<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/05-poster.jpg"></p>
Að finna góða leið til að byrja þessar umfjallanir er lang erfiðasti parturinn af öllu ferlinu. Sem er undarlegt, af því að það skiptir næstum engu máli á hverju maður byrjar að tala um. En þið vitið það auðvitað, alla þau ykkar sem hafa lesið eitthvað af hinum umfjöllununum. Málið er að það er óttalega leiðinlegt að lesa hluti sem hafa engan inngang, það er svona svipað og að hlusta á fyrirlestur þar sem fyrirlesarinn stendur kyrr og les af glærum. Það virkar miklu betur að mjaka fólki rólega í gang og koma inn af snertlum. Svo er þetta líka smá spurning um að koma sér í gírinn til að skrifa. Ég get haft útlínuna af umfjölluninni í hausnum og vitað nákvæmlega hvað ég ætla að tala um, en ég get ekki byrjað í miðjunni. Ég þarf að gera eins og Hemingway, finna eina góða setningu og vinna út frá henni, af því að um leið og hún er komin þá rúllar þetta áfram af sjálfu sér. Ekki það að þetta rugl eigi eitthvað sameiginlegt með því sem að Hemingway gerði fyrir utan að vera sett saman með orðum, en jafnvel sú tenging er vafasöm.
Sem betur fer ákvað ég að hafa reglulega skilafresti á þessum umfjöllunum. Ef ég þyrfti ekki að vera búinn að skrifa (og endurskrifa og endurskrifa og endurskrifa) þetta fyrir hvern fimmtudag, þá myndi ég bara horfa á næsta þátt af Mad Men í staðinn fyrir að setjast niður og gera eitthvað. Þó svo að ein eða ein umfjöllun dytti út myndi heimurinn sennilega ekki farast með hálfkæfðu ópi, en það yrði svekkjandi að standa ekki undir væntingum. Ég er reyndar undarlega veikur fyrir hlutum sem standa ekki undir væntingum, af því að fólkið á bakvið þá reyndi alla vega að gera eitthvað. Það er til dæmis ein af ástæðunum fyrir að mér finnst Southland Tales ein skemmtilegasta mynd síðustu ára, þrátt fyrir að hún geti ekki reimað skóna sína sjálf og þurfi hjálp við að fara á klóstið.
Af svipuðum ástæðum var ég mjög spenntur fyrir fyrstu Spiderman myndinni á sínum tíma, nánar tiltekið af því að Sam Raimi leikstýrði henni. Það er eitthvað ótrúlega heillandi við hugmyndina um að láta Evil Dead gaurinn fá eina stærstu ofurhetju í heimi: Öðrum megin höfum við kóngulóarmanninn sem stendur fyrir sæmilega fjölskylduvæna skemmtun, og hinum megin höfum við leikstjóra sem teipaði vélsög á hendina á einni hetjunni sinni og lét tré nauðga kvenkyns persónunum sínum. Þetta leikstjóraval ilmaði af þeirri tegund sturlunar sem fær menn til að ganga í ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka og rífa af sér skyrturnar og spangóla á tunglið. Það gat ekki annað en skilað stórkostlegum hlutum, en gerði það svo einhvernveginn ekki. Ég held að ég verði samt að leyfa einhverjum öðrum að skoða af hverju möguleikar Spiderman myndanna til að verða frábærar enduðu með því að gamlar konur grétu á götum úti og afneituðu hinum heilaga anda. Þetta er jú einu sinni hryllingsmyndablogg, og fyrir utan spaðadansinn hans Tobey Maguire í þriðju Spiderman er lítið við þann bálk sem telst hrollvekjandi. Ég hef samt mínar tilgátur um af hverju þetta endaði svona: Spiderman vantaði meiri kúabjöllu, og hana vantaði meiri Bruce Campbell.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/05-dance.gif"> Ennþá slæmt eftir allan þennan tíma.</p>
Mynd vikunnar, My name is Bruce, þjáist alls ekki af sama vandamáli. Ókei, meiri kúabjalla gerði henni örugglega ekkert nema gott, en þar sem Bruce Campbell leikur aðalhlutverkið í henni, leikstýrir henni, og framleiðir hana þá væri erfitt að koma meiri Bruce Campbell fyrir í henni, nema hugsanlega með því að henda söguþræðinum fyrir borð og láta Campbell hrópa hnyttin slagorð í myndavélina í einn og hálfan tíma. Reyndar væri það mynd sem mér þætti mjög gaman að horfa á, svona þegar út í það er farið. Og fyrst við erum að deila vonum okkar og draumum hérna, þá vil ég sjá mynd með Al Pacino áður en hann deyr þar sem hann gerir ekkert annað en að ganga á milli sviðsmynda og öskra magnaðar ræður. Hoo-ah!
Allavega. Því miður er heimurinn ekki sanngjarn og réttlátur staður, eins og sést ágætlega á því að þeir sem taka mark á stjörnuspám mega eignast börn, eða því að hvert mannsbarn þekkir ekki Bruce Campbell. Reyndar er það ekkert skrýtið, af því að hann hefur aldrei skotist upp á stjörnuhimininn, heldur frekar flogið letilega í átt til himins á skýjaðri nóttu. Í dag er Bruce Campbell ennþá þekktastur fyrir að leika Ash Williams úr Evil Dead seríunni hans Sam Raimi, en fyrsta myndin úr þeim bálki er frumraun þeirra beggja. Evil Dead kom út árið 1981 og síðan þá hefur Bruce Campbell leikið sama hlutverkið aftur og aftur - það er kaldhæðna B-myndahetju sem dritar niður vondum bröndurum og skrýmslum með svipaðri tíðni - með litlum sem engum breytingum. Engu að síður er Bruce Campbell virtur á sinn hátt og á gríðarlega dyggan aðdáendahóp, sem má útskýra með því að hann tekur sjálfan sig aldrei of alvarlega, og að hann er rosalega góður í því sem hann gerir vel. Til dæmis er það Bruce Campbell að þakka að strákar um allan heim geta gripið næstu stelpu og sagt ,,Hail to the king, baby`` áður en þeir kyssa hana. Geri aðrir betur.
Okkur hefur tekist að komast ansi langt án þess að minnast á My name is Bruce að einhverju leyti, en því miður var engin leið framhjá því. Þetta er mynd sem þarf að vera í samhengi til þess að það sé eitthvað vit í henni. Sér í lagi þarf fólk að þekkja Bruce Campbell, af því að öll myndin er einn stór brandari á kostnað hans. Í My name is Bruce er gert stólpagrín að persónunum sem Campbell leikur, leikstílnum hans, myndunum sem hann velur að leika í, og vondu bröndurunum sem hann segir í téðum myndum. Ef að fólk þekkir Bruce Campbell ekki, þá er ansi hætt við að allur punkturinn með myndinni fari framhjá því, á sama hátt og spilagaldrar fara fyrir ofan garð og neðan hjá hundum.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/05-chainsaw.jpg">_Því miður er þetta eina atriðið í myndinni þar sem Bruce heldur á keðjusög._</p>
Þrátt fyrir að söguþráðurinn í My name is Bruce falli í svipaðan flokk og sá í Frontier(s) frá því í síðustu, í þeim skilningi að hann er þarna yfir höfuð af skyldurækni við kvikmyndaformið frekar en af því að hann hefur eitthvað að segja, þá verð ég að gefa My name is Bruce prik fyrir skemmtilegasta inngang sem ég hef séð hingað til. Í stuttu atriði sem setur tóninn algerlega fyrir myndina syngja tveir menn alla baksöguna í kántrílagi: Fyrir sirka hundrað árum féll náma í smábæ saman og hundruðir kínverskra innflytjenda festust inni í henni og dóu, og sagan segir að kínverski guðinn Guan-Di gæti hinsta hvíldarstað þeirra og muni refsa hverjum þeim sem raskar við honum. Eftir að kántrílagið klárast, þá byrjar myndin fyrir alvöru á því að Bruce Campbell megaaðdáandinn Taylor Sharpe raskar hinsta hvílustað innflytjendanna með vini sínum og tveim stelpum sem þeim langar að sofa hjá. Eins og kántrílagið spáði fyrir um þá drepur Guan-Di þau öll nema Taylor, sem sleppur í burtu í þetta skiptið en er ennþá á skítlistanum hjá kínverska guðinum. Þar lendir restin af smábænum líka, af því að þetta er lítill bær og Guan-Di ætlar einnig að drepa alla ættingja stráksins. Eins og þið getið ímyndað ykkur yrðu svipaðar aðstæður alvarlegt vandamál á Íslandi.
Til að leysa þetta vesen rænir Taylor kvikmyndaleikaranum Bruce Campbell, sem er best þekktur í myndinni eins og í raunveruleikanum fyrir hlutverk sín í B-myndum eins og Evil Dead, og hefur því talsverða reynslu í að berjast við svona ógnir. Eini hængurinn á planinu er að þessi útgáfa af Bruce Campbell er í svipuðum stíl og Neil Patrick Harris úr Harold and Kumar myndunum. Hann er misheppnaður fráskilinn róni sem býr í hjólhýsi með hundinum sínum, og lifir á því að gera hvert framhaldið á fætur öðru af vondri mynd um hellageimverur. Í fyrstu er Bruce ekki hrifinn af því að vera rænt og neyddur til að berjast við fornan kínverskan guð, en eftir að hann misskilur aðstæðurnar og heldur að þetta sé allt saman afmælisgjöf frá umboðsmanninum sínum skiptir hann um skoðun, alla vega þangað til að hann leiðir bæjarbúana í bardaga gegn Guan-Di og fattar að kínverski guðinn er ekki gaur í gúmmíbúningi.
Alveg frá fyrstu mínútu er My name is Bruce staðráðin í að koma eins mörgum klisjum fyrir og eðlisfræðin leyfir: Táningagredda er glæpur og refsingin við henni er umsvifalaus og blóðugur dauðadagi (sjá einnig: Krysta Now - Teen horniness is not a crime); þegar að fólk sér eitthvað skuggalegt í skóginum röltir það undantekningalaust í áttina að því í staðinn fyrir að koma sér í burtu; í einu atriði hringir Bruce í fyrrverandi konuna sína og segist sakna hennar og barnanna (hún: ,,Hvaða barna?``); Kínverjar og Ítalir koma aðeins fyrir sem öskrandi steríótýpur sem geta annað hvort ekki sagt stafinn L eða enda öll orð á A; og undir lokin ráfar My name is Bruce inn á yfirráðasvæði Tomma og Jenna þegar að engill og djöfull birtast á öxl Bruce og ræða málin. Allt þetta er svo sem í lagi, af því að My name is Bruce er kjánaleg frá fyrstu mínútu og meirihlutinn af bröndurunum gengur upp, en mér fannst þetta fara út í öfgar alveg í blálokin þegar að myndin gat bókstaflega ekki ákveðið sig hvernig hún ætlaði að enda; í sönnum Wayne’s World stíl eru þrír mismunandi endar á myndinni.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/05-megahappy.jpg">_,,We should do the megahappy ending.``_</p>
Það er ákveðið vandamál við myndir eins og My name is Bruce, en það er að þær eru kvikmyndaútgáfan af því að sprengja plastkúlurnar sem að maður pakkar dóti inn í. Á meðan að ég skemmti mér mjög vel við að horfa á hana og að þetta sé fullkomin mynd til að horfa á yfir bjór með nokkrum vinum, þá er voða lítið hægt að segja um hana og hún vekur ekki upp djúpar pælingar hjá einum né neinum. Ég held ég láti mér þetta að kenningu verða og velji héðan í frá myndir sem reyndu að vera eitthvað meira en gjörsamlega heilalaus skemmtun, eins og Splinter eða House, af því að hvort sem þær ganga upp eða hrapa og brotlenda þá er alla vega hægt að segja eitthvað um þær. En eins og allt annað sem ég segi þá mun ég að sjálfsögðu svíkja þetta að minnsta kosti einu sinni, því að ég er búinn að bíta í mig að horfa á mynd með Paris Hilton eftir nokkrar vikur.
Að öllum lífslexíum og óhjákvæmilegum svikum slepptum, þá get ég samt mælt heilshugar með því að fólk kíki á My name is Bruce. Ef maður hefur séð eitthvað af myndunum hans Bruce Campbell og slatta af vondum hasarmyndum, þá er hún alveg öskrandi fyndin. Ef ekki, þá er hér komin prýðileg afsökun til þess að kynna sér Evil Dead myndirnar, ef aðeins til þess að fatta brandarana í My name is Bruce. Af því að jafnvel þó að þú hafir aldrei heyrt um Evil Dead áður, þá langaði þig alltaf að sjá þær. Þú vissir það bara ekki fyrr en núna.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p> Ungur sænskur drengur verður fyrir einelti og vingast við vampýru á sjöunda áratugnum í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Let_the_Right_One_In_(film)">_Let the right one in_</a>. <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=ICp4g9p_rgo&hl=en&fs=1]</p>