<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-poster.jpg"></p>

Um daginn náði karlmennska mín hámarki. Eftir að hafa tekið til í íbúðinni minni, þurrkað af arinhillunni og stofuborðinu, og sópað gólfin og skúrað - sem tekur miklu styttri tíma en maður myndi halda af því það er ekkert í íbúðinni minni - hellti ég mér vel kældum eplasíder í glas, blastaði Lady GaGa úr græjunum mínum, og fór að mixa salat í kvöldmat. Tvennt hvarflaði að mér. Annars vegar að það er eins gott að ég er sæmilega öruggur um karlmennsku mína, því ég er ekki viss um að ég hefði getað gert þetta kvöld mikið stelpulegra án ilmkerta og bleikra tuskudýra, en hvorugt þeirra get ég kallað mig nógu heppinn að eiga. Og hins vegar fór ég að spá í hvað Pride and Prejudice með Keiru Knightley er óendanlega frábær.

Viðhorf mitt til Pride and Prejudice í öllum sínum myndum hefur breyst all svakalega yfir síðasta síðasta mánuðinn. Í mörg ár hef ég verið sannfærður um að P&P sé argasta tilfinningaklám og aðeins fyrir homma og kellingar. Ég hef sagt ljóta hluti um hana í návist óharnaðra unglinga, skotið mér inn í búðir til að sleppa við að heilsa henni úti á götu, og falsað undirskrift hennar á víxla sem ég lét svo falla á hana. Allt þetta breyttist þegar að vinur minn gaf mér eintak af Pride and Prejudice and Zombies, því ef þig langar að vekja áhuga minn á hverju sem er dugir að bendla uppvakninga við það. Fljótlega eftir að ég byrjaði á P&P&Z sá ég þó að allt sem við kom uppvakningunum var klisjukennt og illa skrifað, og að allt sem mér fannst skemmtilegt við bókina kom frá Jane Austen. Þegar að ævi mín verður kvikmynduð mun hér verða montage atriði þar sem ég kaupi, les, horfi á, hugsa um, og ræði Pride and Prejudice í heilan mánuð, umkringdur bleikum koddum og glimmeri.

Eitt af því sem mér hefur þótt skemmtilegast við tiltölulega nýfundinn kvikmyndaáhuga minn er að uppgötva hversu hröð þróunin í frásagnastíl þeirra hefur verið. Miðað við sirka hundrað ára gamalt sagnaform er hún reyndar alveg ótrúleg. Fyrstu kvikmyndirnar sýna greinileg tengsl bæði við leikhús og bókmenntir, en þau stílbrögð og venjur sem að tíðkast og virka þar ganga ekki alltaf upp á hvíta tjaldinu. Saga kvikmyndanna er tilraunakenndur slembigangur þar sem gömlu trixin eru slípuð niður í hluti sem virka, og hugmyndir sem voru ekki mögulegar eða í boði áður prófaðar og hent til eða frá. Eftir alla þessa vinnu og tíma eigum við verkfærakassa sem getur skilað okkur ótrúlegri snilld eins og Pride and Prejudice með Keiru Knightley, sem ég skal slást við hvern sem er upp á að sé nær fullkomin skáldsagnaaðlögun. En vegurinn hingað er hræjum stráður, minnisvörðum um allt sem gekk ekki upp. The Last Man on Earth er því miður einn þessara minnisvarða.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-tikall.jpg"> Ef ég ætti tíkall fyrir hvert skipti sem ég hef séð svona skilti…​</p>

Á fyrstu augnablikum The Last Man on Earth er ljóst að samfélagið er löngu dottið í sundur eins og legóbrú sem var ekki púslað saman úr nógu mörgum stykkjum. Byggingar eru í misgóðu ástandi, vegir eru fullir af drasli, lík liggja dreifð útum gangstéttir líkt og lauf að hausti, og umhverfið er grámyglað og dökkt, aðallega af því að myndin er frá 1964 og því svarthvít. Fljótlega hittum við þó herramanninn Vincent Price, sem að fólk af minni kynslóð þekkir sennilega aðeins sem uppfinningamanninn í byrjuninni á Edward Scissorhands, sem er helber synd og skömm.

Á sjötta og sjöunda áratugnum lék Vincent Price í haug af hryllingsmyndum, þar á meðal upprunalegu The Fly og heilli runu af myndum byggðum á sögum Edgar Allan Poe. Hann er einn af risum hryllingsmyndanna, þekktur fyrir ógnandi rödd sína, almenn myndarlegheit og að taka sjálfan sig mátulega alvarlega. Eina myndin sem ég hef séð Price í er hinni stórgóðu Witchfinder General, þar sem hann er óhugnalegri en flestir hlutir á tveim fótum, en sú mynd á víst ekki að gefa sérstaklega rétta mynd af Vincent sem leikara, svo ég hlakkaði til að sjá hann í náttúrulegra umhverfi.

En aftur að myndinni, sem leyfir okkur að fylgjast byrjuninni á venjulegum degi hjá hr. Price. Eins og flest okkar á Vincent vel skilgreinda rútínu, sem samanstendur af því að fá sér kaffi og með því, krota risastórt dagatal á veginn sinn, skipta um brotna spegla á útidyrahurðunum og hengja á þær fersk knippi af hvítlauk, flísa til nokkra fleiga úr við, redda bensíni, og safna saman og brenna hvaða lík sem hann finnur fyrir utan húsið sitt eftir nóttina, og rúnta svo um yfirgefna borgina og stjaksetja þá fáu sem hann rekst á. Ókei, svo rútínan er kannski aðeins öðruvísi en hjá okkur hinum.

Ástæðan fyrir þessari hvítlauks, líkbrennslu, og stjaksetningaráráttu kemur ekki í ljós fyrr en að myrkva tekur, þegar að heimili Vincents breytist í fanglelsi um leið og hundruðir vera ráfa úr nóttinni og gera aðsúg að herramanninum okkar. Eins og speglarnir, hvítlaukurinn, fleigarnir og nóttin gefa kannski í skyn þá eru þær vampírur, en Vincent er eini maðurinn í heiminum sem lifði af einhversskonar plágu sem breytti öllum sem smituðust af henni í heimskar, klaufalegar og dagfælnar blóðsugur. Sem síðasti maðurinn á jörðinni eyðir Price því tímanum sínum í að þræða borgina götu fyrir götu og hús fyrir hús og drepa óvættina á daginn á meðan þeir sofa.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-mrprice.jpg"> Rrrrrrrrrrrrr.</p>

Ef þessi söguþráður hljómar kunnuglega er það örugglega af því hann hefur verið nýttur þrisvar eða fjórum sinnum, nú síðast í hittífyrra í I Am Legend með Will ,,Welcome to Earth! [rothögg]`` Smith. Þar sem báðar þessar myndir, og The Omega Man með Charlton Heston, voru gerðar eftir skáldsögu Richard Matheson deila þær ansi miklu sín á milli. Þannig ættu þeir lesendur sem fylgdust með hr. Smith að finna fyrir nettu dèja vu þegar að Vincent Price fer í leiðangra sína um yfirgefna borgina, er aðeins of lengi úti, finnur hund fyrir tilviljun, og rekst að lokum á lifandi konu.

Munurinn á The Last Man on Earth og fyrri hlutanum á I Am Legend (sem var frábær, seinni helmingurinn var ömó) er aðallega í hvernig okkur er sýnt hvað er í gangi. Will Smith sýnir frekar einmana og bilaða takta á meðan hann spjallar við gínur um hvað hann er einn, á meðan að Vincent Price lagar kaffi og segir okkur nákvæmlega hvað honum liggur á hjarta, með einstaklega þjálum línum eins og ,,Another day to live through. Better get started. og ,,December 1965. Is that all it has been since I inherited the world? Only three years. Seems like a hundred million. Ef maður les þetta í bók er ekkert að þessu, en ef maður þarf að hlusta á þetta í formi innri hugsana manns að laga kaffi, þá virka svona frasar alls ekki.

Það má auðveldlega finna fleiri hluti sem hafa verið þýddir beint frá bók á filmu og þjáðst nokkuð fyrir. Uppbygging myndarinnar er ágætt dæmi. Fyrstu tuttugu mínútur hennar snúast um að mestu viðburðalítið líf Vincent Price. Næsti hálftími þar á eftir er ein samfelld minningaruna sem útskýrir hvernig heimurinn varð eins og hann er, hvað varð um fjölskyldu Price, hvaða maður þetta er fyrir utan húsið hans á næturnar sem hrópar á hann að koma út, og af hverju Price er svona fjári myndarlegur. Svona frásagnastíll virkar kannski í skáldsögu, en hann drepur gjörsamlega allt flæði í bíómynd sem mátti ekki við hægara tempói til að byrja með.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-laughing.jpg"> Jafnvel hlæjandi er þessi maður meira en lítið krípí.</p>

Nú er ég búinn að fá að vera sæmilega neikvæður í smástund, svo mér verður kannski fyrirgefið fyrir að spjalla um hvað virkar við The Last Man on Earth. Þrátt fyrir hlutina sem tapast í aðeins of beinni þýðingu frá bók í kvikmynd eru einstaka hlutir sem fúnkera í myndinni. Í fyrsta lagi er Vincent Price frábær. Röddin hans er akkúrat á réttri bylgjulengd fyrir mann sem er búinn að vera einn í nokkur ár og hefur ekkert að lifa fyrir. Hann lítur líka út fyrir að vera nett bilaður til að byrja með. Og hann er fjandi góður leikari - atriðið þar sem hann byrjar að hlæja að minningu um dóttur sína áður en hann brotnar niður og brestur í grát situr ennþá í mér mörgun dögum eftir að ég horfði á myndina.

Fyrir utan herra Price er mjög áhugavert að skoða skrýmslin í The Last Man on Earth á tvo mismunandi vegu. Annars vegar getum við séð vampírurnar og allt húllumhæið í kringum þær eins og þær koma okkur ómengað fyrir sjónir. Það sem vekur virkilega athygli þá er hversu svakalega yfirhlaðin vampírugoðsögnin í myndinni er. Næstum hverju einasta klassíska smáatriði vampíra er troðið inn. Þær koma aðeins út á nóttunni (en deyja reyndar ekki í sólarljósi - prik fyrir það), þær þola ekki spegilmyndina sína, þær hata hvítlauk, og svo framvegis og svo framvegis. Það vantar bara að þær geti breyst í leðurblökur og tali með kjánalegum hreim. Þessar vampírur þjást af nákvæmlega sama vandamáli og Batman gerði í gamla daga: þær eru svo klyfjaðar smáatriðum og baksögu að það er engin leið að taka þær alvarlega. Þegar þarna var komið við sögu var ekki enn alveg orðin brýn nauðsyn að dekonstrúera vampíruna, sikta út hvað virkaði enn við hana og gera hana ógnvekjandi á ný - eins og var nýlega gert við Leðurblökumanninn sem við þekkjum og elskum - en viðvörunarflauturnar voru orðnar ansi háværar.

Hins vegar er gaman að fylgjast með vampírunum í The Last Man on Earth utan frá, í samhengi við hvaða áhrif þær höfðu á poppmenningu okkar, af því þegar vel er að gáð voru þau áhrif talsverð. Fyrir utan ljós-, spegla- og hvítlauskfælni sína eru skrýmslin hér nefninlega föl á hörund, klunnaleg í hreyfingum, hægfara mjög, stynja oftar en ekki í staðinn fyrir að tala og smita aðra af ástandi sínu með bitum. Hljómar þetta kunnuglega? Ég ætla rétt að vona það af því að fjórum árum eftir að The Last Man on Earth sá dagsins ljós gaf ungur og óreyndur kvikmyndagerðarmaður fyrstu myndina sína út. Hún skartaði meðal annars skrýmslum sem voru föl á hörund, klunnaleg í hreyfingum, hægfara mjög, stundu í staðinn fyrir að tala og smituðu aðra af ástandi sínu, og hét Night of the Living Dead. Auðvitað er nokkur munur á skrýmslunum hér og í fyrsta uppvakningameistaraverki George Romero, en það er mjög erfitt að sjá engan áhrifavald hér á ferð.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/09/22-vampirur.jpg"> Vampírur hinna lifandi dauðu.</p>

Þrátt fyrir þessa jákvæðnis- og áhugabylgju sem við fundum okkur undir þarna á þrímínútu Vatnsberans, þá verður að segjast að The Last Man on Earth er hundleiðinleg mynd. Þeir einu sem gætu haft gagn og gaman af því að sitja gegnum hana eru ákafir stuðningsmenn Vincent Price eða áhugamenn um þróun uppvakninga í sameiginlegri poppvitund okkar. Það hefur aldrei verið auðvelt verk að færa sögur úr skrifuðu formi á hvíta tjaldið, en á síðustu hundrað árum höfum við dottið niður á dágóðan lista af trixum sem má nota og holur sem ber að forðast. The Last Man on Earth hoppar ofan í hverja þessara hola á fætur annarri, og heldur áfram löngu eftir að hún brýtur báðar lappirnar í slæmri lendingu. Hún er þurr, hún er langdregin, hún virðist ekki hafa neinn sans fyrir því að fólk er að horfa á sig, og ef að Vincent Price væri ekki í henni væri hún óbærileg, í staðinn fyrir að vera bara mjög, mjög leiðinleg.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

Nú skal það ske: engin innsláttarvilla skal stöðva mig í að horfa á Norðmenn vera saxaða í sundur í Cold Prey.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=uDWe2QbCTG8&hl=en&fs=1&]</p>