Jæja, börnin góð. September er kominn, með sílækkandi sól, dimmum nóttum, kaldara lofti, og helgibænum múslima í næstu húsum í tilefni af ramadan er berast gegnum gluggann þegar við sitjum á gólfunum okkar að sötra bjór af því að við eigum engin húsgögn. Út úr litlum krókum og kimum skríða milljónir kakkalakka þegar enginn sér til, og það gerum við líka. Ár hinna lifandi dauðu er komið úr sumarfríi. Ég vona að þið, eins og ég, bindið þennan klút um ennið á ykkur og minnist orða atómskáldsins Private Vasquez úr Aliens: ,,Rock and roll! [skothríð]``

Munið þið fyrir nokkrum árum, um það leyti sem að DV var nýrisið upp frá dauðum og fór mikinn í metnaði sínum fyrir fullkomnu ábyrgðar- og siðleysi, þegar að gríðarmiklu púðri var eytt í að hafa áhyggjur af unglingunum okkar, sem enginn hugsar um lengur óseiseinei? Sérstaklega rifu góðborgarar hár sitt upp með rótum og hrintu teborðum til og frá um vel hirta bakgarða af áhyggjum af sakleysisskorti ungu kynslóðarinnar, og gengu svo langt að kenna hana við klám.

Hin Íslenzka Klámkynslóð var auðvitað bara þjóðlegur angi stærri hreyfingar sem teygði sig yfir Vesturlönd eins og þau lögðu sig, gegnum intertúburnar og tónlistarsjónvarpið og rappvídjóin. Almenningur hérna og hinum megin Atlantshafsins virtist vera á einu máli um að unga kynslóðin samanstæði af eintómum Narkissosum er hossuðust á hvorum öðrum í eigin persónu allan liðlangan daginn, nema í gegnum myndavélasíma og Myspace væri.

Ég þori ekki að segja til um hvort að tímasetningin sé tilviljun ein, en ef ekki þá finnst mér skemmtilega kaldhæðið að á sama tíma hafi indístefnan í kvikmyndagerð fengið byr undir báða vængi. Á meðan að unglingar hafa verið úthrópaðir sem siðlaus klámtryllt fjórhólaspíralserðingsjúnit í hefðbundnum fjölmiðlum, þá hafa óvæntustu velgengnissögur kvikmyndaheimsins síðustu ára verið myndir á borð við Garden State, Little Miss Sunshine og Juno. Allar þessar myndir eiga sameiginlegt að vera ekki aðeins sakleysið uppmálað, heldur að hrópa nafn þess af húsþökum síðla nætur eins og uppreisnargjörnustu Vottar Jehóva gera við nafn drottins síns. Það er eins og að síðustu ár hafi kvikmyndagerðarmenn stungið hvorn annan í bakið fyrir tækifæri til að sýna hversu saklaust en jafnframt hreinskilið og ábyrgðarfullt ungt fólk væri.

Eins og Newton kenndi okkur, þá á allt atlag samsvarandi mótlag. Að reyna að skera út um hvort kom á undan, klámvæðing vestrænnar æsku yfir eina nóttu eða upphafning kvikmynda á sakleysi umfram allt annað, er álíka tilgangsmikið og að svara klassísku kjúklinga-eða-eggjar spurningunni. Aftur á móti er víst að á meðan klámásakanirnar hafa gleymst í tímanna rás, þá lifir indíkvikmyndin enn góðu lífi. Atlag hennar kallar á mótlag. Deadgirl er það mótlag.

Aðalpersóna Deadgirl er menntaskólaneminn Rickie. Í mörg ár hefur Rickie verið skotinn í rauðhausnum JoAnn, sem er aftur á móti að deita ruðningsstjörnu skólans. Þar sem Rickie og besti vinur hans JT passa hvergi inn í klíkurnar í skólanum sínum, og eiga engan séns að ná sér í stelpu þar, hvað þá rauðhaus eins og JoAnn, þá eyða þeir tímanum frekar í að skrópa í tíma og drekka bjór en að læra um þróunarkenninguna og grundvallaratriði mannlegrar anatómíu. Á einum af sínum mörgu skrópunarleiðangrum ákveða þeir félagarnir að kíkja á gamla yfirgefna geðveikrahælið sem er algerlega úr alfaraleið, eins og fórnarlömbum snarbilaðra manna er best til lista lagt. Þar stunda Rickie og JT asnastrik eins og að rúlla sér um á skrifborðsstólum, kasta hlutum gegnum rúður, henda pappír útum allt og drekka bjór, en tekst alveg að forðast að vera saxaðir niður í litla bita fyrir þær sakir að geðveikrahælið er mannlaust.

Eða, tja, tæknilega séð er hælið mannlaust. Niðri í skítugum kjallaranum, bakvið læsta hurð, marga illa lýsta ranghala, og vel úrillan varðhund finna Rickie og JT herbergi. Í miðju herberginu er rúm. Á rúminu liggur nakin kona, sem er reynist vera fjötruð niður við nánari skoðun. Þegar að strákarnir koma nær hreyfir hún sig. En hún getur ekki sagt neitt, bara urrað. Og hún berst ekki mikið um, heldur reynir bara að glefsa frá sér. Og hún getur ekki dáið.

Taktu þér augnablik til að hugsa um hvað þú myndir gera í þessari stöðu. Þrátt fyrir að við séum öll misjöfn okkar á milli, þá lendir svarið án efa á nokkuð takmarkaðri bylgjulengd, sem spannar sviðið frá því að hringja á lögregluna, yfir í að berja hausinn á konunni í spað og hringja svo á lögregluna, eftir hversu margar zombímyndir maður hefur séð. Ímyndaðu þér núna að þú sért sautján ára lúser í menntaskóla sem getur ekki náð sér í kærustu, og að aðeins þú og besti vinur þinn vitið um konuna. Sem er nakin. Og bundin niður. Eins og röksemdafærlsan gengur nokkurn veginn í myndinni, þá er sameiginlegt með öllum lifandi verum að þær deyja. Konan getur ekki dáið, svo hún er ekki lifandi. Ef hún er ekki lifandi, þá er það ekki nauðgun.

Já, Deadgirl er ein af þessum fágætu og yndislegu hryllingsmyndum þar sem einstaka splatterskot og sjónrænn viðbjóður þjóna þeim eina tilgangi að undirstrika hvað persónurnar í myndinni eru viðurstyggilegar. Í Deadgirl er þessari undirstrikun þar að auki beitt á hverja einustu persónu, en allir sem fá svo mikið sem mínútu af skjátíma í myndinni eru undantekningarlaust misheppnaðar manneskjur. Mannvonska JT þarfnast ekki mikilla útskýringa, og á meðan Rickie fylgir honum kannski ekki heilshuga að málum þá maldar hann heldur ekki mikið í móinn. Forráðamenn Rickie eru sjaldséðir alkahólistar, kennararnir hans eru í besta falli vanmátta, hinir vinir Rickie eru aumkunarverðir minnipokamenn, strákarnir í skólanum eru frekir sadistar, og hið rauðhærða man telur að það sem öðru fólki finnist sé mikilvægara en allt annað.

Það var ekki að ástæðulausu sem ég minntist á Juno áðan, en hún er grínlaust sú mynd sem Deadgirl minnir mig hvað mest á. Báðar myndirnar gerast í bandarískum menntaskóla í persónulausu úthverfi, báðar myndirnar keyra mikið á ljúfri kassagítardrifinni indímúsík, báðar myndirnar fjalla um erfiðar ákvarðanir unglinga og afleiðingar þeirra, og báðar myndirnar ýkja ákveðna eiginleika mannfólksins út í ystu æsar. Munurinn á myndunum tveim felst aðallega í hvaða hlið fólks þær ýkja.

Í Juno er varla hægt að kasta steini án þess að hitta eina af þeim umhyggjufyllstu, þroskuðustu, en umfram allt saklausustu (Horfið á Juno aftur. Fyrir utan eitt tveggja sekúndna skot er ekki ýjað að kynlífi alla myndina, sem er undarlegt miðað við umfangsefnið.) manneskju sem hægt er að hugsa sér. Í Deadgirl eru aftur á móti, eins og áður sagði, allir svo saurugir upp fyrir haus að jafnvel prestar færu hjá sér og skömmuðust sín í návist þeirra. Hvorug kvikmyndin bregður upp sérstaklega sannrænni mynd af manneskjum, því allir eiga sínar góðu sekúndur og slæmu daga, en engu að síður á ég auðveldara með að kyngja persónunum í Deadgirl, sem segir örugglega meira um mitt krumpaða svarta hjarta en góðu hófi gegnir.

Í fyrstu pirraði mig svolítið hvað rauðhausnum JoAnn eru gerð lítil skil í Deadgirl, bæði af því að hver sem lék hana er alveg rosalega sæt og ég er nú það einfaldur að ég hef gaman af því að horfa á sætar stelpur, og af því að hún á að vera það sem drífur Rickie áfram. Í hausnum á Rickie er JoAnn fullkomnunin sjálf, sem allar aðrar stelpur falla í skuggann á, en við sjáum aldrei af hverju hún er það. JoAnn kemur örsjaldan fyrir í myndinni, oftar en ekki sjáum við hana bara úr fjarska eða í dagdraumum Rickie, og í þau fáu skipti sem hún segir eitthvað er það ekkert sérstaklega merkilegt. Í stuttu máli sjáum við aldrei hvað er sérstakt við hana, annað en að hún lítur fjandi vel út í stuttbuxum.

Eftir að Deadgirl kláraðist og ég náði að skrapa kjálkann af stofugólfinu sannfærðist ég þó um að þetta persónuleysi JoAnn hafi verið mjög meðvituð ákvörðun. Við sjáum JoAnn nákvæmlega eins og Rickie sér hana, og þar sem Rickie er sautján ára menntaskólanemi þá sjáum við aldrei annað en júllur og rass. Í hans huga er JoAnn ekkert annað en virkilega sæt stelpa. Hann þekkir hana sama og ekkert, hann hefur enga hugmynd um hverju hún hefur gaman af eða hvaða skoðanir hún hefur, og líkt og endirinn sýnir er honum alveg nákvæmlega sama um allt þetta. Sjitt, þessi endir, maður. Hlutirnir eru aldrei það slæmir að þeir geti ekki orðið miklu verri.

Ég held að það sé eins gott að ég var ekki ennþá kominn með nettengingu í íbúðina mína þegar að Deadgirl kláraðist, af því að annars hefðu allir sem ég hef einhver tök á að hafa samband við fengið að heyra að hún væri besta hryllingsmynd ársins, og bæri höfuð og herðar yfir meistaraverk eins og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/02/26/6-let-the-right-one-in/">_Let the right one in_</a> og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/04/26/14-the-host/">_The Host_</a>. Eins og hann gerir við svo margt annað hefur tíminn linað tilfinningar mínar til Deadgirl. Ég er ekki lengur hundrað prósent viss um að hún sé besta hryllingsmynd ársins, en fokk hvað ég hlakka ekki til að þurfa að gera upp á milli hennar og hinna tveggja hér að ofan í árslok. Það verður blóðugur andskoti.

Við heimsækjum vini og frændur okkar Norðmenn aftur og förum á slasherflakk um jökla í <em><a>Cold Prey</a></em>.