead Snow sérstaklega skemmtileg.

Ókei, þetta var kannski full hart mat, af því að Dead Snow er alls ekki leiðinleg. Hún átti hins vegar erfitt með að halda athygli minni í lengri tíma og þrátt fyrir ýmsa kosti er hún auðgleymanleg. Að mynd um uppvakninga sem eru nasistar sé auðgleymanleg er einfaldlega deprimerandi. Ég er ekki viss hvað við Dead Snow gengur ekki upp, en hún er ekki jöfn summunni af pörtum sínum. Þetta er undarlegt, af því að ég man bara eftir einu atriði við hana sem pirraði mig eitthvað, og það var hvort að nasistarnir væru alvöru uppvakningar eða ekki. Þeir eru vissulega dauðir og við lítum framhjá því að þeir hlaupa útum allt eins og trítilóð börn, en þeir eru undir forystu höfuðsmannsuppvakningins og fylgja skipunum hans, bregðast við þegar að þeir eru barðir, og það kemur aldrei almennilega í ljós hvort að það þurfi að eyðileggja heilann í þeim eða hvort að bitin þeirra geri aðra að uppvakningum. Þetta er algert smáatriði og alls ekki eitthvað sem að eyðileggur mynd fyrir mér, en hefur engu að síður setið eftir alla vikuna.

Á endanum hlýtur eini dómurinn sem að skiptir máli yfir bíómynd vera hvort að maður myndi mæla með að aðrir sæu hana eða ekki. Dead Snow kemst vel frá honum, því að fólk sem hefur gaman af hryllingsmyndum yfir höfuð, eða vill bara sjá Norðmenn slitna í sundur og étna, gæti gert margt verra en að horfa á Dead Snow. Bara ekki búast við að hún breyti lífi þínu, eða jafnvel að þú munir eftir henni þegar að hún klárast. Eins ótrúlegt og það er, þá sameinar Dead Snow uppvakninga, nasista, kvikmyndavísanir og ógeðslegustu noktun á fyrstu persónu sjónarhorni sem ég hef séð, og tekst þrátt fyrir það að vera gott sem auðgleymanleg. Fyrir viku hefði mér fundist þetta óþenkjandi tilhugsun, en núna er hún raunveruleg, og áþreifanleg, en fyrst og fremst eins og hugmyndin um sæta stelpu sem er ekki í stuttu pilsi á heitum og sólríkum sumardegi: sorgleg.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

Börnin sýna að þeim er ekki treystandi í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/The_Children_(2008_film)">_The Children_</a>.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=QOrcIyvW5Rk&hl=fr&fs=1]</p>