<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/02-poster.jpg" /></p>

,,Hefurðu einhvertímann fengið flís í puttann?``

,,Já.``

,,Og fannst þér það ekki óþægilegt?``

,,Ooooh, jú.``

,,Ímyndaðu þér þá að sjá fólk fá flísar í puttann í einn og hálfan tíma!``

Einhvern veginn svona held ég að hugmyndin að Splinter hafi fæðst. Þegar maður veit ekkert annað um myndina en nafnið þá er voðalega erfitt að taka hana alvarlega. Flís. Flís. Flíííísss. Sama hvernig maður segir það, þá hljómar þetta orð bara engan veginn ógnvekjandi.

Fyrstu mínútur myndarinnar hafa ekki mikil áhrif á þessa fordóma. Á þeim sjáum við gaur sem vinnur á bensínstöð úti í sveit setjast í stól fyrir framan stöðina, og verða samstundis mjög áhyggjufullur yfir skrjáfi í grasinu fyrir aftan sig. Eftir stutt samtal við grasið er hann svo étinn af því sem virðist vera minnsti en jafnframt pirraðasti smáhundur í heimi, og kreditlistinn byrjar að rúlla. Þar fáum við að vita að þetta er mynd eftir Toby Wilkins, í leikstjórn Toby Wilkins, eftir handriti sem Toby Wilkins skrifaði, með skrýmsli eftir Toby Wilkins, og tónlist eftir Elia Cmiral [sic], sem er samt byggð á laglínum sem Toby Wilkins sönglaði. Bætum því við pirraðasta nálapúða alheimsins og þá er þetta farið að hljóma ískyggilega eins og að myndin hafi verið byggð á einni af bókunum sem Stephen King man ekki eftir að hafa skrifað.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/01/02-costanzo.jpg?w=295" /> Paulo Costanzo: Framhaldsnemi, elskhugi, byssumaður.</p>

Auðvitað væri þetta frekar stutt mynd ef ekkert meira myndi gerast, svo næst kynnumst við tveim huggulegum pörum. Fyrra parið eru þau Jill Wagner sem er falleg ung stúlka sem kallar ekki allt ömmu sína, og Paulo Costanzo sem er lúðalegur síkvartandi framhaldsnemi með gleraugu, sem mun eyða meirihlutanum af myndinni kjökrandi í fósturstellingu í næsta horni. Að þau tvö séu yfir höfuð saman er það ósennilegasta í allri myndinni, en í henni kemur einnig fyrir lífvera sem púslar saman líkömum fólks með heimaræktuðum göddum eins og heimsins sjúkasti legóaðdáandi. Fyrir einhverja tilviljun ganga þessar persónur samt upp, að hluta til af því að þau eru skemmtilegur viðsnúningur á venjulega ráðafulla massa og gagnslausa ljósku parinu, og að hluta til vegna þess að ég er nördalegur framhaldsnemi. Sem slíkur get ég fullvissað alla hér um að fyrstu viðbrögð okkar við öllum aðstæðum, alveg sama hverjum, eru að skríða út í horn, kuðla okkur í fósturstellingu og kjökra hljóðlátt. Það er svona nans fyrir sannleikskornum sem myndir skora auka prik fyrir.

Hitt huggulega parið eru þau Shea Whigham og Rachel Kerbs. Hún er eiturlyfjafíkill vitlausu megin við fráhvarfseinkenni, hann er ofbeldisfullur strokufangi, og þau eru á flótta til Mexíkó - ah, l’amour - þegar bíllinn þeirra bilar og þau grípa til þess ráðs að ræna ungu saklausu krökkunum og neyða þau til að skutla sér. Þau komast samt aldrei lengra en á bensínstöðina úr byrjunaratriðinu, þar sem áðurnefndur legóaðdáandi ræðst á þau og allir neyðast til að leita sér skjóls inni á bensínstöðinni. Þar myndast heimilisleg blanda af gíslatöku og umsátri, þar sem það er alveg jafn líklegt að verða skotinn ef maður er kyrr inni, eða rifinn í sundur ef maður hættir sér út.

Þetta hljómar allt eins og ósköp venjuleg mynd hingað til, og virkar þannig líka þegar maður horfir á hana. Samt er eitthvað heillandi við Splinter sem er erfitt að koma orðum að. Hún hefur þennan druslulega hundseiginleika. Manni er alveg sama um að hundurinn sé skítugur og slefi á mann og sé sennilega með orma, því hann reynir sitt besta og manni langar að klappa honum. Á sama hátt langar mig langar að halda að Splinter sé miklu klárari mynd en hún er örugglega í raun og veru. Til dæmis eru atriði í henni sem er erfitt að sjá sem annað en dulbúnar vísanir í aðrar bíómyndir, eins og þegar ein persónan missir stjórn á handleggnum á sér og verður andsetin af Peter Sellers úr Dr. Strangelove, eða þegar afskorin hendi kemst inn í bensínstöðina og býður upp á öskrandi fyndna uppfærslu af Thing úr Addams Family. Ég losna samt ekki við gruninn um að þessar vísanir séu bara tilviljun og eitthvað sem minn sjúki heili kokkaði upp sér til yndisauka, í staðinn fyrir hulin smáatriði sem meistaraleikstjórinn Toby Wilkins deildi út með elskandi hendi og hálfglotti á vör (Splinter var fyrsta stóra myndin hans, sú næsta verður The Grudge 3: The Re-Grudgificationing.)

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/01/02-thing.jpg" /> Thing úr Addams Family.</p>

Ofan á þessar hugsanlega huldu kvikmyndaperluvísanir þá er myndin góð, ógnvekjandi, og virkar frumleg við fyrstu sýn en leiðir svo út í áleitnar spurningar um hvenær hlutir geta talist frumlegir. Einhversstaðar aftan í hnakkadrambinu mínu er lítil rödd sem segir mér að kannski fyrir utan flísarnar, þá hafi ég séð hverja einustu hugmynd úr Splinter áður. Gíslataka kom fyrir í Funny Games, hver einasta uppvakningamynd er um umsátur og skrýmslamyndir eru langt frá því að vera sjaldgæfar. Reyndar er hægt að ganga langt á innblásturinn að skrýmslinu þegar út í það er farið: Langt leidd fórnarlömb þess sem eru ennþá lifandi stynja ,,dreptu mig`` (Aliens) á meðan dauð fórnarlömb hökta í áttina að lífi og smita aðra af flísaplágunni (Night of the Dead et al.), eru ónæm fyrir barsmíðum og byssuskotum (Dracula), og eru samtvinningur ýmissa líkamsparta (Frankenstein). Skrýmslið sjálft er svo lífvera með plöntueiginleika (The Thing) sem veiðir með hitaskynjun (Tremors 2) og má aðeins eyða með eldi (James Hetfield).

Þegar maður maður sér svona lagað hlýtur maður að spyrja sig hvort að það sé allt í lagi að fá hugmyndir lánaðar, eins lengi og maður fær bara nógu fjandi margar hugmyndir lánaðar? Ætli svarið fari ekki eftir hvort að útkoman gangi upp eða ekki. Tökum Planet Terror sem dæmi. Þarna er bíómynd sem var gerð í þeim eina tilgangi að virka sem mest eins og Grindhouse mynd frá áttunda áratugnum, og meðal ansi kunnuglegra þema má sjá uppvakninga, vonda hermenn, afbrýðisama eiginmenn, dularfulla einfara sem búa yfir leyndarmáli og lögreglumann sem grunar einfarann í fyrstu um græsku, en áttar sig svo á að hann er fínn gaur. Á meðan að nokkur atriði í Planet Terror eru vel heppnuð, þá verður að segjast að hún er alveg hundleiðinleg. Ef þú trúir mér ekki skaltu horfa á hana í annað skiptið. Þú sérð hana aldrei í það þriðja. Á hinn bóginn er Alien alveg frábær mynd, en Dan O’Bannon, sem skrifaði mikið af handriti hennar, hefur sjálfur sagt að mörg af minnisstæðustu atriðunum úr Alien - risabeinagrindin, eggin, hvernig veran brýst út úr fólki - séu fengin að láni héðan og þaðan. Eða með hans eigin orðum: ,,Ég stal Alien ekki frá neinum ákveðnum. Ég stal henni frá öllum!`` Eins og með Alien þá virkar lokaútkoman hérna, svo ég er tilbúinn að líta í hina áttina í þetta skiptið.

Ég er reyndar tilbúinn að líta í hina áttina með fullt af hlutum sem virka ekki við Splinter, því að mér kom skemmtilega á óvart hvað mér fannst hún góð. Sagan byrjar hálf kjánalega og persónurnar virka pirrandi í byrjun, en þegar umsátrið á bensínstöðinni byrjar fara hlutirnir að ganga upp. Sagan snarskánar, persónurnar þróast, til tilbreytingar eru þær ekki algerir hálfvitar, og skrýmslið er bæði ógnvekjandi og sýnt nógu lítið til að maður ímyndi sér eitthvað sem er miklu verra. Splinter er kannski engin tímamótamynd, en hún hélt athygli minni, skemmti mér og var á köflum ógnvekjandi án þess að grípa til auðveldra bregðuatriða. Á þessum síðustu tímum, þegar unglingar vaða útum allt með farsímana sína, og önnur hver hryllingsmynd er annað hvort ódýr endurgerð eða framhald númer n+1, þá er mynd eins og Splinter alveg kærkomin, sama þó hún hafi slefað á mig og sýkt mig af ormum.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p> <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/House_(2008_film)">_House_</a> segir okkur sögu sem fer frá punkti A til B, án þess að A og B tengist á nokkurn hátt eða séu yfir höfuð í sama alheiminum. <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=25e0xgdGZ3k&hl=en&fs=1]</p>