Það sem þig raunverulega langar
Um helgina birtist leiðarinn Það sem þig raunverulega langar eftir Ólaf Þ. Stephensen í Fréttablaðinu. Ólafur er ritstjóri Fréttablaðsins, fyrir þá sem ekki vissu.
Í þessari grein talar Ólafur fyrir því að veitur eins og Hulu og Netflix séu og verði lokaðar fyrir íslenskum neytendum, því noktun þeirra brjóti í bága við höfundarréttarlög. Athugið að Ólafur leggur ekki til að breyta höfundarréttarlögum til að leyfa notkun þessa þjónusta eða að semja við viðeigandi aðila til að þær verði löglegar, heldur að noktun þeirra verði áfram ólögleg.
Ég ætla bara ekkert að tala um smáatriði málflutnings Ólafs. Í staðinn bendi ég á leiðara hans Ruglið í rauða hliðinu frá 27. nóvember 2012. Þar segir Ólafur meðal annars:
Auðvitað á bara að hætta þessu rugli í rauða hliðinu, rýmka reglurnar og hætta að koma fram við fólk sem hefur verzlað í útlöndum eins og glæpamenn. Það er neytendum í hag, stuðlar að því að innlend verzlun fái hæfilega samkeppni og yrði ekki sízt til þess að tími tollvarða nýttist betur.
Þannig innlend verzlun á að fá hæfilega samkeppni, en lokað skal fyrir Netflix og Hulu.
Ja-há.
Hér held ég að Ólafur misskilji sjálfan sig. Ég á mjög erfitt með að útskýra þennan misskilning á málefnalegan hátt, þannig ég ætla að gera það ómálefnalega:
Í sama tölublaði Fréttablaði talaði Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, einnig gegn aðgangi að þjónustum eins og Netflix og Hulu. Ég skil að 365 miðlar tali gegn Netflix, því þeir eru í samkeppni við Netflix og ef maður getur ekki unnið samkeppnina á frjálsum markaði er eins gott að maður grafi sér einokunarstöðu og verji hana með kjafti og klóm. En hvað hefur ritstjóri Fréttablaðsins í þennan slag að gera? Hér gæti, bara hugsanlega, skipt máli að eigendur Fréttablaðsins eru 365 miðlar. Ófágaðri manni en mér dytti kannski í hug að ritstjóri Fréttablaðsins hafi aðra skoðun á þessu málefni, en hann hafi fengið símskeyti frá forstjóra sínum um að "pop that pussy, twerk some," eins og skáldið sagði.
Auðvitað dytti hvorki mér né lesendum slíkt í hug.