<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/08-poster.jpg"></p>
Eftir að ég flutti til Frakklands og komst þannig á meginland Evrópu með öllum þeim flugvöllum og lestarstöðvum sem því fylgja varð ég mjög spenntur fyrir því að ferðast eins víða og hægt var. Ég komst líka fljótlega að því að þegar maður er nemi og lifir af námslánum þá býr maður við viss takmörk þegar kemur að því að eyða peningunum sínum, alla vega ef mann langar að eiga fyrir leigu og geta keypt í matinn, svo að ferðalögin urðu hvorki jafn tíð né yfirdrifin og stóð til í upphafi. Smátt og smátt lærði ég samt að þó að maður hafi enga rosalega fjármuni á milli handanna er engu að síður hægt að komast merkilega langt á litlum pening. Af einhverjum ástæðum er ódýrara að bóka flug með lággjaldaflugfélögum um miðja nótt, fólk undir 25 ára aldri getur fengið allt að helmings afslátt í franska lestarkerfið, og ef að maður þekkir einhvern sem býr þar sem maður ætlar, eða finnst ekkert að því að gista hjá ókunnugu fólki sem að maður hitti á netinu, þá sparar maður helling í hostelkostnað.
Nokkrir krakkar sem ég bjó með í fyrra tóku þessar pælingar skrefinu lengra þegar þau ákváðu að þeim væri slétt sama um hvar þau enduðu. Um helgar pökkuðu þau niður tjaldi, svefnpokum, mat, auka fötum, tússpenna, pappaspjöldum og piparúða og stóðu svo á hraðbrautinni út úr bænum með spjald með hugmynd að áfangastað krotaða á og biðu eftir að einhver pikkaði þau upp. Í eðli sínu er alltaf viss hætta fólgin í ferðalögum, af því að maður fer á ókunnuga staði þar sem maður þekkir kannski ekki siðina og talar ekki tungumálið, en manni finnst samt einhvernveginn að það sé óþarfa hætta í að húkka far hjá fólki sem maður þekkir ekki neitt. Þessir krakkar voru samt búin að átta sig á þessu og voru með mjög ítarleg plön um hvernig þau höguðu sér - bara það að fara upp í bíl var þaulskipulagt; fyrst fór Stef, svo Cat og síðastur William, svo að það væri hvorki hægt að keyra í burtu með stelpuna, né báða strákana þannig að einhver annar gæti náð í stelpuna. Það sem þið getið lært af þessu er að ef ykkur býðst að þiggja far af fólki sem heitir Cat, Stef og William í framtíðinni skulið þið bara gera það: annað hvort komist þið á leiðarenda, eða þau eru löngu búin að hugsa fyrir öllum undankomuleiðum og þið eigið ykkur enga von.
Í haust, þegar að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum voru í fullum gangi, tilkynnti einhver fréttastofan að varaforsetaefni Repúblikana, <del>Tina Fey</del> Sara Palin, ætti ekki vegabréf. Sem smáeyjabúa í miðju Atlantshafi fundust mér þetta í fyrstu sjokkerandi fréttir, en eftir því sem ég lærði meira urðu þær skiljanlegri. Til dæmis á minnihluti Bandaríkjamanna vegabréf - í fljótu bragði sögðu google-leitirnar mínar að hlutfallið væri 20% - svo að frú Palin var alls engin undantekning, og þeir hafa líka góðar ástæður til: bæði eru Bandaríkin stærri og fjölbreyttari staður en maður heldur, svo að það er vel hægt að eyða ævinni í að heimsækja þau, þar er lítil hætta á menningar- og tungumálamisskilningi ólíkt því sem gerist í Evrópu, og ef maður þarf að minnsta kosti að eyða fimm tímum í flugvél til að komast til London eða Köben, þá hugsar maður sig tvisvar um og kíkir svo til Jómfrúareyja í Karabíska hafinu í staðinn. Ef mann langar virkilega til útlanda kíkir maður bara til Mexíkó, þar sem sólin er skær, sjórinn hlýr, og lítil hætta á að deyja á sársauka- og hrottafullan hátt. Nema auðvitað að maður hlaupi inn í miðjan frumskóg án þess að láta nokkurn vita eða pakka meiru en tekílaflösku. Sem færir okkur snyrtilega að The Ruins.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/08-injungle.jpg"> In the jungle, the mighty jungle, the lion sleeps tonight.</p>
The Ruins fjallar um fjóra bandaríska háskólanema - þær Amy og Stacy, sem eru bestu vinkonur, og kærastana þeirra Jeff og Eric - sem eru í fríi á lúxushóteli við strönd í Mexíkó. Þau hafa eytt tímanum þar í að liggja við sundlaugina á hótelinu, drekka, liggja á ströndinni við hótelið, drekka, liggja uppi í rúmi, og drekka, eins og maður gerir þegar maður er í fríi á stað þar sem er ekkert annað að gera en að drekka. Læknaneminn Jeff er samt orðinn þreyttur á að hafa ekki séð neitt annað en botninn á glasinu sínu, svo þegar að krakkarnir kynnast Þjóðverjanum Mathias sem er á leiðinni inn í frumskóg til að leita að bróður sínum, sem fór þangað með vinkonu sinni sem vissi um gamlar rústir sem voru ekki á neinu korti og lausar við alla túrista, stekkur Jeff á tækifærið til að fara með honum og sannfærir hina krakkana um að koma með líka. Hugmyndin er að kíkja í litla dagsferð og upplifa smá menningu síðasta daginn í Mexíkó áður en þau fara aftur heim.
Þau fimm, ásamt Grikkja sem slæst í lið með þeim, leggja af stað daginn eftir og finna á endanum jeppa bróðurs Mathiasar við slóða sem liggur inn í skóginn. Þau elta slóðann í nokkra klukkutíma, rekast á þögul indiánabörn, brjótast gegnum lauf og greinar sem líta út fyrir að hafa verið stillt upp til að fela leiðina áfram, og komast á endanum að gömlum Maya-pýramída sem er þakinn vinjum með rauðum blómum og falinn í rjóðri í miðjum skóginum. Stuttu seinna mæta indiánar vopnaðir bogum og örvum og byssum sem virðast ekki vera alls kostar sáttir við að krakkarnir séu að þvælast í kringum pýramídann. Í fyrstu reyna hóparnir að tala saman, sem er erfitt af því að þeir tala ekki sama tungumálið, en indiánarnir æsast allir til muna eftir að Amy tekur mynd af þeim og stígur í vinjarnar. Indiánarnir skjóta Grikkjann, neyða hina krakkana til að klifra upp á pýramídann, og umkringja þau svo eftir að liðsauki berst. Þó að þeir virðist ekki hafa áhuga á að fara upp til krakkana, þá eru þeir staðráðnir í að leyfa þeim ekki að fara.
Þetta er slæmt ástand, þar sem að indiánarnir tóku af þeim eina símann sem náði sambandi í skóginum, en krakkarnir sannfæra sig um að allt geti reddast. Þau ætluðu að fara heim daginn eftir, og þegar að þau tékka sig hvorki út né mæta í flugið þá hlýtur einhver að hringja í lögregluna og láta leita að þeim. Þar að auki lét Mathias vini Grikkjans hafa afrit af kortinu þeirra, svo að þeir vita hvert krakkarnir ætluðu. Þau þurfa bara að bíða í tvo, kannski þrjá daga í mesta lagi, að vísu án matar og vatns, og þá verður þeim bjargað. Ástandið flækist samt þegar að Þjóðverjinn finnur líkið af bróður sínum innvafið í vinjarnar sem eru út um allan pýdamídann, og þegar að þau heyra síma hringja neðan úr brunni á toppnum ákveða þau að sitja ekki auðum höndum, heldur síga niður, finna símann og hringja á hjálp.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/08-spiderbat.jpg"> Þessi maður minnir mig bæði á Tobey Maguire (Spiderman) og Christian Bale (Batman), svo mikið að ég beið alla myndina eftir því að hann byrjaði að spaðadansa og öskra á fólk að drulla sér úr sjónlínunni sinni.</p>
Ég hafði mjög gaman af atburðarrásinni sem leiðir krakkana út í þessar aðstæður, af því að það er algerlega þeim að kenna hvernig er komið fyrir þeim - eða réttara sagt er það útkoman af runu miður góðra ákvarðana sem þau tóku sjálf. Í grunninn er uppsetningin að The Ruins ekkert svo ólík þeirri í House eða Mirrors, í því að hún fjallar um venjulegt fólk sem lendir í hræðilegum atburðum á afmörkuðum stað, nema í þeim tveim seinni gerðu aðalpersónurnar ekkert annað en að fara á hótel eða mæta í vinnuna, þar sem að hlutir fóru allt í einu að hoppa út úr veggjunum og krefjast skattskýrslanna þeirra. Krakkarnir í The Ruins röltu út í miðjan frumskóg í sandölum og stuttermabolum með engar vistir og án þess að láta neinn sem þekkti þau vita, hundsuðu viðvaranir leigubílstjóra um svæðið sem þau ætluðu á, og þurftu síðan að rífa sér leið gegnum slóða sem var búið að reyna að fela til þess að komast að pýramídanum. Allt þetta ilmar af barnalegri bjartsýni borgarbarna sem hafa aldrei farið í gönguskó og átta sig ekki á því að úti í miðjum skógi er ekki sama öryggisnet til staðar og í siðmenningunni. Jafnvel þegar að staðan er sem verst uppi á pýdamídanum reynir Jeff að hughreysta vini sína með orðunum ,,Svona lagað gerist ekki. Fjórir Bandaríkjamenn á ferðalagi hverfa bara ekki,`` og það er klárt að hann trúir því sjálfur, þrátt fyrir að það sé allt annað en augljóst að hjálpin sé á leiðinni.
Ég held að ég spilli ekki neinu með því að segja að The Ruins er hreinræktuð skrýmslamynd, sú fyrsta sem að við sjáum síðan að <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/01/29/2-splinter/">_Splinter_</a> var og hét. Eins og í Splinter er skrýmslið sjálft frekar kjánalegt, reyndar svo mjög að ef að maður hoppar inn í seinni helminginn á myndinni er ekki annað hægt en að furða sig á hvernig í ósköpunum einhver hélt að þetta yrði ógnvekjandi. Engu að síður fannst mér skrýmslið ganga upp - sem eru í sjálfu sér vafasöm meðmæli því að ég er tilbúinn að sætta mig við ýmislegt í þessum efnum, mér hefur til dæmis aldrei fundist neitt að ógnvætti vikunnar í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Fringe_(TV_Series)">_Fringe_</a> - en fyrir utan að hugmyndin að skrýmslinu er alla vega frumleg þá er stærsta ástæðan fyrir ástfóstri mínu á því að The Ruins tekur sér góðan tíma í að kynna það fyrir okkur. Allan fyrri hluta myndarinnar er ekki einu sinni ljóst að það sé eitthvað annað í kringum pýramídann en indiánarnir sem leyfa krökkunum ekki að fara, hvað þá að það búi eitthvað hræðilegt í myrkrinu.
Bæði kjánalega skrýmslahugmyndin og þolinmæðin sem The Ruins sýnir í að kynna skrýmslið og útlista smávægileg vandamál persónanna minna talsvert á hvernig Stephen King byggir sögurnar sínar upp. Það sem er kannski mikilvægara er að The Ruins fylgir honum líka í því að byggja hryllinginn sinn á persónunum og hvernig þær upplifa dvölina á pýramídanum heldur en á lítrum ofan á lítra af gerviblóði. Ekki að gerviblóði sé ekki úthellt í The Ruins en, ef það má nota það orð um blóðsúthellingar í hryllingsmynd, þá er það gert á smekklegan hátt og tilgangurinn er alltaf að auka á spennuna frekar en að vera undirstaða hennar. Munurinn á þessu tvennu hljómar eins og smáatriði sem skiptir ekki máli, en er í raun og veru eitt af atriðunum sem veldur því að myndir skilja eitthvað eftir sig þegar þær klárast.
<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/08-blood.jpg"> Blóði er ekki úthellt á þennan hátt í The Ruins.</p>
Kannski má útskýra eitthvað af þolinmæðinni og andrúmsloftinu með því að The Ruins er byggð á samnefndri skáldsögu, en í þeim er yfirleitt meira pláss til að þróa slíka hluti, og þar sem að höfundur skáldsögunnar skrifaði sjálfur handritið að The Ruins hlýtur hann að hafa vitað hverju ætti að halda inni og hvað mætti missa sig. Eftir að hafa lesið Book vs. film spjallið á AV Club um The Ruins skilst mér þó að myndin sé hálfdrættingur bókarinnar og eiginlega ömurleg þegar út í það er farið. Nú hef ég ekki lesið bókina, og það er alveg klárt að þetta er engin tímamótamynd og verður aldrei annað en auðmeltanleg poppkornsskemmtun, en mér finnst þessi dómur samt of harður.
The Ruins er vissulega kjánaleg á köflum og gengur ekki alltaf upp - sér í lagi er mér gjörsamlega óskiljanlegt af hverju hún byrjar á tilgangslausu bregðuatriði þegar að afgangurinn af myndinni er alls ekki í þeim stíl - en hún skemmti mér oftar en ekki og tókst að stilla upp bæði óvæntum og spennandi augnablikum. Stundum langar mann bara að sjá góða og vel upp setta hryllingsmynd sem reynir ekki að vera neitt annað, og ásamt Splinter er þetta eina myndin hingað til sem ég mæli hiklaust með í því tilviki. Mann langar kannski ekki að kynna The Ruins fyrir foreldrum sínum og eignast með henni sjö börn og hund, en maður myndi heldur ekki skammast sín fyrir að vakna við hliðina á henni daginn eftir.
- <p align="center"><strong>
Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>
Repo! The Genetic Opera, hryllingssöngleikurinn sem skartar meðal annars Paris Hilton í einu hlutverkanna, leitast við að svara spurningunni ,,Hversu slæmt getur þetta orðið?``
<p align="center">
</p>