<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/18-poster.jpg"></p>
Af öllum þeim tíma sem ég eyddi í að spila tölvuleiki þegar ég var yngri, sem var nokkurn veginn samfellt milli 6 og 18 ára aldurs, þá er aðeins eitt augnablik sem að stendur upp úr að einhverju leyti. Ég held að ég hafi verið sirka 14 ára. Vinir foreldra minna voru í heimsókn og ég þurfti að gera eitthvað með syni þeirra sem var svipað gamall og ég. Þetta var eitthvað sem ég nennti engan veginn að gera, af því að ég var í miðju mikilvægu verkefni í System Shock 2. Fyrir þá sem ekki vita er það einn besti tölvuleikur sem að hefur verið gerður. Að reyna að útskýra af hverju væri efni í litla ritgerð og þar sem að við erum nú þegar byrjuð á einni slíkri held ég að við verðum að láta það liggja á milli hluta í þetta skiptið. Látum nægja að segja þetta: Í System Shock 2 eru aldrei öruggur, sama hversu oft þú hefur dritað niður alla í kringum þig, og það eru zombíar með skrúflykla útum allt.
Alla vega, ég ákvað að gera gott úr ástandinu og fór að sýna stráknum hvernig leikurinn virkaði. Ég var búinn að koma mér fyrir úti í einhverju horni og hélt að ég gæti slappað af og byrjaði að útskýra hvað markmiðið væri eiginlega, hvað hinir og þessir takkar gerðu, og af hverju snargeðveik tölva gargaði í hátalarana í kring eins og blekuð manneskja í heimsins besta fyllerístrúnósímtali. Að lokum langaði strákinn að prófa, svo ég leyfði honum það. Hann snéri sér við, og horfði framan í uppvakning með skrúflykil sem hafði læðst aftan að okkur sem að stundi hátt lengi áður en hann byrjaði að lemja. Stuttu seinna komu foreldrar okkar hlaupandi inn af því að innan úr eldhúsi höfðu þau heyrt undarlega stunu og svo skerandi hræðsluöskur í okkur tveim fylgt af endurtekinni skothríð úr sjálfvirkum riffli. Svona eins og í atriðinu þarna í Aliens. Þið vitið hverju ég á við.
Nú er ég alveg á þeirri skoðun að tölvuleikir séu ekkert síðri afþreying en hvað annað, og að þeir hafi alveg sama menningarlega gildi og hvaða kvikmynd, plata eða skáldsaga sem er. Mér finnst samt undarlegt að til að finna fleiri góðar minningar um tölvuleikjaspil þurfi ég að grafa talsvert dýpra en til þess að finna bíómyndir, diska eða bækur sem að ég hef tengst í gegnum tíðina. Hluti af ástæðunni held ég að sé að þó að maður stýri aðalpersónunni í tölvuleikjum beint, þá eru þeir ópersónulegri en aðrir miðlar. Þeir eiga einhvern veginn erfiðara með að brjóta niður múrinn á milli þess sem er á skjánum og raunveruleikans, og gengur því ekki jafn vel að fá okkur til að tengjast þeim tilfinningalegum böndum. Hins vegar er ljóst að það eru manneskjur þarna úti sem að er ósammála þessari skoðun minni, af því að fyrir tveim árum hóuðu nokkrar þeirra sig saman og gerðu Eden Log.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/18-kross.jpg"> Skyldujesútilvísunin. Sérhver mynd þarf að hafa eina.</p>
Eden Log byrjar mjög rólega. Það fyrsta sem við sjáum gaur sem að vaknar nakinn í drullupolli djúpt inni í helli og veit ekki hvernig að hann komst þangað eða hver hann er. Eitthvað verður hann samt að hafa sér fyrir stafni, þannig að hann hífur sig upp úr pollinum og skríður gegnum hellinn í áttina að einu ljósglætunni í nágrenninu, sem blikkar í sífellu eins og viti eða draslið ofan á Perlunni. Þetta atriði tekur fimm mínútur og gefur ágæta hugmynd um hversu grípandi restin af myndinni er. Að því loknu finnur gaurinn okkar, sem man ekki hvað hann heitir svo að við vitum það ekki heldur, einhverja larfa til að hylja skömm sína og hurð sem að liggur inn í mikla ganga og ranghala.
Smátt og smátt kemur í ljós að gaurinn okkar er neðst í einhversskonar byrgi sem að teygir sig nokkrar hæðir ofan í jörðina. Það eru undarlegar trjárætur út um alla veggi og ekki nokkur manneskja á ferli, en um myrkrið ráfa undirmennskar verur sem að urra á allt sem að á vegi þeirra verður og virðast vilja gæða sér á gaurnum. Í partíið mæta þar að auki vel vopnaðir sérsveitarmenn í alvöru óeirðagír, sem eru að leita að einhverju eða einhverjum í göngunum og hafa heilbrigðan metnað fyrir að drepa allt annað. Á meðan að minnislausi gaurinn vinnur sig hægt og rólega upp hæðirnar með það að markmiði að lifa af og komast upp á yfirborðið lærum við að neðanjarðarbyrgið var eins konar tilraunastofa og að tilgangur hennar hafði eitthvað að gera með ræturnar sem eru úti um allt, en eitthvað klikkaði sem útskýrir mannleysið, sérsveitarmennina og undirmennska mannætuöskurkórinn.
Eftir að gaurinn rekst á sexí plöntufræðing sem að er búin að fela sig í göngunum síðustu daga byrja púslin að detta á sinn stað; úr trjárótunum sem að veggfóðra byrgið má vinna öflugan orkugjafa með því að kúpla þeim saman við fólk, en því miður eru ræturnar eitraðar og gefa frá sér efni sem að breytir venjulegri millistéttarmanneskju sem hlustar á Rás 2, hefur ekkert gaman af Lost og hefur sína skoðun á stjórnmálum í undirmennska mannætu. Gaurinn okkar var einn af sérsveitarmönnunum, en er bæði búinn að mynda einstaka tengingu við trjáræturnar og sýkjast af eitrinu, og minnisleysið, pollabuslið og nektin í byrjuninni eru orsök einhvers kasts sem að eitrið olli og hefur endurtekið sig nokkrum sinnum síðan þá. Þegar við erum búin að læra allt þetta endar myndin á tilraun til… einhvers. Það er örugglega voða djúpt og svoleiðis.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/18-kiss.jpg"> Af ástæðum sem tæki of langan tíma að útskýra er þetta eina atriðið í myndinni sem að er þess virði að horfa á.</p>
Mér var öskrandi sama um allt sem gerðist í Eden Log. Ef að geimfararnir sem eru að fikta í Hubble sjónaukanum í þessum töluðu orðum hefðu litið í áttina að frönsku ölpunum á sunnudaginn hefðu þeir getað séð algjört skeytingarleysi mitt gagnvart Eden Log af sporbraut. Eden Log þjáist af nákvæmlega sama vandamáli og tölvuleikir, að maður tengist ekki nokkrum hluta hennar tilfinningalegum böndum. Þar sem að tölvuleikir gefa manni hins vegar eitthvað að gera leiðist manni ekki á meðan að maður spilar þá, en þegar að Eden Log dröslast í gegnum hverja nýja sögufléttu á eftir annarri hefur maður ekkert að gera nema að sitja og bíða eftir að hún klárist loksins.
Ég þori ekki alveg að fullyrða um aðalástæðuna fyrir að Eden Log er jafn mikil hlutleysa og raun ber vitni. Það þarf þorp til að ala upp barn eða gera vonda bíómynd, en til að taka eitthvað dæmi þá hjálpar ekkert að allir aukaleikarnir í myndinni eru svo lélegir að kústskafti veifað af handahófi hefði verið meira sannfærandi persóna en þeir allir samanlagt. Hvað stærsta vandamálið við Eden Log varðar þá grunar mig sterklega að enginn sem að kom að gerð hennar hafi átt mannleg samskipti síðustu árin, en að þau hafi í staðinn öll setið læst inni í aðskildum klefum með ekkert annað fyrir félagsskap en gamlar Barbídúkkur og hugsanlega slitna taudruslu. Alla vega hefur enginn höfundanna minnsta sans fyrir hvernig venjulegt fólk fúnkerar eða hvað liggur á hjarta þeirra.
Næstum allir sem ég þekki eiga eitt sameiginlegt: fyrir þeim er ekki daglegt brauð að vakna minnislausir og naktir í polli djúpt inní helli og verða fyrir árásum frá sérsveitarmönnum og mannætum. Ég held meira að segja að ef að þær aðstæður kæmu upp myndu vinir mínir og kunningjar hafa einhverjar spurningar um hver fjandinn væri í gangi. Aðalpersóna Eden Log hefur engar slíkar áhyggjur. Hann hefur ekki tíma fyrir svoleiðis kjaftæði. Hann virðist reyndar ekki hafa tíma til að sýna nein mannleg svipbrigði yfir höfuð þegar út í það er farið. Hann er fullkomin mannleg hlutleysa, eins og tölvuleikjakarakter sem enginn stýrir, og þó að það að kvikmynda hann skoppa á milli veggja á leið sinni frá A til B í hundrað mínútur teljist tæknilega til bíómyndar, þá er að horfa á þá bíómynd meiri tímasóun en að smyrja hunangi yfir sig allan og standa nakinn úti á strætóstoppistöð til að reyna að hitta sætar stelpur.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
Titillinn segir allt sem segja þarf: <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Poultrygeist">_Poultrygeist: Night of the Chicken Dead_</a>.
<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=bLp1JJWJ5l4&hl=fr&fs=1]</p>