<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/06-poster.jpg"></p>
Fyrir nokkrum árum afgreiddum ég og vinir mínir Noreg í heild sinni með orðunum ,,það eru bara fjöll og hommar í Noregi.`` Við vorum að fljúga þar yfir til að millilenda í Svíþjóð á leiðinni til Eistlands, og við vorum svolítið leiðir yfir því að fá ekki tækifæri til að skoða fjörðina og slíkt fyrst að við vorum þarna, þannig að við gerðum það næst besta og ákváðum að Noregur væri með öllu ómerkilegur staður. Skítapleis. Með nákvæmlega einn homma tjóðraðann við hvert fjall.
Mér þykir vænt um Norðurlöndin. Í heimi þar sem að fólk keyrir vitlausu megin á götunni eða finnst allt í lagi að leyfa hundunum sínum að skíta á gangstéttir, þá finnst mér gott að vita að eftir þrjú ár, þegar að Ísland sekkur í sæ, þá verður ennþá til fólk sem hlær að óviðeigandi bröndurum og drekkur of mikið um helgar og þekkir sögnina ,,að nenna. Það skemmir svo alls ekki fyrir að hvert land hefur sinn persónuleika: Finnar eru þunglyndir og með extra svartan húmor, Danir reykja hass og lifa af sósíal, og eins og áður hefur komið fram þá eru Norðmenn samkynhneigðir fjallgöngugarpar. Í mínum sjúka huga eru Svíar samt sér á báti, en mig grunar að það sé bara vegna þess að eini Svíinn sem ég þekki er stelpa sem er að læra klassískar enskar bókmenntir, og hún á það til að detta í enskan hreim þegar hún er í glasi og svara strákum sem hafa áhuga á því að sofa hjá henni með því að hrópa hneyksluð ,,I am no lightskirt!
Svona þegar ég spái í því er hún örugglega talsvert til hliðar við toppinn á normalkúrvunni.
Hvort sem að hún er frávik eða ekki breytir hins vegar litlu um það að það fyrsta sem mér dettur í hug þegar fólk minnist á Svíþjóð í einhverju poppkúltúrlegu samhengi er Abba. Nú minnir tónlist Abba mig helst á atriðið úr Hitchhiker’s Guide to the Galaxy þar sem Arthur og Ford eru pyntaðir með upplestri á vondum ljóðum, en það verður ekki frá þeim tekið að lögin þeirra hljóma eins og að þau hafi baðað sig upp úr kettlingum á morgnana og neitað tilvist annarra tilfinninga en ótakmarkaðrar hamingju. Sem er fínt mál, miðað við sölutölurnar þeirra er til talsvert af fólki sem hefur gaman af svoleiðis hlutum. Nei, það sem vakti með mér ugg og óhug var að mynd vikunnar, Let the right one in, heitir upprunalega Låt den rätte komma in, kemur frá Svíþjóð og er vampýrumynd. Ég átti mjög erfitt með að sjá fyrir mér að sama þjóðin og sleppti Abba lausri á heiminn, urrandi hamingju og rósum hvert sem þau komu, gæti gert eitthvað sem nálgaðist sannfærandi hryllingsmynd, hvað þá sannfærandi hryllingsmynd um vampýrur, sem eru einkar vængbrotnar sem trúanleg ógn.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/06-rubik.jpg"> Kåre og Lina á góðri stund.</p>
Við komum aftur að vandamálunum við vampýrur seinna, en frá fyrstu mínútu er ljóst að myndin sem er dregin upp af Skandinavíu í Let the right one in á ekkert sameiginlegt með Abba & co. Í Let the right one in er allt landslag þakið snjó, næturnar eru dimmar og langar, og dagsljósið er dauft og getur ekki meira en undirstrikað að nóttin er skammt undan. Skammdegisþunglyndið er næstum áþreifanlegt og setur tóninn fullkomlega fyrir það sem koma skal. Aðalpersóna myndarinnar er Kåre Hedebrant, sem er tólf ára skilnaðarbarn sem býr í blokk hjá mömmu sinni sem hefur ekki nægan tíma til að sinna honum. Hann er klár strákur en feiminn og er lagður í einelti í skólanum sínum. Hann á enga vini og er einmana og í byrjunaratriðinu þar sem hann stendur hálfnakinn fyrir framan gluggann sinn og fer með línur sem eiga heima í Deliverance fær maður ærna ástæðu til að efast um geðheilsu hans. Eftir að hann klárar að fara með línurnar sínar sjáum við leigubíl renna í hlað og út úr honum koma tólf ára stelpan Lina Leandersson og miðaldra maður, sem flytja dótið sitt inn í íbúðina við hliðina á Kåre og byrja strax að hylja alla gluggana í íbúðinni með plaggötum.
Ef eitthvað þá er Lina ennþá hlédrægari en Kåre. Henni bregður aldrei fyrir nema á nóttunni, hún leikur sér aldrei heldur hengur í mesta lagi í kringum rólurnar í garðinum, og þrátt fyrir að það sé miður vetur og snjór úti þá gengur hún yfirleitt í kjól. Hægt og rólega verða Kåre og Lina vinir, en á meðan kemur bæði í ljós að hún er vampýra og að maðurinn sem að hún býr með er einhvers konar þjónn hennar sem sér um að myrða fólk og útvega henni blóð. Allt þetta gerist á fyrsta korteri myndarinnar, og ætti meira að segja að vera ljóst hverjum þeim sem sá trailerinn, svo að ég hef ekki spillt neinu með því að segja frá þessum fáu atriðum. Let the right one in er þannig mynd að ég vil ekki fara meira út í söguþráðinn. Málið er ekki að það séu einhverjar brjálaðar fléttur í gangi, eða punktar sem má alls ekki segja frá, heldur er sagan fanta vel upp sett og þrátt fyrir að manni finnist aldrei neitt gerast á sérhverju einstöku augnabliki þá standa persónurnar gjörbreyttar eftir í lokin.
Á köflum sést að Let the right one in er gerð eftir samnefndri 500 síðna skáldsögu John Ajvide Lindqvist, því fyrir utan að taka sinn tíma í að sýna okkur allt sem skiptir máli þá eru nokkrir þræðir sem virka endaslepptir í myndinni. Sænska vinkonan mín úr inngangnum var látin lesa Let the right one in í skólanum í gamla daga (Mér finnst ég svikinn. Ég meina, Englar alheimsins er alveg góð, en kommon.) og útskýrði meðal annars fyrir mér að sambandið á milli Linu og ,,þjónsins`` hennar sé bæði ítarlegra og langtum sjúklegra í bókinni, og að í henni sé útskýrt mjög undarlegt skot sem sést í eina sekúndu og er svo aldrei minnst á aftur. Ef þið horfið á myndina þá munið þið fatta hvaða skot ég á við án þess að ég segi meira; óútskýrt er það svo út úr kú að það er hálf ótrúlegt að það hafi verið látið fylgja með.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/06-notscary.jpg"> Þetta er ekki ógnvekjandi.</p>
Eins og ég minntist á áðan þá gerir það kvikmyndum engan greiða í mínum bókum að fjalla um vampýrur. Ástæðan fyrir því liggur í hvernig ímynd þeirra hefur þróast og hvernig þær hafa verið kynntar gegnum árin. Á meðan að Bram Stoker var ekki fyrsti maðurinn til að skrifa um vampýrur, þá er Dracula frá 1897 ennþá áhrifamesta sagan sem hefur verið skrifuð um þær og í henni má finna öll helstu einkenni vampýra sem hafa að lifað af til dagsins í dag. Vampýran hans Stokers er sjarmerandi yfirstéttarmaður sem á auðvelt með að fá fólk til að gera það sem hann vill, en heldur engu að síður ákveðinni fjarlægð á milli sín og venjulegs fólks, eins og að hann líti einungis á það sem verkfæri eða dýr. Aðeins huldari, en engu að síður mjög greinilegir, eru alls kyns kynferðislegir undirtónar í kringum hann; Drakúla er ekki aðeins kynþokkafullur og seiðandi heldur stendur hann beinlínis fyrir kynlífið sjálft.
Eins og með öll önnur skáldsagnafyrirbæri eru nákvæm einkenni vampýra nokkuð á reiki, en flestar eiga þær sameiginlegt að vera dánar, þurfa að drekka blóð manna til að lifa af, geta smitað aðra af vampýrismanum með bitum sínum, og halda til á nóttinni af því að dagsljósið er þeim skaðlegt. Sem gangandi myndlíking banvænna sjúkdóma er þetta nokkuð öflugur kokteill. Ef maður bætir við kynþokkanum að ofan, og gengur svo skrefinu lengra og kynnir bitin þeirra sem holdgervingu viðhorfs 19. aldarinnar til kynlífs, þar sem saklausum fórnarlömbum er spillt af óhreinum skrýmslum, þá er farið að glitta í eitthvað sem hefur mikla möguleika til að hræða okkur. Vandamálið við vampýrur er hins vegar að fólk klúðrar alltaf að bæta einhverju leynikryddi í pottinn. Á sínum tíma var aðalsmaðurinn hans Stoker örugglega ógnvekjandi tákn kúgunar yfirstéttanna, en hundrað árum seinna höfum við enga tilfinningu fyrir því samfélagi sem Stoker ólst upp í og þetta korn sem fyllti mælinn í gamla daga dugir ekki lengur til.
Auðvitað eru rithöfundar og kvikmyndagerðamenn löngu búnir að átta sig á þessum vankanti, en hingað til hefur ekki gengið mjög vel að finna lausn á honum. Augljósa lausnin er að uppfæra yfirstéttarmanninn hans Stokers á daginn í dag, en útkoman er svo hallærisleg að hún gengi aldrei upp. Þó að það megi segja ýmislegt vont um bankapeyja og útrásarvíkinga, þá yrði ekki nokkur maður hræddur við þá í myrku húsasundi. Annað sem menn hafa reynt er að sleppa því einfaldlega að finna eitthvað í staðinn fyrir yfirstéttina og leyfa vampýrunum bara að rúlla eins og þær eru. Þetta hefur reynst stórkostlega vond hugmynd, af því að um leið og vampýrurnar hafa enga mannlega eiginleika fyrir utan að vera nokk sama um alla í kringum sig, þá missa þær alla möguleika til að hræða fólk öðruvísi en með því að hoppa á það úr illa lýstum skúmaskotum. Því miður virðist þessi hugmynd hafa orðið ofan á, af því að í dag er ekki hægt að hugsa um vampýrur öðruvísi en að fá nettan kjánahroll, og þegar að þær ber á góma leiðir hugann ósjálfrátt í áttina að tilgerðarlegu hvítu evrórusli sem klæðist svörtum kjólfötum og talar með vondum hreim.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/06-scary.jpg"> Þetta er ógnvekjandi.</p>
Til allrar hamingju virðist Let the right one in hafa dottið niður á betri leið til að koma vampýrunum niður á mannlegt plan, og gera þær um leið að skrýmslum sem ber að óttast. Á meðan að Lina þarf nauðsynlega að drekka blóð annars fólks eins og allar fyrirmyndar vampýrur og að hún hugsar ekkert sérstaklega um hverjum hún nærist á, frekar en að við hugsum um hvaðan sunnudagssteikin kemur, þá er hún ekki haldin neinum kvalarlosta. Það sem lætur hana samt ganga algjörlega upp og færir hana niður á okkar plan er hversu hrottalega einmana hún er. Vegna þess að morðin hennar vekja óhjákvæmilega athygli getur hún ekki haldið kyrru fyrir lengi í hverri borg, og hún getur ekki myndað tengsl við nýtt fólk af því að ef það fattaði hvað hún er myndi það gera allt í sínu valdi til að drepa hana eins fljótt og hægt er. Engu að síður kemur hún út á næturnar til að tala við Kåre af því að hún er svo ótrúlega einmana. Þetta er einföld hugmynd, en gríðarlega vel framkvæmd, og hún gerir það að verkum að bæði Lina og voðaverkin hennar verða því miklu hræðilegri fyrir vikið.
Fyrir utan Linu hef ég ekki talað það mikið um það sem Let the right one in gerir vel, af því að í sannleika sagt er talsverð hætta á því að ef ég byrja á því yfir höfuð þá missi ég mig í samhengislausri froðufellingu af lofi og hrósi og litlum sætum merkingarleysum. Næstum allt í henni er vel gert, hvort sem það eru smáatriði eins og að allir í myndinni vita hvað vampýrur eru ólíkt því sem gengur og gerist í zombímyndum, eða hvernig samband þeirra Kåre og Linu þróast og minnir mann á hvernig það var að verða skotinn í einhverjum í fyrsta skipti og hafa ekki hugmynd um hvað gerðist næst, eða að öll viðbrögð Kåre við eineltinu eru grátlega sönn og bersýnilega skrifuð af einhverjum sem var laminn daglega í langan tíma. Þetta er allt stórkostlega gert, og reyndar svo vel að á löngum köflum gleymdi ég að ein persónan átti að vera ódauð vampýra.
Let the right one in er ekki gallalaus og reynir helst að troða of miklu efni í of stutta mynd, en henni tekst oftar ætlunarverk sitt en ekki og þau atriði sem ganga upp gera miklu meira en að bæta fyrir gallana. Þetta er átakanlega hreinskilin mynd um tíma sem er ekki auðveldur fyrir neinn; hún er um að detta undir radar fullorðna fólksins í kringum mann, hún er um að vera útundan og einmana, hún er um að verða fyrir ofbeldi, og hún er um að verða ástfanginn í fyrsta skipti. Let the right one in minnir okkur á tíma þegar að lífið var flókið og hræðilegt og ofbeldisfullt og fallegt allt í senn, þó að það sé tími sem að við værum frekar til í að gleyma. Og já, ein persónan í henni er vampýra.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p> Jack Bauer vinnur störukeppni við spegilmyndina sína í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Mirrors_(film)">_Mirrors_</a>.
<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=O92QxxgeCO8&hl=fr&fs=1]</p>