Óviljandi

Árið 1687 olli Isaac Newton heiminum miklum vandræðum. Eftir mikla vinnu og strit setti hann fram lögmál sín um aflfræði og þyngdarkraftinn. Þessi lögmál voru einföld, nákvæm og stærðfræðileg. Þau öfluðu Newton frægðar, peninga og fræðilegs kvenfólks (Newton dó ósaurgaður af holdlegum freistingum þessa heims)---og mikilla óvinsælda meðal andans manna.

Lögmál Newtons segja fyrir um hreyfingu hinna minnstu agna. Samkvæmt þeim renna vegir allra atóma í heiminum eftir hlutafleiðujöfnum sem má leysa á einn og aðeins einn hátt, að upphafsskilyrðum jöfnum. Í praxís þýða lögmál Newtons að ef við þekkjum upphafsskilyrði alheimsins---það er hraða og stefnu allra rót-, nift- og rafeinda við miklahvell---þá getum við spáð fyrir alla sögu heimsins eins og hún leggur sig.

Þetta hefur spennandi afleiðingar. Fjárhættuspil eru ekki svo. Veðrið mun aldrei koma á óvart. Og frjáls vilji er ekki til. Ef ferill allra einda í heiminum er ákveðinn frá upphafi, og við erum samsett úr téðum eindum, þá ráðum við engu um líf okkar. Við erum þrælar aflfræðinnar.

Fólki hefur lengi þótt þessi rökrétta fleiðing Newtons óspennandi. Öll erum við jú einstakir og áhugaverðir kertaljómar, og einungis bundin undir áhrifum samfélagsins og ríkjandi tísku, en ekki tilvistar- og ótvíræðnisetninga um lausnir deilajafna. Í gegnum aldirnar hefur miklu súrefni því verið eytt í að styðja tilvist frjáls vilja, nú síðast í gegnum tilviljanakennda hegðun skammtafræðinnar. Örlög frjáls vilja í nútíma samfélagi eru grimmileg. Útlægur af vetrarbrautarskala hýrist hann öreinda á milli, fyrir neðan allar rannsakanlegar hellur, þar sem enginn kemur að sjá hann.

Mig varðar lítið hvort frjáls vilji sé til eða ekki. Ég fæ ekki betur séð en að líf mitt haldi áfram mikið eins og áður í hvoru tilfellinu. Ef eitthvað þætti mér skemmtilegra að hann væri ekki til. Hugsið ykkur þá alla hjörðina af heimsspekingum sem hafa verið sannfærðir um að svo væri en hafa, algjörlega vegna gangs alheimsins, neyðst til að sitja heilu kvöldin við að skrifa langar ritgerðir um að frjáls vilji réði öllu, fullkomlega gegn vilja sínum, og kjökrað sig svo í svefn á eftir.