<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/02/07-poster.jpg"></p>
Ókei krakkar. Ég verð að játa svolítið. Þetta verður játning í spurningarformi. Er einhver hérna eins og ég í því að þeir eru ósjálfbjarga gagnvart, haldnir þráhyggju fyrir, og keyrðir áfram af vilja sem er ekki þeirra eigin til að horfa á 24 í hverri einustu viku? Er það? Í alvöru? Guði sé lof, ég hélt að ég væri einn! Ég er sjúklega mikill 24 aðdáandi. Mér er alveg sama um hversu mikill tími í hverri viku fer í að þylja upp lykilpunktana í söguþræðinum aftur og aftur, eða að það sé mannlega ómögulegt að koma atburðarrásinni fyrir á einum degi, eða að þættirnir prediki pólitísk sjónarmið sem eru hænuskref til vinstri við Þriðja ríkið. Ég elska hverja einustu mínútu af þessum gjörsamlega absúrd þáttum.
Dálæti mitt á 24 bliknar samt í samanburði við hversu mikið ég dýrka jörðina sem aðalpersónan Jack Bauer gengur á. Í fyrsta sæti yfir uppáhaldshlutina mína í öllum heiminum eru uppvakningar, en Jack Bauer er í mjög nálægu öðru sæti. Skjaldbökur eru svo í þriðja. Yfir síðustu sex seríur af sí ólíklegri atburðum hefur Jack Bauer bjargað deginum aftur og aftur, fengið alls konar fólk til að gera það sem hann vill með því einu að stara á það, skotið fleiri hundruð hryðjuverkamenn, og pyntað heilu tugina af persónum sem þéruðu hann ekki. Nú eru pyntingar alveg hræðilegur hlutur, og inni í hausnum á mér er lítil rödd sem segir að ég ætti að hafa óbeit á viðhorfi 24 til þeirra, en í hverri viku bind ég og kefla þessa litlu rödd og hendi henni inn í kústaskáp og hvet Jack Bauer áfram í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Eru móðir og ungabarn fyrir Jack? Ha! Þau verða það ekki þegar að hann verður búinn að brjóta nokkra putta á þeim.
Fyrir þá sem hafa áhuga þá á ég fleiri hundruð blaðsíður af hómóerótískum aðdáendaskáldskap um 24 ofan í skúffu. Í honum er gangandi þema að ég og Jack Bauer erum bestu vinir og höngum geðveikt oft saman og drekkum bjór og spjöllum um strákalega hluti og stoppum svo hryðjuverk. Yfirleitt þarf að reikna eitthvað eða leysa diffurjöfnu til að koma í veg fyrir voðaverkin, svo ég sé um það, og hann fer svo og bjargar deginum og ég hjálpa til. Saman myndum við eina skítsæmilega Lassí: Ég gelti óskiljanlegum stærðfræðihugtökum sem ég útskýri svo með einföldum myndlíkingum og Jack, þú veist, bjargar fólki.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/07-spegill.jpg"> Rrrrrrrr…</p>
Eins og allir vita þá er Jack Bauer til í alvörunni og lifir tvöföldu lífi í gegnum Clark Kent-lega dulargervið sitt Kiefer Sutherland. Sem dulargervi er Kiefer einstaklega vel heppnaður, því að hann hefur verið frægur kvikmyndaleikari frá því löngu áður en 24 byrjaði og hefur meðal annars sýnt skemmtilega takta í myndum eins og Young Guns og Dark City. Kiefer er þekkt partíljón og vinnualki og ef hann skortir eitthvað þá eru það ekki peningar, svo að þegar hann tekur sér pásu frá þeim tíu mánuðum á ári sem fara í 24 til að leika í einhverju öðru, þá býst maður einhvern veginn við því að hann velji skemmtilegt hlutverk í áhugaverðri mynd frekar en eitthvað út í bláinn. Ég var því nokkuð spenntur fyrir Mirrors, af því að Kiefer Sutherland leikur ekki aðeins aðalhlutverkið í henni, heldur sýnir trailerinn af Mirrors Jack Bauer brjótast fram og stara og öskra á spegla, væntanlega þar til að þeir gera það sem hann vill. Þetta yrði sennilega engin kvikmyndaperla, en ég hef alltof mikinn frítíma og er til í að horfa á Jack Bauer pynta spegla hvaða dag vikunnar sem er.
Eins og margar af myndunum sem við höfum rætt um þá reynir Mirrors að draga áhorfendurna inn með því að sýna stutt voðaverk í byrjun: áður en takklistinn rúllar sjáum við mann hlaupa gegnum yfirgefna ranghala og enda inni í búningsherbergi með stórum spegli á einum veggnum. Eftir að hann reynir að biðja spegilinn afsökunar á því að hafa reynt að flýja brotnar stykki af speglinum, og maðurinn horfir skelkaður á meðan að spegilmyndin hans tekur stykkið upp, sker sig á háls með því, og um leið opnast skurður á sama stað á hálsinum á manninum sem dettur svo niður dauður. Mirrors byrjar svo fyrir alvöru á því að við kynnumst Kiefer Sutherland, en hann er lögga sem var vikið úr starfi fyrir að skjóta óvart annan lögregluþjón. Þetta slys ásækir Kiefer, sem byrjaði að drekka stíft eftir það og hrakti konuna sína frá sér, þar til að hann reyndi að snúa við blaðinu. Í upphafi myndarinnar býr hann hjá systur sinni, tekur sterk lyf við áfengissýki, reynir að bjarga hjónabandinu sínu, og er að byrja í nýju starfi sem næturvörður í byggingunni úr upphafsatriðinu.
Fljótlega kemur í ljós að speglarnir í byggingunni eru ekki allir þar sem þeir eru séðir. Kiefer fer að sjá hluti í þeim sem eru ekki þarna í raunveruleikanum: í fyrstu eru það smáhlutir eins og hurðir sem eru opnar í speglinum en lokaðar í alvörunni, en sýnirnar fara stigvaxandi þar til að þær byrja að hafa raunveruleg áhrif á Kiefer eins og þegar hann heldur að það sé kviknað í sér eða sér fórnarlömb bruna sem átti sér stað fyrir nokkrum árum. Þar að auki eru sýnirnar ekki lengur takmarkaðar við speglana í byggingunni, heldur geta þær tekið sér bólfestu í öllum öðrum speglum, og að lokum í hvaða yfirborði sem speglar af, og í staðinn fyrir afmarkaðar sýnir byrja spegilmyndir fólks að hegða sér sjálfstætt eins og í upphafsatriðinu. Speglarnir eru þó ekki að þessu upp á flippið, heldur vilja þeir að Kiefer finni eitthvað eða einhvern sem heitir Esseker, og til að hvetja hann til að spila með byrja speglarnir að hrella systur hans og eiginkonuna og börnin.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/07-konan.jpg"> Hún er örugglega bara með honum fyrir peningana og skilur hann ekki eins og við.</p>
Þrátt fyrir að Mirrors rembist við að hræða mann eins og rjúpa við staurinn þá tekst henni ætlunarverk sitt voðalega sjaldan. Vandamálið er að það er ekkert haldbært í myndinni til að vera hræddur við. Hver fjandinn er í gangi með speglana er ekki útskýrt fyrr en að það er hálftími eftir af myndinni, en þangað til eru þeir algerlega persónuleika- og andlitslaus ógn sem virðist geta hvað sem hún vill, og á meðan er Mirrors lítið annað en kvikmyndaútgáfan af því að horfa á rottu hlaupa gegnum völundarhús sem hún skilur ekkert í. Eitt og sér er að horfa á það alveg skemmtilegra en að horfa út í loftið, en það er ekki sérstaklega ógnvekjandi. Í staðinn fyrir að byggja upp persónur sem að manni þykir vænt um og koma þeim í hræðilegar aðstæður fer Mirrors frekar þá leið að reyna að sjokkera okkur, en fyrir utan innblásið atriði þar sem systir Kiefer Sutherlands fer í bað þá fara tilraunir hennar til þess fyrir ofan garð og neðan.
Helsta rót þess að Mirrors mistekst svona leiðinlega er að hún er mjög innblásin af austurlenskum hryllingsmyndum síðustu ára eins og The Ring og Dark Waters. Persónulega er ég ekki hrifinn af slíkum myndum af því að þær snúast yfirleitt um anda í hvítum fötum með dökkt úfið hár sem eiga óuppgerðar sakir við eitthvað í daglega lífinu. Ég hef bæði ákveðnar efasemdir um allan hrylling sem stafar af ótrúlega máttugum yfirnáttúrulegum verum, af því að það er engin fjandans leið að berjast við þær svo að maður á aldrei nokkurn séns á að lifa af, og einnig finnast mér allar gjörðir yfirnáttúrulegu veranna vera kjánalega yfirdrifnar og tilgangslausar. Ef að maður getur skriðið út úr sjónvörpum og hrætt líftóruna úr fólki, þá getur maður líka útskýrt fyrir því á kurteisilegan hátt nákvæmlega hvað það er sem maður vill. Kurteisi kostar ekki neitt, og ef að fólk vill ekki gera það sem maður vill þá getur maður alltaf haldið fjölskyldunni þeirra í gíslingu þar til að það gefur sig.
Engu að síður skal ég vera fyrstur til að viðurkenna að þegar að asískar hryllingsmyndir ganga upp, þá eru þær virkilega góðar. The Ring er til dæmis mynd sem að ég er ennþá skíthræddur við í dag, þrátt fyrir að það séu fimm eða sex ár frá því að ég fór á hana í bíó og þorði ekki að horfa á sjónvarp í viku eftirá. Mirrors klikkar á því að hún reynir að nota helstu atriði austurlenskra hryllingsmynda - flöktandi ljós, bregðuatriði, illa anda - en hún er gerð af Bandaríkjamönnum en ekki Asíubúum og veit þess vegna ekki alveg hvernig púslin passa saman, rétt eins og Asíubúarnir ættu erfitt með að setja saman búningadrama sem gerist á Viktoríutímanum. Þetta er ekki spurning um hæfileika, heldur er þetta spurning um að þekkja viðfangsefnið, og Mirrors virkar ekki af nákvæmlega sömu ástæðum og mér finnast sögulegar skáldsögur aldrei ganga upp: fólkið á bakvið þær er örugglega fært í sínu starfi, en það hefur aldrei andað að sér loftinu á tímabilinu sem það skrifar um, heldur hefur það bara heyrt sögur af því og lesið um það í bókum, svo að lokaútkoman er ljósrit af reynslu einhvers annars.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/07-gunshot.jpg"> ,,Do you feel lucky, punk?``</p>
Eins svekkjandi og misheppnaða stílæfing Mirrors er, þá er enn meira frústerandi að það er miklu betri bíómynd falin á milli þilja í henni. Eins og ég sagði áðan þá er Kiefer Sutherland lögga sem á við áfengisvandamál að stríða, tekur sterk lyf, berst við að halda fjölskyldunni sinni saman og er þar að auki þjakaður af minningunni um að hafa skotið aðra löggu. Ef að maður sleppir upphafsatriðinu þar sem að speglarnir drepa næturvörðurinn á undan Kiefer úr myndinni, og hendir svo öllum atriðum þar sem að speglarnir angra einhvern annan en Kiefer, þá er maður kominn langt upp í frábæra mynd um mann sem kiknar undir alltof miklu álagi og missir vitið hægt og rólega. Reyndar er ég alveg sannfærður um að það sé handritið sem að Kiefer Sutherland hafi samþykkt að leika í, og svo þegar að hann var búinn að skrifa undir hafi höfundarnir bætt nokkrum atriðum við og breytt endinum aðeins. Þetta er leiðindamál, því að Mirrors hefði geta orðið The Shining þessa áratugar en er í staðinn auðgleymanleg miðjumoðsmynd.
Að öllum glötuðum tækifærum til mikilfenglega slepptum, og þrátt fyrir að Mirrors muni seint teljast góð mynd á hvaða mælikvarða sem er, þá situr eftir að mér leiddist ekkert sérstaklega í gegnum bregðuatriðin og spéspeglana. Eina ástæðan fyrir því er samt að áður en Kiefer Sutherland barðist við andsetna nunnu í lokin (hóst symbólismi) fékk ég að horfa á hann skjóta spegla úti á götu og mæta heim til konunnar sinnar og mála öll skínandi yfirborð í húsinu án leyfis eða útskýringar. Ef að þú ert ekki jafn mikill aðdáandi Kiefers og ég þá á þér örugglega eftir að hundleiðast gegnum Mirrors, en fyrir mitt leyti eru allar bíómyndir með Kiefer Sutherland eins og kynlíf: jafnvel þegar þær eru slæmar, þá hugsar maður alla vega um hann á meðan.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
Grænt, grænt, grænt er grasið úti í haga, og það eru manndrápsvinjarnar í The Ruins líka.
<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=ZKcCXyi7Pjs&hl=fr&fs=1]</p>