<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/09-poster.jpg"></p>

Ein af skemmtilegri minningunum sem ég á af frændfólki mínu, alla vega hingað til, er þegar að ég og kona frænda míns drukkum eina og hálfa rommflösku saman eitt kvöldið meðan að allir aðrir voru úti. Skiljanlega man ég ekki allt sem við töluðum um á meðan, en upp úr stendur að henni tókst að fá mig til að samþykkja að George W. Bush væri ekki skrýmsli sem étur börn á nóttunni heldur maður að reyna að gera það besta úr erfiðri stöðu, og að hún var svo sjokkeruð á því að heyra að ég væri trúleysingi að hún dró mig út á pall, benti á stjörnurnar og spurði hvort ég héldi í alvöru að eitthvað svona fallegt gæti orðið til fyrir tilviljun. Kona frænda míns er frá Suðurríkjum Bandaríkjanna og harður repúblíkani, eins og hann sjálfur reyndar, sem fer langt með að útskýra skoðanamun okkar á vissum sviðum. Mér þykir samt mjög vænt um þau bæði og tók alveg vel í stjörnuskoðunina, að hluta til af því að mér fannst hún svo lúmskt fyndin; núverandi heimsmynd mín kviknaði gegnum að horfa á stjörnurnar, svo ég á erfitt með að ímynda mér verri leið til að koma mér í samband við almættið.

Þetta trúboð hennar mistókst, en ýmis önnur hafa heppnast ágætlega. Til dæmis er það þessari konu að þakka að ég hef mjög gaman af bókunum hans David Sedaris, að mér finnast hash browns fínn matur, og að mér finnst Bruce Springsteen æðislegur. Sem hann og er. Eins og allir hlutir sem eru þess virði að taka eftir er hann þó ekki fyrir alla, og margir vinir mínir hafa sérstaklega koksað á hversu bandarískur Springsteen er. Þeir hafa auðvitað talsvert til síns máls - að segja annað væri eins og að segja að vatn væri ekki blautt - en ef maður lætur það ekki trufla sig og byrjar að hlusta á tónlistina sér maður að þarna er eitthvað stórkostlegt í gangi. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér Stjórann gætu gert margt verra en að tékka á Darkness on the edge of town, sem er stútfull af öllu því sem gerði hann frægan, það er hráu kántríslegnu rokki með einstaka píanói og saxafón inn á milli og textum um fólk sem hefur átt betri daga. Auðvitað kemst Darkness ekki með tærnar þar sem The River hefur hælana, en þar sem sú seinni er talsvert lengri og þyngri er hún ekki jafn góður kostur fyrir byrjendur.

Ég minnist á Springsteen og The River af því að áður en ég horfði á Repo! The Genetic Opera þá hélt ég að við tvö gætum átt svipaðan tíma saman og persónurnar í hinu öskrandi frábæra titillagi The River, sem segir frá saklausu ástarsambandi tveggja unglinga sem að breytist í kæfandi hjónaband þegar að þau eignast óvart barn og hvernig líf þeirra eyðileggst smám saman. Ég hafði nefninlega heyrt ýmislegt um Repo! og ekkert af því var gott. Hún hafði slæmt orðspor. Virkilega slæmt. Orðið á götunni var að hún hengi í sjoppunni á horninu á kvöldin og að hún ætti leðurjakka og reykti. Þess vegna hlakkaði ég dálítið til að sjá Repo!. Ef maður kemur að vondum bíómyndum með réttu hugarfari þá er visst gaman að horfa á þær. Þær geta jafnvel orðið í meira uppáhaldi hjá manni en myndirnar sem allir eru sammála um að séu meistaraverk. Allir guðirnir sem eru ekki til vita að ég er alltaf til í að horfa á The Core eða Southland Tales einu sinni enn, og að þó Godfather sé hundrað sinnum meira listaverk þá þarf að vera áþreifanlegur möguleiki á kynlífi fyrir hendi til þess að ég sitji í gegnum þann langdregna fjanda aftur.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/09-springsteen.jpg"> Svelgjan (e. coolness) lekur af þessum mönnum.</p>

Frá upphafi sýnir Repo! The Genetic Opera einbeittan brotavilja fyrir því að vera vond mynd, þegar hún byrjar að útskýra baksöguna með því að sýna okkur teiknimyndasögublaðsíður sem segja frá helstu persónum og atriðum hingað til. Í sjálfu sér er ekkert að því að byrja bíómynd þannig, þetta er jú bara eitt stílbragð sem má nota til að setja tóninn, en vandamálið hérna er að á meðan úskýringaratriðinu stendur þá virðist líklegra að friður náist í Mið-Austurlöndum en að myndin byrji einhvertímann. Heildarlengd atriðisins er rúmar þrjár mínútur, sem hljómar ekki langt á blaði, en til að þær séu settar í samhengi þá tók það Wall-E, American Psycho og In Bruges sama tíma að stilla upp aðstæðum sem mann langaði að vita meira um, og þær byrja allar þrjár á því að færa söguþráðinn áfram á jarðfræðilegum tímaskala. Í byrjunaratriðinu í Repo! er engin mannleg tenging heldur bara fullt af ,,og svo gerðist þetta`` útskýringum, sem skilja ekki beint mikið eftir sig.

Á fyrstu þrem mínútum Repo! lærum við að dularfull plága líffærabilana sigraði næstum því heiminn, en að á síðustu stundu birtist bjargvættur í formi fyrirtækisins GeneCo sem sérhæfir sig í því að rækta líffæri og græða þau í fólk. GeneCo spilar samt leikinn til að græða eitthvað, svo að ef fólk hefur ekki efni á nýju hjarta* eins og er þá getur það samt fengið nýtt slíkt á raðgreiðslum. En ef þú stendur ekki í skilum þá kemur fulltrúi Geneco, The Repo Man, heim til þín, ristir þig á hol, og tekur vanskilalíffærið upp í pant. Þessar endurheimtingar eru þar að auki löglegar, út af lagasetningu sem Geneco fékk dröslað í gegn. Ofan á það byggir auður GeneCo á ávandabindnadi deyfingarlyfi sem þau fundu upp sem gerir skurðaðgerðir sársaukalausar með öllu, en mikill svartur markaður hefur sprottið upp í kringum lyfið, og líka stétt svokallaðra grafræningja sem lifa af því að vinna lyfið úr líkum fólks. Og já, vegna þess að lyfið er ávanabindandi eru skurðaðgerðir orðnar það líka. Og jú líka, fjölskyldan sem á GeneCo fyrirtækið er kynnt í sömu andrá - pabbinn er að deyja en getur ekki hugsað sér að skilja fyrirtækið eftir í höndum barnanna sinna af því þau eru svo spillt, einn er morðingi, annar narkissisti, og sú þriðja háð skurðlækningum - og þau eru öll ill sem við vitum af því að á meðan þau voru kynnt hljómaði illur hlátur yfir. Þetta voru fyrstu þrjár mínúturnar af Repo!, að vísu talsvert styttar. Náðuð þið þessu öllu? Gott, af því að núna byrjar söngurinn.

Eins og nafnið ber með sér, þá er Repo! The Genetic Opera söngleikur. Það sem nafnið ber hins vegar ekki með sér er að eitt af afrekum Repo! er að hafa troðið 57 lögum í sig, sem er opinbert met yfir alla söngleikjasöguna. Nú veit ég ekki hversu miklum tíma þið hafið eytt með fullum enskumælandi háskólanemum, svo það getur verið að þetta sé ný hugmynd fyrir ykkur, en það er til leikur sem heitir fuzzy bunny. Leikurinn byrjar þannig að maður opnar sykurpúðapoka, setur sykurpúða upp í sig, og segir fuzzy bunny. Næst setur maður annan sykurpúða upp í sig, og segir aftur fuzzy bunny. Þetta endurtekur maður svo þangað til að maður getur ekki sagt fuzzy bunny lengur, og sá sem varð úr leik með flesta sykurpúða uppi í sér vinnur. Að vera með sykurpúða uppi í sér er góð skemmtun. Að vera með tvo eða þrjá sykurúða uppi í sér er það líka. Að vera með 57 sykurpúða uppi í sér teygir á vöðvum sem að þú vissir aldrei að væru í kinnunum þínum og nístir sársauka gegnum tannhold þitt og grætir þig og veldur kvölum þannig að þú verður haldinn óræðum ótta við sykurpúða alla þína ævi. Ef að sönglög væru sykurpúðar, þá yrði Repo! ósigraður heimsmeistari í fuzzy bunny um alla tíð.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/09-stelpa.jpg"> Eitt af því fáu sem er ekki hræðilegt sem ég get sagt um Repo! er að mér finnst aðalleikkonan sæt.</p>

Þó að söngleikir séu ekki eitthvað sem ég sækist beint eftir að horfa á, þá geta þeir alveg skemmt mér undir réttum kringumstæðum. Til dæmis er Dr. Horrible einn af skemmtilegri hlutum sem ég sá á síðasta ári. Í eðli sínu eru söngleikir aðeins kjánalegri en venjulegar myndir, af því að fólkið í daglega lífinu brestur því miður aldrei út í óskipulögð söng- og dansatriði, en þeir geta sloppið hjá kjánahrollinum með sterkri sögu, áhugaverðum persónum og góðum lögum. Repo! gefur skít í hvernig annað fólk fer að því að komast hjá þessu kjánahrollsvandamáli, beygir til vinstri þegar aðrir beygja til hægri, og fer frekar þá leið að gera ekkert af þessu þrennu. Fjarvera eins þessara atriða er aldrei góðs viti, hvað þá fjarvera allra þriggja, en það gerir Repo! sérstaklega engan greiða að ekki eitt einasta af tæpum 60 lögunum í henni er gott. Þau eru ekki einu sinni sæmileg. Þegar þau eru sem verst eru þau illa sungin með vondum texta og laglínum sem fara ekki neitt, en jafnvel þegar best lætur er ekki hægt að segja mikið meira en að þau séu alla vega auðgleymanleg, og klukkutíma eftir að Repo! kláraðist gat ég ekki sönglað neitt af lögunum úr henni.

Augljóslega tekur ákveðinn tíma að flytja tæp 60 lög, sem setur öllu öðru í myndinni tímaskorður þar sem að Repo! er blessunarlega aðeins endanlega löng. Afleiðingin er að hverri einastu samtalslínu og hugsun í myndinni var troðið í lag, sem gerir söguþræðinum engan greiða þar sem hann var aldrei mikið annað en skurðlæknaatriðið úr Escape from L.A. teygt út í heila bíómynd. Stórt vandamál við söguþráðinn er myndarlegur fjöldi persóna sem er troðið í hann: við sögu koma feðginin Alexa Vega og Anthony Steward Head (Giles úr Buffy), söngkonan Sarah Brightman, Geneco-forstjórinn Paul Sorvino og börnin hans Nivek Ogre, Bill Moseley og Paris Hilton, látin móðir Alexu og grafarræningi sem er aldrei útskýrður almennilega en poppar upp á sirka hálftíma fresti þar til að maður fattar að hann á að vera sögumaður. Þetta eru ekkert fleiri persónur en gengur og gerist, en munurinn er að þær eiga allar að vera fólk sem við höfum skoðun á svo að þær fá allar sinn skerf af skjátíma. Loksins þegar að það er búið að gera grein fyrir þeim öllum er hálftími liðinn af myndinni og varla neitt búið að gerast, og þegar að sagan á að byrja er okkur skítsama um persónurnar sem koma fyrir í henni af því að þær voru svo margar að það var enginn tími til að kynnast einstökum persónum almennilega.

Ég vildi óska að ég gæti sagt ykkur í stuttu máli hvað gerist í Repo!, en sannleikurinn er sá að ég hef ekki hugmynd um það. Stuttu eftir að myndin byrjaði fuðraði öll æðri heilastarfsemi mín upp í ógnarbáli slappleikans á skjánum, sem gerði mér ókleift að fylgja öðru en skæru litunum sem leiftruðu þar um. Repo! er alveg lygilega vond mynd og hreinlega allt í henni er illa gert: lögin eru slæm og gleymast samstundis, persónurnar eru varla til, að allar línur eru sungnar verður fljótt þreytt, hún er of löng, leikararnir láta eins og þeir séu í koffínvímu og geta ekki túlkað aðrar tilfinningar en ofsagleði eða manískt þunglyndi, og söguþráðurinn er faldaður og leiðinlegur. Repo! The Genetic Opera er langversta mynd sem ég hef séð. Hún er svo vond að henni tekst ekki aðeins að láta atriði þar sem Paris Hilton missir andlitið falla kylliflatt, heldur virkar Paris Hilton eins og fín leikkona í samanburði við hroðbjóðinn í kringum sig. Það er alveg barnaníðsröng hugmynd, sem nægir ein og sér til að vinna Repo! sæti í innstu viðjum helvítis.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/03/09-hilton.jpg"> Fröken Hilton missir andlitið.</p>

Ég er mjög hræddur um að þið misskiljið mig og haldið að Repo! sé ein af þessum vondu myndum sem er gaman að horfa á í glasi með nokkrum vinum og gera grín að á meðan. Það er ekki rétt. Lofið mér að segja þetta mjög skýrt: Enginn ætti nokkur tímann að horfa á Repo! The Genetic Opera. Aldrei. Það er ekkert gott við þessa mynd. Hún tyggur með opin munninn og finnst hárgreiðslan þín ljót og að sýna föngum hana flokkast undir óvenjulega og ómannúðlega refsingu. Upphaflega ætlaði ég að enda þetta spjall á því að taka aftur upp þráðinn með Bruce Springsteen, rugla eitthvað um að áður en ég horfði á Repo! hefði ég átt draum um að hún yrði ein af uppáhalds vondu myndunum mínum, og klára svo á því að vitna í lokaorðin úr The River, sem spyrja hvort að draumur sé lygi eða eitthvað verra ef hann rætist ekki. Þessi draumur hefði klárlega verið eitthvað verra. Ég mun ekki enda þetta spjall þannig. Það krefst ákveðins frumleika í hugsun og einhvers neista innra með manni. Eftir að hafa horft á Repo! hef ég ekkert slíkt lengur.

Eitthvað kiknaði innra með mér við að horfa á Repo! The Genetic Opera. Ekkert haldbært eða raunverulegt, en ég fann engu að síður að í sálardjúpum mínum brotnaði einhver undirstaða eins og trjágrein eftir langdregna þurrkatíð, og á eftir var ég aðeins minna mennskur. Líkt og sprunga í stíflu sem veikir steypuna í kringum sig smitaði þessi brotna undirstaða út frá sér, hægt í fyrstu en sífellt hraðar eftir því sem fleiri stoðir féllu saman. Allar mínar örvæntingafullu tilraunir til að hægja á hruninu með því að hlusta á Aliciu Keys og Beyoncé í von um að finna mannlegar tilfinningar aftur mistókust; af völdum Repo! er alger eyðilegging alls sem gerði mig að manneskju óumflýanleg. Síðustu kvöld hef ég getað staðist kall hafsins gegnum næturvindinn sem blakar gluggatjöldunum blíðlega til og frá, en ekki lengur. Í kvöld verður ekkert eftir til að tengja mig við þennan heim. Síðustu leifar mannlegra tilfinninga munu grotna niður og ég mun ganga í hafið og taka mér stað á hafsbotninum þar sem sólin drífur ekki niður og nærast á hræjum sem falla til botns. Í myrkrinu skríða þúsund ónefnanlegar verur áfram, og það geri ég líka.

<p align="center"><strong>

LAGFÆRING + Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

  • Hér stóð áður milta. Ég vil þakka Arnari, sérlegum anatómíusérfræðingi og innviðakrukkara Árs hinna lifandi dauðu, fyrir að benda mér á að fólk getur lifað án þess að hafa milta.

Í næstu viku artífartast Frakkar gegnum fimm teiknaðar hryllingsstuttmyndir í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Fear(s)of_the_Dark">_Fear(s) of the Dark</a>.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=T1SbeoOLOUM&hl=fr&fs=1]</p>