<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/01/03-poster1.jpg"></p>
,,Ljósið skein í myrkrið, og myrkrið skildi það ekki.`` - Upphafsorðin úr House
Um leið og ég sá Being John Malkovich áttaði ég mig á því að ég var með holu í hjartanu sem var nákvæmlega eins í laginu og handritshöfundurinn Charlie Kaufman. Eina myndin eftir Kaufman sem ég man eftir að hafa rekist á áður en ég sá Malkovich er Adaptation. Af ýmsum ástæðum fannst mér hún ömurlega leiðinleg á þeim tíma, kannski af því að ég var ekki byrjaður að hafa jafn mikinn áhuga á súrrealískum pælingum og nú, og kannski af því að Adaptation er ekki mynd sem maður getur gengið inn í einum og hálfum tíma eftir að hún byrjar og ætlast til að fatta hvað er í gangi. Ég kenni því ríkissjónvarpinu um að ég fékk ekki áhuga á Charlie Kaufman fyrr en nýlega. Ef RÚV hefði aldrei sýnt Adaptation, þá hefði ég aldrei gengið svona seint inn í miðja sýningu á henni, og þá væri líf mitt án efa miklu, miklu betra í dag, og dekadens þess næði nú síðrómverskum hæðum með borgarbrennum, fiðluleik og hórum og öllu.
Ástæðan fyrir að ég nefni Adaptation sérstaklega er að á undarlegan hátt tengist hún House, myndinni sem er á boðstólnum í dag. Nákvæmlega hvernig verður að bíða í smástund, en ég lofa því að það verður þess virði. Nú veit ég ekki hversu margir hérna hafa séð Adaptation, en til þess að allir séu með skulum við rifja upp það sem við á. Hún fjallar um bræðurna Charlie og Donald Kaufman. Charlie er handritshöfundur sem á í miklum vandræðum með að fylgja nýjustu myndinni sinni eftir, en hún hét Being John Malkovich. Hann er þunglyndur, kvíðinn yfir öllu, og með ritstíflu. Donald er svarti sauðurinn í fjölskyldunni sem hefur aldrei getað neitt rétt, en dettur svo í hug að gerast handritshöfundur eins og bróðir sinn. Hann fer á námskeið um hvernig maður eigi að fara að, sest niður, og dúndrar út sálfræðitrylli sem er algerlega málaður eftir númerum en selst svo fyrir milljónir.
Þessi sálfræðitryllir heitir The 3 og fjallar um fjöldamorðingja, nýjasta fórnarlamb hans, og lögreglumann sem reynir að finna morðingjann áður en hann getur drepið fórnarlambið. Eftir mikla bílaeltingaleiki og ég veit ekki hvað og hvað, þá kemur í ljós að þessi þrjú eru öll sama manneskjan sem þjáist af klofnum persónuleika. Í Adaptation er þetta handrit nett ádeila á ruglið sem Hollywood lætur frá sér, því ef maður sest niður og hugsar um söguna í smástund sér maður að það er ekki nokkur leið að hún geti gengið upp, þó ekki nema vegna þess að persónurnar þrjár eru oft sýndar gera mismunandi hluti á sama tíma.
Adaptation kom út 2002. Einu ári seinna gaf rithöfundurinn Ted Dekker út bókina Thr3e, en söguþráður hennar er nákvæmlega eins og sagan hans Donald Kaufman. Í fyrra var svo gerð bíómynd eftir bókinni hans Dekker, og í augnablikinu hefur líf mitt þann eina tilgang að finna eintak af henni og rökstyðja að hún geti talist hryllingsmynd. Fyrir utan Thr3e hefur herra Dekker skrifað 27 aðrar bækur á síðustu níu árum, og fyrir skemmtilega tilviljun er hann annar höfunda House. Af hverju var ég eiginlega að nefna allt þetta áður en ég byrja á að tala um House? Ástæðan er sú að ég vil að hlutirnir séu í samhengi. Ég vil að þið vitið hvers konar fólki fannst góð hugmynd að skrifa og kvikmynda House. Þetta er sama fólkið og sá ekkert að hugmyndinni um að morðingi, fórnarlamb og lögga væru sama persónan, jafnvel þegar að þau væru í æsispennandi bílaeltingarleik hvort við annað.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/03-adapt.jpg"> Charlie og Donald Kaufman úr Adaptation.</p>
Það virðist vera hipp og kúl núna að byrja hryllingsmyndir á því að sýna eitt voðaverk sem tengist svo inn í söguþráðinn seinna, svona svipað og X-Files byrjuðu alltaf og Fringe gera núna. Splinter frá því í síðustu viku gerði þetta og House byrjar líka svona. Í byrjunaratriðinu sjáum við konu reyna að fela sig frá eiginmanninum sínum í stóru og gömlu húsi, en hann finnur hana, segir henni að allt verði í lagi, og skýtur hana með haglabyssu. Eins og maður gerir þegar að kellingin hættir ekki að nöldra í manni, er það ekki strákar? Ha? Ha? Þið vitið hvað ég á við. Ahem.
Eftir takklistann kynnumst við hjónunum Reynaldo Rosales og Julie Ann Emery, sem eru bæði áttavillt og pirruð á hvort öðru, og við sjáum Michael Madsen bregða fyrir sem sveitalögreglumanni. Ég hafði gaman af Madsen þegar hann var leigumorðingi og útkastari á strippbar í Kill Bill, og það gladdi mig að sjá glitta í hann. Hann lenti þó alla vega á fótunum þegar strippbarinn gekk ekki upp lengur. Eftir smástund lenda hjónin í því að bíllinn bilar og það byrjar að rigna, þau leita sér skjóls á gömlu nálægu hóteli sem við þekkjum úr byrjunaratriðinu, og þar hitta þau parið J.P. Davis og Heidi Dippold. Þau fjögur rölta um hótelið og kynntast aðeins með samtölum eins og þessu hérna, sem á sér stað þegar rafmagnið er farið af og krípí barnahlátur heyrist í bakgrunni:
<blockquote>,,Hvað var þetta?
,,Brak í húsinu.
</blockquote>
Um þetta leyti hélt ég að ég væri búinn að fatta myndina. Okkar biði sálfræðitryllir í sama stíl og The Shining þar sem eitthvað við húsið gerði fólk bilað, en Michael Madsen myndi ríða inn á hvítum hesti í lokin og bjarga eiginkonunni frá manninum sínum, og hugsanlega vondum samtölum líka.
Ég hafði rangt fyrir mér (House 1 - Gunnar 0), eins og kom nær samstundis í ljós þegar að meðlimir fjölskyldunnar sem rekur hótelið tóku að birtast óvænt í hverju dimmu horninu á fætur öðru. Við hliðina á þeim þrem virka sveitadurgarnir úr Deliverance eins og ekta lattesötrandi heimsborgarar. Húsbóndinn gerði aldrei annað en að slá fólk í höfuðið og stynja, fullorðinn sonurinn kynnti sig með orðunum ,,You’re purty``, og húsfreyjan á staðnum slaufaði matarboði til gestanna með undarlegri viðvörun um að þau þyrftu að taka til eftir sig, því annars værum við ekkert meira en svín að velta okkur um í eigin drullu. Akkúrat þarna fattaði ég hvernig myndin ætti eftir að klárast. Hún yrði svona pyntingarklámsútgáfa af Deliverance, þar sem fólkið myndi falla eitt af öðru fyrir hendi sveitadurganna, þar til að Michael Madsen myndi redda málunum áður en tjaldið félli.
Aftur hafði ég rangt fyrir mér (House 2 - Gunnar 0). Í þetta skiptið birtist maður í regnjakka, grímu og haglabyssu fyrir utan húsið og reyndi hvað sem hann gat að komast inn. Sveitadurgarnir sögðu að hann héti Tinmaðurinn, og það virtist nokkuð daglegt brauð fyrir þeim að hann sæti um húsið þeirra og kastaði niðursuðudósum niður skorsteininn með leiðbeiningum um að drepa einhvern úr hópnum fyrir sólarupprás, því annars myndi hann drepa alla með tölu.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/03-tinman.jpg">_Tinmaðurinn: Ódýrari en Járnmaðurinn og skemmtir þar að auki í barnaafmælum._</p>
Ókei… þannig að House er í sama stíl og Saw, þar sem einhver maður herjar á fólk og neyðir það til að gera ógeðslega hluti? Neibb (House 3 - Gunnar 0), því það kom fljótlega í ljós að það flæddi svartur reykur úr sveitadurgunum þegar þeir voru særðir, og að í kjallaranum á hótelinu var mjög fín flauelsdýflyssa, sem reyndist vera djöfladýrkunarkirkja þegar betur var að gáð, og myndarlegt safn steypulagðra ranghala sem ekkert hótel hefur minnstu not fyrir. Um þetta leyti játaði ég mig sigraðan, því það var orðið ljóst að House hafði gríðarlegan metnað fyrir því að meika ekkert fokking sens, sem hún og gerði alveg fram í rauðan dauðann. Til að gefa smjörþefinn af því hversu ruglingsleg myndin er þá er hérna lítið brot af atriðum sem koma fyrir í House. Hafið ekki áhyggjur af því að þau skemmi myndina ykkur. Ég gæti sagt ykkur allt sem gerist í myndinni fyrirfram og það myndi samt koma ykkur á óvart ef þið horfðuð á hana:
<ul> <li>Julie flýr inn í kústaskáp og stendur þar hrædd, áður en vatn byrjar að flæða inn í hann. Vatnið frýs svo og myndar svell, sem brotnar og konan fellur ofan í stöðuvatn þar sem áður var gólf og kjallari fyrir neðan. Um það bil 20 mínútum seinna finnst Julie gegndrepa í kjallaranum.</li> <li>Lítil föl stelpa finnst innilokuð í 1x2 metra klefa og er samstundis tekin inn í hóp þeirra sem eru að berjast fyrir lífi sínu, en það er aldrei útskýrt hvaðan hún kemur eða hvernig hún veit allt sem hún veit um Tinmanninn og sveitadurgana, sem er óeðlilega mikið.</li> <li>Heidi er rænt, hún klædd upp í bláan kjól beint úr Mjallhvíti, og henni gefnar bökur.</li> <li>Öllum í myndinni byrjar að blæða svartri þoku í staðinn fyrir blóði, og eiga það til í að hitta tvífara sína gerða úr téðri þoku. Það er samt engin leið að greina á milli tvífaranna og upprunalegu eintakana, því þeir vita allt sem þú veist, og þeim blæðir þoku eins og þér.</li> <li>Vírgrindur sjálfkvikna yfir öllum helstu útgönguleiðum þannig að allir eru lokaðir inni. Tinmaðurinn kemst að lokum inn í húsið, en virðist aðallega vera í því að láta fólk upplifa sársaukafullar minningar en að, þú veist, drepa það með haglabyssunni sinni.</li> </ul>
Allt þetta og meira til er svo leikið af útskrifarbekknum úr Leiklistarskóla Williams Shatners og Calculons, en sannfæring þeirra er að fólk eigi að vita að þú SÉRT! AÐ! LEIKA! Undir lokin var House búin að enduruppgötva sig oftar en Madonna og Prince samanlagt, en á síðustu mínútunum ákvað hún að verða nýmóðins uppfærsla á Huis Clos eftir Jean-Paul Sartre, nema með auknum athyglisbresti og engri rökhugsun. Kemur í ljós að Tinmaðurinn er enginn annar en Michael Madsen, að hann er í liði með sveitadurgunum, að þau eru öll djöflar eða eitthvað þannig (af hverju þurfa djöflar sína eigin djöfladýrkunarkirkju í kjallar… æ, sleppum því), og að samkvæmt Tinmanninum er allur hópurinn syndugur og þau þurfa að drepa einhvern úr honum til að eiga séns á fyrirgefningu. Persónulega finnst mér það nokkuð öfugsnúin leið til að betra sig, en hún er svo sem í stíl við allt sem ég hafði þegar sætt mig við frá House.
Í næstum því lokaatriðinu, sem er algerlega laust við spennu og þvíumlíkt, nagar Tinmaðurinn húsgögn af geðbilun, segir setningar eins og ,,Ég er hrein illska. Eða níutíu prósent.'', og skýtur loksins litlu fölu stelpuna sem enginn man hver er. Síðan er honum eytt með kærleiksbjarnaárás úr hreinu ljósi og góðmennsku. Ég vil endurtaka þetta svo það sé engin hætta á misskilningi: Michael Madsen er sigraður með kærleiksbjarnaárás úr hreinu ljósi og góðmennsku. Svo klárast myndin á því að ekkert af henni var raunverulegt, en það var það samt smá (House milljón - Gunnar 0).
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/03-carebear.jpg"> Kærleiksbjarnaárás úr hreinu ljósi og góðmennsku.</p>
Eftið að House kláraðist sat ég þögull uppi í rúmi og vissi ekki alveg hvað hafði gerst síðustu níutíu mínúturnar, eða hvernig mér ætti að líða um það. Á endanum ákvað ég að mér þætti ég vera óhreinn og fór í sturtu. Það hjálpaði ekki. House gerir fólki voða erfitt fyrir að líka við sig. Hún hoppar á milli kvikmyndageira á tíu mínútna fresti, söguþráðurinn yrði ekki flóknari þó maður myndi bleyta hann og vinda hann eins og viskustykki, og persónurnar virðast hamingjusamastar þegar þær valhoppa í áttina að næstu leið til að deyja á eins hræðilegan hátt og hægt er.
Fyrir utan þetta hefur House undarlegar hugmyndir um hvernig heilbrigð hjónabönd virka. Hjónaband þeirra Reynaldo og Julie er að niðurlotum komið vegna þess að dóttir þeirra féll í gegnum vök á frosnu vatni og dó. Reynaldo finnst dauði stelpunnar sé Julie að kenna vegna þess að hún var að tala í símann þegar þetta gerðist, og Julie finnst að dauði stelpunnar sé Reynaldo að kenna vegna þess að hann var að vinna í staðinn fyrir að leika sér með dóttur sinni. Þetta er erfitt ástand sem hefur enga auðvelda lausn. Um þetta rífast þau alla myndina, þar til rétt áður en Michael Madsen fellur fyrir - allir saman nú - kærleiksbjarnaárás úr hreinu ljósi og góðmennsku, þegar Julie ákveður að taka þetta bara á sig og leysir með því öll hjónabandsvandamálin í einum rykk. Nú kem ég auðvitað frá einhverju jafnréttiskommatittalandi og hef þar að auki aldrei verið giftur, en ég held að hjónabönd virki ekki alveg svona.
Mig grunar samt af hverju House fór svona gjörsamlega framhjá mér. Eftir aðra sturtuna í röð varð ég mjög forvitinn um hvaða fólki fannst góð hugmynd að gera þessa mynd og las aðeins um höfundana Frank Peretti og Ted Dekker. Þeir eru mjög virkir spennu- og hryllingssagnahöfundar og talsvert frægir innan síns markhóps, sem er strangtrúað kristið fólk í Bandaríkjunum. Hvernig eru svo spennu- og hryllingssögur fyrir kristna öðruvísi en aðrar? Samkvæmt góðum mönnum virka þær nokkurn veginn eins og þessar venjulegu, nema það er ekkert blótað í þeim og það er eitthvað vísað í jesúbarnið og gildi þess. Að kunna biblíuna sína hlýtur að gera gæfumuninn þegar maður horfir á House, því bæði henni og Thr3e var tekið ágætlega af strangkristna markhópnum þeirra Frank og Ted.
Ég er farinn að hallast að því að í augum Frank, Ted og markhópsins sé House ljósið sem skín í myrkrið úr upphafsorðum myndarinnar. Mér fannst House alveg leðurblökuskítsbiluð og skildi hana vægast sagt ekki, svo ég neyðist til að álykta að ég sé myrkrið í þessari líkingu. Ég er hrein illska. Eða alla vega níutíu prósent.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
Frakkar koma sterkt inn með splatter- og pyntingarklámsveislunni <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Frontier(s)">_Frontier(s)_</a>.
<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=GmmpJSiqU3Y&hl=en&fs=1]</p>