<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/04-poster.jpg"></p>

Í einu uppistandinu sínu talar Eddie Izzard um að hann hafi lært frönsku í þónokkur ár og tali hana mjög vel, eitthvað sem hann nýtti einu sinni til að setja upp nokkrar sýningar í Frakklandi; að hluta til af því að hann gat flutt efnið sitt á frönsku, og að hluta til vegna þess að þá gat hann ullað á fólk sem getur það ekki. Mér finnst þetta viðhorf flott. Ég vil kannski ekki að ganga svo langt að segja að allt sem ég geri sé til þess að líta betur út í augum annarra svo ég fái kannski að ríða, en það hefur vissulega áhrif. Í algerlega ótengdum fréttum hef ég búið í Frakklandi í rúmt ár og tala frönsku alveg sæmilega, og get þess vegna horft á franskar myndir eins og Frontier(s) án texta. Og keypt baguette í bakaríum. Og pantað demi á kaffihúsum. Allir þeir sem vilja sofa hjá mér nú þegar þeir vita þessar upplýsingar eru vinsamlegast beðnir um að senda mér tölvupóst með nýlegri mynd.

Því miður fór þessi tilkomumikla og kynþokkafulla frönskukunnátta fyrir lítið í þetta skiptið, því enskur texti var harðkóðaður í eintakið af Frontier(s) sem ég stal af intertúbunum. Satt að segja var það eins gott. Það er nefninlega nokkur munur á hvernig fólk talar í daglega lífinu og í bíómyndum, tali nú ekki um ef þetta sama fólk eyðir mestum sínum tíma í að flýja banvæna hættu, og eftir fimm mínútur gafst ég upp á að sitja með annað eyrað við hátalarana til þess að heyra orðaskil og las bara textann. Ég skil vel ef þið viljið ekki sofa hjá mér lengur. Ég ætla samt að halda tölvupóstunum og myndunum. Þær kæta mig.

Meginland Evrópu hefur sótt í sig veðrið í hryllingsmyndagerð á síðustu árum. Til dæmis hefur Spánn sent frá sér draugasöguna El Orfanato, sem heldur spennu alla leið í gegn á meðan að sagan skríður áfram eins og jökull, og zombítryllinn [REC] sem er svo ótrúlega vel heppnuð að mig langar aldrei að sjá hana aftur. Þegar að það dimmir úti þá minnir stigagangurinn í húsinu mínu talsvert á blokkina úr [REC], sem gerir það að verkum að ég verð skíthræddur þegar ég kem heim af fylleríum og reyni því að stunda mína drykkju annað hvort einn inni í herbergi eða á daginn. Um svipað leyti og Spánverjarnir fóru að sækja í sig veðrið tóku Frakkar eftir að splattermyndir voru komnar aftur í tísku, og þeir hafa eytt síðustu árum í að framleiða myndir eins og Ils og A L’interieur, sem litu á Hostel og fannst hún fín fyrir utan að hún var ekki nógu ofbeldisfull.

Svona þegar ég segi þetta þá finnst mér munurinn á myndunum frá Spáni og Frakklandi áhugaverður. Stærstu spænsku myndirnar eiga það sameiginlegt að eiga við yfirnáttúruleg fyrirbæri eins og drauga eða uppvakninga, en þær frönsku ná í sinn hrylling gegnum samviskulausa sadista sem eru samt sem áður mennskir. Fólki finnst gaman að reyna að lesa eitthvað um þjóðfélagið og náungann úr hryllingsmyndum, því að til þess að geta hrætt fólk almennilega þarf maður að þekkja það vel, og á pappír ættu hryllingsmyndir hvers þjóðfélags því að endurspegla allt sem það óttast. Í framhaldinu hlýtur maður að spyrja sig hvort að þessi meinti ágreiningur Spánverja og Frakka um hvað sé ógnvekjandi endurspegli einhvern grundvallarmun á þjóðarsál þeirra, eða hvort hann sé tálsýn sem orsakast af tilviljun einni? Því miður þekki ég hvoruga þjóðina nógu vel til að geta svarað þessari spurningu á sannfærandi hátt, en ég skal sjá hvar ég verð eftir tíu ár og reyna aftur þá.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/04-fire1.jpg"> Eldurinn hreinsar.</p>

Þangað til getum við talað um Frontier(s). Hún hefst á runu fréttamynda af þjóðaríþrótt Frakka, það er verkföllum og óeirðum, og smátt og smátt púslar maður saman að öfgasinnaður hægrimaður hafi verið kosinn forseti Frakklands og að óeirðirnar séu honum til höfuðs. Ég veit ekki með ykkur, en ég gæti eytt heilu dögunum í að stara á sjónvarpsmyndir af óeirðum á meðan ég kveiki áhugalaust í pappírssneflum sem ég sleppi þegar eldurinn kemur of nærri fingrum mínum, þannig ég var pínulítið vonsvikinn þegar að sagan byrjaði fyrir alvöru með því að kynna hóp af þjófum sem höfðu nýlokið stóru ráni og voru á flótta undan lögreglunni. Eftir smá skotbardaga, bræðiskast og útsýnisferð um undarlega mannlausar óeirðir sem einkenndust af molotovkokteilakasti í auða veggi, þá voru allir komnir í stórt vöruhús og gátu tekið púlsinn á stöðunni. Einn af þjófunum fimm hafði orðið fyrir skoti, svo honum var skutlað á spítala og hin fjögur flúðu svo út á land með það í huga að komast til Hollands til að fela sig. Með því að keyra á ábyrgan hátt með hendur á tíu og tveim komust þau þangað heilu og höldnu fyrir dagmál, og eyddu restinni af myndinni í að skoða síki og söfn í Amsterdam og skrifa póstkort til vinar síns á spítalanum sem náði fullum bata, og saman skiluðu þau svo peningunum sem þau stálu í lokin. Ó hryllingurinn, ó hryllingurinn.

Til allrar hamingju kláraðist Frontier(s) ekki svona, því hópurinn ákvað að stoppa nálægt landamærunum og gista á hóteli lengst úti í rassgati, sem er alltaf góð hugmynd þegar maður hefur nýlokið stóru ráni eins og þeir sem hafa séð Psycho vita. Í upphafi virtist þetta vera besta hótel í heimi á hátt sem vakti sko ekki upp neinar grunsemdir, því allir máttu gista frítt og fengu meira segja að sofa hjá húshjálpinni í mjög svo óþörfu kynlífsatriði. Réttara sagt fékk einn þjófanna að sofa hjá húshjálpinni, en annar fann sinn innri Michael Douglas þegar honum var gott sem nauðgað af þernu sem vissi að ,,nei er bara önnur leið til að segja ,,já. Öllum að óvörum var galli á gjöf Njarðar, því meðlimir fjölskyldunnar sem rak hótelið voru bæði mannætur og nasistar - ekkert nýnasistarugl hérna, höfuð fjölskyldunnar var nasisti í gamla daga áður en það komst í tísku - og taka til óspilltra málana við að pynta, myrða og éta þjófana, auk þess að nota stelpuna í hópnum til að halda innræktun í lágmarki. Í kjölfarið fylgir svo ótrúlega blóðug blanda af Hostel og Texas Chainsaw Massacre, með einstaka slettum af The Descent.

Þó að ég reyndi í þúsund ár tækist mér tækist aldrei að gera almennilega grein fyrir hversu blóðug og ofbeldisfull Fronter(s) er. Tungumálið hefur sín takmörk, og Frontier(s) er langt fyrir utan þau. Fyrir utan vanilluofbeldi eins og barsmíðar, hnífsstungur og skotárásir, þá má sjá kjötkæli fullan af fórnarlömbum sem hafa verið í kvöldmat, hásinaklippingar með stórum járntöngum, og gaur sem er hent á járnsög með tilheyrandi hreinlæti og kvalarleysi. Af Frontier(s) má líka læra þá mikilvægu lexíu að það sé vond hugmynd að fela sig inni í litlum klefum sem eru notaðir til að gufusjóða heilu kjötskrokkana í einu. Ekki gera það, krakkar. Það endar með því að einhver meiðir sig. Eða aðeins nákvæmar, að einhver endurupplifi síðustu augnablik Jeff Goldblum úr The Fly, með blóði útum allt og bræddri húð og haglabyssuskoti í hausinn og öllu tilheyrandi. Margar persónurnar í Frontier(s) eyða svo miklum tíma útataðar í blóði frá toppi til táar, blóði sem er að mestu ekki þeirra eigið, ofan á að vera með opin sár á sama tíma að ég gat ekki annað en hugsað um heilsufar þeirra. Þetta er augljóslega fólk sem hefur ekki minnstu áhyggjur af smitsjúkdómum.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/04-nazi.jpg"> Maður heyrir orðin ,,Arbeit macht frei`` ekki oft í dag, en þessi viðkunnalegi maður muldrar þau og aðra gamla nasistaslagara á milli viðurverka.</p>

Um miðja myndina datt ég úr sambandi við aflimanirnar og mannátið á skjánum í smástund og fór að hugsa um vandamálin sem fylgja því að reka hótel sem gerir út á manndráp. Það vakna svo margar brýnar spurningar við þannig rekstur. Drepur maður alla gestina sem koma til manns? Ef ekki, hvernig ákveður maður þá hvaða gestir tékka sig út og hverjir ekki? Hvað gerir maður við líkin ef maður hefur ekki lyst á að borða þau? Er það vesenisins virði að reyna að selja vegabréf og skilríki gestanna? Gerir fjarskiptatækni nútímans það erfiðara að reka manndrápshótel í dag en, segjum, fyrir fimmtíu eða hundrað árum? Þetta eru allt áhugaverðar spurningar, sem ég velti auðvitað bara upp okkur til dægrastyttingar og tengjast nýlegum fjárfestingum mínum í ferðalagabransanum ekki á nokkurn hátt.

Upp úr þessu fór ég svo að velta fyrir mér hver fyrsta morðhótelssagan væri? Augljóslega er Frontier(s) langt frá því að vera sú fyrsta, þó ekki nema vegna þess að Hostel og Psycho komu á undan henni. Mig minnti samt endilega að þessi hugmynd teygði sig miklu lengra aftur, og rámaði í eitthvað sem ég hélt að væri annað hvort þjóðsaga eða smásaga eftir Edgar Allan Poe sem fjallaði um gistihúseiganda sem smíðaði sérstakt rúm til að kæfa gestina sína og ræna þá. Þrátt fyrir að hafa slátrað sjö geitum til heiðurs Google þá fann ég ekki söguna sem mig rámaði í (ótengt: það eru sjö vænlegir geitarskrokkar í boði handa hverjum þeim sem getur bent á líklegan kandidat), en ég fann svolítið annað sem staðfestir enn og aftur að raunveruleikinn er miklu undarlegri en nokkur skáldskapur.

Rétt fyrir heimssýninguna í Chicago árið 1893 ákvað ungi athafnamaðurinn H.H. Holmes að fara út í hótelrekstur og hóf að reisa sitt eigið hótel. Að byggja hótelið tók óvenju langan tíma, af því að Holmes rak og réð nýja verkamenn á tveggja vikna fresti. Þetta gerði hann af tveim ástæðum: annars vegar af því að með þessu þurfti hann ekki að borga þeim laun, þökk sé lögum sem yrðu seint samþykkt í dag, og hins vegar af því að þannig hafði enginn nema hann skilning á teikningunum að hótelinu, en á þeim mátti finna þrjár hæðir af ranghölum, stigaganga sem leiddu ekki neitt, yfir hundrað gluggalaus herbergi, þar af sum hljóðeinangruð og önnur búin leiðslum sem gátu veitt gasi inn á gestina, brennsluofn í kjallaranum og strekkingarbekk sem Holmes ætlaði víst að nota til að búa til kynstofn af risum.

Á næstu árum myrti Holmes bæði gesti sína og starfsfólk, sem hann fékk fyrst til að taka út veglega líftryggingu sem tiltók sig sem bótaþega. Holmes myrti fórnarlömb sín bæði með venjulegu ofbeldi sem og óhefðbundnari aðferðum, eins og að læsa herbergishurðunum, fylla herbergin af gasi og hlusta á gestina kafna. Í kjallaranum brenndi Holmes ýmist líkin, leysti þau upp í sýru, eða verkaði þau og seldi beinagrindurnar og líffærin til læknaskóla. Árið 1897 var H.H. Holmes fundinn sekur um 27 morð og tekinn af lífi. Þessi 27 morð voru bara þau sem hann játaði, en allt í allt var hann grunaður um aðild að meira en 200 morðum sem voru framin á tíu ára tímabili. Það er ljótt að gera grín að þessu, en það er varla hægt annað en að hugsa til þess sem Eddie Izzard sagði þegar hann velti fyrir sér hvernig svona fólk kæmi öllum þessum morðum eiginlega í verk:

Þú hlýtur að vakna mjög snemma á morgnana - ég hef ekki einu sinni tíma til að fara í ræktina. Stundataflan þín lítur örugglega undarlega út: Vakna, fara fram úr, dauði, dauði, dauði, dauði, dauði, snögg sturta, dauði, dauði, dauði …​

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/04-peningaskot.jpg"> Þetta er það sem fólkið í bransanum kallar ,,peningaskotið``.</p>

Ég veit ekki hvort að framleiðendur Frontier(s) vissu af herra Holmes eða ekki þegar þeir gerðu myndina sína, en ég er viss um að hann og Frontier(s) myndu ná ágælega saman yfir sameiginlegum blóðlosta ef þau hittust í partíi. Eins og ég sagði áðan þá er þráhyggja Frontier(s) fyrir blóðsúthellingum á svo háu stigi að manni hættir að standa á sama. Ég fékk hálfpartinn á tilfinninguna að fyrsta uppkastið af henni hafi samanstaðið af engu öðru en níutíu mínútum af fólki að limlesta hvort annað og baða sig í gerviblóði. Seinna meir hafi stúdíóið svo snúið upp á hendina á höfundunum, látið þá fá tékklista yfir það sem þyrfti að vera í myndinni og þeir hafi síðan bætt punktunum af honum inn í myndina eftirá: ,,Persónur? Jebb. Söguþráður? Jebb. Kynlífsatriði? Jebb. Samfélagsádeila? Je…​ nei, fjandinn. Umm…​ það eru nasistar í myndinni. Getum við slengt inn einhverju í byrjun um að öfgahægrimenn séu vondir?`` Ekkert þessara atriða er illa framkvæmt sem slíkt, eða alla vega ekki verr en gengur og gerist, en það skín í gegn að ekki nokkur þeirra sem kom að gerð Frontier(s) hafði minnsta áhuga á þeim.

Og hvað með það? Eftirá að hyggja er mér í raun og veru alveg sama um að ég hafi varla getað þekkt aðalpersónurnar í sundur frá hvorri annari, eða að söguþráðurinn hafi gott sem klárast eftir tíu mínútur þegar hann var búinn að þjóna tilgangi sínum og koma persónunum til mannætunasistanna. Fólkinu sem gerði Frontier(s) var kannski skítsama um persónur og söguþráð, en það hafði ótrúlegan metnað fyrir blóðsúthellingum, og hjarta þeirra var barmafullt af ást á splattermyndum. Þetta er smá spurning um sjónarmið. Já, á annan bóginn hefur Frontier(s) sögumannshæfileika á við draghalta geit, en aftur á móti endar hún á því að kona sem maður sér ekki lengur í fyrir blóði hrindir annarri stelpu í jörðina, rífur hana á háls með tönnunum einum saman, og öskrar heljaróp í átt til himins meðan rigningu lemur niður allt í kringum hana. Það er alveg hægt að finna vankanta á Frontier(s), en hún kemur aldrei til dyra klædd öðruvísi en sá froðufellandi vanskapnaður sem hún er, og fjandinn ef það er ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir svona heiftarlegum blóðsúthellingum.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p> Bruce Campbell (leikinn af Bruce Campbell) er rænt af aðdáendum sínum sem vilja að hann berjist við djöful sem herjar á smábæinn þeirra í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/My_Name_Is_Bruce">_My name is Bruce_</a>. <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=2tmMYS8s-Pk&hl=en&fs=1]</p>