<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/20-poster.jpg"></p>
Stundum þegar ég ligg í rúminu snemma á morgnana með sængina dregna yfir haus og reyni að sofa í tíu mínútur í viðbót fyrir vegaframkvæmdum og kirkjuklukkum fyrir utan gluggann, þá velti ég fyrir mér hvort að hálfkæfðu hljóðin sem ég heyri á milli hamarshögga og klukkuklingja séu fuglasöngur eða kynlífsstunur úr nýja húsfélaganum í næsta herbergi. Óvanir menn myndu halda að það væri auðvelt að greina þar á milli, en þeir hefðu rangt fyrir sér. Stynur stelpan í næsta herbergi eins og spörfugl? Kannski, ég þori ekki að hengja mig upp á það. Hljóma franskir fuglasöngvar eins og kynlífsstunur? Já, merkilegt nokk. Alla vega þegar þeir bergmála um fjölfarin borgartorg á meðal iðnaðarmanna og kirkjuturna í morgunsárið.
Auðvitað getur verið að þessi ljósbláa dirfska smáfuglana sé bara til í hausnum á mér, sóðaleg afleiðing of lítils svefns í bland við hefðbundna léttmorgunþynnku og glæpsamlegt kynlífsleysi. Ég hef verið sannfærður um undarlegri hluti á milli svefns og vöku; í nokkrar mínútur einn sunnudaginn var ég svartur maður í heimsókn hjá breskum strák í York. Svo er ekki eins og að kynferðislegar hugsanir séu fjarri huga mínum sérhverja stund. Undir venjulegum kringumstæðum gengur mikill meirihluti hugsana minna út á misgrafískar og ítarlegar vangaveltur um hinar og þessar stúlkur, sem hafa oft ekki orðið fyrir barðinu á hugsanaglæpum mínum fyrir aðrar sakir en að vera til og vera hugsanlega í stuttu pilsi eða kjól. Reyndar fer þessa dagana um það bil helmingur minna pælinga í fleygaðar lestir og kóhómólógíu, en ég geri ráð fyrir að hefðbundin dagskrá hefji göngu sína aftur í næstu viku, eða um leið og ég skila mastersritgerðinni minni.
Ekki er nóg með að hausinn á mér sé niðursokkinn í sín saurugu áhugamál nær öllum stundum, heldur er lítið í kring sem letur hann til þessarar hobbíiðkunar. Það er miður júní og heitt úti hér í Suður-Evrópu og fólk almennt léttklætt eftir því. Ég skammast mín líka ekkert fyrir að trúa ykkur, mínum ektavinum, fyrir að útsýnið á góðum degi á Austurvelli er eins og þriðja flokks hundasýning í samanburði við franskar stelpur. Stundum furða ég mig á að ég komist almennt á milli staða þegar ég fer úr húsi, en standi ekki bara úti á horni með opinn munninn og stari í forundran á dýrðina í kring. Þar sem útivera leiðir til pervertisma, og stærðfræðilegar útleiðslur á eiginleikum samheldna knippa á fáguðum rúmum eru upp til hópa eggjandi og sexí, hef ég því hingað til bundið vonir mínar við vorar vikulegar hryllingsmyndir til að halda huga mínum frá jesúbarnsgrætandi hætti sínum. Þessa vikuna bauð Teeth upp á skólabókardæmi um <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Doublethink">_doublethink_</a> þegar hún bæði í senn brást hlutverki sínu heiftarlega og tók fyrir alla kynlífslöngun mína héðan í frá.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/20-dawn.jpg"> Dawn á einum af sínum betri dögum.</p>
Aðalpersóna Teeth er menntaskólaneminn Dawn O’Keefe. Hún býr hjá mömmu sinni og stjúpföður ásamt stjúpbróður sínum, sem er hinn mesti vandræðaunglingur sem að gerir lítið annað en að hlusta á dauðarokk, hata Dawn og stunda endaþarmsmök með druslulegu kvenfólki. Dawn er aftur á móti prýðilega þæg stelpa sem að er kurteis við alla, heldur upp á einhyrninga og er virkur meðlimur í kristna skírlífsklúbbnum Loforðið, sem lokkar litla krakka til að ganga til liðs við sig með því að gefa þeim skírlífshringa og predikar að kynlíf fyrir hjónaband sé rangt á allan hátt. Segja má að ég og skírlífsklúbburinn Loforðið séum ósammála um nokkur lykilatriði í lífinu, þarf af ekki síst hvernig sé best að lokka litla krakka til sín. Hundakex á snæri hefur alltaf virkað betur en glingur fyrir mig.
Eins og allir unglingar er Dawn frekar óörugg um líkama sinn og heldur að hún sé einhvernveginn öðruvísi en allir aðrir. Bæði skírlífsklúbburinn Loforðið og menntakerfið gera lítið til að bæta úr þessari tilfinningu Dawn, þar sem annað þeirra bannar alla umræðu um kynlíf manna yfir höfuð og hitt sér ekkert að því að ræða innri uppbyggingu lima en límir stóra gullstjörnu yfir samsvarandi umfjöllun um sköp. Þess vegna er Dawn sérstaklega illa undirbúin undir að hitta Tobey, nýja sæta strákinn í skírlífsklúbbnum. Hlutirnir batna heldur ekki þegar þau byrja að hanga saman og tala um hvernig þau dreymdi um nóttina að þau væru gift og misvel klædd. Aðstæðurnar roðna svo og fara hjá sér í sóðalegu feimniskasti þegar að þau fara að synda tvö ein í litlum hyl rétt hjá bænum þeirra.
Í litlum hylum fyrir neðan litla fossa rétt hjá litlum bæjum leynast illar verur, ævafornar, frá því áður en tíminn varð til, er bera hrottaleg nöfn og kasta skugga á allt sem gott er. Og allar sem ein flúðu þær í djúpar holur af vandræðalegheitum þegar að Dawn og Tobey byrjuðu að kyssast og kela, danglandi úr reipi, sem náði frá trjágrein og ofaní vatnið. Ekki veit ég svo hvað þær gerðu þegar að leikurinn færðist inn í lítinn helli við hylinn og kossar og káf héldu áfram, en ég er nokkuð viss um að þær tóku gleði sína á ný þegar að Tobey henti Dawn á hellisgólfið og reyndi að nauðga henni. En fátt er svo með öllu illt að ei boði nokkuð gott, því að Tobey uppgötvaði fyrstur manna að ólíkt níutíu og níu prósentum unglinga var Dawn í alvöru öðruvísi en allir aðrir. Hún var með vagina dentata. Tennur í leggöngunum. Tennur sem að bitu liminn hans Tobey af. Og Tobey öskrar og Dawn öskrar og við öskrum öll á ís og Tobey stekkur í vatnið og sést aldrei aftur.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/20-toby.jpg"> Tobey grætur missi sjálfsins.</p>
Að ég eigi í vandræðum með að ákveða hvað mig langi mest að tala um varðandi Teeth segir meira um hversu vel heppnuð hún er heldur en mörg orð gætu. Eða ég held alla vega að það segi það. Ég hef eytt miklum tíma upp á síðkastið í lokuðum herbergjum með ekkert nema tvinnfallagreiningu til að stytta mér stundir, og hugsanlega er ég bara feginn að sleppa út og gera eitthvað sæmilega eðlilegt aftur. Hvað sem því líður finnst mér að aðalatriðin í Teeth séu tvö.
Annars vegar er Teeth bæði augljós og beitt ádeila á skírlífspredikanir bókstafstrúarmanna í Bandaríkjunum og kynfræðslu í skólum þar í landi. Í Teeth bregst skólakerfið hlutverki sínu algerlega þegar að einstaka kennarar fá að ritskoða og sleppa því að kenna þá hluta námsefnisins sem að þeim þykja óþægilegir eða vandræðalegir. Skírlífsklúbburinn Loforðið sópar svo allri umræðu um kynferði manna undir teppi og kallar hana skammarlega nema að maður sé giftur. Í sameiningu gera bókstafstrúarmennirnir og skólakerfið það að verkum að hvorki Dawn né neinir af krökkunum í kringum hana hafa nokkra hugmynd um hvernig líkamar þeirra virka eða hvað sé yfir höfuð eðlilegt og hvað ætti kannski að skoða betur. Eins og í The Wire bregðast allar stofnanir samfélagsins hlutverki sínu, sem bitnar á fólkinu sem þarf mest á hjálp þeirra að halda.
Hins vegar er persóna Dawn og ferlið þegar hún þroskast og breytist ein stór líking fyrir kynþroska okkar. Í byrjun myndarinnar er Dawn saklaus og barnaleg, en líka ósátt við sjálfa sig og óviss um hvernig líkami hennar virkar. Eftir því sem líður á myndina, í gegnum atriðin með Tobey, kvensjúkdómalækninum og Ryan, breytist viðhorf hennar smátt og smátt og hún venst sjálfri sér og líkama sínum. Undir lokin er Dawn svo orðin fullkomlega sátt við sjálfa sig, hefur fulla stjórn á sér og er jafnvel tilbúin að nýta þá stjórn meðvitað til sinna eigin vébragða. Ef að maður hefur tvö síðustu atriðin með vígvagínunni í huga má eiginlega færa rök fyrir því að Teeth styðji að maður noti kynþokka sinn til þess að ná sínu fram, eða alla vega svo framarlega sem að málstaður manns sé réttlátur. Við megum nota kynþokka okkar til að refsa vondu fólki og leiðrétta ranglæti, en ekki til að komast frítt í bíó eða fá séns á fargjaldinu í strætó. Gott ef að þetta er ekki svipuð pæling og er á bakvið kóngulóarmanninn: Miklum mætti fylgir mikil ábyrgð.
Núna þegar ég fer að hugsa um það koma þessar síðustu tvær hugleiðingar mér pínulítið á óvart. Á meðan að ég horfði á Teeth datt mér aldrei í hug að ég væri að horfa á annað en bíómynd um unga stelpu með tennur í leggöngunum sínum, sem endar að vísu á því að berjast gegn óréttlæti með téðum tönnun, en undir niðri virðist eitthvað annað og meira hafa kraumað. Þetta er auðvitað ekkert nema gott mál, því til hvers horfum við á hryllingsmyndir ef ekki til þess að fá tilviljanakenndar skoðanir meitlaðar á undirmeðvitund okkar, eins og eins ramma kókauglýsingu í filmurúllu? Til einskis, segi ég! Ptu! Svo skemmir heldur ekkert fyrir að Teeth er vel leikin, sagan er góð, persónurnar trúanlegar og að aflimuð typpi eru merkilega fyndin.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
Sumarfrí. Og næstu nokkrar vikur þar á eftir líka. Sjá þessa færslu.