Tillögur stjórnlagaráðs vondar

Við ætlum að breyta aðeins frá hefðbundinni dagskrá í dag. Í staðinn fyrir að skoða texta og benda á rökvillur í honum ætlum við að lesa textann á aðeins hærra plani og meta röksemdafærslur í honum í heild sinni. Þetta er ekki alveg sami hluturinn; að finna rökvillu er eins og að finna tvo víra í húsi sem ekki eru tengdir saman og leiða engan rafstraum sín á milli en að skoða röksemdafærslu er að sjá að allt húsið hallar um 40 gráður til hægri. Til þess þarf yfirleitt meiri vinnu en bara til að finna rökvillu, það þarf að skoða heimildir og fréttir til að athuga staðreyndir, fyrir utan að inn í það blandast óhjákvæmilega tilfinningar manns á málinu sem um ræðir.

Til að allt sé hér ljóst ætlum við að tala um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá; ég er sammála þeim en viðfangsefni okkar í dag er það ekki.

Í gær svaraði Brynjar Nielsson, hæstaréttarlögmaður og alþingismaður, fyrirspurnum almennings um hvort hann teldi sig bundinn af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá. Brynjar telur sig ekki bundinn af henni og útskýrir mál sitt.

Við skulum athuga ástæður Brynjars.

Stjórnlagaráð var skipað af pólitískum meirihluta Alþingis og tillögur þess báru keim af því.

Rétt er að stjórnlagaráð var skipað af Alþingi. Að tillögur þess hafi borið keim af þáverandi pólitískum meirihluta þarf þó að rökstyðja á einhvern hátt. Í núverandi mynd er erfitt að lesa þessa setningu öðruvísi en að hún merki "ég er ósammála tillögunum," sem er svo sem gild persónuleg ástæða til að telja sig ekki bundinn af þeim en ekki rökfræðilega mikils virði.

Svo má nefna að það skiptir eiginlega ekki máli hvort tillögurnar báru keim einhverrar hugmyndafræði, því það var kosið um þær í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef tillögurnar hefðu verið í andstöðu við vilja almennings hefði hann hafnað þeim, sem er nákvæmlega það sem almenningur gerði við tillögu stjórnlagaráðs um stöðu þjóðkirkjunnar.

Þjóðaratkvæðagreiðslan var ráðgefandi og því ekki skuldbindandi fyrir mig, hvorki af siðferðilegum né pólitískum ástæðum.

Rétt. Þetta er nákvæmlega það atriði sem gerir Brynjari kleift að neita að fara eftir niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar, þó það dekki hann aðeins lagalega og pólitískt séð.

Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar var ábótavant og þátttaka svo dræm að niðurstaðan telst vart marktæk.

Ég hefði hér verið til í frekari rökstuðning á meintum vanköntum framkvæmdarinnar; ein og sér gegnir þessi fullyrðing þeim tilgangi að peppa upp það fólk sem er sammála Brynjari og verður að teljast ómerk.

Að fetta fingur út í þátttökuna er þó mælanlegt. Samkvæmt heimildum kjörstjórnar voru 236.903 manns á kjörskrá fyrir þessa atkvæðagreiðslu og 115.980 manns greiddu atkvæði; það er um 49% kjörsókn.

Til samanburðar var minnsta kjörsókn í sögu Íslands í síðustu Alþingiskostningum, þegar 81,4% fólks á kjörskrá mætti á kjörstað. Kjörsókn á höfuðborgarsvæðinu í síðustu sveitastjórnarkosninum hljóp svo á milli 66% og 93.7%. Í síðustu forsetakosningum var kjörsókn svo afar lítil miðað við áður, eða 69,2%.

Eins ósammála og ég er Brynjari eru staðreyndirnar hans megin hér. Kjörsókn var dræm.

Svo er ég þeirrar skoðunar að samfélagssáttmála verði að gera í sæmilegri sátt.

Í sjálfu sér er ekkert að þessari skoðun, en varast verður að "sæmileg sátt" er gríðarlegt túlkunaratriði, svo þessari klausu má beita til að neita breytingum á stjórnarskrá út í lengstu lög. Hér þarf Brynjar að skilgreina hvað hann á við með sæmilegri sátt til að þessi klausa sé ekki geðþóttaatriði.

Aðalástæðan er þó sú að tillögur stjórnlagaráðs eru heild sinni vondar og til skaða fyrir íslenskt samfélag. Þótt einhverjar hugmyndir stjórnlagaráðs séu þess virði að skoða betur voru tillögur ráðsins svo illa fram settar að þær eru ekki nothæfar með góðu móti. Um það eru stjórnlagafræðingar á einu máli.

Tillögurnar voru vondar. Af hverju? Þær voru illa fram settar. Hvernig þá? Þar til Brynjar útskýrir það er þetta markleysa.

Ég er heldur ekki viss um að stjórnlagafræðingar séu sammála Brynjari hér. Þar til hann sýnir fram á það er þetta ófullnægjandi vísun í kennivald, sem er rökvilla.

Svo væri það til góðs að fara eftir þeirri stjórnarskrá sem í gildi er áður farið er að semja nýja með enn óljósari ákvæðum.

Þessi setning er dæmi um algleymisvillu. Hér segir Brynjar: "Það er til einskis að samþykkja nýja stjórnarskrá því við myndum líka brjóta á ákvæðum hennar."

Berum þetta saman við: "Það er til einskis að nota sætisbelti því sumt fólk sem notar þau deyr samt í bílslysum." Þetta eru ekki rök gegn sætisbeltum því þeim er aðeins ætlað að draga úr dauðsföllum en ekki fyrirbyggja þau algjörlega. Algleymisvillan hér hafnar öllum lausnum sem leysa vandamálið ekki fullkomlega, og hafnar því öllum lausnum því fólk mun alltaf deyja í bílslysum.

Eins getur Brynjar hafnað öllum stjórnarskrárbreytingum með þeirri rökvillu að þær fyrirbyggi ekki að það verði brotið á þeim í framtíðinni. Hann getur hafnað öllum lausnum sem eru ekki fullkomnar, sem þýðir að hann hafnar öllum lausnum.

Hvað stendur þá eftir í rökum Brynjars þegar við fjarlægjum rökvillur og ónægilega rökstuddar fullyrðingar?

Þjóðaratkvæðagreiðslan var ráðgefandi og því ekki skuldbindandi fyrir mig, hvorki af siðferðilegum né pólitískum ástæðum.

Þátttaka [í þjóðaratkvæðagreiðslunni var] svo dræm að niðurstaðan telst vart marktæk.

Brynjar hefur rétt til að fara ekki eftir tillögum stjórnlagaráðs. Einu rök hans fyrir að gera það ekki sem halda vatni (án frekari rökstuðnings af hans hálfu) eru að þátttakan hafi ekki verið nógu góð.

Þegar sú rök eru metin ber þó að muna að það var ósamhverfa í atkvæðagreiðslunni á sínum tíma. Ef maður var fylgjandi nýrri stjórnarskrá þurfti maður að mæta og kjósa um hana. Ef maður var á móti henni gat maður setið heima og þannig í raun sýnt skoðun sína óbeint. Það er ekki ljóst hversu mikið hlutfall þess fólks sem sat heima var á móti nýrri stjórnarskrá og hversu miklu þeirra var alveg sama; það er hversu margir hefðu sagt "nei" og hversu margir hefðu skilað auðu ef það hefði verið 100% kjörsókn.

Þetta er erfitt og flókið mál og því á ég erfitt með að skilja afdráttarlausan dóm Brynjars um að niðurstaðan sé ekki marktæk, sérstaklega þegar hann hvílir á tiltölulega veikum rökum. Að mínu mati þarf Brynjar að rökstyðja stöðu sína betur, að minnsta kosti ef að baki henni hvíla raunveruleg rök en ekki persónuleg eða pólitísk sannfæring.