Hún ögrar viðteknum viðhorfum
Hver er vinsælasti kvenrithöfundur heims? Hver er um leið áhrifamesti kvenheimspekingur heims? Hún er rússnesk-bandaríski rithöfundurinn Ayn Rand, en bækur hennar hafa selst í 30 milljónum eintaka um allan heim.
Svo ritar Hannes Hólmsteinn Gissurarson á Pressunni í dag. Markmið Hannesar er að auglýsa útkomu íslenskrar þýðingar á skáldsögu Rand We the living, sem þýðandi ákvað að kalla Kira Argúnova eftir aðalpersónu bókarinnar, og benda á fyrirlestur um Rand og verk hennar í Öskju seinna í dag.
Ég hvet lesendur sem hafa tækifæri til þess að mæta á þann fund. Fyrir nokkrum árum las ég Atlas shrugged, best þekktu skáldsögu Rand. Ég er litlu sammála í kenningum Rand, enda varla í markhóp hennar, en við lesturinn fannst mér ég öðlast aðeins meiri innsýn en áður í hugarheim þess markhóps, sem er aldrei slæmur hlutur. Lesendur gætu upplifað eitthvað svipað á téðum fundi.
Þó ég skilji að Hannes sé hér í auglýsingaham á ég erfitt með að leyfa staðhæfingum hans í þessari fyrstu málsgrein að lifa óáreittum.
Eftir öllum hugsanlegum mælikvörðum er Ayn Rand því miður ekki vinsælasti kvenrithöfundur heims. Ef við hugsum aðeins um sölutölur rústar Agatha Christie allri samkeppni, en skáldsaga hennar And then there were none hefur selst í yfir 100 milljónum eintaka. Með öðrum orðum hefur ein skáldsaga Agöthu Christie hefur selst þrisvar sinnum meira en heildarverk Ayn Rand. Christie skrifaði svo fleiri bækur. Christie er líka betur þekkt og vinsælli en Rand, sem má sannreyna með að spyrja fólkið í lífi sínu hvort það hafi heyrt um þær tvær og telja svörin. Ef Christie þykir svo of gamaldags til að teljast með má íhuga J. K. Rowling í staðinn.
Það er heldur ekki erfitt að finna konur sem voru að minnsta kosti jafn áhrifamiklar og Rand þegar kemur að heimsspekilegum málum. Samtímakona hennar Simone de Beauvoir hafði til dæmis gríðarleg áhrif á feminískar kenningar og skrifaði auðskiljanlega bók um kenningar tilvistarstefnunnar. Fyrr í mannkynssögunni má svo nefna Hypatíu, sem var stærðfræðingur og heimsspekingur í Alexandríu. Hún var ekki lítilvægari en svo að sumir hafa dagsett fall klassískrar menningar í Grikklandi til forna með morði hennar af æstum múg.
Þetta á að heita rökvillublogg og hingað til hef ég ekki bent á neina rökvillu í texta Hannesar. Lítið er um þær, enda er textinn stutt auglýsingapot. Í hreinskilni sagt langaði mig bara að benda á að Ayn Rand er hvorki vinsælasta né áhrifamesta kona heims. En jæja, til að þessi færsla teljist lögleg skulum við skoða lokaorð Hannesar:
Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir á bókarkápunni um Kíru Argúnovu: „Raunsönn lýsing á rússneskum örlögum.“ Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntaskýrandi segir: „Mesta bókmenntaverkið af sögum Rands.“ Ég vona, að þau Guðmundur og Kolbrún lendi ekki í neinum útistöðum við Egil Helgason sjónvarpsmann, Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor, Stefán Snævarr heimspekiprófessor og fleiri vinstri sinnaða menntamenn, sem hafa keppst við síðustu daga að fordæma verk Ayns Rands. Bandaríski rithöfundurinn H. L. Mencken sagði um þessa bók, að hún væri „frábær“.
Að vísa skoðunum fólks á bug því það er vinstri sinnað er dæmi um hina dásamlega nefndu brunnmígsvillu, þar sem reynt er að breiða yfir rök andmælanda með að kynna hann neikvæðan hátt (nú eða kynna hann bara á neikvæðan hátt og sleppa að minnast á rök hans, eins og Hannes gerir hér).
Að lokum er hægt að fetta fingur út í tilvitnanir Hannesar sem eiga að pumpa upp áhuga okkar á skáldsögu Rand, því engin þeirra gerir það í raun og veru:
(1) Raunsannar lýsingar bera ekki vitni um bókmenntaleg gæði eða áhugaverða heimsspeki; sjá raunsannar lýsingar jarðfræðibóka á grjóti.
(2) Að bókin sé mesta bókmenntaverkið af sögum Rands gæti vel verið bakhandarhrós af hálfu Kolbrúnar, sem er mögulega þeirrar skoðunar að Rand sé ekki merkilegur penni. Af orðunum "Jón er stærsti dvergur sem ég hef séð" leiðir ekki að Jón sé stór maður.
(3) Hér er ansi lítið vitnað í Mencken (ef ég dæmi bók með orðunum "Ég skemmti mér frábærlega yfir þessu rusli" má vitna í það sem "Ég skemmti mér frábærlega" á kápu hennar; sjá berjatínslu) en miðað við skrif hans er ég alveg tilbúinn að trúa að hann hafi fílað Rand. Að Mencken finnist bók "frábær" og ekkert annað er samt ófullnægjandi vísun í kennivald.