<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/19-poster.jpg"></p>

Hefurðu heyrt góðu fréttirnar um fágaða rúmfræði? Nei, gerðu það, ekki loka hurðinni svona fast á fótinn minn. Það er óttalega sárt. Jæja þá. Ég stend þá bara hérna fyrir utan, í kuldanum. Ég get alveg hrópað staðreyndir um hjásvipugrúpur samheldinna knippa á fáguðum rúmum inn um bréfalúguna þína! Vissirðu til dæmis að þær eru endanlega víðar ef að rúmið er þjappað?

Ahem…​ afsakið þetta. Þessa dagana á ég aðeins erfiðara en venjulega með að slíta mig frá útsýninu úr imaginæra loptskipinu. Þetta ástand lýsir sér svo sem ekkert öðruvísi en venjulega - ég er oft þögull og viðutan í hádegismat með krökkunum, ég byrja oft að útskýra smáatriði í verulega abstrakt stærðfræði fyrir hverjum sem er, og ég vakna á næturna við að hugsa um hjásvipugrúpur - en ástandið um þessar stundir er dýpra en oft áður og ég slít mig ekki svo glatt frá því. Sem er alveg fínt þannig séð, af því að ég á að skila mastersritgerðinni minni eftir tvær vikur og halda fyrirlestur eftir þrjár, svo að vinnugleðin er ágætlega tímasett.

Sem dæmi um þessa óstjórnlegu hamingju var klukkan rétt í þessu að verða tíu að kvöldi hérna. Ég er búinn að ætla að taka frá tíma í allan dag til að byrja að skrifa fyrir ykkur, en það var fyrst að takast núna. Fyrstu níu vökustundirnar fóru í að sitja inni á bókasafni og skrifa fyrsta uppkast að síðasta kaflanum að ritgerðinni minni, svo var ég sirka klukkutíma að dúlla mér heim, þar sem ég settist strax á gólfið inni í herbergi með Birthday Massacre og Decemberists í gangi og fór að fikta í heimildum og hreinskrifa meira. Það var fyrir þrem tímum síðan, og mér finnst dagurinn hafa liðið svo hratt að ég er ekki viss um að ég hafi í raun og veru farið fram úr rúminu.

Auðvitað er sitt hvað á bakvið allan þennan metnað. Mánuðurinn sem er að líða er hugsanlega sá síðasti sem ég eyði sem óbreyttur námsmaður, og mig langar að klára þann pakka. Þar ofan á er einfaldlega fokk gaman þegar að hlutirnir ganga vel, og þeir ganga vel núna. Og að lokum langar mig að borða mat áfram. Þó ég hafi ekkert sérstaklega gaman af því að borða mat dags daglega, þá er ég orðinn ansi vanur því að nærast, og ég fæ ekki námslán fyrir mat nema að ég skili einingum. Maður getur alltaf treyst á LÍN, og ósagðar hótanir um vosbúð, til að koma manni fram úr rúminu á morgnanna. Allur þessi vinnu og forðast-að-verða-heimilislaus-og-þurfa-að-skera-fólk-til-að-lifa-af pakki er þó óneitanlega talsvert stressandi. Jafnvel meira stressandi en vor daglegur bjór og Electro Shock Blues hlustun vega upp. Þess vegna er ég mjög feginn að ég hef afsökun til að horfa á myndir eins og Poultrygeist: Night of the Chicken Dead.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/19-argy.jpg"> Arbie á myndlíkingarkrossinum með frönskum texta.</p>

Núna þegar ég hugsa um það þá hljómar söguþráður Poultrygeist eins og að hann sé eins og hálfs tíma löng útgáfa af hrekkjavökuþætti af Simpsons. Hetja Poultrygeist er ungi maðurinn Arbie, sem er ,,bara ungur maður að reyna að fóta sig í þessari villtu, villtu veröld`` eins og hann lýsir sjálfur fyrir yfirmanni á skyndibitastað, áður en hann grípur í skyrtu yfirmannsins og öskrar að hann vanti vinnu. Af hverju langar Arbie að vinna á skyndibitastað sem að svipar meira en lítið til frægrar keðju er kennd er við fiðurfénað og ákveðið fylki í Bandaríkjunum? Jú, af eðlilegustu ástæðu í heimi; menntaskólakærastan hans, hún Wendy, breyttist í vinstrisinnaða frjálslynda hippalesbíu á einu önninni sinni í háskóla og elskar Arbie ekki lengur. Þar sem hún var að mótmæla opnun þessa skyndibitastaðar þegar að Arbie hitti hana aftur og komst að þessari umbreytingu, þá ákvað hann að byrja að vinna við eitthvað sem að Wendy hatar, af því að það er víst eitthvað sem að maður gerir þegar að stelpur hætta með manni. Persónulega finnst mér einfaldara að fá mér bjór og hlusta á Elliott Smith, en við höfum öll okkar leiðir til að díla við daglegt líf.

Þetta er allt gott og blessað en hefur enn sem komið er ekkert svo mikið að gera með hryllingsmyndir, sem eru jú ástæðan fyrir að við förum fram úr rúminu á morgnana. Sem betur fer var kjúklingastaðurinn sem Arbie ræður sig til reistur á fornum indiánagrafreit, og samanlögð gremja og bölvun indiánana sem að hafa verið hlunnfarnir í margar aldir og kjúklingana sem að lifa og deyja í litlum búrum til þess eins að enda í djúpsteikingapotti verða til þess að kjúklingazombíar rísa upp frá dauðum og rífa sig í gegnum starfsmenn, kúnna og mótmælendur. Það er því undir Arbie komið að bjarga sjálfum sér og Wendy frá árás hinna gaggandi dauðu, því hvað eru ástin og lífið annað en vonin um að fyrrverandi kærastur sverji af sér lesbíska lifnaðarhætti og taki saman við mann aftur?

Til að undirstrika þessa hrottalegu bjartsýni og heilbrigðu lifnaðarhætti eru söng-og-dansnúmer sem er dreift inn í myndina með reglulegu millibili, svipað og í Repo! The Genetic Opera. Nei, bíddu, strikum þetta út. Lögin virka frekar eins og í The Happiness of the Katakuris (sú mynd er með skrýtnari andskota sem þú munt hafa ánægju af að sjá ef þú leggur í hana), sem þýðir bæði að þau eru ekki ömurleg eins og í Repo! og að þau skapa mjög absúrd stemmingu. En Poultrygeist er absúrd út í gegn - þetta er mynd um kjúklingazombía þar sem að langsóttar samlíkingar, ber brjóst, kúk og pisshúmor, aflimanir og sönglög skoppa upp með svipaðri tíðni - og dansnúmerin sóma sér prýðisvel meðal jafningja.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/19-whynot.jpg"> Af hverju? Af hverju í fjandanum ekki?</p>

Ein af ástæðunum fyrir að ég byrjaði á þessu dútli er að ég er frekar nýbúinn að uppgötva ást mína á hryllingsmyndum - fyrsta skiptið sem ég man eftir að hafa horft vísvitandi á margar hryllingsmyndir á stuttum tíma var á hrekkjavökunni í hittífyrra - og mig langaði að læra meira um kúltúrinn á bakvið þær. Þannig ég ákvað að skrifa eina sirka 2000 orða ritgerð á viku um hryllingsmyndir, í staðinn fyrir, segjum, að fara á Wikipedia. Ég get samt ekki sagt annað en að planið virki ágætlega, því í gegnum þetta rugl er til dæmis búið að benda mér á gömlu Vincent Price myndirnar, og í gegnum Poultrygeist uppgötvaði ég Troma. Troma er sjálfstætt kvikmyndaver sem að hefur víst framleidd költ-hryllingsmyndir síðustu þrjátíu ár, án þess að ég hafi nokkur tímann heyrt um þær. Miðað við titlana (Surf Nazis Must Die, Redneck Zombies, Rabid Grannies, svo fá dæmi séu tekin) á ég samt von á góðu. Poultrygeist er nýjasta mynd Troma, en myndirnar þeirra hafa oft skartað ungu og upprennandi hæfileikafólki, eins og Kevin Costner, Samuel L. Jackson, og Matt Stone og Trey Parker úr South Park.

Þegar að fólkið á bakvið Troma lýsir sér sem sjálfstæðum framleiðendum, þá meina þau allt sem þau segja. Til að gera Poultrygeist settu leikstjórinn og konan hans pening úr eftirlaunasjóðnum sínum í myndina, og mikið af fólkinu á bakvið myndina vann annað hvort ódýrt eða frítt, og gistu sirka 70 saman í pínulítilli kirkju með aðeins eitt sameiginlegt klósett á mill sín á meðan tökum stóð. Ég hef aðeins lítið svart hjarta, sem ég geymi undir lausri parketfjöl í herberginu mínu og gerir mig hægt og rólega sturlaðann með djöfullegum slætti sínum, en því ylnar undir rótum við að heyra af fólki sem að lagði ótrúlegan skít og vosbúð á sig til að gera mynd um zombíkjúklinga. Hvenær hef gert eitthvað slíkt? Jafnvel Bob Geldof tók sig til og hélt tónleika til að binda enda á dauðann, en það eina sem ég hef gert er að læra sí betur óttalega óskiljanlegt rugl sem, fyrir utan frjálsa nykumótla yfir heiltölurnar sem maður brúkar jú í hvert skipti þegar maður fer að versla, hefur enga hagnýtingu í daglega lífinu.

Ég hef kannski sóað lífi mínu í vigurrúm og fágaðar varpanir, en ef við eigum að vera hreinskilin þá kann ég ekkert annað og myndi seint temja mér nýja siði, svo ég sit líklegast uppi með fenginn hlut. Ef að eitthvað gerir menntalífið hins vegar bærilegra, þá eru það myndir eins og Poultrygeist. Jafnvel útjaskaðasta hóra með glópagullshjarta getur ekki annað en brosað gegn flóðbylgjunni af ólíklegum röksemdarfærslum, vondum bröndurum, afturgengnum kjúklingum, klisjum, ódýrum tæknibrellum, aflimunum, hrottalegum dauðadögum, gleraugnaglámum og slefandi hundkvikindum sem flaðra uppum mann allan frá fyrstu mínútu Poultrygeist. Þetta er myndin sem að maður setur í gang eftir langan dag sem að entist í heila viku, þegar að djúpþreytan sverfur að, og maður vill ekkert nema að fá að hugsa um eitthvað annað í smástund og drekka smá bjór með. Poultrygeist er mynd fyrir daginn þegar að ekkert gekk upp og vann vantar bara að hlæja smá, og Poultrygeist er starfi sínu gríðarlega vel vaxin.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

,,Svekk og tyggjó`` verða einu orðin sem duga til að lýsa reynslu margra manna í aftyppunarhryllingnum <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Teeth_(film)">_Teeth_</a>.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=yH8yuld4DUE&hl=fr&fs=1&]</p>